fjáraukalög 2024.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ræðuna. Hann fór nokkuð vítt og breitt yfir þetta allt saman og er svolítið að enduróma það sem kemur fram hjá öðrum, þ.e. að það er ekki nóg að segjast ætla að gera A og B, það þarf líka að finna leiðir til að fjármagna það og gera það með þeim hætti að hér verði áhrifin sem minnst á það efnahagsástand sem við erum að reyna að kæla. Þar er auðvitað margt enn óskrifað af hálfu ríkisstjórnarinnar eins og við þekkjum vel. Þetta verða auðvitað fleiri milljarðatugir þegar allt er talið, það sem við ætlum að gera fyrir Grindvíkinga. Ég er þeirrar skoðunar almennt að þegar svona náttúruhamfarir ríða yfir, þegar við erum að taka heilt bæjarfélag, alla íbúa og banna þeim að búa í húsunum sínum, sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á atvinnulífið sem ekki fær að starfa og við vitum ekki hversu langur tíminn er, að það er nákvæmlega á þeim tímapunkti sem samhjálp samfélagsins þarf að vera sem öflugust. Og auðvitað þurfum við að gera þetta með eins mikilli skynsemi og hægt er að gera. En í mínum huga er það algerlega hafið yfir allan vafa að það er ekki nóg fyrir okkur að segjast styðja við bakið á Grindvíkingum, við verðum að sýna það algerlega í verki. Ég ætla svo sem núna í þessu andsvari ekkert að fara út í það hvernig eigi að fjármagna þetta heldur langar mig bara að spyrja hv. þingmann opið því nú erum við búin að berjast við þessar náttúruhamfarir, þessa náttúruvá, í allan þennan tíma og það er auðvitað enn þá heilmikil óvissa: Hvernig finnst þingmanninum hafa gengið hjá ríkisstjórninni að koma svörum til Grindvíkinga, bæði til þeirra sem við getum þá talað um sem íbúa og þeirra sem eru í atvinnurekstri? (Forseti hringir.) Hefur ríkisstjórnin staðið sig vel í að taka utan um þennan mikla vanda?