155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolefnis í efnahagslögsögunni.

60. mál
[13:41]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að segja hæstv. forseta það tvisvar, en það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum. Það neyðarástand birtist hins vegar með ýmsum hætti. Annars vegar er um að ræða það sem við gætum kallað eðlisfræðilegt neyðarástand, þróun sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum, að vinnsla og bruni jarðefnaeldsneytis öðru fremur hefur valdið því að magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum er að aukast. Þetta veldur hlýnun sem veldur auknum öfgum í veðurfari og getur haft geigvænlegar afleiðingar fyrir lífið á jörðinni. En pólitíska neyðarástandið er kannski enn alvarlegra, það aðgerðaleysi sem einkennir viðbrögð flestra stjórnmálamanna, það aðgerðaleysi sem einkennir viðbrögð flestra ríkisstjórna. Það er kannski við hæfi að ræða þessi mál hér í þingsal á þessum degi. Það var einmitt þennan dag árið 2016 sem Alþingi samþykkti að fullgilda Parísarsamkomulagið, alþjóðlegan samning þar sem ríki heims sammæltust um að halda hlýnun jarðar innan 2° frá því fyrir tíma iðnbyltingarinnar en helst að hlýnun færi ekki fram úr 1,5°.

Í orði er nefnilega pólitískur samhljómur. Vandinn er viðurkenndur. Markmiðið er fest í alþjóðasamningi. Pólitíska neyðarástandið felst í því að þessum meinta vilja er ekki hrint nægjanlega skýrt í framkvæmd. Á vissan hátt er kannski hægt að skilja þau stjórnmálaöfl sem hægt vilja fara vegna þess að margar aðgerðir sem þarf að grípa til kalla á miklar samfélagsbreytingar, kalla á það að við getum ekki lengur viðhaldið efnahagskerfi sem gengur út á ósjálfbæra nýtingu á auðlindum. Við getum ekki viðhaldið framleiðsluferlum þar sem kostnaður sem umhverfið ber er hvergi endurspeglaður í ferlinu, ekki frekar en kostnaður sem verkafólk víða um lönd ber er endurspeglaður en það er kannski annað mál.

Frumvarpið sem við ræðum hér í dag snýst hins vegar um eina af einföldu og auðveldu ákvörðununum. Þetta frumvarp snýst um það að á Íslandi sé sett í lög að hætta að leita að olíu. Það ætti að vera nokkuð einfalt fyrir land þar sem var leitað að olíu um nokkurra ára skeið hér fyrr á öldinni og aldrei hefur farið fram nein vinnsla. Þetta samtal er miklu flóknara í löndum víða í kringum okkur þar sem er raunverulegur olíuvinnsluiðnaður þar sem samtalið þarf að snúast um það hvernig sé hægt að ná utan um það starfsfólk sem myndi tapa starfi við það að snúið yrði af braut vinnslu olíu. Réttlátu umskiptin þar felast m.a. í því að ná utan um verkafólkið og koma því í önnur og grænni störf. Hér er engu slíku fyrir að fara. Á Íslandi er ekki verið að leita að olíu og, að því er stjórnvöld segja, ekki stefnt að því heldur. Það er þess vegna ákveðið umhugsunarefni að þetta frumvarp hafi fengið hér nokkra umganga í gegnum þingsal án þess að hafa náð fram að ganga vegna þess að þetta er í rauninni það sem við myndum kalla á slæmri íslensku, með leyfi forseta, „no brainer“.

Hér rétt fyrir síðustu kosningar, vorið 2021, var forveri þessa frumvarps til umfjöllunar hér í þingsal. Það frumvarp var afgreitt úr nefnd en meiri hlutinn einhverra hluta vegna treysti sér ekki til að mæla með því að málið yrði samþykkt. Í áliti meiri hlutans var ekki einu sinni hægt að lesa afstöðu stjórnarflokkanna til þess hvort þau væru fylgjandi hugmyndum um mögulega olíuleit framtíðar eða ekki. Málinu var vísað til ríkisstjórnar og við nokkur mótmæli margra úr stjórnarandstöðunni og við nokkra undrun fólks út í samfélaginu. Þetta varð til þess að þessar hugmyndir náðu miklu flugi í almennri umræðu og bann við olíuleit varð að einu af þeim málum sem rædd voru í aðdraganda kosninganna 2021 af miklu meiri alvöru en kosningarnar áður. Það er nokkuð ljóst að almenningur vildi þessar hugmyndir úr sögunni.

Þess vegna gladdi okkur nokkuð, fólkið sem stóð að þessu frumvarpi vorið 2021, að í endurnýjuðum sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna stóð skýrum orðum að ríkisstjórnin myndi ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Það var hins vegar ekki alveg ljóst hvernig þessu markmiði yrði náð en eftir nokkrar fyrirspurnir til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kom í ljós að hans fyrsta tillaga var að leggja fram frumvarp líkt því sem við ræðum hér í dag. Það leit dagsins ljós á 152. löggjafarþingi en kom svo seint fram að ekki náðist að mæla fyrir því. Það var lagt fram, ef ég man rétt, í maí, rétt fyrir þingfrestun að vori.

Þá leið sumarið og vonin sem hafði kviknað þarna veturinn áður slokknaði þegar leið á næsta löggjafarþing, vegna þess að framlagning frumvarps um bann við olíuleit var aftur boðuð í þingmálaskrá 153. löggjafarþings, annars vetrar núverandi ríkisstjórnar. En þetta skiptið leit frumvarpið ekki dagsins ljós. Síðan kom að löggjafarþinginu þar á eftir, sem er þá síðasti vetur, og á þingmálaskrá þess vetrar var ekkert minnst á frumvarp um bann við olíuleit. Síðan kom alveg skýrt fram í svari sem ráðherra gaf við fyrirspurn þess sem hér stendur á síðasta löggjafarþingi að hann teldi ekki þörf á frekari aðgerðum til að framfylgja þessu ágæta markmiði stjórnarsáttmálans heldur einfaldlega að láta það standa í stjórnarsáttmála. Þannig að engin frumvörp voru fyrirhuguð, engar reglugerðarbreytingar, engin umburðarbréf til leyfisveitinga stofnana, ekki neitt, stjórnarsáttmálinn ætti að duga.

Þetta kom nokkuð á óvart vegna þess að ríkisstjórnin hefur náð að baða sig í ansi jákvæðu ljósi á alþjóðavettvangi í kringum þessa litlu línu í stjórnarsáttmálanum. Ég var t.d. viðstaddur fund evrópskra græningja í Kaupmannahöfn fyrir, hvort það eru tvö eða þrjú ár síðan, þegar þáverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hélt þar erindi. Þegar hún fór að telja upp hvað sér þætti ríkisstjórn sín vera að gera gott nefndi hún þessa línu úr stjórnarsáttmálanum og fékk standandi lófatak við því vegna þess að fólk sem er að berjast fyrir loftslagsréttlæti, fólk sem er að berjast fyrir því að ríkisstjórnir heims taki til málanna og sýni í verki þann vilja sem er búið að leggja fram í Parísarsáttmálanum, fólk sem vill sjá græn stjórnmál, vill sjá ríki stíga fram fyrir skjöldu og banna olíuleit og segja með skýrum hætti að allur sá iðnaður heyri til fortíðar. Vandinn er að stjórnarsáttmálar eru ekki lög. Hér á Alþingi setjum við lög og ef ríkisstjórnin vill baða sig í þessu græna ljósi, sem hún vill augljóslega miðað við hvernig þau koma fram á alþjóðavettvangi, þá þarf að festa þennan vilja í lög.

Kannski aðeins varðandi ástæðuna fyrir því að þetta þurfi. Ef við horfum aðeins út fyrir landsteinana, út fyrir íslenska lögsögu, þá er staðan einfaldlega sú að það er of margt í pípunum. Þau ríki heims sem framleiða nú þegar olíu stefna á að framleiða of mikið af henni. Metnaði þeirra í olíuframleiðslu er ekki hægt að koma heim og saman við metnað þeirra í loftslagsmálum. Alþjóðaorkumálastofnunin gaf nýlega út svokallaðan vegvísi yfir leiðina í átt að kolefnishlutleysi, með leyfi forseta, „net zero by 2050“. Nú er Alþjóðaorkumálastofnunin ekki endilega grænasta alþjóðastofnun í heimi, þetta er ekki stofnun sem er hægt að saka um að vera einhverjir umhverfishippar, en í þessum vegvísi segir að það þurfi bara að hætta strax að fjárfesta í nýrri vinnslu jarðefnaeldsneytis ef markmið um kolefnishlutleysi á að nást. Stofnunin áætlaði að þau verkefni sem voru þegar komin af stað árið 2021 myndu nægja til að uppfylla fyrirsjáanlega eftirspurn til allrar framtíðar. Því til viðbótar er hægt að benda á skýrslu sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur reglulega gefið út, síðast árið 2023, sem er kölluð, með leyfi forseta, Production Gap Report. Þar er bent á að það stefni í töluverða offramleiðslu og offjárfestingu. Umhverfisstofnunin er búin að sópa saman áformum stærstu olíuframleiðsluríkja heims til að kortleggja stöðuna og miðað við það sem stofnunin náði utan um, ef allar hugmyndir þessara stærstu framleiðsluríkja ná fram að ganga, verður framleiðslan árið 2030 um 115% umfram það sem er hægt að leyfa ef við ætlum að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5° hlýnun og 69% meiri en samræmist markmiðinu að halda hlýnun innan 2°.

Það er augljóst að hér fer ekki saman hljóð og mynd. Hér fer ekki saman stefna ríkja í loftslagsmálum og stefna ríkja í nýtingu jarðefnaeldsneytis. Það sem land eins og Ísland getur gert er að skipa sér með skýrum hætti í hóp þeirra ríkja sem átta sig á því að þetta fer ekki saman og eru að benda á það. Með því að ákveða hér að banna olíuleit getum við styrkt alþjóðlega baráttu gegn olíuvinnslu og -leit og þannig ýtt ríkisstjórninni áfram í að nýta rödd sína á alþjóðavettvangi til þess að taka virkan þátt í þessu. Með þessu gætu íslensk stjórnvöld líka farið að taka þátt í samstarfi sem miðar að alþjóðlegu banni við olíuleit og nýrri olíuvinnslu. Hérna erum við náttúrlega á dálítið undarlegum stað. Við erum með ríkisstjórn sem er með þennan stjórnarsáttmála þar sem þau segja að þau ætli ekki að gefa út ný leyfi til olíuleitar en samt gat umhverfisráðherra Íslands t.d. ekki verið einn af þeim sem komu að stofnun alþjóðlegs bandalags, alþjóðlega samstarfinu BOGA, sem við köllum metnaðarbandalag, Beyond Oil & Gas Alliance heitir það, með leyfi forseta. Það var stofnað á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir þremur árum undir forystu Danmerkur og Kosta Ríka. Íslensk stjórnvöld geta heldur ekki verið í hópi þeirra sem standa að baki alþjóðasamningi um bann við frekari útbreiðslu jarðefnaeldsneytis, með leyfi forseta, „Fossil Fuel Non-Proliferation Treaty“, né heldur geta íslensk stjórnvöld átt hreinskiptið samtal við nágranna okkar í Noregi sem eru í ruglinu þegar kemur að olíuleit og olíuvinnslu. Þar eru mjög mikil áform um aukna vinnslu. Þar er sífellt verið að bjóða út tugi rannsóknar- og vinnsluleyfa eins og enginn endir sé í sjónmáli. Hér þarf að vera sá vinur sem til vamms segir gagnvart Norðmönnum.

Aðeins um frumvarpið sjálft. Þetta er nokkuð langt frumvarp af aumu þingmannafrumvarpi að vera, komið upp í 12 efnisgreinar. Það helgast af því að hér er verið að vinda ofan af öllum þeim lagagreinum í ýmsum lögum þar sem fótspor hugmynda um olíuleit og olíuvinnslu er að finna. Fyrir vikið er snert á sjö ólíkum lögum og fyrstu greinarnar fjalla í rauninni allar um það að taka út lagabókstaf sem verður úreltur með því að við bönnum olíuleit. Síðan er í lögum um loftslagsmál ríkisstjórninni falið að leitast við að taka þátt í þessu alþjóðlega samstarfi sem ég nefndi áðan, alþjóðlegu samstarfi sem miðar að alþjóðlegu banni við olíuleit og nýrri olíuvinnslu. Þar geta íslensk stjórnvöld með samþykkt þessa frumvarps tekið sér nokkuð skýrt forystuhlutverk. Síðan er í 12. gr. lagt til að bæta nýju bráðabirgðaákvæði við lög um náttúruvernd um að ráðherra skuli friðlýsa Drekasvæðið svokallaða gagnvart olíuleit og olíuvinnslu. Það ætti nú bara að friðlýsa það alveg — nei, leyfum nefndinni að takast á við þetta. Hér er lagt til í bráðabirgðaákvæðinu að kanna annað verndargildi svæðisins og láta friðlýsinguna endurspegla það sem er í raun og veru þarna á því svæði. Þetta er hugmynd sem birtist í meistaraverkefni í sjálfbærniarkitektúr þar sem Sigrún Perla Gísladóttir var búin að kortleggja hafsvæðið í kringum Ísland og leggja til aðferðafræði til að ná utan um þær alþjóðlegu skuldbindingar Íslands að friðlýsa 30% í hafi fyrir árið 2030. Stjórnvöld virðast ekki reikna með því að ná þessu vegna þess að upplýsingar skortir en í þessari meistararitgerð náðist að ná utan um aðferðafræði við að flagga svæðum sem af ýmsum ástæðum eru með hátt verndargildi. Eitt af þeim svæðum var Drekasvæðið, vettvangur olíuleitarævintýranna hér fyrr á öldinni. Fyrir utan lífríki og náttúru sem þar er væri slík friðlýsing ákveðinn minnisvarði um þá afstöðu Íslands að ætla ekki að leita olíu. Það er lagt til að ráðherra ljúki þeirri friðlýsingu fyrir alþjóðlegan dag hafsins, ef fólk undrar sig eitthvað á því að 8. júní sé valinn sem endadagsetning þar.

Ég held ég hafi hér náð að gera grein fyrir helstu efnum frumvarpsins. Ég ítreka og endurtek að hér er mál sem ríkisstjórnin sjálf hefur á einum tímapunkti á þessu kjörtímabili lagt til að sé gert að lögum, en hefur síðan bakkað frá þeirri afstöðu. Það bendir einfaldlega til þess að ríkisstjórninni sé um megn að taka þetta skref, þetta sjálfsagða og einfalda skref, sem þýðir að Alþingi sjálft þarf einfaldlega að taka frumkvæði í málinu. Ef ríkisstjórnina skortir kraft til að hrinda í framkvæmd raunverulegu banni við olíuleit þarf einfaldlega að koma til kasta þingsins.