154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[19:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvarið. Já, ég tók þátt í 1. umræðu um þjóðarsjóðinn. Það er raunverulega svokallaður áfallasjóður. Ég er mjög hlynntur svoleiðis sjóði að því gefnu að við séum búin að greiða skuldir okkar vel niður fyrir 30% af þjóðarframleiðslu, helst í kringum 20%. Þá get ég farið að safna í svona sjóð. En ég er hins vegar algerlega ósammála því sem kemur fram í frumvarpinu um þjóðarsjóð, að stjórn þjóðarsjóðsins færi eignastýringu sjóðsins til einkaaðila. Ég tel að ríkið, helst Seðlabankinn, eigi að sjá um eignastýringuna og fjárfestingar þjóðarsjóðsins, alveg eins og Norðmenn gera með olíusjóðinn. Þar er sjóðurinn inni í deildinni í Seðlabankanum sem er með sérhæfða starfsmenn sem eru að fjárfesta á vegum olíusjóðsins. Það á ekki að gefa þetta út til einkaaðila. Ríkið sjálft var búið að byggja upp þekkingu og við eigum að byggja á farsæld Norðmanna hvað það varðar. En þessi áfallasjóður sannar það að við þurfum að fjármagna aðgerðir gegn áföllum. Það er það sem er málið. Það sýnir það að við þurfum að eiga í sjóðum til að geta fjármagnað þær. Við þurfum líka að átta okkur á áhrifunum þegar við setjum peninga út í hagkerfið (Forseti hringir.) til að fjármagna þessar aðgerðir, hvernig það getur haft áhrif á verðbólgu og stýrivexti og bitnað ójafnt á landsmönnum með þeim hætti.