155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

skattleysi launatekna undir 450.000 kr. og 450.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega.

46. mál
[13:15]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Hér er tillaga til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 450.000 kr. Með mér á þessu frumvarpi er þingflokkur Flokks fólksins.

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2025 sem kveði á um í fyrsta lagi að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði við 450.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður með sveigðu ferli við ákveðin efri mörk, í öðru lagi að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjuáhrif vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga og í þriðja lagi að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 450.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði skatta- og skerðingarlaust.

Í greinargerð með ályktuninni segir að tillaga þessi hafi áður verið lögð fram á 151., 152., 153. og 154. löggjafarþingi, 4. mál. Hún náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju. Efni tillögunnar var áður að finna í tveimur tillögum frá 150. löggjafarþingi, 9. og 17. mál, sem síðar voru sameinaðar í eina tillögu á 151. löggjafarþingi. Tvær umsagnir bárust um málið á 154. þingi, frá ÖBÍ og Hagsmunasamtökum heimilanna. Báðir umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við framgöngu málsins.

Á undanförnum áratug hefur íslenskur efnahagur dafnað. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða íslenska ríkisins batnað og verðlag haldist stöðugt. Launaþróun hefur einnig verið jákvæð. Þetta var þegar það var. Svona er draumurinn. Svona er íslenski draumurinn. Þrátt fyrir þann árangur sem hafði náðst á árunum á undan þá sjáum við það náttúrlega að við getum ekki státað af honum eins hér í dag. Regluleg útgjöld fólks hafa aukist og húsnæðisverð hefur hækkað til muna á skömmum tíma. Þegar verðlag hækkar þá bitnar það náttúrlega óumdeilanlega verst á þeim sem höllustum fæti standa, þeim sem eru fátækastir. Þá munar um hverja einustu krónu í sínum útgjöldum. Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að standa vörð um þá sem hafa minnst á milli handanna.

Eflaust munu margir kalla þessar tillögur ótímabærar þar sem nú þurfi að halda að sér höndum í ríkisfjármálunum, enda þekkjum við öll hvernig staðan er hér í efnahagsmálum þjóðarinnar. En staðreyndin er þó sú einfaldlega að fólkið í landinu getur ekki gengið í gegnum enn eina kreppuna án þess að fá þær kjarabætur sem áttu að skila sér til þess í góðærinu. Við megum ekki skilja fátækt fólk eftir eina ferðina enn því það er það sem alltaf hefur verið gert.

Í skýrslu um dreifingu skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar 2019 kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópanna. Takið eftir: Þá lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópanna á meðan skattbyrði þeirra lægstu jókst. Þetta er nú aldeilis frábært. Þetta er frábært að lesa, finnst ykkur ekki? Kemur það einhverjum á óvart að skattbyrði þeirra sem eiga allt, geta allt, mega allt og hafa alla vasa fulla af peningum dróst saman á meðan skattbyrði þeirra sem ekkert höfðu og börðust í bökkum algerlega dag frá degi til að eiga í sig og á jókst aftur á móti á þessum tíma?

Á þessum tíma hækkaði fasteignaverð líka verulega. Síðan þá hefur hækkunin vaxið jafnt og þétt og nánast núna verið í veldisvexti og vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðasta áratug, takið eftir, hækkað úr 375 stigum í 991 stig samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur því hækkað um 164%, hvorki meira né minna, á síðustu tíu árum. Hverjir skyldu hafa efni á því að standa í því aftur? Ætli það sé láglaunamaðurinn? Ætli það sé verkamaðurinn? Ætli það séu þeir sem leynt og ljóst er verið að troða inn á leigumarkað til græðgisvæddra leigufélaga sem eiga orðið um 78% af öllu húsnæði á leigumarkaði í dag? Ætli það séu þeir? Nei, það eru ekki þeir. Þeir hafa ekki efni á því að kaupa sér eign. Þeir hafa ekki efni á að taka þátt í þessu höfrungahlaupi og þessu brjálæði sem ríkir hér á bæði fasteignamarkaði og í óráðsíu efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Þessi þróun kemur nefnilega verst niður á lágtekjufólki sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í að reyna að borga græðgisvæddu leigufélögunum leiguna til að hafa þak yfir höfuðið. Allt hitt verður að mæta afgangi, allt hitt.

Við verðum að átta okkur á því, eins og ég bendi á, að hlutfall leigjenda hefur þar af leiðandi stóraukist og ungmenni flytja nú seinna að heiman. Þau sem höfðu í rauninni ráðist í að reyna að kaupa sér þak yfir höfuðið og hlustuðu á þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, og þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, þegar ríkisstjórn hennar var að státa af stöðugleika í efnahagsmálum og að nú væri lag að fara út á fasteignamarkaðinn og taka lán í lágvaxtaumhverfinu á Íslandi, þar sem þau sáu í rauninni engar blikur á lofti um það að nokkur breyting yrði á þeim gæðum til ófyrirséðrar framtíðar — jú, unga fólkið okkar dreif sig út á markaðinn og keypti sér fasteignir í massavís. Þá fór náttúrlega að skila sér nákvæmlega það sem er búið að vera að byggja upp hér á ári í mörg ár, húsnæðisskortstefnan sem hefur verið rekin hér árum saman. Nú er þetta allt að koma heim, lóðaskortstefnan og húsnæðisskortstefnan. Nú er þetta allt að koma heim. Nú er það húsnæði sem er orðið alger munaður að geta komið sér í og margir hverjir neyðast til þess að leita sér úrræða annars staðar, eins og t.d. á óíbúðarhæfum plönum hér uppi á Höfða í sínum húsbílum og tjaldvögnum. Afleiðingarnar hafa birst hérna. Hvað varð um þetta unga fólk sem réðst í það að kaupa sér eignir á þessum tíma? Jú, núna hefur það verið að selja eignirnar unnvörpum þannig að þegar er verið að tala um að það hafi fjölgað svona eignum á markaði, fyrir utan þá hundraða milljóna eignirnar sem eru hérna niðri í miðbæ og 101 í þéttingarreitnum fræga, þar sem millarnir eru að kaupa sér eignir, fyrir utan það er unga fólkið okkar í raun og veru búið að vera að selja eignirnar sínar í „lange baner“ og flytja aftur heim til pabba og mömmu vegna þess að það ræður ekki við það brjálæði sem ríkir á fasteignamarkaðnum.

En við erum hér að tala um að sífellt berast fréttir núna, núna í dag berast fréttir af ofurkaupi stjórnenda ýmissa fyrirtækja og yfirmenn ríkisstofnana hafa hlotið umtalsverðar launahækkanir. Lægstu tvær tekjutíundirnar, sem voru með minna en 450.000 kr. á mánuði í tekjur á síðasta ári, skipta orðið þúsundum og aftur þúsundum einstaklinga. En á sama tíma og allt þetta er að gerast eru meðalmánaðarlaun 935.000 kr.

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu ár um hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa, m.a. verið lagðar fram tillögur um aukna þrepaskiptingu eignarskatta, lækkun skatthlutfalls og hærri skattleysismörk. Auk framangreinds hefur einnig verið fjallað um að hækka skattleysismörk og miða við fallandi persónuafslátt. Fallandi persónuafsláttur felur það einfaldlega í sér að eftir að skattleysismörkum er náð lækkar persónuafsláttur í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur að lokum alveg niður við ákveðin efri mörk. Þannig á sér stað tilfærsla á skattbyrðinni frá þeim tekjuháu til þeirra sem þurfa raunverulega á aðstoðinni að halda. Ég get persónulega alveg fórnað mínum persónuafslætti til fátæku fjölskyldunnar sem þarf á honum að halda.

Þessi stéttaskipting sem rekin er hér er gjörsamlega komin út yfir öll mörk, öll velsæmismörk. Við erum að leggja hér til núna — ég byrjaði á því að mæla fyrir máli þar sem við óskuðum eftir 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Því var hafnað. Það fór í ruslið. Síðan varð það 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust og fór í ruslið. Í fyrra var það 400.000 skatta- og skerðingarlaust og það fór í ruslið. Af hverju eru það 450.000 í ár skatta- og skerðingarlaust? Jú, vegna þess að vísitalan og veldisvöxturinn í útgjöldum heimilanna og erfiðleikarnir sem fjölskyldurnar okkar sem minnstar tekjurnar hafa eru að glíma við — jú, vegna þess að við þurfum raunverulega að aðstoða þessa einstaklinga.

En veruleikafirringin er svo algjör að þegar það eru slegnar inn einhverjar ákveðnar forsendur í reiknivél Tryggingastofnunar og útkoman er sú að einstæð móðir með tvö börn sem hefur enga aðra framfærslu en með börnunum sínum og greiðslur frá almannatryggingum — hún átti að vera að fá útborgað hátt í 800.000 kr. eftir skatt, bara þingmannalaun, takk fyrir, ekkert vandamál og viðkomandi starfsmaður Sjálfstæðisflokksins trúði því í alvöru, kveikti á engum perum um það hvort þetta væri mögulegt. Er mögulegt að þessi einstaklingur sé með langt yfir milljón á mánuði og þegar er búið að taka af henni skatta þá sé hún að fá útborgaðar hátt í 800.000 kr.? Og einstaklingur í þessum útreikningi sem var eingöngu einn í heimili með greiðslur frá Tryggingastofnun var samkvæmt útreikningum þessa ágæta manns að fá útborgaðar hátt í 700.000 kr. á mánuði eftir skatt. Ég held að flokknum sem hann vinnur hjá ætti að vera í lófa lagið að taka utan um þetta lítilræði, 450.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, til að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp okkar að halda. Þeim ætti að vera í lófa lagið að gera það.

En við erum líka búin að heyra það hvernig er verið að grobba af þessu þriðja skattþrepi, hvernig fólkið okkar sem þarf á hjálpinni að halda hefur hagnast mest á þessu þriðja skattþrepi sem var sett hér í löggjöfina í tíð hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. En þeir gleyma alltaf að bæta við að þeir eru sjálfir að þiggja þetta þriðja skattþrep. Þeir gleyma alltaf að segja: Þetta var aldrei neitt jöfnunartæki. Þeir segja að þeir sem eru tekjulægstir beri í raun mest og best úr býtum fyrir þessa lækkun á skatti. En ég er að gera það líka, allir á ofurlaunum eru að gera það líka, líka forstjórarnir sem eru með 20 milljónir á mánuði. Allir eru að nýta sér þetta þriðja skattþrep sem eingöngu hefði átt að nýtast þeim sem mest og gerst þurftu á að halda. Þvílík forgangsröðun fjármuna hér. Þetta er svo með ólíkindum að maður er að verða algjörlega heilalaus á því að reyna að ná utan um það hvernig þessir útreikningar geta flætt hérna út úr þessum hæstv. einstaklingum bara í algjöru rugli.

Í september 2018 kom út skýrslan Jöfnuður í skattkerfinu. Hún var unnin fyrir þingflokk Flokks fólksins. Þar var að finna útreikninga á kostnaði ríkissjóðs af því að hækka skattleysismörkin upp í 300.000 eins og var verið að berjast fyrir á þeim tíma og taka upp þennan fallandi persónuafslátt. Miðað við það þá áttu í rauninni engir þeir sem voru komnir með meðallaun plús, yfir 970.000 kr. á mánuði, að fá persónuafslátt vegna þess að Flokkur fólksins vill og mun og berst fyrir því að færa fjármuni til í kerfinu þannig að þeir ríku verði ekki alltaf ríkari og þeir fátæku fátækari. Sú stefna sem rekin er hér af þessari hagsmunagæsluríkisstjórn fyrir þá sem eiga allt í samfélaginu er gjörsamlega búin að ganga sér til húðar. Ég get ekki beðið eftir því að losna við þessa ríkisstjórn, frú forseti, þannig að ég segi: Það verður athyglinnar virði að sjá hvernig í rauninni kosningaloforðin koma og flæða inn. Það er þegar farið að bera á því, það er þegar farið aðeins að skoða t.d. hvernig Flokkur fólksins ætli að fjármagna þá tugi milljarða sem það kostar að koma okkar efnaminnsta fólki upp í 450.000 og hætta að skattleggja fátækt fólk. Hvað kostar það ríkissjóð að hætta að skattleggja fátækt fólk, sem er í raun og veru alger þjóðarskömm? Þá kemur annað mál sem ég mun fljótlega mæla fyrir sem er að við viljum sækja 70 milljarða kr. á hverju einasta ári í lífeyrissjóðakerfið sem á orðið vel á áttunda þúsund milljarða og getur hæglega, miðað við að það flæða inn í þessa sjóði yfir 300 milljarðar á ári, fylgt því staðgreiðslukerfi sem almennt er viðurkennt og hefur verið tekið upp á Íslandi fyrir langa löngu síðan og við öll hin erum látin undirgangast.