154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

fjárframlög til íþróttamála.

1040. mál
[14:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að undirstrika það að ég styð eindregið þessa skýrslubeiðni og það sem kemur fram í henni, það sem er verið að undirstrika. Ég held að þetta sé einmitt mjög mikilvægt að við fáum sem fyrst skýrslu um íþróttir, framlag íþrótta og líka þá kortlagningu sem við þurfum á að halda í breyttu umhverfi, hvernig íþróttirnar koma síðan inn í þennan oft harða og sérstaka veruleika sem við búum við. Við erum að sjá fram á það að sjálfboðaliðastarfið innan íþróttanna, sem við þekkjum mörg hver vel, er erfiðara en áður. En um leið er þetta svo gríðarlega mikilvægt fyrir hvert samfélag að byggja upp öfluga íþróttahreyfingu, íþróttastarf, og þess vegna fagna ég þessari skýrslubeiðni og styð hana eindregið.