fjáraukalög 2024.
Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga sem er viðauki IV. Þessi viðauki snýr aðallega að stuðningi við Grindavík. Þar erum við í stórum dráttum að horfa á upphæð sem nemur 6,3 milljörðum sem er heildartalan í þessu. Að stærstum hluta erum við búin að ráðstafa þessum fjármunum m.a. í uppbyggingu varnargarðanna sem hér var minnst á en kostnaðurinn við þá er um 4,5 milljarðar. Þarna er líka verið að fjármagna aðgerðir sem ekki hafa farið í gegnum þingið, hafa ekki verið samþykktar hérna. Það eru framhaldstuðningsaðgerðir til handa fólki og fyrirtækjum í Grindavík. Þarna er verið að horfa á svokallaða rekstrarstyrki eða viðspyrnustyrki eins og þeir eru kallaðir núna. Gert er ráð fyrir að þessir styrkir geti numið 960 millj. kr. fram til áramóta.
Síðan er verið að horfa á svokallaðan afurðasjóð sem við vorum að ræða hér í síðustu viku. Þessi sjóður á að bæta skaða sem getur orðið á matvælum og hráefni. Ef mig misminnir ekki var þetta orðað þannig. Hann gæti þá nýst framleiðslufyrirtækjum í Grindavík sem gætu tapað lagernum sínum vegna hugsanlegs rafmagnsleysis eða einhverrar slíkrar atburðarásar sem gæti hreinlega komið í veg fyrir að hægt væri að verja lager sem þarna er. Í þetta er verið að gera ráð fyrir 400 milljónum. Síðan er verið að auka fjárheimildir í svokallaðan húsnæðisstuðning upp á 250 milljónir. Það er sá stuðningur sem veittur hefur verið til Grindvíkinga sem þurftu á örskömmum tíma að leigja sér húsnæði á sama tíma og þeir voru með skuldbindingar vegna húsnæðis í Grindavík en húsnæðiskostnaður þeirra hefur jafnvel verið tvöfaldur. Síðan er gert ráð fyrir 150 milljónum til að reka þessa nýju framkvæmdanefnd sem búið er að setja á laggirnar og skipa í. Ég veit ekki alveg hvort þetta sé heildarkostnaður á rekstri þessarar nefndar, með sérfræðingum og öllu sem þarf að kalla til, eða hvort þetta séu bara launagreiðslur til þeirra sem sitja í þessari nefnd. Það kemur þá bara í ljós. Þarna er, eins og ég segi, gert ráð fyrir fjármunum vegna aðgerða sem ekki er búið að samþykkja en verður væntanlega gert, vonandi í þessari viku en ekki seinna en í næstu viku ef þingið lifir fram í næstu viku.
Mig langar aðeins að eyða tíma mínum í að ræða þessar stuðningsaðgerðir og kannski líka Þórkötlu. Hér er verið að óska eftir heimild til að auka hlutafé í Þórkötlu upp á 37 milljarða, held ég að hafi verið talan. Það er vegna þess að kostnaður við Þórkötlu er talsverður og talsvert meiri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi eins og ráðherra benti á. Þegar þær aðgerðir voru kynntar og vitneskja barst um að brunabótamat væri lagt til grundvallar uppkaupum þá var eðlilegt að fólk brygðist við og léti endurmeta eignirnar sínar. Út úr því hefur komið talsverð hækkun á uppkaupsverði í Þórkötlu sem gerir það að verkum að skekkjan er þessi frá upphaflegri áætlun til dagsins í dag. Ég hef velt fyrir mér hvers vegna við séum ekki að ganga alla leið í Þórkötlu þegar kemur að uppkaupum á húsnæði. Þegar fólk verður fyrir skaða þá hefði maður talið að sá skaði fengist bættur og meginmarkmiðið væri að bæta skaða sem fólk verður fyrir. Sá skaði er svo sannarlega til staðar hjá fólki sem átti eign í Grindavík þó að það hafi ekki haft lögheimili í viðkomandi eign. Það eru mýmörg dæmi sem hægt er að tína til þar sem fólk hefur ekki verið staðsett með lögheimili í eigninni sinni og hefur þar af leiðandi ekki átt rétt á uppgreiðslu í gegnum Þórkötlu.
Síðan má auðvitað spyrja sig að því hvers vegna í ósköpunum lögaðilar eru skildir út undan. Það er m.a. verið að hvetja til þess að fólk fjárfesti í húsnæði, fleiri en einni eign, til að auka framboð á eignum og að fólk geymi þá sparifé sitt í húsnæði. Margir hafa gert það í Grindavík, m.a. eldra fólk sem hefur selt einbýlishúsið sitt, keypt tvær íbúðir og leigt aðra sem átti að vera einhvers konar lífeyrir til framtíðar eða þá bara farið út í að kaupa og síðan átti leigan að standa undir afborgunum af lánum. Sá hópur tapar innborgun sinni og getur svo að lokum ekki staðið undir greiðslum af lánum. Þessir hópar eru að fara mjög illa út úr þeim ákvörðunum sem við tókum hvað varðar uppkaup í gegnum Þórkötlu. Breytingartillögur sem ég lagði fram á þeim tímapunkti voru því miður felldar en þær hefðu komið í veg fyrir að þessir aðilar væru í þessari stöðu sem mér finnst ekki góð. Ég hefði gjarnan viljað sjá að við gerðum einhverja gangskör í að skoða og breyta uppkaupsskilyrðum innan Þórkötlu.
Varðandi þessi stuðningsúrræði sem eru nú í efnahags- og viðskiptanefnd og vonast er til að verði afgreidd innan skamms er staðan þannig að umsagnartíminn var einungis tveir sólarhringar af því að það ríður á að reyna að klára þetta fyrir þinglok. Maður hefði haldið að á svona stuttum tíma fengjum við fáar umsagnir. Niðurstaðan varð sú að við fengum 45 umsagnir um þessi stuðningsúrræði og það er ekki hægt að segja að fólk hafi verið sérlega ánægt með þessi úrræði sem verið er að fara í og margir telja sig ekki hafa fengið úrlausn sinna mála. Við sáum í fréttum fjölmiðla um helgina að grindvísk fyrirtæki eru að gera athugasemdir við þetta frumvarp og telja að staða þeirra sé þannig að þau þurfi hreinlega uppkaup á húsnæðinu; þau séu læst inni, íbúarnir séu farnir, þau geti ekki verið að þjónusta íbúa sem eru ekki til staðar, eigendur megi ekki fara inn í fyrirtæki sín af því að þau eru á einhverju sprungusvæði. En samt á ekkert að gera fyrir þessi fyrirtæki, samt ætlar ríkisstjórnin ekki að koma til móts þau við hvað varðar uppkaup á húsnæði sem gæti gert það að verkum að þau gætu hafið starfsemi annars staðar. Mér finnst skipta miklu máli að við séum að horfa til þess að búið er að neyða þessi fyrirtæki til að stöðva starfsemi og þau hafa enga innkomu. Það eina sem er eru þessi stuðningsstyrkir sem hér er verið að ræða og fjármagna. Þau hafa enga innkomu. Það eru engir framtíðarmöguleikar. Íbúarnir koma ekki þangað í það minnsta næsta árið. Á einhvern hátt þurfum við að bregðast við. Eitt af þeim úrræðum sem nefnt var, m.a. af atvinnuteymi Grindavíkur, var að við myndum veita þessum fyrirtækjum einhvers konar leigustyrki svo að þau gætu hafið starfsemi annars staðar og þá yrði komið til móts við þau með húsaleigu. Ég myndi telja að þetta gæti gagnast ansi mörgum. Við ættum því að skoða það og vonandi mun nefndin skoða það áður en málið verður tekið út úr nefndinni.
Mig langar aðeins að nefna að þrátt fyrir að verið sé að áætla að þessir styrkir kosti þessa fjármuni þá er það bara þannig að þessi úrræði eru að deyja drottni sínum eitt af öðru. Fyrirtækin eru búin að segja upp fólki. Þau eru ekki með fólk í vinnu þannig að þau eru ekki að fá rekstrarstyrk út á starfsmenn. Síðan byggir launastuðningur á því að það sé ráðningarsamband. Hér hefur m.a. verið nefnt að Þorbjörn, sem er eitt af þessum stóru fyrirtækjum í Grindavík, hafi sagt upp 50 manns. Í landvinnslunni hjá Þorbirni eru 70 manns. Landvinnsla Þorbjarnar í Grindavík er því hreinlega leggjast af. Þá spyr maður: Þessi launastuðningur, það þarf ekkert að eyða peningum í hann af því að það er enginn á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum þegar búið er að segja upp öllu þessu fólki. Sveitarfélagið, sem reyndar hefur ekki fengið þennan launastuðning, er búið að segja upp 150 manns. Þetta er auðvitað allt á sömu bókina lært. Ráðningarsambandið er að rofna og þar af leiðandi mun ekki vera um neina útgreiðslu í gegnum launastuðning að ræða í framhaldinu.
Hitt sem mig langar að nefna að lokum er þessi sérstaki húsnæðisstuðningur sem varð vegna þessa tvöfalda kostnaðar Grindvíkinga þegar þeir þurftu skyndilega að fara að leigja annars staðar en það er ekkert víst að það verði mikið um útgjöld í gegnum hann að ræða af því að fólk er í unnvörpum að kaupa sér húsnæði og þá greiðir það ekki leigu lengur. Við sjáum þetta gerast bara þessa dagana og það er búið að vera að gerast. Það mun því fækka mjög verulega í hópi þeirra sem þurfa á húsnæðisstuðningi að halda. Einhverjir munu þurfa þess en þeir verða örfáir í framhaldinu. Þannig að þrátt fyrir að hér sé verið að skrifa inn í fjárauka einhver útgjöld vegna framlengingar á úrræðum þá held ég að það verði lítið um að þau verði nýtt. Aðstæður eru bara að breytast. Fyrirtæki eru hætt framleiðslu. Fyrirtæki eru búin að segja upp fólki. Fólk er farið út úr húsaleigu og er búið að kaupa sér húsnæði. Við erum enn þá með þennan hóp sem ég nefndi hér áðan sem eru litlu fyrirtækin í Grindavík sem sendu inn 45 umsagnir vegna þess að þau telja að þau séu ekki að fá úrlausn sinna mála. Ég átta mig ekki á því af hverju við erum að skilja þessa hópa eftir. Auðvitað kostar þetta. Þetta kostar fullt af peningum. En þegar við erum að vinna með slíka hluti þá erum við líka að fjárfesta í fólki til að það bjargi sér svo annars staðar í framhaldinu. Það kostar að þessi fyrirtæki verði gjaldþrota. Það mun bara hafa mikinn og stóran skaða í för með sér, bæði fyrir þá sem hafa lánað þessum fyrirtækjum en ekki síður fyrirtækjaeigenduna sjálfa.