sóttvarnalög.
Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu í þessu máli. Mér finnst mikilvægt að ræða aðdraganda þessa máls í samhengi við þá farsótt sem við erum nýbúin að ráða niðurlögum á, Covid-19 faraldrinum, og þann lærdóm sem við í Pírötum teljum alla vega að við höfum ekki verið nógu dugleg við að draga af meðhöndlun okkar á þeim faraldri. Ég sé í þessu frumvarpi að það eru ýmsar ágætar breytingar á sóttvarnalögum að finna og er ánægð með ýmislegt sem þar er lagt til. En mér leikur samt forvitni á að vita hvort hæstv. ráðherra finnist ekki, í ljósi þessarar nýfenginnar reynslu sem við höfum af gríðarlegum inngripum í réttindi fólks, að það hefði verið rétt að byrja á því að fara í sjálfstæða rýni, óháða rýni á því hvernig þessi lög reyndust og hvaða áhrif sóttvarnaaðgerðir höfðu á mismunandi hópa og hvernig staðið var að því að tryggja að meðalhófs væri gætt í aðgerðum stjórnvalda. Ég tek eftir því að hér er sérstaklega kveðið á um meðalhófsregluna með kannski aðeins fastari hætti heldur en er í núgildandi lögum. En mér finnst ákvæðið eins og það er núna samt sem áður ekki koma í veg fyrir þá stöðu sem við í Pírötum vorum í endurtekið meðan á faraldrinum stóð þar sem við kölluðum eftir því hvaða mat hefði farið fram á meðalhófi þeirra aðgerða sem valið var að fara í og fengum engin svör. Hér er engin krafa gerð um skýrslugerð eða upplýsingaskyldu gagnvart almenningi eða þingmönnum varðandi nákvæmlega meðalhóf.
Mín helsta spurning er kannski þessi: Hvers vegna er ekki farið í það að rýna ofan í kjölinn af óháðum aðilum sem geta horft á málið utan frá, ekki af þeim sem stóðu að aðgerðunum sjálfum, hvað fór vel og hvað fór illa áður en lögð er til heildarendurskoðun á lögunum?