fjáraukalög 2024.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það hvernig á að fjármagna óvænt útgjöld er eitthvað sem væri bara gott að velta fyrir sér því að við búum í litlu hagkerfi og ef það er um stór útgjöld að ræða skiptir máli hvernig þau eru fjármögnuð. Við höfum möguleika. Við höfum möguleika á skattahækkunum. Þá erum við ekki að riðla neinu, ef við öflum tekna á móti útgjöldum. Við höfum möguleika á því að skera niður á öðrum sviðum eða eins og verið er að gera núna, að fara inn í varasjóðinn þar sem eru kannski fjármunir sem voru áætlaðir í eitthvað allt annað en eru nýttir í þetta. Þetta er auðvitað alltaf spurning um það hvernig við ætlum að fjármagna það sem við verðum að gera en er óvænt og er ekki skrifað í bækurnar akkúrat þegar við gerum áætlanirnar. Við verðum að hafa eitthvert tækifæri til að bregðast við.