154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Varðandi varnargarðana þá var fyrir jól í fyrsta frumvarpinu sem við fengum vegna jarðhræringanna í Grindavík kostnaðurinn við garðana rúmir 2,5 milljarðar. Það voru 3,8 milljarðar í varasjóðnum. Ég hefði sagt: Farið bara beint í hann í staðinn fyrir að keyra í gegn skattahækkun á landsmenn, fasteignaeigendur, á einum degi, frá klukkan hálftvö til rúmlega 11 þann dag. Það fannst mér ósanngjarnt, sérstaklega í ljósi þess að þetta var ákveðin upphæð, þetta var ákveðin framkvæmd, varnargarðar í kringum Svartsengi og Bláa lónið. Farið bara í varasjóðinn. Varðandi árið í ár og varasjóðinn þá voru settir í hann núna held ég 45 milljarðar. Það var til þess að bregðast við kjarasamningum, launaliðnum sérstaklega. Ég spurði sérstaklega að þessu vegna fjáraukans út af kjarasamningunum: Af hverju fórum við ekki í varasjóðinn? Það var af því að varasjóðurinn var bara fyrir launaliðinn og það var gert ráð fyrir honum í ár. Þess vegna fara þeir í það, sögðu þeir. Við fjármögnum kjarasamningana okkar, ríkið sinn hluta inn í tilfærslukerfin, með hagnaði Landsvirkjunar, 10 milljörðum, og svo redda þeir 3 milljörðum líka annars staðar frá, innan skekkjumarka, og svo á næsta ári fresta þeir örorkukerfinu til 1. september. Það er öll fjármögnunin.

Varasjóðurinn er auðvitað hugsaður til að bregðast við óvæntum hlutum, ófyrirséðum og óvæntum hlutum, og ég tel að það eigi ekki almennt að fara í varasjóðinn nema það sé þörf á því. Ég er sammála aðferðafræðinni hér að fara með stuðning við Grindavík í fjáraukann, en það fer fyrir þingið og það er miklu lýðræðislegra. Þá fer það í umræðu hér í staðinn fyrir að ríkið myndi bara setja helling af peningum, 100 milljarða, í varasjóðinn og svo bara taka úr varasjóðum fyrir Grindavík eins og þörf krefði. Það er miklu lýðræðislega að fara í gegnum fjárauka eins og hér er gert. En það breytir því ekki að varasjóður er náttúrlega fjármagnaður með skattpeningum ríkisins. (Forseti hringir.) Það er gert þannig og þess vegna er svo mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig hann er fjármagnaður (Forseti hringir.) og hver áhrifin eru á verðbólguna. Við þurfum að borga þetta með hærri verðbólgu eða með hærri stýrivöxtum eða (Forseti hringir.) með hærri sköttum á endanum. Það er alveg klárt mál.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmanninn á ræðutímann.)