breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem var yfirgripsmikil. Það vöknuðu hjá mér ákveðnar spurningar. Það sem ég vil þó draga fram, og ég trúi ekki öðru en við séum flest hér inni sammála um, er að margt gott hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnar og hefur hún brugðist ágætlega við á ákveðnum sviðum. En það kemur mér samt á óvart — þá hugsa ég um væntingastjórnunina sem hv. þingmaður kom inn á — eftir reynsluna af Covid að hún hafi ekki verið betur nýtt. Það sem er mér efst í huga er að það voru tekin of lítil skref fyrst. Ég held að flestir stjórnarandstöðuflokkarnir hafi einmitt undirstrikað það að við þyrftum að taka stærri skref strax. Það er enn þá mikil óvissa hjá Grindvíkingum sem mér finnst hafa sýnt furðu mikla þolinmæði og langlundargeð þegar kemur að svörum frá ríkisstjórninni. Vel að merkja þá er það alls ekki þannig að allt hafi verið illa gert, engan veginn. Ég hefði þó óskað eftir því að stærri skref hefðu verið tekin strax.
Ég var einu sinni sem oftar í Hafnarfirðinum í morgun og var þá að erindast í Firðinum. Þá kem ég að, eins og hv. þingmaður veit, kaffihúsakörlum, góðum piltum, og voru nokkrir frá Grindavík. Þá var mér tjáð m.a. að hv. þm. Bergþór Ólason hefði verið á svipuðu svæði einhvern tímann um daginn og ræddu þeir við hann um stimpilgjöld. Það gerðu þeir líka við mig í dag. Ég stóð í þeirri meiningu að það ætti alltaf að afnema stimpilgjöldin, ekki bara hjá Þórkötlu heldur hjá öllum þeim sem þurftu út af þessu neyðarástandi að fjárfesta í nýrri íbúð eða nýju íbúðarhúsnæði. Þessar greiðslur slaga hátt upp í hálfan milljarð núna. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður mér sammála í því að þetta sé eitt af þeim skrefum sem hægt hefði verið að taka strax, skýra strax út og hafa á hreinu?