154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:59]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég fagna hverju skrefi sem stigið er til stuðnings Grindvíkingum en mér finnst nú kannski eins og mörgum öðrum skrefin stundum vera ansi stutt og hefði kosið að ríkisstjórnin væri aðeins kloflengri hvað þetta varðar og tæki stærri skref en ekki minni skref. Þetta er auðvitað einn angi af mörgum sem geta hjálpað til og þess vegna fagna ég því að sjálfsögðu að það sé verið að leggja þetta fram, m.a. vegna þess að ég er búinn að vera lengi þeirrar skoðunar að það sé ekki á kjörna bæjarfulltrúa leggjandi að þurfa að takast á við þessa áraun sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir. Í flestum tilfellum vilja bæjarfulltrúar, fyrir utan Reykjavík, sveitarfélaginu sínu vel og eru að vinna þetta í aukavinnu meðfram öðrum störfum, fá illa borgað fyrir að sinna þessu. Það er erfitt að vera bæjarfulltrúi í sveitarfélagi en hvað þá þegar fólk þarf að takast á við slíka hluti sem þetta bæjarfélag hefur þurft að reyna.

Ég fagna því að sjálfsögðu að það sé verið að stíga þetta skref og standa með sveitarfélaginu Grindavíkurbæ sem þarf í fjarvinnu að reka sveitarfélagið, halda úti þjónustu, greiða félagslegar bætur og styðja við fólk, ekki bara efnahagslega heldur líka andlega og hjálpa til við að fólk komist í gegnum daginn. Þannig er það bara oft og tíðum. Þess vegna er ég að sjálfsögðu ánægður með að verið sé að leggja til stuðning við sveitarfélagið sem getur þá hjálpað til við að byggja upp þá þjónustu sem við vonum og væntum að verði til staðar í framhaldinu. Við vitum það að sjálfsögðu ekki. Við vitum ekki hvað gerist í næsta atburði sem er núna, finnst manni, fyrirsjáanlegur. Miðað við að það séu einhverjir 12 milljónir rúmmetrar komnir undir Svartsengi þá á maður nú von á því að eitthvað gerist í framhaldinu sem maður veit ekki hvort sveitarfélagið verður svo lánsamt að renni bara meðfram varnargörðum eða fari yfir þá eða hvað gerist. Við verðum auðvitað að halda í þá von að sveitarfélagið komist í gegnum þetta og við verðum sem samfélag að sýna sveitarfélaginu og íbúum þess allan þann stuðning sem við getum veitt. Mér hefur stundum fundist skorta upp á það, ég verð að segja það, því miður.

Hér nefndi hv. þingmaður áðan að fólk og fyrirtæki væru að falla milli skips og bryggju. Sú hefur orðið raunin. Þórkatla hefur ekki náð að taka utan um allan þann fjölda sem þurfti á aðstoð og stuðningi að halda. Það voru m.a. margir sem fóru illa og fara illa út úr þessum uppkaupum vegna þess að þeir keyptu bara á vitlausum tíma. Aðrir, t.d. eldra fólk sem ákvað að fjárfesta lífeyrissparnaðinn sinn í aukaíbúð, sjá lífeyrissparnaðinn sinn sitja bara eftir uppi í Grindavík núna. Íbúðin sem fólk bjó í verður keypt ef það kýs svo en það eru margir sem sitja eftir og eru að verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni.

Ég hef líka verið, og við öll væntanlega eða mörg okkar, í samskiptum við smærri fyrirtæki í Grindavík sem hafa óskað eftir stuðningi og aðstoð og meta það þannig að ekki hafi verið komið til móts við þau. Nú hafa borist fregnir af því, m.a. frá bæjarstjóranum, að það eigi ekki að kaupa upp smærri fyrirtæki í Grindavík. Að mínu mati þýðir það fyrir mörg þeirra að þau verða bara gjaldþrota. Þó að þau hafi fengið rekstrarstuðning til að viðhalda ráðningarsambandi eða launastuðningi þá er ekki verið að hjálpa þeim til að borga afborganir af lánum eða greiða niður vexti og það kemur að því að eigið fé þeirra klárast. Þá spyr maður um framtíð þessara fyrirtækja í Grindavík. Ég óttast að þau verði ekki til staðar ef sú verður raunin að fólk gefist upp og fari þá bara að vinna einhvers staðar annars staðar. Það er búið að vera að biðja um einhvers konar flutningsstyrki til þeirra fyrirtækja sem gátu hafið starfsemi annars staðar eða stuðning við fyrirtæki sem eru á staðnum og geta verið með einhverja takmarkaða starfsemi eða hreinlega að kaupa þau bara út og leyfa þá fólki að fara að gera það sem það gerði uppi í Grindavík, að stofna fyrirtæki og halda fólki í vinnu sem skiptir auðvitað miklu máli.

Grindavíkurbær birti nýverið könnun á heimasíðu sinni þar sem var verið að skoða aðstæður fyrirtækjareksturs í bænum og það verður að segjast eins og er að bjartsýni fólks sem rekur fyrirtæki í Grindavík hefur minnkað stórlega. Mig langar, með leyfi forseta, að nefna hér nokkur atriði úr þessari könnun. Þar er sagt að það sé u.þ.b. þriðjungur fyrirtækja í Grindavík sem sé bara alls ekki með neinn rekstur neins staðar. Þá getum við ímyndað okkur hvað verður um slík fyrirtæki. Fjórðungur fyrirtækja hyggst halda áfram fullum rekstri í bænum. Það er samdráttur frá fyrri könnun þegar hlutfallið var 41%. Það er farið úr 41% í 25%. Það er líka stór tala. Þeir sem eru óvissir um áframhaldandi rekstur eru 36% og fyrirtæki sem telja sig geta verið með rekstur í Grindavík þrátt fyrir að náttúruhamförum sé ekki lokið fækkar nokkuð, eru nú innan við þriðjungur en voru helmingur. Svipaða sögu má segja um fjölda fyrirtækja sem svara því hvort halda megi áfram rekstri þrátt fyrir að íbúar séu ekki með búsetu í bænum. Það eru núna 38% en voru 58%. Þessar tölur segja okkur talsvert um andrúmsloftið meðal þess fólks sem hefur verið að reka og standa fyrir fyrirtækjarekstri í Grindavík. Ég er svolítið nervus bara yfir stöðu þessara aðila og ég hefði kosið, þrátt fyrir að það sé ekki verið að fjalla um það endilega í þessu frumvarpi sem á að fjalla um Grindavíkurbæ sem slíkan, að við tækjum á þessu. Ég heyri ekki að það sé einhver vilji til þess, því miður.

Mig langar aðeins að lokum að ræða það sem segir í þessu frumvarpi, m.a. um skipan og hlutverk framkvæmdanefndarinnar. Hún á að hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar og maður veltir fyrir sér: Geta þrír einstaklingar öðlast heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar, sem eru alls konar? Ég er ekki alveg viss um að það dugi að hafa þrjá einstaklinga í slíkri framkvæmdanefnd og velti fyrir mér hvort það þurfi fleiri og kannski hóp sem speglaði þá fleiri svið í rekstri sveitarfélagsins. Þarna finnst manni verið að horfa meira á félagslega hlutann af rekstri sveitarfélagsins en við erum auðvitað líka svolítið að horfa til stöðu og möguleika sveitarfélagsins til að byggja upp að nýju af því að við vitum auðvitað að fjárfesting sveitarfélagsins til framtíðar mun kosta marga milljarða. Það er ekki einfalt að byggja sveitarfélagið upp að nýju miðað við stöðuna eins og hún er.

Ég nefndi hér áðan ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Grindavíkurbær er eitt stöndugasta sveitarfélag á Íslandi, jafnvel það stöndugasta. Grindavíkurbær og Vestmannaeyjabær, þetta eru stöndug sveitarfélög, miklir útgerðarbæir og hafa haft fínar tekjur og mikla atvinnu þannig að sveitarfélagið var í sjálfu sér mjög vel rekið og mjög vel statt. En ef maður fer að skoða efnahagsreikning sveitarfélagsins þá eru eignir sveitarfélagsins eins og annarra sveitarfélaga mikið bundnar í fastafjármunum sem eru víðs vegar um samfélagið, í íþróttahúsum, skólum, leikskólum, gatnamannvirkjum og öðru þess háttar. Handbært eigið fé samkvæmt ársreikningi 2022 var í kringum 1,5 milljarðar. Það er örugglega bara mjög gott miðað við sveitarfélag af þessari stærðargráðu en þegar við förum að skoða það sem bíður sveitarfélagsins þá dugar það engan veginn til. Þess vegna var ég hissa á því að verið væri að taka fasteignaskattana af sveitarfélaginu þegar við vitum að það bíður mikil uppbygging til framtíðar. Að gera þetta svona fannst mér skrýtið og mér finnst það enn þá skrýtið. En gott og vel, ég skora á ríkið að standa þá með sveitarfélaginu þegar til uppbyggingar kemur og að sveitarfélagið fái þá a.m.k. ígildi þeirra fasteignagjalda eða skatta sem búið er að taka af því núna.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi að við ættum að fara til Grindavíkur og ég hef farið til Grindavíkur. Ég var þar fyrir tíu dögum síðan, sat inni á Bryggjunni og hlustaði þar á góðan vin minn kynna fyrir okkur bók um Grindvíkinga. Hann las þar upp úr henni og við sátum öll agndofa og hlustuðum á hann. Þarna ríkti bara mikil eindrægni og samstaða og vilji til að halda sveitarfélaginu gangandi. Maður fann væntumþykjuna, ekki bara væntumþykjuna til fólksins heldur líka til sveitarfélagsins. Það er mjög djúpt í rót Grindvíkinga, þetta sveitarfélag. Maður fann það bara. Það liggur við að ég fái gæsahúð bara að tala um það. Það er mikil eindrægni og vilji til að láta hlutina ganga. Ég held að við hin sem stöndum fyrir utan Grindavík verðum þá að sýna sama vilja í verki og standa með þeim alla leið.