155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sóttvarnalög.

231. mál
[16:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hennar spurningu sem snýr að því að rýna betur og kannski með óháðum aðila, óháðri nefnd einhvers konar, og fá þannig sjónarhorn á þennan tíma og þær ráðstafanir sem við gerðum. Ég er alls ekki andvígur því. Ég held að það geti verið bara ágætisleið, ágætisinnlegg og mikilvæg viðbót við allt það sem hefur þó komið fram. Stjórnvöld hafa auðvitað ráðist í skoðun á því hvaða áhrif þessar ráðstafanir höfðu á okkar samfélag. Ríkisendurskoðun var líka jöfnum höndum að fara í gegnum fjárhagsleg áhrif og svo eru auðvitað heilsufarslegar afleiðingar enn að koma fram. Það er svo fjölmargt sem við þurfum að skoða. Ég vil meina að hér séu góðar umbætur á frumvarpinu frá því að það kom fyrst fram sem snúa að öðrum þáttum, stjórnarskrárvörðum réttindum, heldur en einvörðungu meginmarkmiðinu um almannaheill og að verja líf og heilsu. Sérstaklega í upphafi, við tókum reyndar ágætlega utan um börn og unglinga vil ég meina en við fylgdum því betur eftir, lærðum af hruninu. Núna erum við að stíga enn fastar niður og við erum, já, að kveða fastar á um reglur, lagaáskilnaðarreglu, meðalhófið og allt það. Ég held að óháð rýni geti alveg farið fram (Forseti hringir.) en ég held að við getum horft á frumvarpið eins og það er lagt fram sem betrumbót á gildandi sóttvarnalögum sem við styðjumst við.