154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

tekjustofnar sveitarfélaga.

1069. mál
[17:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu. Ég vil þakka hv. flutningsmanni fyrir og finnst þetta mikilvægt mál. Það er gott að hægt sé að halda í við framkvæmdir í að rampa upp Ísland. Þetta er ótrúlega mikilvægt og frábært verkefni. Ég verð að gera smáathugasemd við þá nálgun eða þá túlkun að málið hafi ekki áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar. Það kann að vera að málið hafi ekki neikvæð áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, það er alveg rétt. Við erum ekki að ganga gegn einhvers konar alþjóðlegum skuldbindingum með því að styrkja þetta góða verkefni, að tryggja fjármögnun til þess, og hafa skýra heimild til þess, heldur erum við einmitt að efla og gangast við alþjóðlegum skuldbindingum okkar með því. Mér hefði fundist rétt að halda því til haga frekar en að segja að þetta hafi engin áhrif á þær. Það er okkar alþjóðlega skuldbinding að virða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar eru aðgengismál í hávegum höfð. Réttara hefði verið að taka það fram að með þessu séum við að efna okkar alþjóðlegu skuldbindingar.