154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:25]
Horfa

Elín Íris Fanndal (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta er um margt áhugavert mál. Til stendur að breyta gjaldtökuheimildum Orkustofnunar en stofnunin innheimtir gjöld fyrir þá þjónustu sem hún innir af hendi, svo sem afgreiðslu virkjunarleyfa. Því miður hafa gildandi gjaldheimildir ekki tryggt stofnuninni fjármagn í samræmi við umfang þeirrar þjónustu sem er þar innt af hendi. Ég vek sem dæmi athygli á því að gildandi löggjöf heimilar Orkustofnun að innheimta gjald fyrir afgreiðslu virkjunarleyfa sem samanstendur af tveimur stoðum, annars vegar föstu gjaldi sem er að fjárhæð 100.000 kr. og síðan breytilegu gjaldi sem er 10.000 kr. fyrir hvert megavatt af uppsettu rafafli af þeirri virkjun sem leyfisumsókn snýr að. Sem dæmi þá afgreiddi Orkustofnun árið 2022 virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Sú afgreiðsla tók sinn tíma, um eitt og hálft ár, skilst mér. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það gjald sem gildandi lög heimila fyrir slíka afgreiðslu stendur engan veginn undir þeirri vinnu sem fylgir henni. Hvammsvirkjun, sem enn er aðeins til á teikniborðinu, er með uppsett rafafl 95 MW og því hefði aðeins mátt innheimta 1.050.000 kr. fyrir þetta. Sú upphæð dugar engan veginn til að greiða fyrir 18 mánaða vinnu sérfræðings og hvað þá margra líkt og sennilega hefur átt við í þessu tilviki.

Það er kannski einfaldast að ræða tildrög þessa máls með því að fara aðeins yfir umfjöllunina í greinargerð að þessu leyti en þar segir, með leyfi forseta:

„Með lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum laga sem vörðuðu veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem háðar voru umhverfismati. Meðal annars var leyfisveitingarvald fært frá ráðherra til viðeigandi undirstofnunar. Tók þá Orkustofnun við hlutverki leyfisveitanda frá ráðherra samkvæmt hafsbotnslögum, auðlindalögum, raforkulögum, og vatnalögum. Utan vatnalaga, þar sem kveðið er á um heimild til töku þjónustugjalds í 146. gr., fylgdu yfirfærslunni ekki heimildir til gjaldtöku vegna leyfisveitinga eða eftirlits Orkustofnunar.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Á þeim tíma sem liðið hefur frá þeirri yfirfærslu leyfisveitinga frá ráðherra til Orkustofnunar sem rakin er í 1. kafla hafa ákvæðin staðið óbreytt. Á sama tíma hafa umsvif verkefna og þróun í stjórnsýslu málaflokksins leitt til þess að Orkustofnun skortir fullnægjandi fjármögnun þessara verkefna til að geta sinnt þeim nægilega vel. Ráðuneytið telur brýnt að framangreind lög feli í sér lagastoð fyrir heimild Orkustofnunar til töku þjónustugjalda vegna vinnu við leyfisumsóknir vegna auðlindanýtingar, útgáfu leyfa og eftirlits með þeim.“

Þarna kjarnast tildrög málsins. Orkustofnun getur ekki rukkað meira fyrir sína þjónustu en sú lagaheimild sem við á hverju sinni mælir fyrir um. Því þarf nú að ganga til verka og leiðrétta úreltar gjaldtökuheimildir ellegar er fjárhagur stofnunarinnar ekki í réttu samræmi við þá þjónustu sem henni ber að veita lögum samkvæmt. Það getur haft mjög neikvæð áhrif ef ekki verður gripið til aðgerða.

Það vakti athygli mína að nýverið fjallaði umboðsmaður Alþingis um afgreiðslutafir hjá Orkustofnun en í því máli sem athugun umboðsmanns laut að hafði erindi sem barst vegna hleðslubúnaðar í fjölbýlishúsum velkst lengi í kerfinu hjá Orkustofnun, svo það tók 26 mánuði að fá svar við erindinu. Félagið sem kvartaði til Orkustofnunar þurfti að leita í þrígang til umboðsmanns Alþingis út af hægaganginum. Þá loksins barst svar frá stofnuninni. Þetta eru auðvitað forkastanlegar tafir, næstum ári lengri afgreiðsla en vegna Hvammsvirkjunar. En kannski er þetta til marks um að stofnunin hafi ekki fjármagn eða bolmagn til að anna þeim erindum sem til hennar berast. Því er tilvalið að endurskoða þessar gjaldheimildir og tryggja stofnuninni fjármagn til að ráða inn þann fjölda starfsmanna sem þarf til að sinna verkefnum stofnunarinnar án þess að þau tefjist jafn lengi og raun ber vitni.

Nú er það svo að forstöðumaður Orkustofnunar fór nýverið í forsetaframboð og fékk hún þá m.a. spurningu frá Heimildinni um hvort hún væri í forsetaframboði vegna þess að það ætti að leggja stöðu hennar niður. Hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur kynnt áform um að sameina tíu stofnanir sem heyra undir ráðuneyti hans niður í þrjár; Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Með þessum áformum leggst staða orkumálastjóra af en verkefni Orkustofnunar fara undir Loftslagsstofnun. Eins og við vitum hér í þessum sal þá hefur það verið lengi á stefnuskrá hæstv. ráðherra að ná fram hagræðingu í rekstri hins opinbera með sameiningu stofnana. Að því hníga ákveðin rök svo sem að samnýta megi aðstöðu undir svipuð verkefni og eins að ef samskipti milli stofnana á tengdu sviði eru mikil þá jafnvel eflist reksturinn við sameiningu. En margir hafa áhyggjur af þessum sameiningaráformum, þau kunni hugsanlega að ganga of nærri þeim stofnunum sem á að sameina, geti haft neikvæð áhrif á afgreiðslu mála sem liggja fyrir hjá þeim stofnunum og jafnvel á líf og líðan starfsmanna þeirra. Það er ekki beint vinsælt að taka slaginn og slá verndarhendi yfir hina ónefndu embættismenn. Þeir fá oft gagnrýni í sinn garð en svara ekki fyrir sig, enda reyna þeir að gæta hlutleysis og blanda sér ekki í pólitíska umræðu um sín eigin störf nema mikið bjáti á. Það er því áhugavert að nú sé útlit fyrir að einhver best menntaði embættismaður þjóðarinnar, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, Halla Hrund Logadóttir, sé hugsanlega á útleið úr stjórnsýslunni. Maður hefði haldið að íslensk stjórnsýsla mætti ekki við að missa jafn mikilvægan starfskraft og þá miklu reynslu sem sá ágæti embættismaður býr yfir. Það hafa ýmsir spekingar og dálkahöfundar velt því sjónarmiði fyrir sér hvort þessi áform ráðherrans um þessa sameiningu sé í raun viðbrögð við því að orkumálastjóri hafi ekki beygt sig undir vilja ráðherrans um að drífa í gegn leyfisveitingar vegna virkjunaráforma eins fljótt og auðið er. Ég skal ekki segja hvort það sé rétt eða rangt en þessu hefur maður heyrt fleygt í umræðunni um orkumálin og svo vaknaði þessi orðrómur aftur í kringum forsetakosningarnar.

En aftur að efni frumvarpsins. Hér er auðvitað um að ræða frumvarp sem mun, ef samþykkt verður, leiða til gjaldahækkana. Flokkur fólksins er almennt ekki hlynntur gjaldahækkunum. Við höfum oft bent á það í umræðunni um fjárlagabandorminn sem kemur til umfjöllunar þingsins um hver áramót. Hækkun þjónustugjalda og nefskatta bitnar verst á þeim sem hafa minnst á milli handanna, enda er þar um flata skattahækkun að ræða sem tekur ekkert tillit til efnahags skattgreiðenda. Þá eru slíkar gjaldahækkanir á tímum hárrar verðbólgu aðeins til þess fallnar að kynda enn frekar undir verðbólgubálið. Flokkurinn telur þó að þessi tiltekna gjaldahækkun sem hér um ræðir sé annars eðlis. Almenningur er til að mynda ekki mikið að sækja um virkjunarleyfi fyrir virkjanir með uppsett rafafl fyrir 1 MW. Ég þekki a.m.k. ekki marga sem sjá fram á að sækja um slík leyfi á næstunni. Því tel ég að sjónarmið um neikvæð áhrif gjaldahækkana á almenning eigi ekki við í þessu máli. Hér erum við aðallega að tala um gjöld sem eru innheimt af stórfyrirtækjum sem jafnvel eru alfarið í eigu ríkisins líkt og í tilfelli Landsvirkjunar. Það er því fremur hagkvæmnissjónarmið að sjá til þess að fjármögnun hins opinbera á þeim stofnunum sem sinna verkefnum á sviði orkumála skili sér á tilætlaðan stað.

En það er ekki bara verið að breyta gjaldtökuheimildinni fyrir virkjunarleyfi í þessu frumvarpi, herra forseti. Það stendur einnig til að fara í breytingar á gjaldtökuheimildum samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, breytingar á gjaldtökuheimildum samkvæmt lögum um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins og samkvæmt vatnalögum. Þá eru einnig felldar niður greinar úr lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem kveða á um fjárhæð gjalda vegna útgáfu nokkurra tegunda leyfa sem ég gef mér að séu þau leyfi sem frumvarpið fjallar um á öðrum stöðum. Það er farin sú leið í breytingu á gjaldtökuheimildinni vegna virkjunarleyfa og öðru eftirliti sem heyrir undir 4. og 6. gr. raforkulaga að í stað þess að kveða á í lögum um fjárhæð gjaldsins, sem er einkar ósveigjanlegt fyrirkomulag, er kveðið á um að ráðherra staðfesti gjaldskrá. Jafnframt er kveðið á um að gjald vegna hverrar og einnar gjaldtöku megi ekki vera hærra en sem nemi þeim kostnaði er fylgir þeirri leyfisveitingu eða því eftirliti sem gjaldið er innheimt fyrir. Í þeim kafla greinargerðar frumvarpsins sem ber heitið Mat á áhrifum er sagt að breytingar þessar muni skila Orkustofnun árlegum tekjum á bilinu 6–13 millj. kr. Þá segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að verðskrá muni þróast á næstu árum til að endurspegla betur raunvinnuframlag stofnunarinnar. Búast má við að umrædd gjaldtaka muni ekki fjármagna að fullu þann kostnað sem hlýst af vinnu við leyfisveitingar innan stofnunarinnar, en gjaldtakan mun skila sér í möguleikum til að bæta þjónustu stofnunarinnar með því að geta brugðist við álagspunktum í leyfisveitingum með auknu vinnuframlagi og/eða utanaðkomandi þjónustu. Með því að taka gjald í samræmi við veitta þjónustu er stuðlað að gagnsærra ferli. Jafnframt hefur Orkustofnun þá tök á að bæta þjónustu við umsækjendur, þ.m.t. með styttri afgreiðslutíma erinda sem stofnuninni berast.“

Þarna kjarnast í raun tilgangur þessa frumvarps enn á ný, að gera stofnuninni betur kleift að sinna sínum verkefnum, auðvelda henni að bregðast við álagspunktum og stytta afgreiðslutíma. Mig grunar að víða sé pottur brotinn hvað svona mál varðar og í raun megi fara í það að skoða betur fjárveitingar til einstakra undirstofnana ráðherra, kanna hvort ráðherra sé að skammta þeim nægjanlegt fé til þeirra verkefna sem þeim er gert að sinna. Mér skilst, af því sem ég heyri frá samflokksmönnum mínum, að það sé oft erfitt fyrir alþingismenn að fá viðhlítandi útlistanir á því hvað undirstofnanir hafi óskað eftir háum fjárveitingum. Það er því hugsanlega freistnivandi fyrir ráðherra að færa til peninga á sínum málefnasviðum frá undirstofnunum sem þeir hafa minni áhuga á yfir í þeirra eigin áhersluverkefni. Vonandi er þessi grunur minn ekki á rökum reistur en kannski þyrfti að ráðast í úttekt hvað þetta varðar. Ekki er nú langt síðan Ríkisendurskoðandi skilaði sótsvartri skýrslu um fjársveltið sem Landhelgisgæslan hefur þurft að upplifa og sú skýrsla var alls ekki sú eina sem hið ágæta embætti ríkisendurskoðanda hefur unnið og skilað Alþingi á síðustu árum. Þar get ég nefnt dæmi skýrslur Ríkisendurskoðunar um ofanflóðasjóð, Fangelsismálastofnun og geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans. Í öllum þessum skýrslum eru, að ég tel, gerðar athugasemdir við fjármögnun verkefna þeirra stofnana sem skýrslurnar varða.

Já, herra forseti, víða er pottur brotinn en það er vissulega jákvætt að hér sé stigið skref í rétta átt, þ.e. í áttina að vel reknum ríkisstofnunum.