154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[19:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Almenni varasjóðurinn er hugsaður til að bregðast við óvæntum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Fjáraukinn er hugsaður til að bregðast við nákvæmlega sömu hlutum, óvæntum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum þegar ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti, eins og segir í lögum um opinber fjármál. Það er því hægt að bregðast við með öðrum hætti ef það er peningur í varasjóðnum og sleppa fjárauka. Þeir nota fjárauka þó að það sé peningur í varasjóðnum. Það er náttúrlega ekki alveg rétt samkvæmt lögum um opinber fjármál en það er lýðræðislegra, þannig að ég er sammála þessari aðferðafræði. En það breytir því ekki að við munum alltaf borga þetta með verðmætasköpun. Við munum alltaf gera það, það skiptir engu máli. Það er ríki hinum meginn á hnettinum sem heitir Argentína og þar fjármagnaði bara ríkið stóran hluta með peningaprentun. Þá verður náttúrlega bara verðbólga, óðaverðbólga. Við gerum það líka með því að dæla pening með láni inn í hagkerfið, það eykur eftirspurn. Við verðum að koma (Forseti hringir.) böndum á verðbólguna (Gripið fram í.)og það er það sem er hættan þegar við erum að setja peninga inn í hagkerfið. Þetta er spurning um aðferðir, hvernig við gerum það og hvernig við öflum þeirra tekna.