skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.
Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Þetta er í þriðja skiptið, held ég að ég fari rétt með, sem ég mæli fyrir þessu máli. Ég ætla aðeins að fara yfir efni tillögunnar en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda, hvort sem er á opinberum eða almennum markaði, vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
Ráðherra geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í lok maímánaðar 2025.“
Ef við víkjum aðeins að greinargerð um málið, sem er nú nokkuð stutt en hún er að mínu mati tiltölulega skýr, þá má finna í henni aðeins nánar varðandi hugmyndafræðina á bak við tillöguna. Það er auðvitað þannig og við þekkjum það mörg hver sem höfum heyrt af þessu sögur og verið í samtali við þá aðila sem tilheyra þessum hópi að það er oft erfitt að stunda og fá vinnu við hæfi samhliða þessari íþróttaiðkun vegna þess að þessu fylgja margar æfingar og í þetta fer mikill tími. Ég þekki þetta aðeins sjálfur, þó ekki sem afreksíþróttamaður en sem sveitarstjórnarfulltrúi kom það inn á borð míns sveitarfélags á sínum tíma að taka á þessum málum. Það er auðvitað þannig og við fáum af því sögur að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna æfinga og keppnisferða. Afleiðingarnar eru auðvitað ekki góðar vegna þess að þá stendur afreksíþróttafólkið okkar — sem við auðvitað fögnum vel og innilega þegar við sjáum það á alþjóðlegum vettvangi vera að keppa fyrir hönd okkar þjóðar — en þetta kannski ýtir undir það að fólk stendur frammi fyrir flóknu vali; að halda áfram að sinsna æfingum og keppni í sinni íþróttagrein með tilheyrandi óvissu um framfærslu sína. Mögulega eru þarna einstaklingar sem þurfa að sjá fyrir fjölskyldu og auðvitað bara sjálfum sér, eða hreinlega hætta því og fara út á hinn venjulega vinnumarkað.
Við þetta bætist að með takmörkuðum tekjum sem þessu fylgir og í óbreyttu fyrirkomulagi þá ávinnur þetta afreksíþróttafólk sér ekki full lífeyrisréttindi og atvinnuleysisbætur og svo auðvitað rétt til fæðingarorlofs, þessi réttindi sem við þekkjum að eru til staðar á vinnumarkaði. Ofan á þetta bætist eitthvað sem við viljum helst ekki sjá en það eru þessar fjárhagsáhyggjur sem koma til viðbótar við það að byggja upp farsælan íþróttaferil og feril sem íþróttamaður. Það er ekki hvetjandi og ekki til þess fallið að fjölga hér efnilegu afreksíþróttafólki. Við heyrum það bara á síðustu árum að það er meiri áhersla á að styðja betur við afreksíþróttir, styðja betur við einstaklinga sem tilheyra þessum hópi og ég tel einmitt að þessi tillaga sem hér um ræðir sé til þess fallin og hef góða trú á því að um það sé samstaða í okkar góða samfélagi að styðja betur og fjölga þessu afreksþróttafólki okkar.
Frá því að þessi tillaga kom fram hér á sínum tíma hefur auðvitað margt gott gerst. Ég ætla að leyfa mér að nefna að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, sem hefur íþróttamálin hjá sér, er búinn að setja af stað og hefur lokið ýmissi vinnu og fengið til sín okkar færustu sérfræðinga til að ráðast í þessa vinnu, hvernig við getum styrkt þessa umgjörð í kringum þennan hóp sem telst vera afreksíþróttamenn og auðvitað allt okkar afreksstarf í stóru samhengi. En það breytir því ekki að á þessum peningi eru tvær hliðar og tillagan sem hér um ræðir, þ.e. þessi hvati sem beinist þá að launagreiðendum á að virka þannig að fyrirtæki eða stofnanir og sveitarfélög og auðvitað ríkið fái hvata til að ráða þessa einstaklinga til sín. Það skiptir máli að mínu mati og ég held að það séu margir sammála því að það skipti máli að þessi hvati sé til staðar. Þeir einstaklingar sem teljast til þess hóps að vera afgerandi og framarlega á sínu sviði sem afreksíþróttafólk hugsa öðruvísi og bæta oft menningu og andann á vinnustöðum og ég held að það sé samstaða um að styrkja það. Svo fylgir þessum einstaklingum gríðarlegur agi sem þau hafa þurft að tileinka sér til þess einmitt að skara fram úr. Ég held að það sé heilbrigt og gott fyrir vinnustaði hafa einstaklinga sem þessa í sínu liði.
Við þekkjum það að við erum með ákveðið kerfi sem er að þessu leyti í einhverju sambærilegt því sem tillagan felur í sér og hefur virkað vel og það eru lög um almannaheillafélög. Þar geta einstaklingar og fyrirtæki og aðrir stutt við vel skilgreind félög sem heyra undir þau lög og fengið þess í stað skattaívilnun. Það er því til staðar kerfi sem búið er að innleiða og þróa sem væri að mínu mati hægt að yfirfæra yfir á þennan hóp og myndi ekki kosta mikla vinnu. Í þessum lögum sem ég nefni, lögum um almannaheillafélög, er jákvæður hvati og voru jákvæðar fréttir sem bárust á sínum tíma um hvað það væru margir í raun og veru sem nýttu sér þetta úrræði og þessu nýju lög. Þetta hefur það í för með sér að við erum að styrkja alla umgjörð og við erum að styrkja þessi almannaheillafélög. Það er auðvitað gott. Þetta eru oft félög sem eru rekin í mikilli sjálfboðavinnu, svo að ég fari nú með umræðuna þangað, og þessi lög sem hér um ræðir hafa hjálpað mjög vel til og orðið þessum félögum mikill styrkur.
Þessi tillaga mín um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks á bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum og eru upprennandi afreksíþróttafólk og svo auðvitað núverandi afreksíþróttafólk. Sá sem hér stendur, ásamt öðrum flutningsmönnum tillögunnar, telur að það sé mikilvægt að skapaður verði þessi hvati, eins og ég hef áður sagt og hef farið yfir, að fyrirtæki fái þennan hvata til að ráða til sín fólk eða séu styrkt í því að fá þetta, vegna þess að við þekkjum það og heyrum af því sögur og vitum að kannski við fyrstu sýn er ekki mjög heillandi að fá inn starfsmann, þrátt fyrir alla kosti, sem er mikið fjarverandi. Mér finnst það skylda okkar vegna þess að við viljum taka vel utan um afreksfólkið okkar og búa til umgjörð þannig að þessi hvati verði til staðar.
Hér í lokin, virðulegur forseti, er auðvitað, og ég hef séð það, ýmis vinna í gangi hjá mennta- og barnamálaráðherra og ég er alveg fullviss — þó að ég voni auðvitað að þessi tillaga verði samþykkt — að þessi tillaga hér geti verið góð viðbót inn í alla þá vinnu að styðja betur við íþrótta- og afreksstarf hér í landinu vegna þess að ég veit að sá hæstv. ráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sem situr í því ráðuneyti er allur af vilja gerður til að taka betur utan um þennan hóp. Við heyrum alls staðar að öll íþróttafélög og samfélagið í raun og veru í heild kallar meira eftir því að þessi umgjörð öll verði styrkt, bæði auðvitað, svo að ég ítreki það bara, fyrir afreksíþróttafólk okkar og líka fyrir samfélagið og fyrirtækin. Líkt og ég sagði hér áður er að mínu mati mjög brýnt að fá þessa aðila út á vinnumarkaðinn og skapa betri vinnustaðamenningu eins og oft er sagt. Svo að ég ítreki það nú líka þá fylgir þessu fólki oft gríðarlegur agi sem hefur fylgt þeim í gegnum tíðina og skilað þeim á þennan stað sem þau eru í dag, að vera svona framarlega í sínum íþróttagreinum og sínu starfi. Þetta er eitthvað sem allir vinnustaðir hefðu gott af og myndi styðja okkur líka — og við tölum oft á tyllidögum um lýðheilsu — og styðja vinnustaði í að innleiða betri menningu heilt yfir þegar kemur að aga og að mataræði o.s.frv. Það er mikilvægt að þessir einstaklingar séu virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
Svo má nefna að það er enginn sem efast um að forvarnagildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt fyrir börn og ungmenni að eiga sér öflugar fyrirmyndir. Þar er auðvitað afreksíþróttafólkið okkar mjög framarlega. Við horfum á þessa aðila í sjónvarpinu og fylgjumst með þeim á stórmótum o.s.frv., á Ólympíuleikum sem eru nú nýafstaðnir í París, og þetta eru fyrirmyndir okkar, þetta eru fyrirmyndir barnanna okkar, þetta eru fyrirmyndir ungmenna. Við eigum að styðja enn betur við þennan hóp og fjölga í þessum hópi. Það er bara mín einlæga trú að þessi tillaga sé einmitt til þess fallin. Við þetta má bæta að tillagan er í fullkomnu samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019 en þar kemur fram að framlög til málaflokksins hafa aukist og aukast jafnt og þétt og munu áfram gera. Ég held að það sé til mikils að vinna að búa hér til öfluga og góða lagaumgjörð og stuðningskerfi í kringum þetta allt saman.
Ég held að ég hafi farið yfir helstu atriðin í þessari greinargerð. Tíminn er nú að hlaupa frá mér en þeir eru með mér á þessari tillögu, hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Þórarinn Ingi Pétursson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Eyjólfur Ármannsson og Tómas A. Tómasson.
Ég held að það sé rétt og ég vona það og ég í raun og veru trúi ekki öðru en að þetta mál fái góða umfjöllun hjá efnahags- og viðskiptanefnd sem ég reikna nú með að muni taka málið til umfjöllunar og vonandi afgreiðslu. Ég tel þetta mál svo brýnt og gott í raun og veru að það eigi skilið að fá þá miklu umræðu og nauðsynlegu umræðu. Það hafa komið umsagnir um þetta mál áður frá sérsamböndum og þær eru allar á einn veg, þær eru jákvæðar, þær fagna þessu máli. Þannig að ég held að nú eigum við að láta verkin tala og klára málið svo að sómi sé að.