sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég er kannski ekki alveg sammála honum um að það eigi að aðgreina þetta tvennt. Þetta er eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni í fjórða sinn sem þetta mál er lagt fram og hann sýnir því mikinn skilning að það þurfi umræðu og tíma í þinginu en allan þennan tíma hefði verið hægt að fara í sjálfstæða rýni. Ástæðan fyrir því að ég tel mikilvægt að fara í þessa sjálfstæðu rýni er að vissulega var gengið á rétt margra í samfélaginu okkar á þessum tíma og við höfum ekki almennilega gert það upp hvort rétt var með farið í öllum tilvikum.
Hæstv. ráðherra vísaði í hagsmuni barna. Mér er spurn hvort það hafi verið börnum í hag að koma í rauninni í veg fyrir að þau gætu átt svo gott sem nokkuð félagslíf í tvö ár, þessi ungmenni sem nú eru að verða fullorðin. Ég veit ekki til þess að það hafi farið fram óháð rýni á því hvort það hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu, hvernig við fórum þarna fram.
Eins og ég sagði áðan er margt ágætt í þessu frumvarpi eins og t.d. að það er a.m.k. verið að setja í lög það sem ríkisstjórnin reyndi að gera á sínum tíma, að setja fólk í sóttvarnahús án þess að hafa til þess lagaheimild, að þvinga fólk í einangrun sem er að koma yfir landamæri án þess að hafa til þess lagaheimild, eitthvað sem við bentum á á sínum tíma og fengum nú töluverða skömm fyrir. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, virðulegi forseti, og ástæðan fyrir að ég held að það sé mikilvægt að gera þetta áður en við förum í heildarendurskoðun á lögunum, þótt ég sé ekki þar með að segja að ég standi gegn þessu frumvarpi eða eitthvað slíkt, er að mér finnst svo mikilvægt að við reynum að mynda traust í kringum þessi lög og í kringum þessar ráðstafanir stjórnvalda. Við vitum það bara núna árum seinna að það varð mikið vantraust í garð stjórnvalda vegna þessara aðgerða, vegna umræðu um bólusetningarskyldu og umræðu um að það yrði jafnvel brugðið á það ráð að skylda börn í bólusetningar o.s.frv. (Forseti hringir.) og vegna þessarar miklu félagslegu einangrunar sem lá ekki alltaf fyrir að væri endilega rökstudd á grundvelli meðalhófsreglunnar. (Forseti hringir.) Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að koma a.m.k. slíkri rannsókn af stað sem allra fyrst.