154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég tel nú að það hefði alveg mátt skoða það að þessar reglur sem koma til með að vera í þessu undanþáguákvæði, þ.e. íslenskukunnátta og hafa haft atvinnu um tiltekinn tíma og hafa húsnæði, hefði algerlega getað átt við þessa tveggja ára reglu. Ég held að það sé alveg ljóst. Danir hafa þann háttinn á. En þetta var niðurstaðan og svo sem búið að færa ágætisrök fyrir því og ég verð að segja að það er bara ánægjulegt að það náðist samstaða um þetta mál. Það er mjög mikilvægt að hafa gert þessar breytingar á fjölskyldusameiningunni. Þetta er, eins og ég segi, með sama hætti á Norðurlöndunum þó að það sé ekki með nákvæmlega sama hætti í Danmörku. Ég fagna því sérstaklega að íslenskukunnátta er komin þarna inn í frumvarpið, að standast próf í svona grunnþáttum íslenskunnar. Þetta skiptir allt máli og er mjög mikilvægur hluti af þessari aðlögun sem við öll erum náttúrlega sammála um að sé mjög mikilvæg. Hún er mjög mikilvæg. Það geta allir lært íslensku, það bara tekur tíma og fólk þarf að vera ákveðið í að gera það og ég veit að það eru margir sem ég þekki sem eru af erlendu bergi brotnir sem hafa lagt sig fram um að læra íslensku og hafa staðið sig vel í því og það er bara mjög ánægjulegt. Ég vona að við eigum eftir að sjá það að þessi aðgerðaáætlun í íslensku sem við vorum að samþykkja hér fyrir stundu hjálpi fólki í þeim efnum því að hún er fyrst og fremst hugsuð til þess að stjórnvöld komi meira inn í þessa aðstoð og það er vel.