stéttarfélög og vinnudeilur.
Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, og fjallar frumvarpið um stöðu og valdheimildir ríkissáttasemjara.
Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að heimildir ríkissáttasemjara verði efldar með það að markmiði að bæta vinnubrögð og skilvirkni við kjarasamningsgerð og tryggja rétt félagsmanna samningsaðila til að greiða atkvæði um miðlunartillögu.
Í öðru lagi er lagt til að sjálfstæði ríkissáttasemjara verði áréttað sérstaklega í lögum, en í gildandi lagaumhverfi er það vafa undirorpið hvort embætti ríkissáttasemjara sé í raun sjálfstætt stjórnvald eður ei.
Meginatriði frumvarpsins er að framlagning miðlunartillögu hafi þau réttaráhrif að samningsaðilum sé óheimilt að hefja verkbönn eða verkföll skv. II. kafla í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Tilgangur frumvarpsins er að koma í veg fyrir að samningsaðilar geti virt lögmæta miðlunartillögu ríkissáttasemjara að vettugi og þannig svipt félagsmenn sína réttinum til að taka afstöðu til miðlunartillögunnar, sem þeim er tryggður í 2. mgr. 29. gr. laganna. Telji samningsaðili að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé ekki í samræmi við lög er honum ávallt heimilt að bera lögmæti hennar undir dómstóla. Þegar slíkt mál hefur verið höfðað er réttaráhrifum miðlunartillögunnar frestað þar til skorið hefur verið úr um lögmæti tillögunnar fyrir dómstólum.
Herra forseti. Samkvæmt núgildandi 27. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er ríkissáttasemjara heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu í þeim tilvikum þegar samningsumleitanir hans hafa ekki borið árangur. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda til samþykkis eða synjunar. Sé miðlunartillaga ekki felld í slíkri atkvæðagreiðslu felur hún í sér lausn vinnudeilu sem hefur almenn áhrif á réttindi og skyldur aðila á vinnumarkaði. Lögin gera kröfu um að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skuli fara fram, sbr. skýrt orðalag 2. mgr. 29. gr. Hins vegar kveða lögin ekki á um neinar heimildir ríkissáttasemjara til að tryggja að atkvæðagreiðslan fari fram líkt og lögin mæla fyrir um. Því geta samningsaðilar í núverandi lagaumhverfi einfaldlega neitað að framkvæma atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu og á sama tíma neitað að afhenda ríkissáttasemjara þau gögn sem embættið þarf til að hægt sé að framkvæma atkvæðagreiðsluna, þ.e. að ríkissáttasemjari geti framkvæmt atkvæðagreiðsluna sjálfur. Þessir vankantar á lögunum komu berlega í ljós í kjölfar ágreinings ríkissáttasemjara og Eflingar – stéttarfélags snemma árs 2023.
Í greinargerð með frumvarpinu er það mál nánar rakið en í stuttu máli hafði ríkissáttasemjari í þeirri deilu lagt fram miðlunartillögu um lausn á þessari vinnudeilu Eflingar – stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins en þegar á hólminn var komið neitaði stéttarfélagið einfaldlega að afhenda tilskilin gögn, kjörskrána, til að ríkissáttasemjari gæti framkvæmt atkvæðagreiðslu um tillöguna. Málið fór til dómstóla og úrskurðuðu bæði Landsréttur og Félagsdómur um málið. Í stuttu máli er staðan sú að í kjölfar þessara tveggja úrskurða er ljóst að í gildandi lagaumhverfi getur samningsaðili með ólögmætum hætti virt að vettugi ákvörðun ríkissáttasemjara og komið í veg fyrir að greidd verði atkvæði um lögmæta miðlunartillögu. Þar með er sá lögbundni réttur ríkissáttasemjara til lítils hafi hann ekki heimild til að framfylgja ákvörðun sinni um atkvæðagreiðslu. Ákvæði III. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur um hlutverk ríkissáttasemjara og tilgang miðlunartillögu ná því ekki markmiði sínu. Það er augljóst. Verði frumvarp þetta að lögum verður tryggt að úrræði ríkissáttasemjara virki í framkvæmd og að samningsaðilar geti ekki komið sér undan skyldum með því að aðhafast ekki neitt eða sýna af sér tómlæti.
Herra forseti. Þessu samfara er rétt að koma inn á það sem er líka fjallað um í greinargerðinni og snýr að verkfallsrétti stéttarfélaga. Það liggur fyrir og er ljóst að verði frumvarpið að lögum mun framlagning miðlunartillögu óhjákvæmilega fela í sér visst inngrip í verkfallsrétt stéttarfélaga sem nýtur verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Af því leiðir að allar takmarkanir á verkfallsrétti stéttarfélaga verða að grundvallast á almannahagsmunum. Þá er rétt að geta þess, herra forseti, að frumvarpið takmarkar einungis rétt stéttarfélaga til verkfalla frá þeim tíma er miðlunartillaga er lögð fram þar til atkvæðagreiðslu um hana lýkur. Það er einungis sá tími sem um er að ræða. Við framlagningu miðlunartillögu yrði lögð með skýrum hætti skylda á stéttarfélög til þess að efna til atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Við slíkar aðstæður er ekki tilefni til þess að hefja eða viðhalda verkfalli, þar sem alls óvíst er hvort skilyrði laganna eins og þau eru núna um heimild til verkfalla eigi við eftir að atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu lýkur, því að það er alveg ljóst að vinnudeilu er lokið ef miðlunartillaga sáttasemjara er samþykkt. Réttindi stéttarfélaga sæta því takmörkunum í stuttan tíma samkvæmt frumvarpinu, eða að hámarki í tvær vikur. Eðlilegt er að líta svo á að vinnudeila sé ekki virk, í það minnsta tímabundið, þegar ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu, enda væru allar vinnustöðvanir á því tímabili með öllu tilgangslausar ef miðlunartillagan er samþykkt.
Við mat á nauðsyn þess að takmarka verkfallsréttinn eftir framlagningu miðlunartillögu ber að líta til þess að miðlunartillaga er til að leysa vinnudeilur. Sé engin vinnudeila fyrir hendi er alveg skýrt samkvæmt lögunum að aðilum vinnumarkaðarins er óheimilt að grípa til vinnustöðvunar. Með því að láta hjá líða að greiða atkvæði um miðlunartillögu eru aðilar vinnumarkaðarins með ólögmætum hætti að standa í vegi fyrir því að vinnudeila sem er fyrir hendi verði leyst.
Aðalatriðið er hér að frumvarpið felur hvorki í sér fordæmalausa né veigamikla takmörkun á verkfallsréttinum heldur er takmörkunin afmörkuð við mjög sérstakar aðstæður og stuttan tíma og á sér mjög málefnaleg rök í ljósi ákvæða um miðlunartillögu ríkissáttasemjara og tilgangs hennar. Auk þess er það í höndum stéttarfélagsins sjálfs að aflétta takmörkunum, eins og þeim er skylt að gera. Mikilvægt er að tryggja að kjaraviðræður einstakra hópa dragist ekki óhóflega á langinn sem getur eðli málsins samkvæmt haft gríðarlega neikvæð áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu er eitt mikilvægasta úrræðið sem embættið hefur til að leysa vinnudeilu. Framangreindir almannahagsmunir, sem frumvarpinu er ætlað að vernda, vega því þyngra en hagsmunir stéttarfélaga af því að geta boðað til verkfalls frá framlagningu miðlunartillögu ríkissáttasemjara þar til atkvæðagreiðslu um hana lýkur.
Líka verður að geta þess að í gildandi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru nú þegar takmarkanir á því lögum samkvæmt hvenær hægt er að hefja vinnustöðvun eins og talið er upp í 14., 15., 16. og 17. gr. laganna. Það er líka alveg ljóst ef horft er til eðlis þess hlutverks sem ríkissáttasemjari hefur samkvæmt lögunum að í því felst ákveðin ábyrgð og skylda þegar aðilar á vinnumarkaði, samningsaðilar, koma sér ekki saman um lausn á vinnudeilu og vísa máli til ríkissáttasemjara. Það er ekki svo, herra forseti, að í því felist eingöngu að hafa huggulega aðstöðu til fundarsetu og kaffi og kleinur ef svo ber undir. Því fylgir ábyrgð að lögum að vísa deilu til ríkissáttasemjara. Hann hefur það hlutverk að lögum að leysa úr vinnudeilu í þágu almennings og almannahagsmuna í landinu. Þess vegna er augljóst, herra forseti, að það úrræði sem ríkissáttasemjari hefur, að leggja fram miðlunartillögu og leysa þannig vinnudeilu, verður að virka. Það verður að virka að lögum. Ríkissáttasemjari verður að geta látið framkvæma atkvæðagreiðslu um tillöguna og er það líka einfaldlega réttur félagsmanna í stéttarfélagi að fá að greiða atkvæði um miðlunartillögu, að það geti ekki verið þannig að forsvarsmenn stéttarfélags geti tekið þann rétt af félagsmönnum að greiða atkvæði um miðlunartillögu.
Herra forseti. Örstutt um seinni hluta þeirra breytinga sem boðaðar eru í frumvarpinu en þær lúta að sjálfstæði ríkissáttasemjara. Samkvæmt 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur skal þess gætt við skipan ríkissáttasemjara að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda. Það er auðvitað lykilatriði að ríkissáttasemjari sé óvilhallur í málum launafólks og atvinnurekenda. Í ljósi þess að stjórnvöld eru ekki einungis handhafar framkvæmdarvalds heldur einnig atvinnurekendur og semja við fjölda stéttarfélaga um kaup og kjör opinberra starfsmanna getur það tæplega samrýmst hlutleysisskyldu ríkissáttasemjara að hann lúti boðvaldi ráðherra. Tryggja þarf að enginn vafi sé uppi um stjórnsýslulega stöðu ríkissáttasemjara í lögum en í núgildandi lögum er hvergi mælt fyrir um með skýrum hætti að ríkissáttasemjari sé sjálfstæður gagnvart ráðherra. Nægir þá að vísa í álit umboðsmanns Alþingis frá 2023 þar sem kemur fram að ekki sé unnt að draga fortakslausa ályktun um að ríkissáttasemjari sé sjálfstætt stjórnvald eða að hvaða marki ráðherra hafi þá heimildir til yfirstjórnar og eftirlits með honum. Með hliðsjón af mikilvægi þess að ríkissáttasemjari sé í reynd óvilhallur í málum launafólks og atvinnurekenda er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um með skýrum hætti að ríkissáttasemjari taki ekki við fyrirmælum frá öðrum.
Herra forseti. Að framansögðu virtu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu. Vil ég geta þess að meðflutningsmenn mínir á þessu frumvarpi eru eftirtaldir hv. þingmenn: Jón Gunnarsson, Hildur Sverrisdóttir, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir og Birgir Þórarinsson.