sóttvarnalög.
Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Þessi umræða um óháða rannsókn hefur farið fram í þinginu áður og ég held að hún geti vel átt við. Ég held að við ættum að íhuga það hvort það færi vel á því að þingið kallaði eftir slíkri rannsókn eða skýrslu um slíkt. Ég vil líka vísa á skýrslu nefndar um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19. Það hefur ýmislegt verið gert og það getur auðvitað nýst í slíka vinnu þegar óháðir aðilar taka utan um allt það sem hv. þingmaður fór hér yfir. Þegar kemur að vandasömum ákvörðunum kannski í fullkominni óvissu framan af þá eigum við örugglega eftir að skoða það og ég held að það sé ágætt að tíminn hefur liðið. Ég ætla kannski líka að rifja það upp að ég var ekki búinn að vera lengi heilbrigðisráðherra, forveri minn setti þessa vinnu af stað, þegar hillti undir að þetta frumvarp væri að koma og þá kom sérstök beiðni frá hv. velferðarnefnd um að flýta skilum og dvelja ekki of lengi með drögin í samráði og koma málinu sem fyrst inn í þingið. Ég vona að hv. velferðarnefnd komist að því að hér séu breytingar til bóta á sóttvarnalögum sem slíkum. Ég útiloka þetta bara alls ekki, af því að ég held að við eigum eftir að rannsaka fjölmargt og fjölmargar þær ákvarðanir sem við tókum í gegnum þennan tíma. En í öllum samanburði, (Forseti hringir.) ég vil ítreka það líka, hæstv. forseti, alþjóðlegum samanburði sem maður hefur komist yfir, þá komum við (Forseti hringir.) bara nokkuð vel út þegar kemur að þessum ákvörðunum sem við tókum hér í gegnum þennan tíma.