155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

stéttarfélög og vinnudeilur.

24. mál
[14:20]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og flutningsmanni þessarar góðu tillögu, Teiti Birni Einarssyni, fyrir að fara yfir þetta mál. Eins og kom fram í máli þingmannsins eru flutningsmenn allir þingmenn þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir tillöguna sjálfa og hvað felst í henni og ég tel kannski ekki ástæðu til að endurtaka það. En mér finnst rétt, herra forseti, að við stígum aðeins eitt skref til baka í þessari umræðu, tökum aðeins stóru myndina um hvað hér um ræðir eða öllu heldur af hverju þessi tillaga skiptir máli.

Í þeirri stóru mynd erum við öll hér og t.d. öll heimili í landinu vissulega meðvituð um verðbólgu í landinu og háa vexti. Eins og við vitum eru það þrír armar hagstjórnarinnar sem verða að koma saman til að ná böndum á verðbólgu, það er sjálfstæður seðlabanki með sína peningastefnu, það eru ríkisfjármálin og svo er það vinnumarkaðurinn. Og sá angi máls skiptir bara heilmiklu máli í þessari umræðu. Ég tel því rétt að við förum aðeins yfir hið íslenska vinnumarkaðsmódel og þá kannski sérlega hvað það er um margt mjög ólíkt því sem við þekkjum á Norðurlöndunum þar sem verður að viðurkennast að þeirri umgjörð fylgir meiri skilvirkni og meiri agi, má segja, til að ná fram þeim tilgangi sem við verðum að ná til þess að allir þessir mismunandi vinklar inn í þetta jafnvægi náist saman.

Íslenska vinnumarkaðslíkanið er því miður ósjálfbært. Það einkennist af miklum fjölda stéttarfélaga, sem flest eru fámenn, og miklum fjölda kjarasamninga sem jafnvel geta náð til örfárra og jafnvel eins starfsmanns í einstökum tilvikum. Það gefur augaleið að þetta er umfangsmeira en gagn er að. Annar veikleiki í íslenska vinnumarkaðslíkaninu er að það þarf að styrkja til muna samninganefndir ríkis og sveitarfélaga. Í Svíþjóð er til að mynda búið að aftengja pólitík og ráðuneyti frá kjaraviðræðum. Þar hefur sérstakri stofnun verið falið að sjá um gerð og eftirfylgni kjarasamninga milli ríkis og stéttarfélaga. Þetta er eitthvað sem ég held að við ættum að skoða.

Kjarasamningsumhverfið er hreint út sagt flókið og óskilvirkt, því miður, og á skjön við hin Norðurlöndin. Það er hvergi hærra hlutfall launafólks í stéttarfélagi en á Íslandi eða rúmlega 90%. Árlegar launahækkanir og verðbólga hér á landi eru að jafnaði þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum og vaxtastig margfalt hærra að jafnaði. Ef vilji er til að standa vörð um störf og stöðugleika þarf einfaldlega að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga, sem þessi tillaga sem hér er verið að mæla fyrir er mikilvægur liður í.

Grunnurinn er, og líka nauðsynlegt, að horfa til undirliggjandi verðmætasköpunar líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þar þarf að ganga út frá stöðu útflutningsgreina við samningagerð. Útflutningsgreinarnar gefa merki, ef svo má segja, sem felst í því að samkomulag er um það á vinnumarkaði að samningsaðilar í útflutningsgreinum gera fyrstu kjarasamningana og önnur svið fylgja svo á eftir. Þannig helst ákveðið jafnvægi og þannig er staðinn vörður um samkeppnishæfni þjóðarbúsins í heild sem stuðlar að betri lífskjörum og meiri kaupmætti í stað óreiðu og því miður upplausnar eins og hefur of oft tíðkast hér á landi.

Fyrir um áratug var sameiginlegur skilningur á því hjá aðilum vinnumarkaðar að breytingar yrðu að eiga sér stað á kjarasamningsumhverfinu. Sú vinna hófst en þeirri vinnu lauk því miður án niðurstöðu vegna ósamstöðu um hvaða leið ætti að fara — og það er miður. Aðilar vinnumarkaðarins gegna mikilvægu hlutverki í almennri hagstjórn. Undan því er ekki vikist. Það er lögmál. Ábyrgðin er mikil í þessu samhengi hlutanna öllu saman. Aðilar vinnumarkaðar verða hreinlega að sýna ábyrgð því að annars er stefnu ríkisfjármála og peningamála ógnað. Það er þetta samspil sem verður að vinna saman og vinnumarkaðslíkanið er algjör grunnur að því að þetta nái fram því að ef það er ekki jafnvægi þar, ef allir armar hagstjórnar ganga ekki í takt, er ekki hægt að stuðla að stöðugu verðlagi og lágum vöxtum. Þar, eins og ég hef imprað á, þarf að horfa til margra þátta en mikilvægt verkfæri í þeirri vegferð er þessi tillaga sem hér hefur verið mælt fyrir. Hún mun gera gagn og vera skref í rétta átt, að við náum betri tökum á skilvirkni þessa líkans sem er okkur svo nauðsynlegt og hefur svo mikilvægt hlutverk. Þannig að ég fagna þessari tillögu og ítreka að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins styður þessa tillögu og ég vona að hún nái fram að ganga.