breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get ekki annað séð úr þessu svari og úr málinu en að ekki sé verið að bæta eignir að fullu. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og í andsvari um fólk sem á eignir er einungis verið að bæta eignir þar sem einstaklingur á lögheimili. Það eru einstaklingar sem eiga fleiri eignir þarna og það er ekki verið að bæta þær og svo eru skráningarnar svona og svona. Það virðist vera að mörgum sé gert að hreinlega byrja upp á nýtt, jafnvel fólk sem er komið á aldur og er að nálgast eftirlaun á að byrja algjörlega upp á nýtt.
Það sem mig langar að benda á varðandi fyrirtækin er að verið er að miða rekstrarstuðninginn við stöðugildi til rekstursins, sem er ekki launakostnaður. Annað í þessu er að ekki er verið að hjálpa fyrirtækjum að flytja til að halda rekstrinum áfram annars staðar svo að verðmætasköpunin geti haldið áfram og ekki er heldur verið að styrkja fyrirtæki þar sem tekjurnar eru í framtíðinni, eins og t.d. hjá nýsköpunarfyrirtækjum sem rækta sæeyru. Þau eru búin að vera í mörg ár að rækta sæeyru en tekjurnar koma ekki fyrr en eftir nokkur ár. (Forseti hringir.) Þetta eru gríðarleg verðmæti sem eru að fara í súginn. Ekki er verið að bæta eignir og það er stóra vandamálið. (Forseti hringir.) Og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa tekjur í framtíðinni — það þarf að bæta þeim það núna.
(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutímann.)