154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

flutningur venesúelskra ríkisborgara aftur til Venesúela .

[15:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en mér finnst kannski vanta dálítið í svarið hvað veldur því að svo illa gangi að þeir fari til síns heima sem þangað eiga að fara samkvæmt þessari niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. Þekkir ráðherrann til þess hversu margir hafa farið sjálfviljugri heimför til Venesúela síðan leiguvélin fór þann 15. nóvember 2023? Þá voru þetta 315 samanlagt sem höfðu farið uppsafnað af 1.500. Hversu margir hafa farið síðan og hvenær má áætla að annað flug sambærilegt því sem fór 15. nóvember 2023 fari, því að maður verður að gefa sér að eitthvert mjatl sé jafnt og þétt með hefðbundnu flugi? En hvenær er áætlað annað flug í tíma og hversu margir hafa farið síðan leiguvélin fór þarna á sínum tíma sjálfviljugri för með hefðbundnu flugi?