154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þetta. Það er mikill vilji til misskilnings hjá hv. þingmanni. Ég ætla samt að nefna það að þegar ég var að tala almennt um aðstæður hérna áðan þá var ég ekki að tala um Reykjanesbæ. Ég skal tala um Reykjanesbæ núna. Auðvitað er það þannig að við erum að hrúga fólki öllu á sama stað vegna þess að kerfið okkar sem við höfum búið til ofur einfaldlega gerir ráð fyrir því. Það er ekki rétt að gera það þannig. Þetta er ég búinn að gagnrýna lengi. Það er ekki sama hvernig er tekið á móti fólkinu sem kemur. Þetta er úrlausnarefni sem vel er hægt að laga án þess að brjóta mannréttindi á fólki.

Hvaðan hef ég það að fatlað fólk búi við kröpp kjör á götunni í Grikklandi? Ég get nefnt Öryrkjabandalagið, ég get nefnt Rauða krossinn. Ég get nefnt allmarga sem hafa farið til Grikklands og kynnst þessu af eigin raun. Ég get nefnt fólkið sjálft sem hefur komið fram í viðtölum og talað um aðstæður sínar. Ég get talað um talsmenn þessa fólks, lögmenn þessa fólks. Að halda því fram að það sé þannig að þeir sem eru í verndarkerfinu í Grikklandi séu ekki á slæmum stað er bara ekki rétt. Það er ofur einfaldlega ekki rétt og það er ekki vegna þess að Grikkir séu eitthvað vont fólk. Það er vegna þess að kerfið þeirra þolir ekki allan þennan fjölda og við Íslendingar og önnur ríki hér í Vestur-Evrópu (Forseti hringir.) erum að leggja okkar af mörkum, því miður, til þess að vandinn sé allur þar að finnst mér ekki alveg nógu gott.