154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[11:44]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að forsendur kjarasamninga eru líka vaxta- og verðbólgustig. Þessir kjarasamningar bresta ef hér er ráðist í aðgerðir sem valda þenslu í hagkerfinu. Ég ætla að fá að vitna í nefndarálit mitt þar sem ég talaði um hvað ASÍ, vinnumarkaðurinn sjálfur, segir, með leyfi forseta:

„ASÍ tekur sérstaklega fram að þótt aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum hafi verið mikilvæg hafi ekki verið ráðist í sérstakar ráðstafanir á tekjuhlið vegna aðgerðanna. „Það þýðir að aðgerðirnar ýta að óbreyttu undir þenslu í hagkerfinu, og þar með undir hærra vaxtastig. […] Engin sátt mun ríkja um að almenningur greiði fyrir aðgerðirnar með niðurskurði og lakari almannaþjónustu eða minni fjárfestingu í innviðum.““

Það eru afleiðingar af þessu. Það er ekki hægt að koma hér upp og stæra sig af því að stíga inn í ef fjármögnun fylgir ekki. Það þýðir ekki að halda þessu fram. Þú færð ekki eitthvað fyrir ekki neitt. Þessi ríkisstjórn verður að sýna ábyrgð í verki vegna þess að ef þetta veldur verðbólgu þá mun það falla á launþega landsins.