fjáraukalög 2024.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig nægilega vel, bara alls ekki nægilega vel. Og af hverju segi ég það? Ég get tekið dæmi máli mínu til stuðnings sem er það að Þorbjörn, eitt ríkasta og öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins, sagði upp í síðustu eða þarsíðustu viku 58 manns. Í fréttatilkynningu Þorbjörns kemur fram ákall til stjórnvalda um aðgerðir, að þau komi með beinum hætti svari til fyrirtækisins og atvinnurekanda í Grindavík um hvernig þau ætli að styðja við bakið á þeim og koma í veg fyrir uppsagnir. Þeir þurftu að segja upp 58 einstaklingum og miðað við fréttatilkynninguna var það að miklu leyti vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.
Við höfum hérna verið að uppfæra og lengja í úrræðum. Í síðustu viku ræddum við um stuðning við Grindavík vegna rekstrarstuðnings, húsnæðisstuðnings og stuðnings vegna launagreiðslna. Þá kom það alveg bersýnilega fram að þeir höfðu ekkert lært af því hvernig stuðningnum var háttað. Jú, þeir eru að nota Covid-módelið, sem er allt, allt annars eðlis og ekki nægilega gott. Covid-módelið var gert vegna þess að fólk gat ekki átt samskipti sín á milli. En þarna eru t.d. eignaskemmdir, það eru jarðsprungur o.s.frv. Við getum ekki notað sömu aðferðafræðina sem við notuðum í heimsfaraldrinum og varðandi jarðhræringarnar í Grindavík. En það virðist vera að það sé gert. Og lærdómskúrfa stjórnvalda þegar þau eru að framlengja stuðning vegna reksturs, húsnæðis og launagreiðslna virðist ekki vera nein. Það er bara haldið áfram og lengt í og málið búið. Jú, hér erum við náttúrlega með varnargarðana. Þeir hafa sannarlega sannað gildi sitt, sem er alveg frábært. Þeir sönnuðu gildi sitt og hafa varið Grindavík, sýnist mér á myndum og umræðunni. En ég held að varðandi hin málin, líka afurðasjóðinn, hafi ekki verið nægilega vel haldið utan um það, t.d. varðandi tekjur til framtíðar. Nýsköpunarfyrirtæki sem er að framleiða sæeyru fær tekjur eftir tvö, þrjú, fjögur ár, en það lendir milli skips og bryggju af því að það er ekki með tekjufall á síðasta ári. Tekjurnar koma eftir nokkur ár.