154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér á dagskrá. Henni tókst að fara yfir mjög margt sem dregur fram þetta mikilvæga hlutverk sem heilsugæslan hefur, víðtæka hlutverk, og hvernig það hefur verið að breytast mjög hratt og áskoranirnar hafa stækkað.

Mönnun í heilbrigðisþjónustu, það var fyrsta spurningin. Það er eitthvað sem er alltaf með okkur, er alltaf áskorun, er alltaf viðvarandi. Það verður ekki tekið með einhverju átaki eða sparki eða á einhverjum spretti. Þetta er viðvarandi verkefni stjórnvalda og verður það áfram um ókomna tíð. Þannig er það hér á landi og það er það alls staðar annars staðar. Þegar við förum hins vegar í samanburðinn, sem við þurfum að gera, bæði yfir tíma, hvernig þetta hefur þróast í takti við verkefnin, eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir, og það hvernig staðan er alþjóðlega, þá stöndum við nokkuð vel. En þetta er jú allt spurning um viðmið.

Ég vil draga það sérstaklega fram, af því að hv. þingmaður spyr hvað sé búið að gera, að það stærsta í mínum huga sem hefur verið gert er sú vinna sem hefur verið lögð í að efla sérnám í læknisfræði hér á landi og ber að þakka og hrósa fyrir. Ég held að það hafi verið mjög mikil forsjálni þegar kemur að aðgerðum til að styrkja mönnun sem skila raunverulegum árangri og það eru sannarlega jákvæð teikn á lofti. Sú vinna hefur markvisst farið fram hér undanfarin misseri. Ég ætla að vísa í nýja reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Þar er miklu betri og skýrari umgjörð um sérnám lækna. Þetta er algjört lykilatriði til framtíðar. Þá hefur samhliða þessu verið lögð sérstök áhersla á að efla sérnám í heimilislækningum til að gera heilsugæsluna betur í stakk búna að standa undir sínu mikilvæga hlutverki.

Hv. þingmaður fór hér yfir kjarnastarfsemi heilsugæslu og þetta hlutverk hefur sannarlega víkkað eins og hv. þingmaður kom að hluta til inn á. Um leið verður auðvitað mikilvægi lækna í þessu samhengi bara meira. En sannarlega eru aðrar fagstéttir mikilvægar og koma að heilsugæslu og kjarnaheilsugæslu eins og hún hefur þróast — mjög hratt. Út frá þeim áskorunum sem hv. þingmaður fór hér yfir, hækkandi lífaldur og áskoranir sem því fylgja, lífsstílssjúkdómar o.s.frv., heilsueflandi hlutverk, verndandi hlutverk heilsugæslunnar, forvarnahlutverk heilsugæslunnar, ungbarnaverndin, mæðraverndin, þá hefur þetta allt þróast með mjög öflugum, jákvæðum hætti. En áskorunum fjölgar. Sem fyrsti viðkomustaður, mjög nákvæmlega tilgreint í heilbrigðisstefnu, þá kalla bæði kröfurnar og þetta hlutverk á mjög aukið aðgengi og það eru áskoranir í að mæta vaxandi eftirspurn til að sinna því hlutverki vel.

Aðeins varðandi stöðugildin, af því að hlutverkið hefur þróast eins og ég er að fara yfir hérna, þá getum við til að mynda talað um stöðugildi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er með 15 af 19 stöðvum hér á höfuðborgarsvæðinu. Bara til að gefa til kynna hvernig þróunin er þá hefur þeim fjölgað um 30%, bara á síðustu fimm árum. Þannig er þetta bara. Þannig sjáum við eftirspurnina vaxa og við erum að reyna að mæta þessu með auknu aðgengi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum fram kjarnastarfsemina. Hver er hún þegar við erum að ræða þetta í þessu samhengi? Hv. þingmaður kom hér inn á að tæknin skipti þar miklu máli.

Svo í fjórða lagi, sem ég þarf að svara hér í seinni umferð, er fjármögnunarlíkanið. Ég hef alveg mjög sterkar skoðanir á því og við erum sannarlega að vinna með það (Forseti hringir.) og hvata sem skipta þar miklu máli.