fjáraukalög 2024.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir þessa yfirferð. Já, ég ætla nú reyndar að vera sammála hv. þingmanni í því að það er auðvitað talsvert mikið af peningum sem hefur farið í það að reisa varnargarða. Við sjáum það bara af loftmyndum á svæðinu að þessir varnargarðar hafa hlíft byggðinni alveg svakalega mikið. Það liggur alveg í hlutarins eðli. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við Íslendingar förum í það að reyna að verja byggð eða mannvirki með beinum hætti. Okkur hefur gengið ágætlega í því í gegnum tíðina, það er bara þannig. En eitt af því sem menn hafa verið að tala mikið um, hv. þingmaður talaði mikið um það, er hvort það eigi að gera ráð fyrir þessu í fjáraukalögum eða hvort það eigi að fara í almennan varasjóð eða annað. Þriðja hugmyndin hefur alltaf verið mikið á kreiki í gegnum tíðina sem er ekki orðin að veruleika og það er að hér á Íslandi sé bara einn stór þjóðarsjóður sem sé fjármagnaður með réttum hætti. Það renni í hann fjármagn á hverju einasta ári og það sé sjóður sem er bara frátekinn einmitt fyrir nákvæmlega þetta, (Forseti hringir.) að berjast við svona náttúruvá, að taka þessi óvæntu útgjöld sem verða vegna náttúruhamfara af einhverjum toga og þar sé (Forseti hringir.) þá bara fjármagnið algerlega frátekið í það. Þetta eru auðvitað margs konar hugmyndir sem hafa fram um þennan þjóðarsjóð, en mig langaði að fá fram hjá hv. þingmanni hvort það gæti kannski verið leiðin sem hann væri sáttastur við.