154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Þar til fólk getur pantað tíma hjá lækni án vandræða er það ekki svo að heilbrigðiskerfið virki í huga fólks. Í dag er staðan sú að ef einstaklingur veikist eða hefur áhyggjur af heilsu sinni af einhverjum ástæðum tekur við eltingarleikur til að fá svo mikið sem að bóka tíma. Ég sagði frá því áðan að ég hefði verið í stuttri vinnuferð í Frakklandi og fengið bæði tíma hjá heimilislækni og tilvísun til sérfræðings á innan við viku, en þess má til gamans geta að báðir læknarnir voru útlendingar og töluðu frönsku með hreim.

Við Píratar höfum, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum úr Flokki fólksins og Samfylkingar, lagt fram frumvarp um umboðsmann sjúklinga. Það er sérstakur talsmaður notenda heilbrigðiskerfisins sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra og tala þeirra máli. Umsagnir sem borist hafa um málið eru vægast sagt jákvæðar. Nauðsyn þess að setja á fót slíkt embætti er hrópandi. Það er ekki vanþörf á slíkum aðila á meðan við völd eru stjórnarflokkar sem gera fátt annað en að tala um hvaða úrlausnarverkið sé flókið og koma sjaldan með raunverulegar lausnir. Tillögu Pírata um umboðsmann sjúklinga hefur verið haldið á lofti af mannréttindasamtökum og neytendasamtökum, en umboðsmaður sjúklinga er dæmi um raunveruleg aðgerð sem getur fært okkur í átt að heilbrigðiskerfi sem virkar. Það er kannski allt í lagi að taka það fram hér í þessum sal að þetta mál Pírata hefur nú ekki verið í miklum forgangi hjá meiri hlutanum sem fer með dagskrárvaldið. Ég hef nú ítrekað í marga mánuði óskað eftir því að málið verði tekið á dagskrá velferðarnefndar en meiri hlutinn fer með dagskrárvaldið og allt kemur fyrir ekki.

Forseti. Það er ekki vænlegt til árangurs að tala endalaust um hvað verkefnið sé flókið og skila auðu þegar kemur að hinu augljósa.