154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir andsvarið. Eins og ég kom inn á í ræðu minni þá segir í nefndaráliti mínu:

„Fyrsti minni hluti tekur fram að frumvarpið óbreytt nær ekki tilsettum markmiðum, hvorki varðandi samræmi við löggjöf annarra Norðurlanda, sem er að vissu leyti mismunandi, né því markmiði að ná niður fjölda umsókna um alþjóðlega vernd.“

Því leggjum við í 1. minni hluta til breytingartillögur við ákveðin atriði þar sem ákvæði frumvarpsins ganga skemur en löggjöf annarra Norðurlanda. Þannig að við erum sammála því að samræma reglur okkar öðrum ríkjum, bæði Evrópuríkjum og Norðurlöndum. Burt með sérreglurnar. Við teljum þetta frumvarp ekki ganga nógu langt. Varðandi fjölskyldusameiningu þá erum við með breytingartillögu sem lýtur að því að við fjölskyldusameiningu, og það er svipað og er í Danmörku, sé krafa um inngildinguna svokölluðu, krafa um atvinnuþátttöku, krafa um viðeigandi húsnæði og krafa um einhvers konar íslenskukunnáttu, sem verður skilgreint í reglugerð. Þessi krafa eigi við um allar fjölskyldusameiningar, líka eftir tvö ár. Við erum að færa þessar kröfur upp í tveggja ára regluna og erum svo með undanþágu varðandi sanngirniskröfur eins og er í upphaflega frumvarpinu. Það á ekki að vera með þessa sérstöku undanþágureglu þar sem er þessi gulrót. Hún er gerð að gulrót þarna. Þessi gulrót á ekki að vera til staðar, þetta að vera skilyrði í upphafi. Það er eðlileg krafa að viðkomandi geti séð fjölskyldu sinni farborða vilji hann fá hana til sín og það er líka eðlileg krafa að hann sé búinn að koma sér fyrir í viðeigandi íbúðarhúsnæði þar sem fjölskyldan getur búið og hafi líka einhverja kunnáttu í íslensku. Ég geri ekki miklar kröfur til þess eftir tvö ár, ég tal það ekki raunhæft, en hann geti a.m.k. tjáð sig í grundvallaratriðum í íslensku samfélagi áður en fjölskylda hans kemur vegna þess að hann mun vera tengiliður við samfélagið eftir að fjölskyldan er komin. Þannig að ég tel mikilvægt að þetta sé í upphaflegu reglunni.