154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[21:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér undir lok umræðunnar um fjármálaáætlun vil ég bara þakka fyrir meira og minna málefnalega umræðu og vonandi upplýsandi fyrir þingmenn og ekki síður þá sem hlusta. Hagkerfið hefur náð sér fyllilega á strik í kjölfar heimsfaraldurs, það sýnir þessi fjármálaáætlun. Markmiðin hafa gengið eftir um viðnámsþrótt efnahagslífs í kjölfarið. Líkt og víða erlendis fór verðbólgan langt yfir verðbólgumarkmið, fyrst vegna þess að framboðshlið heimshagkerfisins fór á hliðina og svo í vaxandi mæli vegna mikillar heildareftirspurnar.

Þjóðhagslegt hlutverk opinberra fjármála er fyrst og fremst að styrkja viðnámsþrótt fjármála og tryggja að undirliggjandi afkoma styðji við lækkun opinberra skulda í hlutfalli við landsframleiðslu. Það verður best gert með því að tryggja að útgjaldavöxtur verði ekki umfram vöxt verðmætasköpunar hagkerfisins til lengdar. Þá hafa stjórnvöld mikilvægu hlutverki að gegna við að búa upprennandi útflutningsgreinum samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Staða heimilanna er sterk þrátt fyrir hátt vaxtastig. Þenslan í þjóðarbúinu hefur ekki síst komið fram á vinnumarkaði. Eftirspurn eftir vinnuafli er enn nokkru meiri en í venjulegu árferði þó að hún nálgist jafnvægi. Er það þrátt fyrir hægari vöxt í ferðaþjónustu en aðrar greinar standa nú að baki miklum meiri hluta lausra starfa. Laun á hverja vinnustund hafa hækkað um fjórðung á þremur árum. Það er mun meiri vöxtur en í nágrannaríkjum og að meðaltali var kaupmáttur launa á vinnustund í járnum árið 2023 en hækkaði talsvert áfram hjá þeim tekjulægri. Það er framhald á þróun undanfarinna ára þar sem jöfnuður hefur aukist, sem er gott. Verðbólga hefur lækkað um meira en 3 prósentustig undanfarna mánuði og spár gera ráð fyrir að hún haldi áfram að lækka á næstunni. Þetta er ekki tilviljun heldur hafa ákvarðanir Seðlabankans og stjórnvalda undanfarin misseri stuðlað að lækkun verðbólgunnar.

Nú í vetur var síðan stigið mjög mikilvægt skref þegar ábyrgir kjarasamningar náðust á almennum vinnumarkaði sem geta stutt við áframhaldandi lækkun. Ríkisstjórnin lagði fram kjarapakka til þess að liðka fyrir hóflegum langtímakjarasamningum. Sá stuðningspakki nýtist einkum barnafjölskyldum og nær ofar í tekjudreifinguna en áður. Barnafjölskyldur fá nú hærri barnabætur, skólamáltíðir í grunnskólum eru niðurgreiddar, ókeypis stuðningur til fólks í fæðingarorlofi er aukinn og einnig er aukið við stuðning til leigjenda. Ríflega helmingi útgjalda ríkissjóðs er varið í félags- og heilbrigðismál. Frá árinu 2017 hefur rúmlega helmingurinn af útgjöldum ríkissjóðs verið í þessa málaflokka og verður áfram í þessari fjármálaáætlun. Aukningin er mest þar enda þessir málaflokkar í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Þess utan er aukið ríkulega við útgjöld í nýsköpun og þekkingargreinar. Ráðist verður í mikilvægar fjárfestingar á komandi árum. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýja Landspítalans. Einnig verða framkvæmdir við Hús heilbrigðisvísindasviðs. Gert er ráð fyrir byggingu þjóðarhallar og nýju fangelsi á Litla-Hrauni. Byggt verður við fjölmarga starfsmenntaskóla víðs vegar um landið. Myndarlegum stuðningi við rannsóknir og þróun er viðhaldið og fjárveiting aukin út tímabilið.

Einnig er hugað að tekjuhlið ríkissjóðs. Stærsta breytingin þar er þetta framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta sem við hófum um síðustu áramót með upptöku kílómetragjalds á rafmagns- og tengiltvinnbifreiðar. Næsta skref verður stigið um næstu áramót með því að taka þá einnig upp kílómetragjald á notkun allra annarra bíla, þ.e. bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa nú þegar rýrnað umtalsvert og allt útlit er fyrir að slíkar tekjur muni að öllu óbreyttu halda áfram að lækka verulega ef við bregðumst ekki við. Markmiðið með breyttu tekjuöflunarkerfi er að ná 1,7% hlutfalli af vergri landsframleiðslu árið 2027 sem er í samræmi við meðaltal áranna 2010–2017. Bati í afkomu ríkissjóðs verður þó einkum tryggður með því að halda aftur af vexti útgjalda. Að jafnaði er gert ráð fyrir 4% nafnaukningu útgjalda á ári og með því unnið að sjálfbærni ríkisfjármála. Sá árangur hefur þegar náðst að frumjöfnuður er jákvæður. Hann mun vaxa yfir tímabilið og heildarjöfnuði verða náð síðustu ár tímabilsins. Árangur aukins aðhalds er greinilegur strax á fyrsta ári áætlunarinnar þegar hann helmingast frá fyrra ári. Hann verður sem sagt 0,5% af landsframleiðslu á næsta ári og undir lok tímabilsins er heildarafkoman orðin jákvæð um 0,3%. Til að draga úr útgjaldavexti og skapa svigrúm fyrir ný útgjöld gerir áætlunin ráð fyrir ýmsum breytingum. Þetta felst t.d. í frestun eða niðurfellingu verkefna sem ekki eru hafin og er þá m.a. átt við að tilteknum byggingarverkefnum sé frestað eins og nýrri viðbyggingu við Stjórnarráðið og byggingu Húss viðbragðsaðila, sem sagt út fyrir þetta tímabil. Þá er einnig verið að horfa til þess að auka eftirlit með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja. Hluti af þessum aðgerðum felst jafnframt í hagræðingu í rekstri ríkisins en í því sambandi hefur t.d. verið horft til stofnana sem reka grunnskrár ríkisins og fleira. Þá skapast svigrúm vegna forsendna um lægra hlutfall nýrra örorkubótaþega á komandi árum en gert var ráð fyrir í síðustu áætlun og vegna hærri tekna ellilífeyrisþega. Þessi útgjaldalækkun verður til vegna þess að annars vegar fækkar þeim hlutfallslega sem þurfa á örorkubótum að halda á ári hverju og hins vegar hafa tekjur ellilífeyrisþega úr sameignardeildum lífeyrissjóða farið vaxandi; hvort tveggja er gríðarlega jákvætt og afleiðing af stefnu og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar á síðustu árum. Þessar kerfislægu hagrænu breytingar eru ekki fyrst að koma fram á þessu ári. Við höfum séð vísbendingar fyrr. Þær hafa verið að raungerast en núna koma þær fram í útgjaldaáætlun ríkissjóðs í fjármálaáætluninni.

Mikil óvissa umlykur hagþróun þegar litið er til jafn langs tíma, eða til 5 ára, og í þessari fjármálaáætlun. Hér vega þyngst jarðhræringar og eldgos á Reykjanesskaga sem og vaxandi spenna í alþjóðamálum. Þessar áskoranir bætast við þær sem þekktar voru fyrir, sem sagt áskoranir vegna öldrunar þjóðarinnar og aukinna útgjalda þess vegna og hægari vaxtar verðmætasköpunar sem við þurfum líka að horfa til. Það er eindregið markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr skuldsetningu og þar með vaxtakostnaði ríkissjóðs. Það er mikilvægt að ríkissjóður verði í stakk búinn til að mæta óvæntum aðstæðum framtíðar. Helsti mælikvarðinn fyrir skuldir ríkissjóðs er í hlutfalli við landsframleiðslu. Lækkun skuldahlutfalls verður náð með bættri afkomu, sölu ríkiseigna og með því að skapa skilyrði fyrir aukna verðmætasköpun og þar með aukna landsframleiðslu, með því að stækka kökuna. Fara skuldir ríkissjóðs þannig úr tæpum 32% af vergri landsframleiðslu á þessu ári og verða um 30,5% af landsframleiðslu í árslok 2029.

Hér hefur aðeins verið rætt um spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er verið að bera saman epli og appelsínur. Þær greiningar sem við höfum séð eru á þann veg að það er einfaldlega ekki verið að bera saman sömu hluti. Það mun skýrast á næstu dögum. Við höfum verið í samtali við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ef við tökum tillit til þeirra breytna og berum saman sömu forsendur þá er óverulegur munur á þeim spám. Hér hefur líka verið rætt um að menn hafi misst trú á að verðbólgan sé að fara niður. Ég held að það sé rangt. Hér erum við búin að sjá verulegan samdrátt einkaneyslu og samdrátt í samfélaginu og spurning hvort hann gerist kannski enn hraðar og verði of mikill ef við gætum okkar ekki. Ýmislegt annað þarf hins vegar að fylgja með sem við væntum og þar mun skipta mjög miklu máli að ákveðin óvissa er úr sögunni, þ.e. að fyrir liggur fjögurra ára langtímakjarasamningar á almennum markaði; það mun skipta gríðarlegu máli um verðbólguvæntingar framtíðarinnar.

Þessi fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram hér ber þess skýr merki að það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að skapa aðstæður til að verðbólga lækki enn frekar því að þá munu vextir lækka í kjölfarið. Við höfum þegar séð skýran árangur af stefnu stjórnvalda þar sem verðbólgan hefur lækkað markvert undanfarin ár. Verkefnið nú er að halda áfram á þeirri braut að styðja við lækkun verðbólgunnar. Það gerum við fyrst og síðast með því að halda vexti ríkisútgjalda í skefjum. Við erum með ný verkefni í þessari fjármálaáætlun og þar vega aðgerðir stjórnvalda, sem voru kynntar samhliða gerð kjarasamninga, einna þyngst. Við mætum þeim nýju útgjöldum eða aðhaldi í öðrum rekstri. Þannig treystum við fjárhagsstöðu ríkissjóðs áfram þrátt fyrir ný verkefni. Þetta er fjármálaáætlun til 5 ára og á svo löngum tíma ríkir óvissa. Spennan í alþjóðasamskiptum fer því miður síst minnkandi, jarðhræringar á Reykjanesskaga eru skyndilega orðnar óvissuþáttur sem verður með okkur næstu ár, jafnvel áratugi. Við undirbúum okkur fyrir þessa óvissu og möguleg framtíðaráföll með því að halda áfram að treysta stöðu ríkissjóðs á næstu árum og lækka skuldir hans í hlutfalli við landsframleiðslu. Aðeins með ábyrgum rekstri og hóflegum skuldum er ríkissjóður vel í sveit settur til þess að vernda samfélagið komi til áfalla í framtíðinni. Ég hlakka til að taka þátt í vinnunni í fjárlaganefnd og veit að hún verður góð.