154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir stutta og greinargóða framsögu. Það sem vakti athygli mína á þessu máli er að hér er sérstaklega verið að fara í það að tryggja það að stofnun á vegum ríkisins sem á að veita aðgang að auðlindum fái að rukka gjöld sem eru í samræmi við þá þjónustu sem veitt er. Þá minni ég hv. þingmann á að við höfum svolítið rætt það bæði í vetur og undanfarna vetur að þau gjöld sem þeir sem nýta sjávarauðlindina greiða standa ekki undir þeirri þjónustu sem þeir fá frá Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Landhelgisgæslunni. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi ekki við hæfi að það væri alltaf þannig þegar aðgangur að auðlindum væri gefinn að það væri rukkað í samræmi við þá þjónustu sem veitt er.