29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

82. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Of skammt var liðið frá útbýtingu nál. –Afbrigði leyfð og samþ. með 11 shlj. atkv.

*Frsm. (Jónas Jónsson): Ég ætla aðeins að segja það við þessa umr., að ég tek aftur till. til 3. umr. og óska eftir, að umræður verði aðallega þá um þetta mál.

ATKVGR.

Brtt. 225 teknar aftur til 3. umr.

1. gr. samþ. með 10 shlj. atkv.

2.–8. gr. samþ. með 11 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 11 shlj. atkv.

*Frsm. (Jónas Jónsson): Ég hafði óskað eftir því við d., að aðalumr. yrðu nú við þessa umr. en ekki við 2. umr., og var tekið vel í það. — Og vil ég nú skýra lauslega þær brtt., sem fyrir liggja sem gerðar hafa verið í samráði við skipulagsnefnd.

Á þskj. 225 er fyrst gert ráð fyrir tveim litlum brtt. Önnur er sú, að sá maður, sem skipulagsnefnd ræður til sín, til þess að stýra hinni daglegu vinnu við mælingar, kortagerð og þ. h., skuli kallast húsameistari, en ekki byggingarfræðingur, þannig að það sé skýrt tekið fram, að hér geti aðeins verið um fullfæran „arkitekt“ að ræða. — Ennfremur er gert ráð fyrir því, að skipulagið nái fyrst og fremst til allra staða, sem hafa 200 íbúa og fleiri; og í sjálfu frv. er þetta gert nokkuð rýmra, þannig að skipulagsnefnd og landsstj. geta í raun og veru fært þetta ákvæði niður, þannig að skipulagið nái til alls þéttbýlis, um leið og það er að myndast. Þetta er mjög þýðingarmikið, og skipulagsnefnd er nú þegar komin það langt, með sína vinnu, að heita má, að flestir kaupstaðir og kauptún, sem hafa fleiri en 500 íbúa, séu þegar búin að fá skipulag. En nú er gert ráð fyrir því að taka hina mörgu minni staði, og jafnvel allt þéttbýlið um leið og það fer að myndast.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 264. Þær eru bornar fram eftir ósk skipulagsnefndar þeirrar, sem nú er.

Brtt. við 1. gr. er til þess að gera það nokkuð gleggra, hvernig fjárreiðum til hinnar væntanlegu skipulagsnefndar skuli háttað. — Ég minntist á það við 1. umr., að þessi skattur, sem á að leggja á samkv. frv., 3% af byggingarkostnaði nýrra húsa, yrði fyrst um sinn aðalstofninn til þess að standast kostnaðinn við stjórn skipulagsmála, skrifstofuhald og annan óhjákvæmilegan kostnað. En fram að þessu hefir verið dálítil fjárveiting á fjárl. í þessu skyni, og bæirnir lagt á móti henni. — Þessi litla brtt. við 1. gr. lýtur að því, að kostnaðurinn við skipulagið greiðist fyrst og fremst af þessum nýja skatti, en ef hann nægir ekki, þá verður að kom til — eins og nú er — fjárlagavelting með framlagi frá bæjunum. En það er ekki gert ráð fyrir, að koma muni verulega til þess, ef þessi nýi skattstofn gengur fram.

Síðasta brtt. á þessu sama þskj. er um það, að skipulagsnefnd geti, um leið og hún samþykkir skipulagsuppdrátt af einum bæ, tiltekið vissar götur, þar sem hún geti blandað sér í það, hvernig byggt verði. Við skulum til dæmis hugsa okkur, að Austurvöllur væri nú eins og hann var fyrir 30 árum. Þá væri það vitanlegt, að þar kæmu stórbyggingar í kring, og mundi skipulagsnefnd þá óska eftir því að hafa eitthvað um það að segja, hvernig þessi sérstaklega þýðingarmikli staður kæmi til með að líta út.

Annað er það ekki. sem fram þarf að taka í þessum brtt., og ætla ég því ekki að fjölyrða frekar um þær.

Ég get svo endurtekið það, sem ég sagði við 1. umr., að tilgangur frv. er sá, að skipulagsnefnd hafi rýmri hendur heldur en hún hefir haft, og að hún geti haft a. m. k. tvo starfsmenn, húsameistara og mælingamann, til þess að vinna allt árið að skipulagi bæja og kaupstaða, og að þetta skipulag nái til Reykjavíkur. Er þá gert ráð fyrir, að bærinn geti sparað sér þá vinnu, sem hann nú kaupir alldýru verði. — Einn nm. hefir borið sig saman við bæjarráð um þetta, af því að þetta er nokkuð viðkvæmt mál þar, og komst bæjarráð að þeirri niðurstöðu, að það mundi láta þetta mál hlutlaust, og er það í raun og veru sama og meðmæli frá þess hendi.

Þá vil ég taka það fram vegna skipulagsnefndar, að þessir þrír menn, Guðjón Samúelsson, Geir Zoëga og Guðmundur Hannesson, sem þar hafa unnið síðan 1921, er lögin gengu í gildi, fyrir mjög lága þóknun, hafa hlotið þá ánægju, að nálega öll kauptún og kaupstaðir hafa óskað eftir því að fá skipulag, og alls ekki fundizt það ganga nógu fljótt, sem meðfram hefir stafað af því, hvað skipulagsnefnd hefir haft litla peninga handbæra. Ég veit ekki um neinn stað utan Reykjavíkur, þar sem í heild sinni hefir ekki verið mikil ánægja yfir vinnu n. Hún hefir einnig fengið viðurkenningu frá útlöndum. Árið, sem leið, var hér á ferðinni norskur skipulagsfræðingur, sem kynnti sér starf n. og hefir síðan sýnt uppdrætti hennar víða, sem fengið hafa ágæta dóma. — Ég geri þess vegna ráð fyrir því, þar sem n. heldur áfram óbreytt fyrst um sinn, að öðru leyti en því, að vilamálastjóri bætist við, þá megi gera sér fullar vonir um, að ef n. fær rýmri hendur heldur en verið hefir, muni af því leiða mikið gott fyrir bæi og kaupstaði þessa lands.

ATKVGR.

Brtt. 264,1 samþ. með 10 shlj. atkv.

— 264,2 samþ. með 10 shlj. atkv.

— 225,1 samþ. með 10 shlj. atkv.

— 264,3 samþ. með 10 shlj. atkv.

— 225,2 samþ. með 10 shlj. atkv.

— 264,4 samþ. með 10 shlj. atkv.

Frv., svo breytt samþ. með 10 shlj. atkv. og afgr. til Nd.

Of skammt var liðið frá útbýtingu frv. –Afbrigði leyfð og samþ. með 17 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 19 shlj. atkv. og til menntmn. með 19 shlj. atkv.

Of skammt var liðið frá útbýtingu nál. –Afbrigði leyfð og samþ. með 17 shlj. atkv.

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson): Þetta frv. felur í sér minni háttar brtt. á skipulagsl. frá 1921, svo sem um það, hvernig kostnaður við skipulagsuppdrætti skuli greiddur, hvernig skipulagsn. skuli skipuð o. fl. Einnig er kveðið fastar á um það en í gildandi l., að n. hafi tök á því, að skipulaginu sé hlýtt. Ég hygg ekki að frv. þurfi frekari skýringar við. Það hefir verið samþ. í Ed. af öllum flokkum í náinni samvinnu við skipulagsn. og ágreiningslaust.

ATKVGR.

1. gr. samþ. með 19 shlj. atkv.

2.–9. gr. samþ. með 18 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 18 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 19 shlj. atkv. og afgr. sem lög frá Alþingi (A. 388).

*Flm. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti!: síðasta þingi voru samþ. l. um fjárstjórn bæjar- og sveitarfélaga og tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Var þar með gert ráð fyrir, að eldri ákvæði um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga féllu niður. Þar á meðal var ákvæði, sem heimilaði Vestmannaeyingum að leggja vörugjald á vörur, sem fluttar væru að og frá kaupstaðnum, til ágóða fyrir bæjarsjóð. En þessa heimild hafði kaupstaðurinn haft um nokkur ár, og hafði hún verið framlengd nokkrum sinnum. Í stað þessarar heimildar, sem nú er felld niður, er ætlazt til. að komi þessi framfærslujöfnuður, sem l. frá síðasta þingi gera ráð fyrir. Nú hefi ég kynnt mér þetta og fengið órækar sannanir fyrir því, að á þessu ári eiga að koma til úthlutunar úr greindum jöfnunarsjóði nær því 314 þús. kr., sem verður skipt á ýmsa kaupstaði og kauptún, en við þessa skiptingu kemur í ljós, að reglan, sem liggur til grundvallar þessari skiptingu, verkar þannig, að Vestmannaeyingar fá þar ekkert. Ég get mér þess til, að svo mundi oftar fara, að þeir fengju lítið eða ekkert úr þessum sjóði. Ástæðurnar fyrir þessu eru að sumu leyti augljósar. Það er t. d. af því, að þessi kaupstaður býr við svo miklu hærra fasteignamat hlutfallslega en aðrir landshlutar, en það er einmitt fasteignamatið, sem kemur til greina, þegar úthlutun fer fram. Með þetta fyrir augum get ég ekki séð, að hægt sé að kippa þessum gjaldstofni frá kaupstaðnum. Ekki sízt verður það athugavert, þegar þess er gætt, að fátækraframfærslan fer þar sífellt vaxandi. Það hefir verið svo undanfarin ár, að meðalfátækrabyrði Vestmannaeyja hefir verið litlu minni en Hafnarfjarðar og miklu meira en Ísafjarðar. Þó hafa þessir kaupstaðir fengið svo tugum skiptir úr jöfnunarsjóði, en við ekkert. Fátækrabyrðin jókst gífurlega síðasta ár. Það var gert ráð fyrir, að hún yrði svipuð og 1936, eða 100 þús. kr., en hún komst upp í 145 þús. kr. Hér er þó sjálfsagt að einhverju leyti því um að kenna, að vertíðin 1937 var með allra rýrasta móti. Nú er ekki sjáanlegt, að neitt verði létt á kröfum til bæjarfélaganna. A. m. k. hefi ég ekki getað séð hilla undir það. Með þetta allt fyrir augum, sé ég mér ekki annað fært en að vekja athygli Alþ. á þessu. Það vita allir, að það hafa verið uppi ýmsar skoðanir um það, hvort bæjarfélögin ættu að hafa tekjur á þennan hátt, og má ef til vill segja sitt hvað með því og móti, en höfuðástæðan fyrir andúð manna á vörugjaldinu hefir jafnan verið sú, að þessi álagning kæmi niður á öðrum en þeim, sem í kaupstöðunum byggju. Þetta má sjálfsagt til sanns vegar færa á öllum öðrum stöðum á landinu en Vestmannaeyjum. En þetta er af því, að Vestmannaeyjar eru lausar við land og ekki lagður þar tollur eða skattur á neinar vörur, sem ekki eru notaðar í Eyjum sjálfum. Að því er snertir vörur, sem fluttar eru frá Vík, þá er það svo, að það hefir verið um langt árabil, að Vestmannaeyjar hafa verið umhleðslustaður fyrir útflutningsvörur frá Vík. Þetta fer þó alltaf minnkandi. En þessar vörur eru undanþegnar í þessum l. og mundu verða, svo að hér er algerlega um eigið álag að ræða, þ. e. a. s. álag á kaupstaðarbúa sjálfa (PZ: Að mestu leyti). Algerlega, því að þetta gjald verkar ekki svo mjög hækkandi á vöruverð, að þess gæti fyrir menn, sem dvelja í Vestmannaeyjum í atvinnuleit. Ég vildi þess vegna mælast til þess við hv. d., að hún féllist á að leyfa þessum litla tekjustofni að haldast áfram, því að þótt hann að vísu hossi ekki hátt í þeim miklu útgjöldum, sem kaupstaðurinn hefir, þá er það þó svo, að þetta gjald næst inn. Það er ekki bara pappírsgagn, sem svíkur, þegar á á að herða, eins og segja má um mikinn hluta af útsvörunum, og sjálfsagt fer að verða um stóran hluta af fasteignagjaldinu líka. Og það er létt í vasa fyrir bæjarstjórnina að eiga að borga útgjöld bæjarins, bæði til starfsmanna og framkvæmda, og síðast en ekki sízt til þurfalinga, úr bæjarkassanum, sem ætlaðar eru tekjur, sem að miklu leyti má líkja við nýju fötin keisarans. En svona er það farið að ganga víðsvegar. Ég býst við. að það sé ekki einasta í Vestmannaeyjum, að innheimta útsvara gangi treglega, en þar eru útsvörin höfuðtekjustofninn, og þess vegna verður afleiðingin þeim mun örlagaríkari, þegar þau gjaldast ekki.

Ég vildi svo mælast til þess, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fjhn.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 9 shlj. atkv. og til fjhn. með 9 shlj. atkv.

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson): Fjhn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hluti n. leggur til, að það verði samþ. með einni lítilli leiðréttingu.

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, því að hér er um að ræða ákaflega þekkt ákvæði. Vestmannaeyjar hafa að ég hygg, í 12 ár haft þennan tekjustofn, og það má geta nærri, að það er ekki auðvelt fyrir bæjarfélagið að missa hann af sinni fjárhagsáætlun, nema því aðeins að í staðinn komi eitthvað tilsvarandi, og það var tilgangurinn með l. frá síðasta þingi um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, að bæirnir fengju nokkurn tekjuauka úr þeim sjóði, og þá hefði mátt ætla, að þetta gjald hefði mátt falla niður, enda voru l. um það numin úr gildi með 1. um jöfnunarsjóð, en það hefir farið svo að þessu sinni, að það hefir ekkert fallið Vestmannaeyjum í skaut af tekjum jöfnunarsjóðs. Það er því þegar af þeirri ástæðu nauðsynlegt fyrir kaupstaðinn að fá þetta gjald a. m. k. þetta ár. Svo er annað, sem þarna kemur til greina, sem sé það, að í Vestmannaeyjum er fasteignamatið allhátt, svo að það er tvísýnt, að Vestmannaeyjar muni í náinni framtíð njóta mikils úr þessum sjóði, og hæpið, hvort þær njóta hans nokkurn tíma. Það má náttúrulega segja, eins og hv. minni hl. segir í náI. sínu, að þetta séu algerð sérréttindi fyrir Vestmannaeyjakaupstað, en það eru þó sérréttindi, sem hann hefir haft um alllangt árabil, og það er alkunnugt, að þegar slíkur tekjustofn er einu sinni kominn á og reiknað er með honum, þá er mjög erfitt að kippa honum burt, án þess að eitthvað tilsvarandi komi í staðinn, og viðvíkjandi sérréttindum Vestmannaeyjakaupstaðar er það að segja, að því verður ekki neitað, að sá kaupstaður hefir líka sérstöðu, sem mælir mjög með því, að hann hafi þetta, sem kalla mætti sérréttindi, þar sem Vestmannaeyjar eru, eins og kunnugt er, land út af fyrir sig, og verzlun og víðskipti, sem fara fram í gegnum höfnina þar, snerta Vestmannaeyjar að segja má einar, og þær eru meira afskornar frá viðskiptum annara heldur en nokkur annar kaupstaður eða kauptún hér á landi. Hv. minni hl. hefir ekki viljað samþ. frv., og ég hygg, að það sé af flokkslegum ástæðum fyrst og fremst, því að það er alkunnugt, að það er yfirleitt stefnumál Alþfl. að vera á móti eða að spyrna a. m. k. á móti auknum þessháttar álögum. Þeir halda því fram, að tekjum eigi sem mest að ná með beinum sköttum. Það er þessi flokksafstaða, sem jafnaðarmenn hafa haldið fram a. m. k. á pappírnum um þetta frv., sem hefir aðallega valdið því, að hv. minni hl. er ekki með um afgreiðslu þessa máls, sem annars hefir gengið í gegnum þingið þing eftir þing með samþykki flestra, sem nú eiga sæti á Alþingi.

Brtt. okkar er ekkert annað en leiðrétting. Það stendur í frv., að l. skuli þegar öðlast gildi, en hinsvegar er þessi skattur með l. framlengdur til ársloka 1938, og því er ekki rétt að láta l. öðlast gildi fyrr en sú framlenging er útrunnin, sem sé frá ársbyrjun 1939. Eins og nál. okkar ber með sér, hefir annar nm. meiri hl. skifað undir með fyrirvara um það, að hann teldi a. m. k. ekki brýna ástæðu til þess að gera þessi l. ótímabundin, heldur áskilji hann sér rétt til þess að vera með því, ef stungið yrði upp á, að þau yrðu höfð í sama formi og verið hefir, sem sé framlengd frá ári til árs. Ég fyrir mitt leyti sá ekki ástæðu til að samþ. það, því að vitanlega er það jafnan á valdi Alþingis að nema l. úr gildi, og ég verð að segja, að ég sé enga ástæðu til þess að nema þessi l. úr gildi fyrr en hægt er að bæta kaupstaðnum upp þann tekjustofn, sem hann myndi missa við það. Það er ekki annað en óþarft stapp og endalausar uppprentanir að vera að framlengja l., sem eru jafngömul og viðurkennd og þessi l. Ég, og þessi hv. meðnm. minn í rauninni líka, gátum því fallizt á að frv. yrði afgr. í því formi, sem það er borið fram, og mælum við með því, að þingið samþ. frv. aðelns með þessari einu leiðréttingu, sem við berum fram till. um í nál. okkar.

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson): Herra forseti! Eins og fram kemur í nál. á þskj. 147, sem ég hefi skilað, gat fjhn. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Í þessu nál. hefi ég í stórum dráttum tekið fram, hvers vegna ég get ekki verið með, en það er fyrst og fremst vegna þess, að ég álít, að hér sé farið skakka leið í því að ná þeim gjöldum, sem bæjarsjóður þarf, með því að leggja skatt á neyzluvörur almennings og hina fátæku alþýðu og svo fjölda sjómanna og vermanna, sem á Vestmannaeyjum vinna yfir vetrartímann. Ég viðurkenni, að Vestmannaeyjar, eins og aðrir kaupstaðir, hafa þörf fyrir nýjar tekjur fram yfir það, sem verið hefir, en það er líka kunnugt, að á Alþ. hafa a. m. k. verið gerðar tilraunir til þess að bæta að nokkru leyti úr þeim þörfum, og meðan ekki er fullkomlega hægt að segja um árangurinn, sem getur orðið af því, get ég fyrir mitt leyti ekki fellt mig við, að einn kaupstaður sé tekinn út úr og honum gefin sérréttindi á gjöld og skatta, og allra sízt á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er alveg rétt, sem haldið er fram af hv. flm. frv., þm. Vestm., að það er mjög auðvelt að innheimta þessi gjöld, því að þau eru tekin af vörunum um leið og þær koma á land og þær eru fluttar út, en ég vil ekki ganga inn á, að afla þannig tekna, að það sé sem hægast að innheimta þær, heldur á að afla tekna fyrir ríkissjóð og bæjarsjóð þannig, að gjöldin komi niður á þeim, sem breiðust hafa bökin til þess að bera þau. Og þetta vörugjald er einmitt, eins og ég sagði, bæði í Vestmannaeyjum og annarsstaðar, og sérstaklega þar, lagt á nauðsynjavörur yfirleitt og fiskframleiðsluna og þess vegna hlýtur þetta gjald að koma tiltölulega þyngra niður á þeim, sem hafa fyrir stórum fjölskyldum að sjá, en hafa stopula atvinnu og lítil laun. Þessi gjöld koma þess vegna tiltölulega þyngra niður á vinnandi mönnum heldur en efnamönnunum. Innheimta gjaldsins er í raun og veru lögð á herðar kaupmanna, sem eigi að borga þetta og greiða það í bæjarsjóð, og við vitum það allir, og þurfum ekki að dylja okkur þess, að um leið og kaupmaðurinn greiðir þetta til bæjarins, vill hann taka það aftur, og hann gerir meira en það, því að hann vill líka hafa eitthvað fyrir fyrirhöfnina og það að leggja út peningana, og þess vegna þarf neytandinn að borga meira en þetta gjald. hann verður líka að borga þann skatt, sem kaupmaðurinn leggur á vörurnar fyrir áhættuna, sem hann telur sig verða fyrir af þessu og fyrir þá peninga, sem hann hefir lagt út af þessum ástæðum.

Í frv., eins og það var upphaflega, var það tekið fram, að l. skyldu þegar öðlast gildi. Ég benti á það í fjhn., og hún féllst á það, að ef frv. hefði verið samþ. án leiðréttingar, þá hefði mátt innheimta tvöfalt gjald fyrir 1938, því að það er upplýst, að Vestmannaeyjar fengu fyrir nokkru samþ. vörugjald fyrir 1938, og Vestmannaeyjar munu lengi vera búnar að hafa þetta gjald. Ein af ástæðunum, sem hv. þm. Vestm. bar fram fyrir því, að samþ. bæri þetta frv., var sá, að árið 1936 hafi Vestmannaeyjakaupstaður ekkert fengið úr Jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil benda hv. flm. á það, að það koma til með að gilda aðrar reglur fyrir úthlutun úr jöfnunarsjóði árið 1938 og 1939 heldur en nú gilda, þannig að tekið verður tillit til launagreiðslna til kennara og elli- og örorkubóta, svo að það getur vel komið til mála, enda þótt Vestmannaeyjakaupstaður hafi hingað til litið sem ekkert fengið, þá fái hann ríflega endurgreiðslu árin 1938 og 1939. Auk þess sem ég tel, eins og ég áðan sagði, að þessi gjöld séu ranglega lögð á bæjarbúa og á þá, sem sízt eru þess megnugir að inna þau af hendi, álít ég, að til greina geti komið mikið misrétti, þar sem Vestmannaeyjakaupstað væri ívilnað fram yfir aðra kaupstaði með því að láta hann fá þetta vörugjald og auka þar með þann hluta, sem þeim kaupstöðum ber hlutfallslega við aðra bæi úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga.

Af þessum ástæðum tel ég ekki rétt að samþ. þetta frv., og álít ég nógan tíma til þess að taka þetta til frekari athugunar, ef það sýnir sig, að þessi tekjustofn, sem bæjum er ætlaður, kemur ekki að tilætluðu gagni fyrir kaupstaðina yfirleitt. Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf sérstaklega að minnast á að sinni, en ég vil leggja áherzlu á, að frv. verði ekki samþ. og a. m. k. alis ekki gert að föstum lögum.

Bernharð Stefánsson: Eins og nál. meiri hl. á þskj. 131 ber með sér og hv. frsm. tók fram, hefi ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, sem er fyrst og fremst um það, eins og þar greinir, að ég tel að ýmsu leyti réttara að tímabinda þessi L., eins og verið hefir, því að undanfarin ár hefir það verið svo, að l. um vörugjald í Vestmannaeyjum hafa verið sett til ákveðins tíma.

Hv. frsm. meiri hl. n. benti að vísu á það, að þetta vörugjald hefði gilt allmörg ár í Vestmannaeyjum og alltaf verið framlengt. Þetta er rétt. Fyrstu l. um slíkt vörugjald í Vestmannaeyjum munn vera frá 1926 og hafa alltaf verið framlengd síðan. En það er ekki nægileg ástæða til þess að telja, að framlengja eigi þessi lög til frambúðar. Ég vil benda á í þessu sambandi, að sumir þeir skattar, sem til ríkisins eru innheimtir samkv. bráðabirgðalögum, sem framlengd eru frá ári til árs, eru eins gamlir og þetta gjald í Vestmannaeyjum. Svo er bæði um lögin um vörutoll og um verðtoll, sem munu vera frá 1924. Ég legg þó ekki svo mikla áherzlu á þetta atriði, að ég hafi flutt um það brtt. nú, en ég mundi samþ. hana, ef fram kæmi, og áskil mér rétt til 3. umr. að bera slíka brtt. fram.

Þó að ég mæli með þessu frv., fellst ég ekki að öllu leyti á þann rökstuðning, sem fram hefir komið því til meðmæla, sérstaklega það, að þessa heimild verði að velta af því, að Vestmannaeyingar verði fyrir misrétti við framkvæmd laganna um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, sem sett voru í fyrra. Að Vestmannaeyingar hafa ekki fengið framlag úr jöfnunarsjóði, getur ekki stafað af öðru en því, að þeir beri tiltölulega léttari byrðar en aðrir bæir. Um þau framlög gilda ákveðnar reglur. Þau eiga a. m. k. að vera þannig miðuð við fátækraframfærið, kostnað af tryggingalögum og upphæð kennaralauna, að mest renni til þeirra bæja, sem hafa tiltölulega mestan kostnað af þessu. — Þá sagði hv. þm. Vestm., að fasteignamat væri óeðlilega hátt í Vestmannaeyjum. Sé svo, gæti verið ástæða til að framlengja lögin þangað til nýtt fasteignamat gengur í gildi og ekki lengur. Það, að ég fylgi frv., þýðir ekki, að ég telji Vestmannaeyjar neinu misrétti beittar með lögunum um tekjuöflun bæjar- og sveitarfél. og um jöfnunarsjóð, heldur að ég tel það sanngjarnt og útlátalaust að leyfa Vestmannaeyingum að leggja þessi gjöld á sjálfa sig. Þetta vörugjald mun sama og ekki lagt á aðra en Vestmannaeyinga sjálfa, og þetta eru aðeins heimildarlög, og ef þeir samþ. sjálfir að haga þessu þannig, þá sé ég ekki, hvað á að vera móti því að leyfa það. Ég lít svo á, að vel mætti leyfa öðrum kaupstöðum þetta, þeim sem lítið verzla við nágrenni sitt. Ég hefi fyrr borið fram frv. um að veita Siglufirði slík réttindi. En það náði ekki samþ., og var þá talið, að Siglfirðingar gætu frekar en Vestmannaeyingar skattlagt utanbæjarmenn með gjaldinu.

Það má segja sem svo, eins og hv. 11. landsk. gerði, að þarna sé verið að leggja skatt á neyzluvörur almennings. En þegar á staðreyndirnar er litið, hefir það sýnt sig, að þetta er óhjákvæmilegt. Það er vitað, að það er ákaflega erfitt að ná öllum þörfum bæjarfélaganna inn með beinum sköttum og þannig hefir það líka reynzt þar, sem þessi hv. þm. á helma og á sæti í bæjarstjórn. Hvað sem um þetta má segja frá fræðilegu sjónarmiði, verður að fá féð með því að fara til þess einhverja færa leið. Þess vegna var sett löggjöfin um tekjur bæjar- og sveitarfélaga til að fá þeim nýja tekjustofna og tekjurnar, sem þau fá úr jöfnunarsjóði, koma nú einmitt inn með auknum og nýjum tollum.

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson): Í sjálfu sér er ekki ástæða til að taka upp almennar umræður um beina og óbeina skatta út af þessu litla frv. Enda er ekki um svo háa álagningu að ræða, að grundvallarreglur þurfi að koma þar til greina. Gjaldið er mér sagt að sé ákaflega lágt á mestu nauðsynjavörum almennings, svo sem matvörum, þannig að telja má, að það verki afarlítið á afkomu almennings.

Annars er nú sannleikurinn sá, að það er ekki hægt að ná inn nauðsynlegu fé til ríkisþarfa, án þess að það komi niður á öllum fjöldanum. Það hljómar náttúrlega vel, að leggja þungann á þá, sem breiðust hafa bökin, og þá útsvörin aðallega á verzlanirnar. En það hlýtur að koma fram í aukinni álagningu fyrirtækjanna og þannig dreifist það á alian almenning. Eins og hv. meðnm. minn, hv. 1. þm. Eyf., sagði, hefir reynslan skorið úr um þetta, og Alþfl. hefir orðið að ganga inn á það að ná inn meginhluta ríkisteknanna með óbeinum sköttum. Þm. hans hafa á undanförnum árum verið með sífelldri hækkun þessara óbeinu skatta. — Það er athyglisvert, að einn af víðsýnustu mönnum Alþfl., maður sem hefir tamið sér að líta á hlutina mjög raunverulegum augum, Jónas Guðmundsson, undirbjó löggjöf um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög og flutti með öðrum þm. frv. um þau efni, þar sem farið var inn á sömu leið og í þessu frv., ekki aðelns í Vestmannaeyjum og á Siglufirði, heldur í öllum kaupstöðum á landinu, svo að þetta hefði orðið óbeinn skattur á allri þjóðinni. Það er alveg rétt hjá meðnm. mínum, að gjald ríkisins til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga er einmitt fengið á þennan hátt, mestmegnis með óbeinum sköttum, eins og aðrar ríkistekjur.

Ég vil ekki segja, hvaða afstöðu ég hefði tekið, ef Vestmannaeyingar hefðu komið nú í fyrsta sinn með tillögu um vörugjald hjá sér. En gjaldið er þar komið í hefð og auk þess aðeins um heimild Alþingis að ræða — um það, hvort eigi að leyfa þeim að leggja þetta gjald á sjálfa sig. Mér þykir hart, ef á að banna mönnum að leggja á sig gjöld til sameiginlegra þarfa.

Mótspyrnan gegn því, að aðrir bæir tækju þetta upp, hefir byggzt á því, að þar væri hægt að skattleggja utanbæjarmenn, sem verzla á staðnum. Þó að t. d. Siglufjörður sé langt frá öðrum byggðum, er hann samt landfastur, og þegar samgöngur við hann batna við veg yfir Siglufjarðarskarð, má telja víst, að verzlun Fljótamanna færist þangað. Þess vegna hefir Siglufjörður ekki alveg sömu afstöðu og Vestmannaeyjar.

Svo skal ég ekki orðlengja um þetta mál.

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson): Herra forseti! Ég ætla ekki í þetta skipti að fara í neinar deilur um beina og óbeina skatta. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að það væri hart, ef ekki ætti að leyfa Vestmannaeyingum að leggja gjald á sjálfa sig. Ég verð að benda honum á, að vörugjaldið hefir ekki verið samþykkt nú í bæjarstjórn Vestmannaeyja, þó að hv. flm. frumvarpsins gerði ráð fyrir að það yrði, og því síður liggur fyrir almenn ósk frá kaupstaðarbúum þar.

Það er algerður útúrsnúningur, að hér sé um engar nýjar álögur að ræða, því að lögin um tekjur bæjar- og sveitarfélaga frá síðasta þingi gera ráð fyrir nýjum tekjum, þ. e. nýjum álögum, sem eiga að koma í stað aukatekna sem þessara í Vestmannaeyjum. Þar er m. a. leyfður fastelgnaskattur, og ef hann er innheimtur í Vestmannaeyjum jafnt og annarsstaðar, getur hann gefið bænum 20–30 þús. kr. á ári, eða svipað eins og vörugjaldið gefur. Þá er gagnslaust um það að tala hvort lögin um vörugjald veita nýja heimild eða endurnýja niðurfelldan skatt, það er ný aukning á gjaldabyrði almennings fyrir því.

Alþfl. hefir orðið að ganga inn á það að hækka í bráð óbeinu skattana nálega að sama skapi og hina beinu. Um leið og dæmt er um það, verður að minnast þeirra verklegu framkvæmda, sem hækkunin stafar af. Ég get sagt fyrir mig, að ég tel mikinn mun á því, hvort samþ. er frv. um tekjuauka handa ríkisstjórninni, sem veitir fénu aftur til almennings í meiri atvinnu, eða hinu, að samþ. vörugjald til þess að spara borgurum einhvers bæjarfélags útsvör og fasteignaskatt.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um Jónas Guðmundsson og reyndi að telja skoðanir hans sér til tekna. En það hefir nú sýnt sig að sú skoðun, sem þm. eignaði Jónasi, hefir orðið í minni hl. hjá þeim, sem að síðustu fluttu frv. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og komu því í gegn. Alþfl. hefir ekki tekið upp þessa skoðun, og Framsfl. ekki heldur; a. m. k. hefir hæstv. fjmrh. látið það mjög ákveðið í ljós, að bæirnir ættu ekki að afla sér fjár þannig.

Ég er á móti þessu frv., sérstaklega af þrem ástæðum, sem ég lýsti í fyrri ræðu minni: Þessar álögur yrðu innheimtar af sömu mönnum, sem nú borga aukna skatta, sem eiga að koma í vörugjaldsins stað; það yrði tvöfaldur skattur. Í öðru lagi kemur vörugjald þyngst niður á þeim, sem hafa stærstar fjölskyldur að fæða og klæða og mega sízt við álögunum. Í þriðja lagi er frv. ekki nauðsynlegt, vegna þess að Vestmannaeyjar geta notað sér ný lagaákvæði um fasteignaskatt og fengið sinn skerf úr jöfnunarsjóði, miðað við kostnað af kennaralaunum, elli- og örorkubótum og hlutdeild í jöfnun fátækrastyrks, ef hagur bæjarins versnar.

*Jóhann Jósefsson: Ég vil þakka n. fyrir það, að hún vill samþ. þetta frv. um, að vörugjaldið í Vestmannaeyjum megi haldast. Ég hefi skýrt frá því bæði munnlega og skriflega, við flutning þessa máls, að ákvæði laganna um tekjur bæjar- og sveitarfélaga koma Vestmannaeyingum ekki að neinu gagni. Þó að skipt sé meir en 300 þús. til fátækrajöfnunar til ýmissa kaupstaða og kauptúna fyrir árið 1936, og mun meira væntanlega fyrir 1937, er svo um séð, að Vestmannaeyjar fái ekkert af því fé. Þetta er sú ónotalega staðreynd, sem hv. þm. verða að viðurkenna. Ég er ekki einn til frásagnar um þá staðreynd, heldur geta bæði hagstofan og stjórnarráðið vottað þetta, og skýrsla um þetta mál er undirrituð af tveim fulltrúum stjórnarflokkanna, Framsfl. og Alþfl., svo að ég vona, að það verði ekki vefengt.

Hv. 1. þm. Eyf. féllst ekki á að veita heimildina vegna þess, að Vestmannaeyjar eru afskiptar víð úthlutun úr jöfnunarsjóði, heldur af því, að þær hafa sérstöðu. Án þess að ég ætli að saka nokkurn mann um ranglæti, verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, að nokkur þm. skuli telja, að slíkt skipti ekki neinu, hvort bær er afskiptur eða ekki. Þær aths., sem hv. þm. hafa reynt að beita þessu til afsökunar, hrökkva skammt og hefir áður verið svarað. Mönnum er t. d. kunnugt, að fasteignamat í Vestmannaeyjum er óeðlilega hátt. — Ef hv. 1. þm. Eyf. vill bera fram eða fylgja brtt. við frv., skal ég ekki áfellast hann fyrir það, heldur samþ., að gjald þetta sé haft tímabundið.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf. hafa að mestu svarað hv. 11. landsk.,svo að ég get gengið fram hjá sumu, sem hann sagði. Það er vitað, að hann er nýlega kominn á Alþing, og líklega nýlega kominn í þann flokk, sem hann telst fulltrúi fyrir, svo að hann stendur með annan fótinn í Alþfl., en hinn í Kommfl. Honum er þess vegna eðlilegt að byrja á stafrófi sósíalista hér í d. og tala um, hvernig eigi að ná inn gjöldum með beinum sköttum. Þetta er stafrófið, sem við erum nú búnir að hlusta á í ein tíu ár eða lengur, að ekki megi taka neitt í bæjarsjóð af gjöldum, sem koma niður á neyzluvörum almennings. Nú er þetta gjald ákaflega lágt einmitt á neyzluvörum; ég held 10 aurar á mélpoka. Hv. þm. heldur að kaupmenn muni reikna það nákvæmlega út fyrir hvern hlut og hvern pakka í smásölu og hækka verð allra nauðsynja sem því nemur. En þeir reikna ekki með slíkri nákvæmni. Hver kaupmaður verður náttúrlega að leggja á einhverjar vörutegundir það, sem þarf til að standast álögurnar. En ég hefi aldrei heyrt á viðræðum þeirra, að þeir áætluðu sérstaklega, hvað leggja þyrfti á fyrir vörugjaldið. Hinsvegar munar talsvert um tollhækkanirnar, sem gerðar voru til að afla tekna fyrir jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Það er vitað, að alþýðuflokksmenn hafa verið með og orðið ákveðnir í því að hækka óbeinu skattana þvert ofan í kenningar sínar. Þá finnst mér varla orðin þörf fyrir fleiri fyrirlestra um þessa trúarjátning þeirra.

Þá var það ein af mótbárum hv. 11. landsk., að hann vildi ekki gefa sérstökum kaupstað forréttindi. Það var skaði, að þessi hv. þm. var ekki kominn hér á síðasta þingi til þess að koma þá með sín góðu rök móti sínum eigin kaupstað, þegar samþ. var af mér og öðrum, að Siglufjörður skyldi fá greiddan hundraðshluta af útfluttum afurðum síldarverksmiðjanna. Þetta voru óneitanlega forréttindi fyrir Siglufjörð. En ég og aðrir, sem vorum með þessu, sáum ekki ástæðu til að leggja á móti því, að Siglufjörður nyti góðs af þeim rekstri, sem þar er. Hitt er vitanlegt, að bæði ég og aðrir, sem að þessu unnu, lögðum með því skatt á sjálfa okkur, þar sem við gerum út þar, og einnig á okkar plássmenn, sem vinna þar á sumrin. Það er því ekki fordæmislaust, að kaupstaður fái forréttindi í slíkum efnum.

Annars hefir það verið hingað til svo, að Alþ. hefir fallizt á að láta þetta vörugjald haldast í l., af því það kemur nær eingöngu, að undanteknum nokkrum tóbaksbitum, sem landmenn kaupa þar á vorin, niður á herðar Vestmannaeyinga sjálfra. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem fylgt hafa málinu að undanförnu, hafi gert það vegna þess, að þeir sjái nauðsyn þess fyrir bæjarfélagið að hafa einhverjar ábyggilegar tekjur til þess að standast þau útgjöld, sem af því er krafizt.

Hv. 11. landsk. var með myndugleika miklum að tala um vilja bæjarbúa í þessu efni. Hann sagði, að það lægi ekkert fyrir um hann. Það er satt, að ég hefi ekki látið safna undirskriftum bæjarbúa, en ég geri ráð fyrir, að ef þar færi fram atkvgr., þá myndi þessi af honum hataði íhaldsmeirihluti í Vestmannaeyjum aðhyllast þá fjármálapólitík, sem sjálfstæðisflokksmeirihlutinn í bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum fylgir, og samþ. að halda þessu gjaldi. Mér er til efs, að þeir, sem hv. þm. þykist vera að bera fyrir brjósti, eins og t. d. þurfalingar bæjarins, vilji vinna það til, að þessum tekjustofni sé kippt í burt og möguleikar bæjarins til að veita þeim þær nauðþurftir, sem þeir þurfa, þar með skertir.

Hún er annars svo yfirgengileg þessi hræsni þessara svokölluðu sósíalistísku forkólfa, sem eiga sjö börn í landi og sjö á sjó, eða eru að hálfu leyti kommúnistar. Það er kyndug þessi umhyggja þeirra fyrir þeim fátækustu, þegar þeir eru að ráðast á tekjustofna, sem bæjarfélögin geta hagnýtt sér, en á hinn bóginn eru þeir ávallt reiðubúnir til þess að vinna af alefli að því, að sem flestir heimti sínar nauðþurftir af bæjunum.

Það kann vel að vera galli í augum hv. 11. landsk., að það, sem hann kallar íhaldsmeirihluta í Vestmannaeyjum, skuli fá þetta gjald til umráða. Hv. þm. er náttúrlega sterkur í sínu ríki og ræður sjáifsagt lögum og lofum á Siglufirði, og mun hann sjálfsagt sannprófa það, þegar hann kemur heim í sitt hérað. En hann verður að sætta sig við það, að sjálfstæðismenn hafa bæjarstjórnarmeirihlutann í Vestmannaeyjum. En mér virtist skína út úr orðum hans, að ef það væri meirihluti, sem ekki væri honum að skapi, þá vildi hann ekki láta hann hafa tekjur. Hv. 11. landsk. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir því, að útsvörin í Vestmannaeyjum séu ekki nógu há á þeim, sem þar reka atvinnu. Við, sem rekum þar atvinnu, þurfum ekki að bera kinnroða fyrir það, að útsvörin séu ekki nógu há, á okkar atvinnurekstri, því að ég get frætt hv. þm. á því, að útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum á atvinnurekstrinum er þrefalt á við það, sem hann er í Reykjavík. Hinsvegar er það staðreynd í Vestmannaeyjum, að verkamenn þar rísa yfirleitt ekki undir neinum útsvörum að ráði, og þess vegna hefir sú regla viðgengizt þar í nokkur ár, að útsvör á menn, sem eingöngu eru verkamenn eru hverfandi lítil, og svo lítil, að þau munu hvergi á landinu vera minni.

Ég held ég hafi þá tekið það fram, sem mér virtist koma fram hjá hv. frsm. meiri hl. í þessu máli. Mér finnst það nærri því broslegt að þurfa að eyða miklum tíma í það, að rökræða nauðsyn þessa máls fyrir þetta fátæka bæjarfélag, sem vill leggja á sig þessa fórn, til þess að halda sér á floti, við sósialista, sem bera ábyrgðina á þeim sköttum og byrðum, sem ríki og bæir hafa orðið að dragast með vegna löggjafar síðustu 10 ára. Það eru þessir menn, sem „geipa í orði um gjörðir klárt, en ganga mest til valda“, þessir menn, sem við hvert tækifæri hamra á því, að þeir séu á móti neyzlusköttum, vegna þess að þeir vilji hlífa fátæklingunum, en þegar svo er um það að ræða að hafa bein og bitilnga hjá stj., þá greiða þeir atkv. með hvaða hækkun á neyzluskatti sem um er að ræða. Þá greiða þeir atkvæði með framlengingu á gildi l. um verðtoll og hækkun á viðskiptagjaldinu. Svo koma þessir sömu menn og fara að byrja á því nú, þegar um það er að ræða, að fátækt bæjarfélag, sem hefir haft þennan tekjustofn í mörg ár, fái að hafa hann áfram, að lesa upp fyrir okkur stafrófið í trúarjátningu þeirra sósíalistanna. Þetta eigum við að fara að hlusta á eftir 10 ára framkomu þeirra. Eftir 10 ára óslitna baráttu þeirra til þess að koma öllu í kaldakol í kaupstöðunum, þá á maður að upplifa það, að nýútsprungin rós sé hér á ferðinni og tali um það, að þeir séu á móti því, að leggja á nokkra skatta, sem komi á bak hinna fátæku. Ég veit ekki, hvort maður á heldur að kalla þetta harmleik eða spaugsleik. Mér er nær að halda, að þessir menn séu sér þess meðvitandi, að þeir séu að leika spaugsleik. En er ekki kominn tími til að þeir hætti þessum leikaraskap? Er brautin svo glæsileg hjá eldri leikhetjunum, eins og t. d. hv. 3. landsk., að það sé beinlínis eftirbreytnisvert fyrir byrjendurna að fara að leggja út á þá braut? Það hlýtur að vera mikil andleg fátækt þar fyrir, sem sú fyrirmynd er tekin til eftirbreytni.

Páll Zóphóníasson: Herra forseti! Hv. þm. er kunnugt um, að ég hefi alltaf verið á móti frv., sem fram hafa komið á þingi og stefnt í sömu átt og þetta, að veita einstökum bæjar- og sveitarfélögum möguleika til að veita þeim gjöldum, sem þegnar viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags eiga að greiða, yfir á aðra, sem skipta við þá. Ég hefi fullkomlega viðurkennt og viðurkenni að Vestmannaeyjar hafa þarna sérstöðu, þar sem þær selja miklu minna til annara en þeir kaupstaðir aðrir, sem farið hafa fram á að fá svipað vörugjald. En þó er það svo, að þeir selja dálítið til annara, og meira en einn og einn tóbaksbita, eins og hv. þm. sagði. Ég er á móti þessari stefnu. Ég er líka á móti þeirri stefnu, sem þarna kemu, fram, að leggja þetta á sem heildargjald, sem liggi á þunganum og kemur því meir niður á hinum fátækari, sem framfleyta stærri fjölskyldum, en hinum betur stæðu. Ég er á móti háðum þessum stefnum. Ég get því ekki fylgt þessu frv. eins og það liggur fyrir. Fyrir sig væri að fylgja því, ef það hefði eitthvert tímatakmark.

Annars skildist mér á hv. þm. Vestm., að hann byggði þetta frv. nú aðallega á þörf Vestmannaeyja, sem hann sagði, að ekkert hefði verið bætt úr með jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Í sambandi við það vil ég spyrja hann að því, hvort hann álítur, að sá grundvöllur, sem greitt er eftir úr jöfnunarsjóði, sé þá ranglátur? Ef hann er það, þá á hann að skjóta geiri sínum þangað og leggja til, að hann sé endurskoðaður. Ef hann er réttlátur, og hann hefir ekkert talað um, að hann væri ranglátur, aðeins um það, að Vestmannaeyjar fengju þaðan ekkert, þá hafa Vestmannaeyjar minni þörf fyrir þetta gjald en aðrir kaupstaðir. Annaðhvort er, að engin þörf er á þessu gjaldi eða grundvöllurinn, sem skipt er eftir, er ranglátur, og þá er að endurskoða hann.

Ég er í vafa um, hvort ég fylgi þessu frv. breyttu, en óbreyttu fylgi ég því ekki.

*Sigurjón Á. Ólafsson: Herra forseti! Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, voru ummæli, sem hv. þm. Vestm. leyfði sér að viðhafa í ræðu sinni og ég tel ekki rétt að láta ómótmælt. Ég tel ekki honum sæmandi, þótt hann sé búinn að vera lengi á þingi, að ætla að gera sig að stórum herra og setja aðra þm. á skólabekk fyrir það eitt, að þeir flytja sitt mál á annan hátt en honum líkar. Ég heyrði ekki neitt það í málflutningi hv. 11. landsk., sem gæfi tilefni til að brigzla honum um nýliðastarf og að hann væri ekki inn í málinu og flytti mál sitt þann veg, að það væri eins og hann væri úti á þekju. Ég álít það ósæmandi af þm., þótt hann sé reyndur, að nota slík orð við menn, þótt þeir séu nýkomnir inn í þennan saI. Hann sagði ennfremur, að þessi þm. væri nýr í flokknum, og var jafnvel að brigzla honum um, að hann væri meðlimur í öðrum flokki, hann væri kommúnisti. Það er vitað, að hann hefir verið og er yfirlýstur alþýðuflokksmaður, svo að það er óþarfi að bendla hann við stefnu annars flokks. Þessum ummælum hv. þm. vildi ég mótmæla og tel ósæmandi af honum að flytja þau hér fram í hv. d. Ég hygg, að það sé ekki ávinningur fyrir hans málflutning að nota slík ummæli.

Það er vitanlegt, að við jafnaðarmenn höfum verið á móti vörugjaldinu frá byrjun eða frá því að slík stefna skaut upp höfðinn. (BSt: Líka Jónas Guðmundsson?). Hann vildi í mþn. að nokkru leyti ganga inn á þessa stefnu, en ég veit ekki betur en hann hafi beygt sig fyrir stefnu síns flokks í þessu efni. Ég hygg, að hið sama megi segja um hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Eyf., að þótt þeir hafi sérstöðu í einhverju máli, þá beygi þeir sig undir stefnu þá, sem flokkurinn hefir markað. Ég er ekki að segja þeim þetta til lasts, því að ég tel þetta eina af þeirra þinglegu skyldum sem þeim ber að fylgja, ef þeir vilja starfa í sínum flokkum.

Eg ætla ekki að færa frekari rök að því en hér hefir verið gert, að ég tel, að Vestmannaeyjum sé nauðsyn að fá þetta vörugjald frekar en öðrum kaupstöðum. Ég vil í því sambandi spyrja hv. þm. að því, hvað mikla upphæð sé hér um að ræða í tekjum fyrir Vestmannaeyjar. Ég man ekki eftir, að ég hafi nokkurn tíma heyrt það. (JJós: Ég hefi oft nefnt það). Ég hefi nú ekki verið að glugga í gamlar þingræður um þetta mál. En er þetta svo stór upphæð, að ekki sé hægt að taka hana á annan hátt? (JJós: Það er víst ekki mikill vandi. Það eru nógir peningar). Það er vitanlegt, að það eru ekki verri gjaldþegnar í Vestmannaeyjum en í öðrum bæjum, sem ekki hafa leyft sér að setja slík gjöld. Reynslan hefir sýnt, að Vestmannaeyjar hafa haft fyrir gjaldþegna menn, sem fyllilega geta borið byrðar á við samskonar menn í öðrum bæjum. Hitt er skiljanlegt, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Vestmannaeyjum, sem er skipaður flokksmönnum hv. þm., vilji fylgja þeirri stefnu, að hlífa hinum breiðari bökum, en koma gjöldunum á þá, sem minni hafa bökin til að bera þau. Þarna er stefnumunur milli jafnaðarmanna og flokksmanna hans. Við álítum, að það eigi að leggja gjöldin á þá, sem geta borið þau. En hér er um óbeinan skatt að ræða, sem kemur þyngst niður á þeim, sem flesta hafa munnana að fæða og þá oftast efni af skornum skammti.

Mér skildist á hv. þm. Eyf., að hann gæti verið með þessu máli af því, að hann teldi, að það snerti ekki sína umbjóðendur, bændur og búalið. Þetta er rökfærsla, sem ég skil ekki. Ég veit ekki betur en framsóknarmenn hafi verið á móti þessum skatti fyrir bæina, af því hann kæmi niður á fólkinu, sem í sveitinni býr og þarf að sækja sínar vörur til bæjanna. Ef það er ranglátt að leggja þennan skatt á í bæjum, þar sem mikið af sveitabændum verzlar, þá er það líka ranglátt að leggja hann á í þeim bæjum, sem fáir sveitabændur verzla við. Í þessum ummælum hv. þm. finnst mér vera svo mikil hreppapólítík. Það er svo mikið ósamræmi í þessari hugsun hjá hv. þm., því að þetta er eins mikil byrði fyrir fátæka fólkið í Vestmannaeyjum, þótt enginn sveitamaður beri hana með því. Ég veit ekki betur en Framsfl. hafi verið á móti vörugjaldinu af þeirri ástæðu, sem ég gat um og fer að nokkru leyti saman við okkar skoðun. að það sé verið að leggja neyzluskatt á fólkið, sem ekki sé réttiátur. Ég get því ekki skilið, að Vestmannaeyjar þurfi að vera þar undantekning.

Hér er því um kenningu að ræða, sem frá öndverðu hefir verið haldið fram af Alþfl. og studd í öllum höfuðatriðum af Framsfl. Það eru kannske einhver straumhvörf nú. Ég játa að vísu að á undanförnum þingum hefir þetta mál fengið stuðning hjá einstökum þm. innan Framsfl., meðan ekki var búið að gera neina skipun á um það, hvaða tekjur bæjar- og sveitarfélögin ættu að fá umfram það, sem þau hafa áður haft. Nú er búið að laga það, þó kannske ekki á fullnægjandi hátt, en því minni ástæða er að vera með þessu máli nú.

Hv. þm. Vestm. var svo illorður og, svo ég noti hans eigin orð, fúkyrtur í garð okkar jafnaðarmanna. að ég get látið því ósvarað að mestu leyti. Hann var að minna á, hvað hann hefði gert fyrir Siglufjörð á síðasta þingi, og vildi meina, að það hefði verið gert fyrir Siglufjörð einan að leggja þennan skatt á. Ég vil minna hann á, að það eru fleiri staðir, sem koma þar til greina, svo sem Raufarhöfn og Ónundarfjörður. En svo er ég ekki viss um, hvað mikla ánægju hann hefir af þessari ráðstöfun sinni. Sjómennirnir í hans eigin byggðarlagi munu a. m. k. ekki þakka honum fyrir þá till.

Þá vildi hann halda því fram, að þetta væri gert fyrir þá þurfalinga, sem eru í Vestmannaeyjum, því að annars myndu þeir ekki fá nauðþurftir sínar. Það er nú ekki ætlazt til þess af okkur, að bærinn leiti ekki tekjustofna fyrir þá upphæð, sem hér um ræðir. Á meðan bæjarfélagið gefur sig ekki upp sem gjaldþrota, þá verður það að leita einhverra ráða til þess að fullnægja þeim kröfum, sem til þess eru gerðar. Vitanlega verður bæjarfélagið að svara réttlátum óskum og kröfum þeirra, sem þurfa á styrk að halda, án tillits til þess, hvort vörugjald er lagt þar á eða ekki. Um þetta mætti tala langt mál. Mér er ekki kunnugt um annað en flokksmenn hv. þm. séu aðalatvinnurekendurnir í Vestmannaeyjum. Það fer eftir því, hvort þeim tekst að reka sina útgerð vel, hvort blómgvun er þar í atvinnulegu tilliti eða ekki. Ef atvinnureksturinn er slælega rekinn, þá er eðlilegt að ýmsir þurfi að leita á náðir bæjarsjóðs. Það eru því flokksmenn hv. þm., sem eiga sök á því, ef fátækraframfæri er óeðlilega þungt í Vestmannaeyjum.

Hann talaði um, að það væri okkur jafnaðarmönnum að kenna, að svo miklir skattar og byrðar hvíldu á bæjarfélögunum. Hann nefndi nú ekki, hvaða byrðar og skattar það væru. Hann hefir kannske meint þá löggjöf, sem miðað hefir til menningar. Ég get ósköp vel skilið, að hann sé á móti slíkri löggjöf. Hann meinar kannske þá löggjöf, sem sett hefir verið í öryggis- og tryggingarmálum. Annars hefði ég gaman af að heyra, hvaða löggjöf það væri, sem jafnaðarmenn hefðu barizt fyrir, sem legði svona miklar byrðar á bæjarfélögin. Hann reyndi ekki að rökstyðja þetta neitt. Ég hefi hér nefnt tvö veigamikil mál, sem við höfum barizt fyrir, tryggingarmálin og menningarmálin. En við munum aldrei blygðast okkar fyrir að hafa barizt fyrir þeim málum. Um tryggingarmálin er það að segja, að þau munu verða til ómetanlegra hagsælda, ekki aðeins fyrir einstaklingana, heldur og einnig fyrir bæjarfélögin. Ennþá er of skammt liðið frá því, að þau voru sett, til þess að þau séu fyrir alvöru búin að sýna sig. Þau munu m. a. létta allmjög undir með framfærslu fátækra, og á þann hátt létta undir með gjaldendum.

Þá fór hv. þm. að tala um bitlinga. Ég held nú að það sitji manna sízt á honum að vera að bera öðrum á brýn bitlingagræðgi, því að ég veit ekki betur en að hann þiggi með bezta geði ýms störf, sem hann kallar bitlinga hjá öðrum. Slík störf hefir hann meira að segja þegið hjá stjórn þeirri, sem ég studdi og hann er nú að hella sér yfir með allskonar hrakyrðum. Annars er þetta bitlingatal hv. þm. orðið svo úrelt og þvælt, að ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður veiti því eftirtekt hjá honum. Að ég kvaddi mér hljóðs í þetta sinn, var sakir þess, að þessi hv. þm. var að gera sig svo dólgslegan, að mér þótti ekki hlýða að láta hann vaða hér uppi án þess að gefa honum nokkura hirtingu, og vænti ég, að ræða mín hafi ekki orðið til þess að gefa máli hans byr í seglin gegnum þingið.

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson): Ég varð dálítið undrandi yfir því, hvað hv. þm. Vestm., þessi að því er virðist skapstillti maður, gat sleppt sér undir þessum umr. Ég hafði ekki búizt við því, að rök mín um þetta mál færu svo í taugarnar á honum, að hann þyrfti að blása sig svona út af því, sem ég sagði til andsvara hans ræðu um þetta mál.

Mér skildist á honum, að hann hefði þá skoðun, að af því að ég væri nýliði hér, mætti ég ekki láta mína skoðun í ljós, og þá sérstaklega af því, að ég væri öndverður honum í skoðun. Og ef hann mætti ráða, mundi hann koma í veg fyrir það með öllu, að nokkur maður kæmi með nokkrar sannanir fram á móti málum, sem hann flytur. Hann myndi í því efni sem öðrum fylgja skoðanabræðrum sínum og lærifeðrum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ekki væri hægt að leggja á útsvör í Vestmannaeyjum til þess að ná inn nægum tekjum fyrir bæjarfélagið, vegna þess að langflestir væru svo fátækir í Vestmannaeyjum, að þeir gætu ekki greitt útsvör. Er það af umhyggju fyrir fátæku mönnunum þar, að þessi hv. þm. vill láta skylda þá til þess að greiða gjöld til bæjarins með tolli, hvort sem þeir geta það eða ekki?

Þá var hann að tala um, að það hafi komið fram hjá mér, að vegna þess að meiri hluti bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum er skipaður pólitískum andstæðingum mínum, fengi hún ekki að leggja toll á nauðsynjavörur, en ef mínir pólitísku samflokksmenn færu fram á slíkt, þá vildi ég það. En ég tók fram, að það væri mikill munur á því, að greiða gjöld til bæjarfélaga með þessu móti, eða greiða þau til ríkissjóðs, þegar þeim tekjum, sem ríkissjóði væri aflað á þennan hátt, væri varið til þess að auka atvinnu í landinu og bæta kjör fátækra manna. En þessi gjöld í Vestmannaeyjum yrðu til þess að lögð væru á menn minni útsvör, og þar með til að hlífa hátekjumönnum þar.

Þá talaði þessi hv. þm. um, að það væri stefna Alþfl., að sem allra flest heimili gætu komizt á framfæri hins opinbera. Ég mótmæli þessu algerlega. Það hefir aldrei komið fram hjá Alþfl., heldur hitt, að það verði búið vel að þeim mönnum, sem einhverra hluta vegna þurfa að leita á náðir þess opinbera. En við höfum alltaf sett okkar till. fram þannig, að sem mest væri gert til þess að bæta atvinnu þeirra fátæku, svo að þeir, þegar þeir geta unnið, þurfi ekki að leita á náðir þess opinbera, þveröfugt við það, sem hv. þm. Vestm. sagði, því að við viljum á þann hátt koma í veg fyrir, að menn þurfi að leita á náðir þess opinbera.

Þá tók þessi hv. þm. fram, að það væri sérstaklega ein stétt manna, sem ekki væri á móti þessu vörugjaldi. Mig furðar nú ekkert á því, þó að þeir séu ekki á móti vörugjaldi. Þeim mundi alveg standa á sama, þeim efnaðri, því að þessi útgjöld mundu ekki liggja þungt á bökum þeirra, heldur mest á bökum fátækra fjölskyldumanna. Hv. þm. Vestm. viðurkennir, að menn séu yfirleitt svo fátækir í Vestmannaeyjum, allur fjöldinn, að þeir geti ekki borgað útsvör. En þó vill hann láta neyða þá til þess að borga gjöld sín til bæjarsjóðs með tolli á nauðsynjavörum. Mismunurinn á minni skoðun og hans er, að ég vil, að það, sem þarf að fást greitt í bæjarsjóð, sé tekið hjá þeim, sem geta greitt.

Þá sagði þessi hv. þm., að það hefði verið slæmt, að ég hefði ekki verið kominn á þing fyrr, til þess að tala á móti því, að Siglufjörður fengi gjöld af síldarverksmiðjum ríkisins þar, og hann taldi, að þar hefði Siglufjörður forréttindi fram yfir aðra kaupstaði. Þetta er ekki rétt. Þessi hv. þm. veit, að útsvarslöggjöfinni var breytt árið 1926 af hans flokksmönnum. Hann veit líka, að síðan þessu var breytt, hafði Siglufjarðarbær orðið fyrir mjög miklum rangindum gagnvart því að afla sinna tekna með útsvörum. Fjöldi manna, sem rekur þar alla sína atvinnu, borgar ekki einn eyri til bæjarins. Og h. u. b. 2/3 af öllum þeim, sem afla sér mikilla tekna á Siglufirði, kemst þannig undan því, að hægt sé að leggja nokkurt útsvar á þá til bæjarins. Það er m. a. vegna þess, að síldarverksmiðjur ríkisins eru útsvarsfrjálsar. En þær mundu, ef þær væru reknar í einkaeign, þurfa að borga, eftir þeim útsvarsskala, sem nú er farið eftir um greiðslu útsvara þar á staðnum, um 80 til 100 þús. kr. í útsvar. Það er ekki nema sjálfsagt, að þessi stofnun væri látin greiða einhvern lítinn hluta af þessari upphæð í bæjarsjóð. Og það er ekki neitt líkt því að taka útsvar af síldarverksmiðjum ríkisins, að láta fátæka menn í Vestmannaeyjum borga vörugjald.

Þá segir hv. þm. Vestm., að vörugjald í Vestmannaeyjum komi eingöngu niður á Vestmannaeyingum sjálfum, en að engu leyti niður á öðrum. Hann veit þó, að það eru árlega fleiri hundruð manna, sem sækja sína atvinnu til Vestmannaeyja og dvelja þar mjög verulegan hluta af árinu, frá því um jól og til vertíðarloka; þeir borga dýrara fæði og aðrar nauðsynjar vegna vörugjaldsins en annars mundi vera og borga á þann hátt í bæjarsjóðinn í Vestmannaeyjum. Þeir borga af sömu ástæðum dýrara salt, sem þeir nota í fiskinn, dýrari olíu og annað slíkt. Það er jafn órétt að taka þetta gjald af þessum mönnum eins og að taka gjöld af vörum, sem fluttar eru úr kaupstöðum og upp í sveit.

Ég get vel skilið, að þessum hv. þm., þessari hálffölnuðu íhaldsfjólu, sé illa við, að ungir menn komi fram hér á þingi fyrir hönd andstöðuflokks hans, sem geta sett fram sínar skoðanir. Ég sýni honum umburðarlyndi í þeim efnum. En það hefir engin áhrif á þetta mál, sem hér er til umr., hvort menn skattyrðast um pólitík yfirleitt.

Ég hygg nú, að hv. þm. Vestm. hafi sjálfur sannað það manna bezt, að það beri ekki að taka vörugjaldið af mönnum í Vestmannaeyjum, vegna þess að hann segir, að allur almenningur í Vestmannaeyjum sé svo fátækur, að hann geti ekki risið undir útsvörum. En þá er líka hróplegt ranglæti að neyða þessa menn til að borga þetta gjald í bæjarsjóð, en láta það ekki koma niður á hinum, sem geta borið það að borga í bæjarsjóðinn.

Bernharð Stefánsson: Hv. 3. landsk. talaði um flokkspólitík í sambandi við þetta mál. Hann sagðist fylgja flokki sínum í þessu máli sem öðrum og bjóst við, að hv. þm. Vestm. myndi gera það líka, en taldi aftur, að ég mundi ekki vera í samræmi við minn flokk í þessu máli. Það er rétt, að pólitísk flokksmál eru til, en þau ná venjulega ekki nema til höfuðmála þingsins. Hin smærri og þýðingarminni mál liggja þar fyrir utan, flokkasamþykktir ná ekki til þeirra. Og hvað þetta mál snertir, þá er það víst, að það liggur fyrir utan allar flokkssamþykktir Framsfl. Afstaða mín til þess er því tekin alveg á mína eigin ábyrgð.

Hann vildi halda því fram hv. þm., að Framsfl. hefði jafnan verið á móti slíkum málum sem þessu, af því að bændur væru skattlagðir að meira og minna leyti með þeim. Þetta er bara ekki rétt hjá hv. þm. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, hvort bændur eiga í hlut eða aðrir, heldur hitt, hvort bærinn fær með þessu aðstöðu til að skattleggja utanbæjarmenn eða leggur gjaldið aðeins á sína eigin íbúa. Við vorum á móti því, að slíkt gjald sem þetta væri lagt á á Sauðárkróki, en það var beinlínis fyrir þá sök, að þar hlaut gjaldið að mjög miklu leyti að lenda á héraðsbúum utan kaupstaðarins. Þar hagaði því allt öðruvísi til, hvað þetta snerti en í Vestmannaeyjum. Að Vestmannaeyingum hefir verið leyft að taka þetta umrædda vörugjald nú um lengri tíma, byggist á því, að þeir skattleggja aðeins sjálfa sig með því, en ekki aðra. Ég vona að hv. þm. skiljist, að hér er um tvennt ólíkt að ræða.

Það hefir nokkuð verið á það minnzt undir þessum umræðum, að aðeins bæri að leggja gjöldin á þá ríku. Þetta kann nú að láta vel í eyrum, en það er nú bara því miður svo, að ríkir menn eru venjulega fremur fáir í landinu, nema þá ef það væri hér í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum geri ég t. d. ekki ráð fyrir, að þeir séu margir, auðmennirnir. En það er nú svona, fólkið gerir kröfur til þess opinbera, bæði til ríkissjóðs og bæjar og sveitarsjóða. Og ef þeim kröfum á nokkuð að sinna, þá verður að taka peningana þar, sem hægt er að innheimta þá. Hinsvegar man ég ekki betur en að því væri lýst yfir hér á Alþingi í fyrra, af þáverandi form. Alþfl., að beinu skattarnir væru nú orðnir svo háir, að tæplega væri hugsanlegt að auka þá verulega, frá því sem væri. Það skal og fúslega viðurkennt, að tollar og gjöld koma mjög hart niður á ýmsum fjölskyldufeðrum, en jafnframt má benda á það, að hinir óbeinu skattar eru eina leiðin til þess að ná gjöldum til almennra þarfa hjá mörgum einhleypum einstaklingum. Þetta vita allir, og því er ekki hægt að hrópa hátt um afnám allra óbeinna skatta.

Það, sem farið er fram á í frv. þessu, er að framlengja þá óbeinu skatta handa Vestmannaeyjakaupstað, sem bæjarsjóðurinn er búinn að fá að hafa síðastl. 12 ár. Hvað mig snertir, þá finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að verða við þeim óskum kaupstaðarins, að framlengja þetta gjald ennþá einu sinni, sérstaklega líka þegar því er haldið fram, að vegna hins mjög háa fasteignamats þar í Eyjum þá fái bæjarsjóðurinn ekkert úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Það getur því varla komið til mála annað en framlengja þennan tekjustofn, a. m. k. þangað til að búið er að framkvæma nýtt fastelgnamat. Að síðustu skal ég gjarnan geta þess, að ég gæti vel gengið inn á vörugjald sem tekjustofn fyrir kaupstaði yfirleitt, ef hægt væri að finna út þá leið, að utanbæjarmenn væru ekki skattlagðir með því.

*Jóhann Jósefsson: Herra forseti! Ég skal ekki verða langorður að þessu sinni. Það vill nú jafnan verða svo, að það veldur miklum óróa, ef snara er nefnd í hengds manns húsi. Út frá því er hann líka skiljanlegur sá mikli hvalablástur, sem orðið hefir hér út af því einn, að ég benti hv. sósíalistum lítillega á fortíð sína. Þeir herrar, hv. 3. landsk. og hv. 11. landsk., hafa verið að reyna að halda því fram, að ég hefði borið frv. þetta fram til þess að hlífa einhverjum grósserum í Vestmannaeyjum, en íþyngja aftur einhverjum, sem ekki ætti aðra málsvara en þá hina sömu, sem sömdu 5 ára áætlunina frægu. (SÁÓ: Áætlunin var aldrei nema til 4 ára). Mér er sama, því að það var löngu búið að svíkja hana fyrir þann tíma. Annars skal ég ekki að þessu sinni fara að eyða orðum að því að útmála allan þann svíkavef, sem þessir háu herrar hafa ofið. Það gerir tíminn og sagan. En það eitt vil ég segja þeim, að það tekur enginn maður alvarlega þetta gjálfur þeirra um, að þeir séu málsvarar lítilmagnans. Menn brosa bara góðlátlega að einfeldni þeirra og hugarburði. Annars þykir mér dálítið leitt, þegar hv. 3. landsk. tekur þessar rokur, af því að mér er persónulega vel við hann. Ég virði honum því til betri vegar, þó að hann þurfi einstöku sinnum að fá tækifæri til þess að rasa út og berja bægslunum.

Eitt af því, sem hrökk upp úr hv. þm. í öllum bægslaganginum, var það, hversvegna Vestmannaeyjakaupstaður gæfi sig ekki upp, úr því að hann væri svo illa stæður að þurfa að taka þetta umrædda vörugjald. Ég verð nú að segja, að mér finnast það nokkuð mikil brjóstheilindi hjá hv. þm., að spyrja svona, vitandi það, að flokkur hans hefir gert allt, sem hann hefir mögulega getað, til þess að koma bæjarfélagi þessu á kné, enda þótt það væri sízt verr statt fjárhagslega en mörg önnur bæjarfélög.

Ég mun ekki fara mikið inn á umræður um menningarmálin. Það má vel vera, að hv. 3. landsk. sé mikill menningarfrömuður, enda þótt enginn hafi heyrt þess getið, hvorki ég né aðrir. Það er nfl. svo margt, sem við sjáum ekki, þessir vesalingar, sem höldum okkur við jörðina, sem hinir miklu andar fá skynjað.

Við hv. 11. landsk. hefi ég lítið að segja. Hann sagði, að ég væri heldur linjulegur maður í framkomu. Þetta má til sanns vegar færa. Ég velti ekki þungum hlössum hér á þingi eða annarsstaðar. Það skyldi gleðja mig, ef hann reyndist sá stóri og mikli maður í sínum kaupstað, og geri ég ráð fyrir, að hann láti það ljós sitt skína fyrir báða þá flokka, sem að honum standa. Ég vona, að hann verði þar ekki neitt linjulegur eða það verði neinn fölvi á honum né neitt það, sem sýni, að hann sé ekki í blóma lífsins.

En það má hv. þm. vita, að það eru fleiri en ég, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Eyf., sem er farið að verða klígjugjarnt af þessum söng jafnaðarmanna um hinn staka vilja þeirra til að létta byrðar fátæklinganna, jafnhliða því sem þeir stagast á því, að allir aðrir vilji gera fátækum mönnum allt til meins. Ég hefi ekki verið að gera neitt litið úr hv. þm., en svo óvenjulegur maður og spengilegur og röggsamur gæti náttúrlega gert betra heldur en að bera hér á borð gamlar leifar og fúlar dreggjar af kenningum sósialista, sem hafa klingt í eyrum manna utan þings og innan, en eru ekkert annað en innantóm orð, þótt hann þykist þurfa að bera vopn á framgang nauðsynlegs máls.

Þá ætla ég að síðustu litillega að svara fyrirspurn hv. 3. landsk. um það, hvað það aðallega væri, sem sósialistar hefðu staðið fyrir í löggjöf, sem þyngt hefði byrðar fátæklinganna í bæjunum. Ég hélt satt að segja, að hv. þm. þyrfti ekki að spyrja svona, því að það mætti verja löngum tíma til að tala um öll þau lagaboð, sem sósíalistar hafa þvingað í gegn síðustu árin, sem öll miða að því að auka byrðar fátæklinganna í bæjunum að meira eða minna leyti. Ég skal benda hv. 3. landsk. á lítið dæmi, ekki af því, að ég telji það stærsta dæmið, heldur af því, að það dregur upp svo skýra mynd af aðgerðum sósíalista til þess að þyngja fyrir í bæjunum og gera ástandið þar erfiðara. Sósiallstar í Reykjavík gátu ekki sætt sig við það, að bærinn hefði þar ráðningarskrifstofu fyrir verkafólk, svo að þeir börðu í gegn löggjöf um vinnumiðlun, sem auðvitað var gert í því skyni að fá ítök í vinnumiðlun í Reykjavík, en það mátti til með að taka hina smælingjana með í l. til yfirskyns, svo að það væri ekki alltof opinbert, að þetta frv. væri borið fram til þess að ná yfirráðum í bæjarvinnunni í Reykjavík. Árangurinn varð sá, að lögfest var að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofu í hinum atvinnulausu kaupstöðum. Áður hafði það gengið svo í mínu bæjarfélagi, að vinnumiðlunin fór fram í þegnskylduvinnu, því að bæjarfulltrúarnir sjálfir önnuðust hana. Þá var reynt að taka tillit til þess, þegar vinnunni var miðlað, að láta þá ganga fyrir, sem höfðu þyngst heimilin og börðust í bökkum með að halda sér frá bænum. Svo kemur þessi löggjöf og tekur ráðin af bæjarstjórninni í þessu efni. Atvmrh. setti einn af sínum flokksmönnum í þetta starf fyrir góð árslaun. Nú er ekkert tillit tekið til þess, hvort menn standa tæpt með að bjarga sér eða ekki. Þegar A kemur og lætur skrifa sig á listann og B á eftir, þá er vinnunni miðlað eftir því, í hvaða röð þeir koma, en ekkert tillit tekið til þess, hvort það liggur við, að bærinn þurfi að veita þeim aðstoð. (SÁÓ: Hvað kostar þessi vinnumiðlun?) Hún kostar 4–5 þús. kr., sem bærinn verður að borga af þeim peningum, sem hann gæti annars látið vinna fyrir. — Þetta er ekki stórt atriði, en það sýnir, hvernig sósialistar búa að vinnuskilyrðum fólksins í bæjunum. Afleiðingin er svo sú, að áður var mörgum manninum forðað frá því að fara á bæinn, vegna þess að vinnunni var úthlutað eins og ég gat um, en nú verður margur að leifa til bæjarins, af því að vinnunni er úthlutað eftir öðrum sjónarmiðum en þeim, sem eru bezt fyrir vinnuþegana og bæjarfélagið. Ég vil ekki þreyta hv. þm. með fleiri dæmum, en ég varð að gera úrlausn á því að svara þessum ágætu þm. og vini mínum, hv. 3. landsk., og gefa honum eitt sýnishorn af áhrifum sósíalistalöggjafarinnar á fátækt bæjarfélag.

*Sigurjón Á. Ólafsson: Ég mun reyna að draga mál mitt saman svo sem frekast er unnt, til þess að gera mitt til þess, að þeim umr., sem út af þessu máli hafa spunnizt, linni.

Hv. 1. þm. Eyf. gerði að umtalsefni nokkur orð, sem ég beindi til hans áðan. Ég hefi í raun og veru litið við hann að ræða, því að í öllum höfuðatriðum greinir okkur ekki mikið á. Hann viðurkenndi, að það væri rétt hjá mér, að Framsfl. hefði verið á móti vörugjaldinu sem tekjustofni fyrir bæjarfélögin, af ástæðum, sem hann sagði, að ég hefði farið rétt með. Við erum nokkurn veginn sammála um, að það beri að leita að öðrum leiðum fyrir bæina heldur en þeirri, sem hér hefir verið rætt um og Vestmannaeyjar vilja fá áfram fyrir sig. Hann gerði nokkra tilraun til þess að réttlæta það, að það stæði sérstaklega á með Vestmannaeyjar, og þeir myndu sennilega vilja leggja þetta á sig. Ég hefi heyrt, að í Vestmannaeyjum sé það mjög mikið deilumál meðal íbúanna, hvort fara eigi þessa leið. Ég get líka hugsað mér, að það sé enn meira deilumál nú, þegar búið er að sýna nokkra viðleitni í að veita bæjarfélögunum upphæð til tekna, sem ekki áður var í l. Einn hv. ræðumaður hefir líka bent á það, að ekki er nema hálfsögð sagan, að Vestmannaeyingar beri þennan skatt einir. Það er fjöldi vermanna í Vestmannaeyjum, sem hann lendir á líka. (BSt: Þeir hafa flestir frítt fæði). Það er langt frá því; margir þeirra verða að greiða sitt fæði. Þessir menn eru flestir úr sveitum landsins, úr Skaftafellssýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Þessir menn fá að bera bróðurpartinn af þessum skattþunga, sem þarna er lagður á. Þetta er því nokkuð hliðstætt því, sem við erum sammála um, að ekki eigi að gera, að skattleggja vörur, sem fara í gegnum kaupstaðina til þeirra, sem utan þeirra búa. Ef hv, þm. er sjálfum sér samkvæmur, þá ætti hann að vera með okkur, en móti þessu frv.

Hann gerði að umtalsefni, að fólk nú á dögum gerði kröfur til hins opinbera í stórum stíl, svo að það yrði að reyna að finna upp ráð til að fylla sjóðina. Hann vildi meina, að jafnaðarmenn og kommúnistar ættu mikla sök á þessu. Ég skal ekki deila við hv. þm. um það, að fólk geri kröfur, enda mun vera til í öllum stéttum fólk, sem gerir kröfur. Ég kann þar ekki að greina á milli stétta. Ég veit ekki betur en að bændur undir ýmsum kringumstæðum komi til þingsins og geri háværar kröfur. Við verðum að játa, að Alþ. hefir mörgu öðru fremur sýnt fulla viðleitni í því að mæta kröfum bændastéttarinnar. Það er ekki nema mannlegt, að mer,n leiti þangað, sem þeir halda, að hægt sé að bæta úr þeim þörfum, sem fyrir hendi eru, og þá er vanalegast, eins og nú standa sakir, að leita til Alþ. og ríkisstj., að svo miklu leyti sem bæjarsjóðir eða hreppssjóðir ekki geta orðið við kröfum manna eða óskum. Við skulum því ekki gera mikið upp milli stétta, hvað það snertir að gera háværar kröfur. Hin fastlaunaða embættismannastétt kemur jafnvel hingað með sínar kröfur, svo að það er óréttlátt að tala um, að verkamenn einir geri kröfur.

Hann minntist að síðustu á það, að jafnvel við jafnaðarmenn hefðum orðið að játa, og sérstaklega vitnaði hann í það, að okkar látni foringi hefði haft þau ummæli hér á hv. Alþ., að beinu skattarnir væru orðnir svo háir, að lengra væri tæplega hægt að komast. Ég hygg, að þessi ummæli séu rétt eftir höfð. En hann mun þar eingöngu hafa verið að ræða um skatta, sem ríkið er að taka af þegnum þjóðfélagsins. Þegar þessi ummæli féllu, mun hafa verið talað um það, hvort tekju- og eignarskatturinn ætti að hækka úr því, sem komið væri, eða ekki. Það var alls ekki verið að ræða um það, hvaða tekna bæjarfélögin ættu að afla sér, þegar þessi ummæli féllu. Ég hygg, að sú almenna skoðun hafi verið og sé enn sú, að sú eina færa leið til skattaálagningar fyrir bæjar- og sveitarfélögin sé að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Það hefir oft klingt, að þarfir bæjar- og sveitarfélaga væru svo miklar, að það væri örðugt að uppfylla þær með því að fara þessa leið. En í umr. hér, bæði fyrr og síðar, hefir það komið í Ijós, að sum bæjarfélög hafa ekki notað út í yztu æsar þá leið, að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Það hafa verið færð nokkur rök að þessu. En ég er ekki svo kunnugur í Vestmannaeyjum, að ég geti fyllilega um það dæmt, hvort þessi leið hefir fyllilega verið notuð þar eða ekki.

Að öðru leyti tel ég mig ekki þurfa að svara hv. 1. þm. Eyf.

Hv. þm. Vestm. leiddi hjá sér að svara minni fyrirspurn. Hann getur kannske gert það með því að taka fram í í ræðu minni. Ég spurði hann að því, hvað það væri mikil upphæð, sem Vestmannaeyjar ætluðu að taka með þessu vörugjaldi. (JJós: Það hefir komizt hæzt 30 þús. kr.). Fljóti á litið virðist þetta vera allveruleg upphæð. Ég veit ekki, hvað margir gjaldendur eru þar, en við skulum hugsa okkur, að þeir séu 1000. Þá vil ég spyrja, hvort það sé ókleift að jafna þessari upphæð niður með útsvarsálagningu. Það liggja engin rök fyrir um, að það sé ókleift. (JJós: Ég skal upplýsa hv. þm. um það, sem ég geri ráð fyrir, að honum sé kunnugt um, að útsvörin í Vestmannaeyjum nást alls ekki öll inn). Við höfum heyrt þessa sögu hér á þingi, og það má vera, að á ýmsum tímum séu nokkur rök fyrir þessu. Það eru sjálfsagt áraskipti að því, hvernig útsvörin innheimtast, og í bæjarfélagi, þar sem eins er háttað og í Vestmannaeyjum, hlýtur slíkt að eiga sér stað, þar sem svo mikið er undir útgerðinni komið og því, hvernig aflast frá ári til árs. Aflabrögð í Vestmannaeyjum hafa verið sæmileg á undanförnum árum. (JJós: Ósköp er að heyra þetta. Man ekki þm. eftir árinu í fyrra?). Ég held það hafi verið meðalár. Árið þar á undan var ágætt ár, ef ég man rétt. Það eru þess vegna áraskipti að því, hvernig innheimtan gengur, og er það ekkert sérstakt fyrir Vestmannaeyjar, því að það er líka svo í öðrum bæjarfélögum.

Það myndi taka nokkuð langan tíma fyrir mig að svara öllum þeim ummælum, sem hv. þm. hefir kastað hér fram. Hann fór út um alla heima og geima og vitnaði í allt mögulegt sem syndir á herðum okkar jafnaðarmanna. En það myndi reyna of mikið á þolinmæði hæstv. forseta og annara hv. þdm., ef ætti að hrekja öll þau óathuguð ummæli, sem hann hefir hér kastað fram. Hann talaði um hvalablástur hjá mér. Ég held það mætti tala um hvalablástur hjá honum sjálfum.

Hann talaði um jafnaðarmenn og 4 ára áætlunina. Um þetta mætti tala langt mál, en ég vil í stuttu máli benda honum á, að mikið af því, sem er í 4 ára áætluninni, hefir verið framkvæmt af núverandi stj. Þar er því ekki um nein svik að ræða, eins og hann var að tala um. Þetta hefir verið framkvæmt þrátt fyrir það, þó að slíkir örðugleikar hafi dunið yfir okkar þjóðfélag, að slíks eru varla dæmi í okkar þingsögu, þar sem við höfum misst megnið af okkar fiskmarkaði bæði á Spáni og í Ítalíu. Þrátt fyrir þetta hefir stj. tekizt að láta fólkið í landinu búa við þolanlega afkomu, ef tekið er tillit til þessa. Í sambandi við önnur mál hefir hv. þm. játað, að áfall það, sem við höfum hlotið í viðskiptum okkar við útlönd, hafi verið það mikið, að það hafi verið hreinasta kraftaverk, hvernig okkur hafi tekizt að stjórna málum okkar og koma ýmsu í framkvæmd, sem gera þurfti, til þess að fólkið gæti lifað. Ef flokksmenn hv. þm. hefðu setið við stýrið á þessum árum, þá hefði ég haft gaman af því að sjá, hvort þeim hefði tekizt betur að sigrast á örðugleikum þessara ára. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að segja, að sósíalistar hafi svikið öll sín mál. Þeir hafa gert mikið meira í samstarfi við Framsfl. heldur en nokkur gat búizt við með tilliti til örðugleikanna, sem fyrir hendi hafa verið.

Það var rangt hjá honum, að ég hefði sagt, að Vestmannaeyjar hafi átt að vera búnar að gefa sig upp. Ég sagði, að það mundi þá fara þannig fyrir Vestmannaeyjum, að þær yrðu að gefa sig upp, ef þær gætu ekki staðið undir þeirri byrði, sem á þeim hvíldi. Hann sagði, að þær hefðu gert það ennþá. Ég vona líka, að það verði aldrei. En það er öllum kunnugt, að stjórnin á Vestmannaeyjum hefir verið með endemum slæleg. Það er vitað, að bæjarstjórnin var orðin svo hrædd við sín eigin verk, að hún þorði ekki að halda lögboðna fundi tímunum saman af ótta við, að bæjarbúar, og það meira að segja kjósendur meiri hlutans, myndu ef til vill koma með gagnrýni á stjórnina á rekstri bæjarins. Sú rannsókn, sem fram fór í sambandi við stjórnina á Vestmannaeyjabæ, var ekki að ófyrirsynju gerð, þótt ef til vill hafi ekkert komið fram, sem benti á, að það hafi verið um nokkuð glæpasamlegt að ræða. Ég minni hv. þm. á þetta af því, að þetta mun vera einsdæmi í stjórn bæjarfélags hér á landi. Það er ekki til að stæra sig af, að gefa tilefni til að rifjað sé upp, hvernig flokksbræðrum hans hefir tekizt stjórn í þessu bæjarfélagi.

Að síðustu var hann að bera blak af útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum, að því er mér skildist. Ég fór nú ekkert niðrandi orðum um þá. Ég sagði hinsvegar, að ef um vandræði og örðugleika væri að ræða í atvinnulífi Vestmannaeyja, þá hlyti það að standa í beinu samband! við útveginn í Vestmannaeyjum, hvort hann væri rekinn eins og með þyrfti til þess, að fólkið hefði nóg að bita og brenna. Hinsvegar ætla ég ekki að deila á neinn einstakan, hvað því viðvíkur, hvort reka hefði mátt útgerðina betur eða ekki. En það er ekki rétt að ásaka stj. og þingið, þótt komið hafi upp í Vestmannaeyjum örðugleikar í beinu sambandi við atvinnulífið þar í bænum. Ég veit ekki betur en þingið hafi gert ýmsar ráðstafanir til þess að létta undir með útveginum.

Hv. þm. sagði, að ég væri þannig skapi farinn, að ég vildi koma útveginum fyrir kattarnef. Ég verð að segja, að svona ummæli eru mjög ódrengileg, að leyfa sér að halda því fram, þótt ég sem umboðsmaður vissrar stéttar hafi leyft mér að flytja kröfur hennar og óskir gagnvart atvinnurekendum, að þá sé það mín hugsun að vilja koma slíkum atvinnuvegi fyrir kattarnef. Ég verð að segja, að ég hygg, að slík ummæli nálgist það að vera meiðyrði. Það er allt annað, hvort menn vilja, að útgerðin hætti, eða að þeir sem við hana vinna, hafi lífvænleg kjör. (JJós: Hvað vildi hv. þm. gera við togaraútgerðina á síðasta þingi?). Ég er ekki einn um þá skoðun, því að það eru meira að segja margir útgerðarmenn þeirrar skoðunar, að útgerðarfélög, sem eru langt fyrir neðan það að eiga fyrir skuldum, eigi að gera upp og koma togurum þeirra í hendur manna, sem geta rekið þá. Þetta er ekki skoðun okkar jafnaðarmanna einna, því að margir útgerðarmenn eru þessarar skoðunar.

Ég lofaði í upphafi að hafa þetta ekki langa ræðu, en hv. þm. fór svo langt út fyrir efnið og óð út um heima og geima, og á þeim grundvelli verður maður að svara honum, svo að hann hafi ekki einn orðið um fjarstæður í þessu máli. Já, ég sagði, að hv. þm. Vestm. væri einn um þær fjarstæður, sem hér hafa verið bornar fram. Og ég held, að það sé nokkurnveginn rökstutt, að svo sé. Minn réttur til þess að taka til máls er hér með úti, og mun ég þá ekki svara honum, nema ef ég þarf, eins og kallað er. að bera af mér sakir.

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson): Ég gaf ekki tilefni til þessara miklu umr. né þessara kastvinda og hvalablástra um óviðkomandi deilumál að mestu leyti. En þegar svona er slett á aðra flokka, er náttúrlega ekki hægt að láta því ósvarað, og slíkt kemur að nokkru leyti við hverjum þm. þess flokks. Hv. þm. Vestm. hefir varið máli sínu til þess að þurrka af Sjálfstfl. þær skammaslettur, sem á honum hafa dunið.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri bara orðaleikur, þegar menn væru að tala um, hvort þetta væru nýjar tekjur eða tekjur, sem bærinn hefði haft áður. Ef Vestmannaeyingar væri nú sviptir þessum tekjustofnum, gætu þeir notað þessar tekjur á annan hátt. Þessi orðaleikur hefir þó stundum orðið nokkuð erfiður. Það er ekki létt að skipta um skattstofna fyrir bæjarfélög eða ríki. Þegar skattstofnarnir eru flestir með langri notkun, þá er stórkostlega erfitt að breyta þeim í annan skattstofn. Þegar bannlögin voru fyrst sett hér á landi, var eitt hið erfiðasta að vita, hvernig átti að ná inn þeim tekjum, sem ríkið hafði af innflutningi áfengis. Þetta hefði þó átt að reynast fremur auðvelt, því að náttúrlega er enginn skattur, sem er erfiðara að borga, en áfengistollurinn. En það reyndist samt sem áður mjög erfitt að breyta honum í annað gjald. Þeir, sem sæti eiga í bæjarstjórn Vestmannaeyja, vita, að ekki er gott að ná þessu inn með aukningu útsvaranna, eins og minni hluti þeirra, sem honum fylgja að málum, hyggja, að unnt sé að gera. Eins og hv. þm. Vestm. upplýsti, eru útsvörin þar nú orðin svo há, að ekki er hægt að innheimta mikinn hluta þeirra, — og hvaða gagn hefir bæjarstjórnin þá af þessari hækkun? Þetta er eins og kemur fyrir í þeim kaupstöðum, þar sem bæjarútgerð er rekin. Þar hafa bæjarstjórnirnar gefið t. d. einum togara upp nokkra tugi þúsunda og samtímis lagt á hann útsvar. Það er hægt að gera svona orðaleik til þess að láta tekjur og gjöld mætast á fjárhagsáætluninni, en það er vita gagnslaust. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þeir menn, sem þurfa á ríkissjóðnum að halda sér til framfæris, t. d. til sveitarstyrks, fátækrastyrks eða vinnu, kærðu sig ekki um, að gjaldið væri tekið af þeim. Hv. 11. landsk. sagðist ekki verá fús til að láta íhaldsmeirihlutann í bæjarstjórn Vestmannaeyja hafa svona tekjur. Þar kom fram, hvar fiskur liggur undir steini. Hann er á móti því, að Vestmannaeyingar fái þessar tekjur, vegna þess að hann er ekki sammála þeim mönnum í stjórnmálum, sem þar skipa meiri hl. bæjarstjórnar. Ég tala ekki um, út í hvað slík pólitík hlýtur að leiða, en vil mælast til þess, að þessi hv. þm. vildi athuga ástandið í þeim bæjum, þar sem Sjálfstfl. hefir haft meiri hl., og hinum, þar sem hans flokksmenn hafa meiri hl. Hvort finnst manni meir líkur til, að þeim tekjum sé sæmilega varið, sem renna í bæjarsjóð Reykjavíkur, eða þeim tekjum, sem renna í bæjarsjóð Ísafjarðar eða Hafnarfjarðar, sem eru á valdi flokkshræðra þessa hv. þm., að maður ekki tali um suma bæi á Austfjörðum, sem eru svo illa stæðir sem raun ber vitni um af símskeyti, sem nýlega var sent frá einum þeirra til fjmrh., svo hljóðandi: „Sendið strax hingað 30 þús. kr.“. Þetta er sú stjórn á bæjum, sem hann vill, og hann vill samþ. skattstofna í hendur slíkra bæjarstjórna. Ég held, að hvað sem hans pólitísku tilfinningum eða flokksumhyggju liður, sem er ástæðan fyrir því, að hann vill ekki, að samþ. séu skattstofnar í hendur þeirra bæjarstjórna, þar sem Sjálfstfl. hefir meiri hl., verði hann þó að játa, að þeir bæir séu ekki verr staddir fjárhagslega en hinir. Hann var enn að tala um það ranglæti gagnvart öðrum kaupstöðum, að samþykkja þenna tekjustofn handa Vestmannaeyingum. Hvaða ranglæti er það, hvað gerir það öðrum kaupstöðum til, þótt Vestmannaeyjar fái samþ. þennan tekjustofn sinn. Það kann að vera, að aðrir kaupstaðir vilji fá eitthvað svipað, en þeir um það. Mér er ómögulegt að sjá, að það sé neitt tekið frá öðrum kaupstöðum með þessu. Hv. 11. landsk. vildi afsaka það, að flokksmaður sinn, Jónas Guðmundsson, hefði lagt til, að þetta gjald væri lagt á, með því, að það hefði ekki orðið að lögum. En það er ekki rétt, það er einmitt orðið að lögum. Það vill svo einkennilega til, eins og oft hefir verið bent á, að tekna jöfnunarsjóðs er aflað með gjöldum, sem að mestu leyti koma niður á nauðsynjavörum. Verulegur hluti vörugjaldsins er lagður á brýnustu lífsnauðsynjar, svo sem 2% á fiskilínur, fiskinet, lóðarbelgi, lóðartauma, lóðartelna, lóðaröngla, leggingar, tvinna, snúrur og teygjubönd, hafragrjón, hafra, hrísgrjón, kjöttunnur, skóflur, tölur, krókapör, smellur, spennur. Þetta eru líka nauðsynjavörur, en á þær er lagt 10%: Búsáhöld allskonar eldhúsáhöld, allskonar hreinlætisvörur, kaffi og sykur. Með 15% stimplast reikningar yfir allskonar fatnað. Svona er nú þessi tekjuaukning, sem hv. þm. telur mikla sanngirni og miklu réttari heldur en þetta lága vörugjald, sem Vestmannaeyingar vildu leggja á. Þá er þessi tekjuöflun 11% viðauki á alla skatta og tolla. Ekki er hægt að koma lagi á tekjur bæjarfélaga með því að leggja á vörugjöld.

Það er alveg óeðlilegt, hvernig hv. 11. landsk. verður að játa, að búið sé að spenna bogann svo hátt með tekjuhækkunum og aukaútsvörum, að ekki sé hægt að ná meiru inn á þann hátt, ef ríkið eða bæjarfélög þurfa á meira fé að halda. Það er rétt hjá Jóni heitnum Baldvinssyni, er hann sagði: „Það þýðir ekki að spenna bogann hærra með hinum beinu sköttum, það er farið að reka sig upp undir“. Tekjur af aukaútsvörum fara að nálgast að taka allar tekjurnar, geta sjaldan komizt upp fyrir það, svo framarlega sem fyrirtækið þarf að borga allhátt viðskiptagjald auk tekjuhallans. Þá getur maður séð, hve ófært það er, að halda því fram, að meiri tekjur megi ná inn með útsvarshækkunum.

Hv. 1. þm. N.-M. talaði um, að hér væri farið í skakkan enda. Hann viðurkenndi, að aðstaða Vestmannaeyja væri önnur en hinna kaupstaðanna, vegna þess að Vestmannaeyingar fengju ekkert úr jöfnunarsjóði, og væri þá nær að breyta þeim grundvelli, sem úthlutun úr jöfnunarsjóði er miðuð við. Þetta er alveg rétt, — en vill hann þá vera með að breyta þeim grundvelli? Ég fór fram á það, þegar lögin voru sett, en hann var einn hinn allra harðasti á móti því. Vestmannaeyingar myndu þurfa að bíða nokkuð lengi eftir því, ef þeir ættu að geta fengið auknar tekjur með úthlutun úr jöfnunarsjóði, ef hann og hans líkar fengju að ráða. Hann veit, að það er ekki hægt að ætla að standa á móti svona sanngjörnum tilmælum. Hinsvegar ætlar hann að vera á móti því, að Vestmannaeyingar fái þetta gjald til þess að geta staðið í skilum með þarfir bæjarins.

Ég þarf ekki að fara mikið út í ræðu hv. 3. landsk., en beindi sinn máli aðallega að hv. þm. Vestm., vegna þess að hv. þm. Vestm. hefir svarað honum mjög röggsamlega. En ég varð dálítið undrandi þegar þessi hv. þm. spurði að því, hvað þeir Alfl.-menn hefðu gert í sinni þingsögu til þess að leggja byrðar á bæjarfélögin. Við skulum segja, að það hafi verið réttilega gert. En hvernig ætlar hann með þingsögu þess flokks að neita því, að þeir hafi gert þetta?

Einu erfiðleikarnir, sem eru á að svara þessu, eru, að ekki er gott að vita, hvar gripa skal niður, því að það er svo að segja á öllum sviðum. En ég ætla að benda á það eitt, sem þyngir gjöld þegnanna til ríkissjóðs, og þess vegna þyngja þau auðvitað líka á bæjarfélögunum, því að allir þeir peningar, sem ríkið tekur hjá gjaldþegnunum, eru að því leyti teknir frá bæjarfélögunum, að bæjarfélögin eiga erfiðara með að ná inn tekjum frá þessum mönnum. Það þarf ekki annað en að lita á það, hve mikið fjárlög og skattar hafa hækkað t. d. á síðastl. 10 árum, til þess að sjá það, hvernig þeir hafa gert þyngra undir fæti fyrir bæjarfélögin. Ég vil svo nefna það, að sem bein gjöld hafa verið teknir stórir tekjustofnar frá Reykjavík. Hér hafa stórar verzlunargreinar verið teknar úr höndum einstakra manna og lagðar undir ríkið og gerðar skattfrjálsar. Ég man ekki tölurnar, en þær voru gífurlegar. Með breyt. á framfærslulöggjöfinni hafa þeir einnig gert bæjum miklu þyngra fyrir en áður. Meginbreytingin á framfærslulögunum er sú, þar sem ekki er um neinar endurgreiðslur að ræða, heldur á hver maður framfærslusveit þar, sem hann er staddur. Þetta kemur harðast niður á stærstu kaupstöðunum, og einkanlega á Reykjavík. Það mætti halda áfram að telja upp endalaust, hvað þessi flokkur hefir gert til þess að þyngja byrðarnar, en Alþfl.-menn svara, að þetta hafi allt farið til þarflegra hluta. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn; Alþfl.- menn eru mestu eyðsluseggirnir á Alþ., það vita allir (BSt: Það kann nú að vera vafasamt). Þetta var það, sem hv. þm. Vestm. átti við, þegar hann var að tala um snöru í hengds manns húsi í sambandi við það, er nýlega var minnzt á hvalablástur hv. 3. landsk., er hann sagði, að hv. þm. Vestm. væri einn mesti bitlingamaður landsins. Menn hafa ekki almennt vitað um bitlinga hv. þm. Vestm. Mér er ekki kunnugt um annað en að stj. hefir farið fram á það við hann hvað eftir annað, að hann færi sendiferðir til útlanda til að ná samningum við erlend ríki. Mér er ekki kunnugt um, að það sé mikið annað, sem hann hefir af þeim hlutum, og það verður seint talið til bitlinga, þótt færir menn séu fengnir til að fara til útlanda til að semja við önnur ríki fyrir hönd Íslands. Ef svo er, þá er líka hvert verk bitlingur, sem menn hafa á hendi fyrir ríkið. (BSt: því er alltaf haldið fram, þegar framsóknar- eða alþýðuflokksmenn eiga í hlut). Ég hefi verið valinn til að endurskoða landsreikningana, og það má líklega telja það einnig bitling. En mér finnst það vera í meðallagi vel borgað starf. Ég skal nú skýra frá, hvað ég á við með því, að Alþfl.menn séu mestu bitlingamennirnir. Ég á alls ekki við það, þótt þeim sé veitt eða falin einhver störf fyrir þjóðfélagið, heldur hitt, að það hafa beinlinis verið búin til störf í tugatali handa þeim, sem ekki hafa áður verið til í þjóðfélaginu. Það er alls eigi hægt að halda fram tilverurétti þeirra starfa á annan hátt en þennan. Ég vil nefna meginið af ríkisfyrirtækjunum. Hversvegna er ríkið að setja á stofn sérverzlanir með hinar og þessar vörutegundir, sem eins vel má verzla með í frjálsri samkeppni? Hafa menn fengið viðtæki fyrir betra verð eða fjölbreyttari gerðir síðan Viðtækjaverzlun ríkisins tók til starfa? (PZ: Já). Lækkaði verðið á bifreiðum og bifreiðahlutum, síðan einkasalan tók til starfa? Og allar þessar nefndir og öll þessi skipulagning undanfarinna ára hefir kostað mikið fé. T. d. að borga 1200–1400 kr. til þess að skipuleggja bifreiðaferðir um landið. Og hver er svo árangurinn? Menn þurfa að borga dálítinn skatt og ferðirnar verða strjálli og dýrari en áður. Það er þetta, sem alveg mætti þurrka af þjóðinni, án þess að gera ríkinu né þjóðinni neitt til miska. Þessi störf hafa verið sköpuð einungis handa þeim mönnum, sem að þeim vinna. Ég þekki þetta nokkuð af Landsreikningunum og veit þess vegna um launagreiðslur og starfsmannahald við allar þessar stofnanir. Tóbakseinkasalan er t. d. eitt af því, sem margir mæla með. Það hefir þó reynzt þannig, að ríkissjóður hefir ekkert upp úr þessari stofnun; tóbakið er selt sínu verði eftir sem áður. Tóbakseinkasalan var starfandi fyrir allmörgum árum, en var lögð niður um tíma, og tekjur ríkissjóðs minnkuðu ekkert við það; svo var henni komið á aftur, aðeins í því skyni, að hópur manna gæti fengið atvinnu. Það er alveg ótalið, hvað flokkur, sem ungar miklu út af þess konar stöðum, getur keypt sér mikið fylgi.

Ég hefi í ræðu minni farið dálítið út fyrir það frv., sem hér er til umræðu, en tilefnið til þess er ekki frá mér, heldur frá þeim þm., sem hafa beint máli sínu gegn þessari till.

Ég skal ekki rökræða 4 ára áætlunina; það hefir hvað eftir annað verið gert og oftast með leiðinlegum árangri. Það má taka fyrir hvert einasta atriði hennar, og hvort sem það hefir verið framkvæmt eða ekki, þá hefir ekki náðst sú niðurstaða, sem lofað var.

Skal ég nú fyrir tilmæli hæstv. forseta stytta mál mitt. Ég óska þess, að þetta frv. nái fram að ganga með þeim litlu brtt., sem ég ber nú fram.

Umr. frestað.

Forseti tók málið af dagskrá.

Páll Zóphóníasson: Það er nú svo langt liðið síðan þetta mál var hér síðast til umr., að ég hefi gleymt mörgu af því sem ég ætlaði að svara. Vil ég þó ekki láta hjá líða, að leiðrétta ummæli hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir haft þau orð eftir mér, að ég telji, að sá grundvöllur, sem skipulag jöfnunarsjóðs væri reist á, sé rangur. Hann hefir misskilið mig, hafi hann skilið orð mín svo. Ég sagði, að ef Vestmannaeyingar hefðu meiri þörf fyrir að fá þetta vörugjald en aðrir kaupstaðir landsins, en fengju hinsvegar ekkert úr jöfnunarsjóði, þá gæti það aðeins stafað af tvennu. Annaðhvort væri þörfin ekki eins mikil og af væri látið, eða skalinn, sem fylgt væri við úthlutun úr jöfnunarsjóði, væri ekki réttur. Ef hv. 1. þm. Reykv. og aðrir, sem telja þetta vörugjald nauðsynlegt, álíta, að Vestmannaeyingar hafi orðið afskiptir, þá er það þeirra að finna, að slíkt sé á rökum reist, og koma með brtt. við reglurnar, sem greitt er úr jöfnunarsjóði eftir. Það var sagt hér í deildinni af hv. 1. þm. Eyf., að ástæðan fyrir því, að Vestmannaeyingar fengju ekkert úr jöfnunarsjóði, myndi vera sú, að skattamat á fasteignum væri hærra þar en í öðrum kaupstöðum landsins. Ég skal engan dóm leggja á það, en á hitt skal ég benda, að þegar síðasta fasteignamat fór fram, voru það góðir og gegnir menn, er framkvæmdu það. Mennirnir, sem við það fengust, munu ekki hafa verið langt frá Sjálfstfl. Matið var þó svo hátt, að það var lækkað um 10% til samræmis við hina kaupstaðina. Ég hygg, að ástæðan muni liggja, í öðru en því, að fasteignamatið sé of hátt. Ég býst við, þegar þessir menn gerðu matið þetta hátt og var síðan lækkað, hafi það verið orðið í nokkurnveginn samræmi við hina kaupstaðina.

Það gladdi mig að heyra það hér, að hv. 1. þm. Reykv. fór ekkert dult með það, að Sjálfstfl. hefði verið á móti fátækralöggjöfinni. Hingað til hafa forráðamenn þess flokks haldið því fram, að þeir hafi ekki verið móti slíkum breyt. Hitt vita menn, að Sjálfstfl. hefir alltaf verið á móti því, að ríkið hefði tekjur af einkasölunum, og það kom ekki eins á óvart að heyra 1. þm. Reykv. halda slíku fram. Sjálfstæðismenn hafa stundum haldið fram, að það hafi eingöngu verið hinir flokkarnir, sem voru á móti breytingum á framfærslulögunum.

Ég held, að þetta frv. eigi ekki rétt á sér, þótt viðurkennt sé, að Vestmannaeyingar hafa meiri sérstöðu en íbúar annara kauptúna á Íslandi, því að þeir skipta minna við menn úr öðrum hreppum vegna legu eyjanna og aðstöðu, en þó hafa þeir dálitil viðskipti við aðra landsmenn. Ég gæti ef til vill samþ. þetta vörugjald handa Vestmannaeyjakaupstað um eins árs bil, en til frambúðar verð ég aldrei með því.

ATKVGR.

Brtt. 131 tekin aftur til 3. umr.

1. gr. samþ. með 9 shlj. atkv.

2. gr. samþ. með 9 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 9:1 atkv.

Bernharð Stefánsson: Eins og fram kom við 2. umr. þessa máls hér í hv. deild og sömuleiðis er getið í nál. fjhn., þá taldi ég eins rétt að tímabinda þessi lög um ákveðið árabil, hliðstætt því sem gert er um ýmsar álögur til ríkissjóðs. Samkv. þessari skoðun minni hefi ég borið fram brtt. þess efnis, að lög þessi skuli gilda til ársloka 1940. Og jafnframt vil ég geta þess, að það hefir orðið samkomulag um það hjá meiri hl. fjhn. að taka aftur brtt. á þskj. 131.

Hv. flm. þessa máls hefir borið það fram sem stuðning við þetta mál sérstaklega, að Vestmannaeyjakaupstaður fengi ekkert úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga, sökum þess, hve hátt fasteignamatið væri þar, það er því ekki rétt, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði í ræðu, að ég hefði borið þetta fram sem ástæðu fyrir frv., heldur gat ég aðeins um, að þessi ástæða væri nefnd.

Samkvæmt því, sem ég nú hefi sagt, vil ég því reyna að láta lög þessi gilda aðeins til ársloka 1940. Ég var fyrst að hugsa um að bera fram brtt. um að láta þau gilda til ársloka 1941, en við nánari athugun fannst mér það of langt, en hinsvegar kostar lítið að framlengja lögin eftir 2 ár, ef þess gerist þörf.

*Jóhann Jósefsson: Ég vil aðeins geta þess, að ég er samþykkur brtt. þeirri, sem hv. 1. þm. Eyf. lýsti af hálfu meiri hl. fjhn., þar sem farið er fram á, að lögin gildi til ársloka 1940. Mér finnst það nægileg takmörkun, því að það er nú einu sinni orðið svo, að það er ekki gott að þurfa að bera frv. um framlengingu þessara laga fram árlega hér á Alþingi, því að alltaf verða töluverðar umræður um það, enda þótt það sé eins sjálfsagt og sanngjarnt eins og nokkurt frv. getur verið.

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson): Það var þegar sýnt við atkvgr. um frv. þetta við 2. umr., að það á að ná fram að ganga. En eigi að síður hefi ég leyft mér að bera fram brtt. við það um að framlengja lögin aðeins til eins árs, eins og gert er með ýms tekjuöflunarfrv. ríkissjóðs. Út af þeim staðhæfingum, sem færðar hafa verið fram með frv., að Vestmannaeyjakaupstaður fengi ekkert fé úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga, sökum þess, hve fasteignamatið væri hátt þar, vil ég benda á, að bráðlega verður önnur skipun á um úthlutun úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga en verið hefir; á ég þar við ákvæði tryggingarlaganna, sem snerta þessi mál.

ATKVGR.

Afbrigði um skrifl. brtt. (sjá þskj. 200) leyfð og samþ. með 10 shlj. atkv.

hjá hagstofunni, að Vestmannaeyjakaupstaður muni ekki fá neitt úr jöfnunarsjóði í sumar. Það er því ósk mín til hv. deildar, að brtt. hv. meiri hl. fjhn. verði samþ., en brtt. hinna, sem vilja málið feigt, verði felld.

ATKVGR.

Brtt. 131 tekin aftur.

— 200 felld með 10:4 atkv.

— 188 samþ. með 12 shlj. atkv.

Frv., svo breytt, samþ. með 10:4 atkv. og afgr. til Nd.

Of skammt var liðið frá útbýtingu frv. — Afbrigði leyfð og samþ. með 21 shlj. atkv.

*Ísleifur Högnason: Þetta frv. er ekki nýtt hér á þingi, því að á hverju einasta þingi er beðið um að framlengja þetta vörugjald. Upphaflega var borin fram sú ástæða fyrir frv., að útsvör í Vestmannaeyjum innheimtust svo illa, að ekki væri hægt að standa straum af útgjöldum bæjarins, nema þetta gjald kæmi til, en ég hygg, að óvíða innheimtist útsvör eins vel og í Vestmannaeyjum. Hér fyrir framan míg liggur reikningur, saminn af gjaldkeranum, og þar sést, að áætlaðar tekjur 1935 hafa verið 181330 kr., en innheimzt hafa 155868 kr., en svo er innfært sem innborgað 187299 kr., eða 6000 kr. meira en áætlað hefir verið, en ég geri ráð fyrir, að þarna sé um að ræða eitthvað af útsvörum frá fyrra ári.

Nú þegar frv. er flutt, er ekki færð fram sú ástæða fyrir því, að útsvörin innheimtist svo illa, heldur að þetta komi engum öðrum landsmönnum við en Vestmannaeyingum. Vitanlega kemur þessi skattur þyngst niður á fátæka fólkinu, en verður til að minnka útsvörin, sem eru beinn skattur, um 30000 kr. Hagsmunina af þessu hafa vitanlega efnuðu mennirnir í Vestmannaeyjum, en óhaginn alþýðan. En hvers Vestmannaeyingar eiga að gjalda hjá Alþingi, að bæjarstjórninni skuli vera leyft að skattleggja þannig alþýðuna, get ég ekki skilið, og vildi ég gjarnan fá að heyra einhver frambærileg rök fyrir því. Hér stendur í ástæðunum fyrir frv., að Vestmannaeyjar fái ekki einn eyri af því fé, sem ætlazt er til úr jöfnunarsjóði til bæjar- og sveitarfélaga. Þetta er ekki rétt. Ég var í Vestmannaeyjum fyrir viku síðan, og þá var fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 1938 þar til umr., og þá var áætlað, að 15 þús. kr. fengjust úr jöfnunarsjóði. Nú ber þess að gæfa, að framlag úr jöfnunarsjóði fer eftir því, hvað mikið er lagt til fátækraframfæris og menntamála á hverjum stað, og þá er innan handar fyrir Vestmannaeyjar að skera þessi framlög svo við neglur sér, að gjaldið úr jöfnunarsjóði verði lítið. En að Alþingi eigi að leggja blessun sína yfir slíka fjárhagsáætlun með því að veita ráðandi mönnum í Vestmannaeyjum leyfi til að skattleggja fólkið á þann hátt, sem hér er beðið um, get ég ekki séð, að sé rétt, og vildi ég gjarnan heyra einhver frambærileg rök fyrir því, ef nú á enn að framlengja þetta vörugjald, en slíka framlengingu áliti ég mestu ósvinnu. Þetta gjald var frá upphafi ranglátt og er það ekki síður nú, eftir að þessu jöfnunargjaldi hefir verið komið á.

Ég mun því greiða atkv. móti þessu frv. til 2. umr. og vænti þess, að þingið sjái sóma sinn í því, að aflétta þessum rangláta óbeina skatti á alþýðu manna í Vestmannaeyjum, sem er aðeins til hagsmuna fyrir efnaðri mennina, en til óþurftar fyrir alþýðuna.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 16:3 atkv. og til fjhn. með 19 shlj. atkv.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Eins og nál. ber með sér, þá hefir fjhn. eða þeir af nm., sem voru á fundi, fallizt á, að frv. verði samþ. óbreytt, að fengnum þeim upplýsingum, sem fyrir lágu. Það var vist til þess ætlazt, að þessi l. væru ekki lengur í gildi en þangað til I. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga kæmu til framkvæmda. En við fyrstu úthlutun úr honum hafa Vestmannaeyjar ekki fengið neitt eða svo að segja ekki neitt, og þess vegna hefir fjhn. fallizt á, að þessi l. væru framlengd enn um 2 ár og Vestmannaeyjar hefðu leyfi til að hafa þetta vörugjald sem tekjustofn fyrir bæjarfélagið.

2 nm., hv. þm. G.-K. og hv. þm. Ísaf., voru ekki á fundi, svo að ég veit ekki um afstöðu þeirra til málsins, en þeir munu gera grein fyrir því, ef þeir eru meiri hl. ósammála um þetta.

Ísleifur Högnason: Við 1. umr. þessa máls lýsti ég því yfir, að þessi l., sem hér á að framlengja, eru alveg sérstæð fyrir Vestmannaeyjar. Það er ekkert, sem mælir með því að veita efnamönnum í Vestmannaeyjum leyfi til að skattleggja vörur, sem um höfnina fara, til þess að létta á sér útsvörum. Það er tilgangur þessa frv. og enginn annar, eins og hv. þdm. hljóta að skilja. Það virðist samt ekki vera hægt að koma hv. þm. í skilning um, að það styðst ekki við nein rök, að veita efnamönnum í Vestmannaeyjum þetta leyfi til þess að létta af sér sköttum. Ég mun því við 3. umr. bera fram brtt. um það, að í stað þess að leggja þetta gjald á vörur, þá verði bæjarsjóðnum í Vestmannaeyjum heimilt að taka tekjur, sem þessu nema, af seldu víni í Vestmannaeyjum. Mér hefir dottið í hug, að 20% skattur á víni, sem selt er í Vestmannaeyjum, mundi láta nærri, að næmi sömu upphæð og vörugjaldið. Síðastl. ár mun vínútsalan hafa haft 58 þús. kr. umsetningu, og ef 20% væri lagt á útsöluverðið, sem heimilt væri að láta renna í bæjarsjóð, þá mundi það nema mjög álíka upphæð og vörugjaldið.

Þess ber að gæta, að þetta vörugjald kemur niður eins og þungatollur, auk þeirra tolla, sem lagðir eru á af ríkissjóði, og það er gerður greinarmunur á því, á hvaða vörutegundir er lagt. Ef hv. þm. vilja vera sjálfum sér samkvæmir, þá ættu þeir að vera með því, að þetta væri lagt á vöru, sem minnst þörf er fyrir, og er þá rétt að láta þetta koma sem verðtoll á vinið og bægja þannig vörugjaldinu frá þeim nauðsynjavörum, sem almenningur notar mest, því að það er lagt á kornvörur, sykur og fleiri nauðsynjavörur almennings allhátt gjald.

Ég mun bera fram við 3. umr. málsins brtt., og vildi ég, að n. tæki það til athugunar, hvort ekki væri réttlátt að láta þetta gjald koma niður á þann hátt, sem ég hefi hér stungið upp á. Bezt væri, að hægt væri að komast hjá þessu, en það verður víst ekki hægt. Ég mun þess vegna bera þessa till. fram sem neyðarráðstöfun, ef ske kynni, að einhverjir fengjust til að fylgja henni.

*Haraldur Guðmundsson: Ef þetta frv. verður samþ., þá fá Vestmannaeyjar með því sérstöðu, gerólíka aðstöðu við það, sem aðrir kaupstaðir og sveitarfélög á landinu hafa. Ég fæ ekki séð, að þá sé með sanngirni hægt að neita öðrum kaupstöðum um það, að taka upp þetta vörugjald til viðbótar því, sem þau taka vegna hafna og hafnarmannvirkja. Ég fæ ekki séð, að hægt sé að neita þeim um að nota það til tekjuöflunar fyrir bæjar- og sveitarsjóði, ef þetta frv. verður enn á ný samþ.

Með l. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga var svo til ætlazt, að þau sveitar- og bæjarfélög, sem mesta þörf hefðu fyrir það, fengju úr þeim sjóði það, sem þeim hlutfallslega bæri, miðað við þá upphæð, sem sjóðurinn hefði til umráða. Ég tók svo eftir, að hv. frsm. n. gæti þess, að úr þessum jöfnunarsjóði hefði á þessu ári ekkert, eða svo að segja ekkert, komið í hlut Vestmannaeyja, og því teldi hann eðlilegt að samþ. þetta frv. Ef þetta er svo, þá er það ekki annað en vottur þess, að önnur bæjar- og sveitarfélög hafa ríkari þörf til að fá úr þessum sjóði heldur en Vestmannaeyjar, miðað við þær reglur, sem nú gilda um það, hvernig skipt skuli fé sjóðsins. Auk þessa skal ég geta þess, að fyrir árið 1938 eru í gildi l. um vörugjald fyrir, Vestmannaeyjar. En það, sem vitað er um úthlutun úr sjóðnum, er eingöngu það fé. sem kemur til úthlutunar á árinu 1938, og ég hygg þó, að það sé ekki nema helmingur þess fjár. Ég hygg, að hagstofan sé ekki búin að reikna lengra en fyrir árið 1936, en ekki fyrir 1937, sem einnig á að koma til álita á þessu ári. Ég hygg því, að það sé ekki útilokað, að Vestmannaeyjar komi til greina, þegar miðað er við fátækraframfærið árið 1937.

Hingað til hefir verið fylgt þeirri meginreglu með þessari undantekningu snertandi Vestmannaeyjar, að hinir óbeinu skattar og tollar á innfluttum vörum hafa eingöngu verið notaðir sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, umfram það sem nauðsynlegt hefir verið til viðhalds og starfrækslu hafnarmannvirkja og beinlínis er lagt á til þess að standa straum af þeim kostnaði. Ég álít, að það sé alveg rangt að vera að hverfa frá þeirri stefnu, enda hefir þingið í heild verið þeirrar skoðunar 2 síðustu þing, þar sem það hefir ekki fallizt á að lögfesta vörugjald umfram lögmætar hafnargreiðslur sem tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarfélög. Það er líka ranglátt gagnvart hinum bæjarfélögunum, að Vestmannaeyjar fái þessa sérstöðu, eftir að l. um jöfnunarsjóð hafa verið samþ. Ég hlýt því að vera á móti þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því, að það verði að l.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Ég vil aðeins geta þess, að ef það hefir verið réttmætt að láta Vestmannaeyjar hafa þessa aðstöðu áður, þá er hið sama réttmæti enn fyrir hendi, þar sem það hefir komið í ljós, að við úthlutun úr jöfnunarsjóði hafa Vestmannaeyjar ekki fengið neitt sem teljandi sé. Þar sem þingið hefir gengið inn á þessa leið áður gagnvart Vestmannaeyjum, að leyfa þeim að afla tekna með þessu móti, þá sé ég ekki annað en nákvæmlega sömu skilyrði séu þar fyrir hendi og áður.

Þar sem hv. 5. landsk. sagði, að þetta væri aðeins leið til að létta sköttum af efnamönnum í Vestmannaeyjum, sem þeir ættu að greiða til bæjarfélagsins, en það væri réttara að taka þetta af áfengissölu í Vestmannaeyjum, þá vil ég benda honum á, að með því móti er hann líka að létta sköttum af efnamönnum í Vestmannaeyjum og lætur þá ekki standa undir því, heldur er þá verið að taka skatt, sem ríkið hefir rétt á að taka til sinnar starfsemi. En með því að halda þessu vörugjaldi, þá eru það allir borgarar í Vestmannaeyjum, sem standa undir því, og þar með er ekki tekin tekjuöflunarleið, sem ríkið hefir annars áskilið sér rétt til að hafa til þess að standa undir sínum útgjöldum. Ég tel því, að það væri síður en svo réttmætari leið að fara að létta bæjargjöldum af Vestmannaeyjum með því að láta þá hafa tekjustofn, sem ríkið hefir haft. heldur en að leyfa þeim að leggja vörugjald á þær vörur, sem þeir nota sjálfir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. hélt fram, að með þessu móti fengju Vestmannaeyjar sérstöðu fram yfir aðra kaupstaði og þeim væri ekki gert jafn hátt undir höfði, þá er því til að svara, sem jafnan hefir verið fært fram sem aðalástæða, þegar þetta gjald hefir verið samþ. áður, að Vestmannaeyjabær hefir sérstaka aðstöðu, þar sem hann er ekki innflutningshöfn fyrir neina nema íbúa Vestmannaeyja. Þessu er ekki til að dreifa með aðra kaupstaði hér á landi, þar sem þeir hafa verzlun við héruðin umhverfis sig, svo að þeim væri þá leyft að skattleggja ekki aðeins sina eigin borgara, heldur líka önnur héruð eða sveitarfélög. Þessu er ekki til að dreifa um Vestmannaeyjar, því að þær flytja svo að segja ekkert inn nema það, sem borgarar þeirra neyta sjálfir. Þetta hygg ég, að séu aðalrökin fyrir því, að þetta gjald hefir verið leyft í Vestmannaeyjum, en öðrum kaupstöðum hefir verið neitað um það. Þessi rök eru enn í fullu gildi þrátt fyrir h um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, þar sem sá sjóður hefir enn sem komið er ekki orðið Vestmannaeyjum að neinu liði.

*Ísleifur Högnason: Mér þykir fyrir því, að hafa ekki getað talað við n., áður en hún afgr. málið til 2. umr., vegna þess að það gætir mjög mikils misskilnings hjá hv. frsm. því er þá fyrst til að svara, að þótt ekkert hafi runnið til Vestmannaeyja enn, þá er þó á þessa árs fjárhagsáætlun gert ráð fyrir 15 þús. kr. úr jöfnunarsjóði. Það mun nema 20 þús. kr. á árinu, því að það mun vera of lágt reiknað á fjárhagsáætlun bæjarins. Þegar n. hefir fengið upplýsingar um það, að á fjárhagsáætlun bæjarins séu áætlaðar 15 þús. kr. tekjur úr jöfnunarsjóði, og þar sem má gera ráð fyrir, að það fari hækkandi, þá er ekki lengur það tilefni til að leggja á vörugjald, sem hv. frsm. n. gat um.

Annað atriði, sem hann minntist á, var, að Vestmannaeyjar væru einangraðar, svo að þetta gjald kæmi ekki niður á aðra en Vestmannaeyinga sjálfa. Það er rangt, því að á vertíðinni eru þar 1000–1500 aðkomumenn, sem kaupa þar vörur, sem eru seldar við hærra verði, vegna þess að þetta vörugjald er lagt á þær vörur, sem þeir neyta í Vestmannaeyjum.

Ég þakka stuðning þann, sem hv. þm. Seyðf. hefir léð mínum málstað, en ég vil geta þess í sambandi við hans afstöðu, að hún er ekki sú sama og mín að því leyti, að hann álítur þetta réttarbót fyrir alþýðu manna í Vestmannaeyjum. Þetta er réttarskerðing, og það væri vitanlega engin bót að því, að efnamenn í öðrum kaupstöðum fengju að létta af sér útsvörum með því að leggja skatt á nauðsynjavörur fólksins. Hv. þm. hlýtur að skilja það, að það er síður en svo réttarbót fyrir alþýðu manna í Vestmannaeyjum að fá þetta frv. samþ.

Ég mun greiða atkv. gegn frv. við þessa umr., en ég mun flytja brtt. við það, ef það heldur áfram í hv. d., eins og ég lýsti yfir áðan. Það hefir skotizt framhjá hv. frsm. áðan, að ég lýsti því yfir, að það yrði að skoðast sem neyðarvörn gegn því, að lagður væri skattur á nauðsynjavörur fólksins, en hann væri þá lagður á óhófsvöru. En æskilegast væri, að málið væri fellt, og þá kæmi brtt. mín ekki til greina. Það er vitanlega skattur á fólkið, þótt það sé skattur á áfengið. En það virðist gæta misskilnings hjá honum, þar sem hann heldur, að það sé meiningin að taka það af álagi ríkissjóðs á vinið, því að það var ekki meiningin, heldur átti það að koma sem skattur á útsöluverð áfengis. Með því móti væri hægt að ná um 30 þús. kr.

*Haraldur Guðmundsson: Það er misskilningur hjá hv. 5. landsk., að ég hafi talið það réttarbætur fyrir Vestmannaeyjar, ef þetta frv. væri samþ. Það, sem ég sagði, var, að það væri sköpuð sérstaða fyrir Vestmannaeyjakaupstað, ef þetta frv. væri samþ., sem myndi veita honum aðstöðu til fjáröflunar umfram þær leiðir, sem aðrir kaupsfaðir hefðu samkvæmt l. Ég er honum sammála um, að það sé ekki heppileg leið að lækka útsvörin og afla tekna á þennan hátt.

Snertandi það, sem hv. frsm. n. sagði, að ef það hefði áður verið rétt og sanngjarnt að hafa þessa heimild í l. fyrir Vestmannaeyjar, þá væri það jafneðlilegt nú, þá er því til að svara, að ég hefi alltaf verið á móti svona frv., hvenær sem það hefir verið flutt. Í öðru lagi má benda á það, að þó svo sé, að Vestmannaeyjar fái ekkert af fyrri úthlutun ársins 1938 úr jöfnunarsjóði, þá er a. m. k. ekki vitað, að þær fái ekkert af annari úthlutun. Það er því engin ástæða til að ætla annað en að á komandi árum fái Vestmanneyjar til jafns við aðra kaupstaði eftir þeim reglum, sem settar eru um það í l. Vestmannaeyjar hafa líka á þessu ári tekjur samkvæmt þessum l., sem nú er farið fram á að framlengja, því að þau gilda til ársloka 1938. Og nú er það upplýst af hv. 5. landsk., að tekjur af vörugjaldi nemi fullum 30 þús. kr., en jafnframt hefir bæjarstjórn þótt óhætt að áætla 15 þús. kr. tekjur úr jöfnunarsjóði.

Þá segir hv. frsm., að Vestmannaeyjakaupstaður hafi sérstöðu í því, að vörugjaldið leggist eingöngu á vörur, sem bæjarmenn sjálfir nota. Þetta er ekki rétt. Á vertíð dvelur þar fjöldi aðkomumanna og jafnvel aðkomuskipa og ber þessar byrðar ekki síður en bæjarmenn. Þar stendur alveg eins á um Siglufjörð. Hann hefir sáralitla verzlun nema við skip. Ef þetta frv. verður samþ., er erfitt að neita Siglufjarðarkaupstað um hið sama. Enda vantar það ekki, að beiðnir hafa legið fyrir þinginu um það og frv. komið fram. Hafnarfjörður hefði án efa vörugjald af því einn, sem innanbæjarmenn og fáeinir bændur í kring nota — og þó aðeins af hluta af því, þar sem mikið af vörum er flutt landveg úr Reykjavík; það er ástæðan til þess, að ekki hefir þótt gagn í að setja vörugjald í Hafnarfirði.

Þó að þeir kaupstaðir, sem um ræðir, hafi ekki vörugjald, hafa þeir nokkuð, sem nálgast það. Ég veit ekki betur en viðast sé lagt á verzlanir, miðað við umsetning þeirra, og það hlýtur náttúrlega að koma fram í hækkuðu vöruverði eins og vörugjaldið. Ég sé ekki betur en Vestmannaeyjakaupstað sé alveg eins hollt að halda sér við útsvörin, eins og aðrir kaupstaðir, úr því að vörugjaldið er í rauninni sami tekjustofninn og útsvör verzlana. Allra sízt get ég samþ. frv. eftir að búið er að ganga frá löggjöf um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og um jöfnunarsjóð, sem mun sjá Vestmannaeyjum fyrir töluverðum tekjum á næstu árum.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Hv. þm. Seyðf. taldi það algengt að skattleggja vörur með útsvarsálagningu. Ég sé ekki ákaflega mikinn murt á því og vörugjaldi. Það hlýtur að koma niður á sömu einstaklingum. En þá dreg ég af því aðrar ályktanir en hv. þm. gerði. Ég sé ekkert á móti því að leyfa bæjarstjórn Vestmannaeyja að nota tekjustofninn á þann hátt, sem hún telur heppilegra, fyrst almenningi má á sama standa.

Það, sem hv. þm. sagði um Siglufjörð og Hafnarfjörð, mun ekki vera alveg rétt. A því er ekki vafi, að Siglufjörður hefir nokkra verzlun, t. d. við Fljótamenn (PO: Og svo allan síldarflotann á sumrin). Já, síldveiðiverzlunin er nú mál út af fyrir sig. — Hafnarfjörður hefir verzlun við þéttbýl sveitarfélög, sem umkringja hann, s. s. Álftanesið. Það er því alveg vist, að enginn kaupstaður á landinu hefir sömu sérstöðu og Vestmannaeyjar.

Þá er því haldið fram, að vörugjaldið leggist ranglega á 1000–1500 manns, sem sæki atvinnu til Vestmannaeyja. Ég veit ekki betur en heimilt sé að leggja útsvör á fólk, sem er við atvinnu í Vestmannaeyjum um vertíðina, 3 mánuði eða lengur. Munurinn á því og vörugjaldi er bara sá, að það er oft ómögulegt að innheimta útsvörin hjá fólki, sem fer sitt í hverja áttina að vertíð lokinni.

Þó að nú standi á fjárhagsáætlun bæjarins 15 þús. kr. tekjur úr jöfnunarsjóði, er ekki vist, hvort sú áætlun stenzt; tryggar tekjur eru það a. m. k. ekki.

Hv. 5. landsk. talaði um, að ekki ætti að eftirláta bæjarfélögum hluta af áfengistekjum ríkissjóðs, þó að uppástunga hans yrði tekin til greina, heldur hækka verð áfengisins. En ef hægt væri að hækka það meira, á ríkissjóður tvímælalaust að njóta þess tekjustofns einn. Það er ófær leið að fara að skerða tekjustofna hans. Sé það rétt, að vörugjaldið sé af einhverra hálfu ætlað til þess, eins og hv. þm. telur, að velta byrðum af þeim efnuðu á almenning, þá er það engu betri tillaga hjá honum að velta byrðinni á ríkissjóð og þar með almenning í landinu.

*Haraldur Guðmundsson: Það er að sjálfsögðu eins heimilt samkv. útsvarslögum að leggja útsvar á aðkomufólk í Vestmannaeyjum, hvort sem það ber líka þunga af þessu vörugjaldi eða ekki. Þar er ekkert „annaðhvort -eða“ heldur „bæði — og“; skatturinn verður tvöfaldur (SvbH: Mundi það þá ekki lækka útsvörin?). Hvaða útsvör heldur þm., að mundu aðallega lækka? Það getur aldrei réttlætt þessi heimildarlög.

Það má e. t. v. segja, að ýmsum bæjarfélögum komi illa að geta ekki skattlagt utanbæjarmenn gegnum verzlunina, sem þeir sækja þangað. Hv. 1. þm. Rang. veit vel, að örðugleikar ýmissa bæja liggja m. a. í því, að verzlunin er komin í hendur kaupfélaga, sem greiða ekki útsvör eftir sömu reglum og aðrar verzlanir, miðað við umsetningu. Uppbót fyrir þetta hefir verið reynt að gefa með nýrri löggjöf. Sömu reglur eiga þar að gilda á öllu landinu. En í Vestmannaeyjum er þessu varla til að dreifa, svo að tekjuuppbótarþörfin ætti að vera þar þeim mun minni en annarsstaðar. Ég held, að hér kenni misskilnings hjá hv. frsm., þegar hann heldur, að Vestmannaeyjakaupstaður verði afskiptur við úthlutun úr jöfnunarsjóði. En til viðbótar við 30 þús. kr. eða meira, sem vörugjaldið nemur, fær kaupstaðurinn væntanlega a. m. k. 15 þús. kr. úr sjóðnum. Þótt úthlutun sé ekki lokið fyrir árið 1937 og ekki víst, hver hún verður, geri ég ráð fyrir, að Vestmannaeyjar verði ekki illa úti.

Það verður að vera sjónarmið Alþingis, að sömu reglur eigi að gilda fyrir landsmenn alla. En með því að samþ. þetta frv., eftir að komin eru lög um jöfnunarsjóð, er ekki aðeins brotin sú regla, heldur skapað beint misrétti, þar sem Vestmannaeyjum er heimilað að létta þannig á útsvörum, án þess að sannað sé, að þörfin þar sé meiri en annarsstaðar.

*Ísleifur Högnason: Ég ætla að benda hv. frsm. á, að vörugjaldið er í gildi í Vestmannaeyjum þetta ár og að engu er stefnt í voða, þó að þetta yrði ekki samþ. fyrr en 1939. Þetta umsetningargjald, sem ýmsar hreppsnefndir eru farnar að leggja á verzlanir, mun vera algerlega ólöglegt, en mál af því tagi liggur nú fyrir dómstólunum til úrskurðar. Lögin leyfa hvergi slíka útsvarsálagningu, sem verkar alveg eins og tollur eða nefskattur, heldur aðeins að jafna niður eftir efnum og ástæðum.

Hv. frsm. bjóst við, að 15 þús. kr. úr jöfnunarsjóði væri of hátt áætlað af bæjarstjórn Vestmannaeyja. Engar ástæður hafa verið færðar fyrir, að svo sé. En miðað við mannfjölda ættu það að vera 20 þús. kr., og ég geri ráð fyrir, að það verði reyndin, en ekki 15 þús.

Þá hélt hv. frsm. því fram, að ef hægt væri að hækka áfengisverð, gæti ríkið tekið þann ágóða. Vitanlega. ríkið gæti líka tekið þetta vörugjald ef Alþingi teldi það hafa nokkurn siðferðilegan rétt til þess. — Annars er hér ekki verið að deila um skipting tekjustofna milli ríkis og bæja, eins og hv. frsm. virtist halda. heldur um það, á hvaða grundvelli álögurnar eigi að hvíla, á neyzluvörum, eins og í frv., eða, eins og ég legg fremur til, á óhófsvörum.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Ég skal ekki lengja umræður um málið. En ég hélt, að öllum væri kunnugt, að bæjarfélög hafa ekki verið talin hafa of miklar tekjur. Stöðugar kröfur hafa verið uppi um nýja tekjustofna handa þeim. Og meðan ekki er séð, hvort Vestmannaeyjar fá nokkuð að gagni úr jöfnunarsjóði, finnst mér ekki rétt að fella niður þennan tekjustofn, sem bæjarfélagið þarf til að halda sér í horfinu. Það hefir fulla nauðsyn á að halda í þennan rétt sinn (ÍslH: Þetta er ekkert réttlæti. Það er gamalt óréttlæti). Það er sama réttlætið nú og áður.

ATKVGR.

1. gr. samþ. með 20:6 atkv.

2. gr. samþ. með 18:5 atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 18:5 atkv.

*Ísleifur Högnason: Við 2. umr. bar ég fram brtt. við frv. um vörugjald í Vestmannaeyjum, en eftir að ég átti tal við formann n., sem um frv. fjallaði, féll ég frá að bera brtt. fram í því formi, sem ég hafði ætlað mér. Eins og ég tók fram við 2. umr., þá er engin nauðsyn til þess að skattleggja alþýðu manna í Vestmannaeyjum með sérstökum óbeinum tolli umfram aðra landsmenn, því að þar á vitanlega að ná tekjum í bæjarsjóð með beinum útsvörum aðallega, eins og annarsstaðar. Nú er það athugavert við þetta frv., að í því felst heimild fyrir bæjarstjórnina að taka ekki aðeins það, sem hún tekur nú, um 30 þús. kr. á ári, heldur 65 þús. kr., því að samkvæmt reikningi yfir tekjur og gjöld hafnarsjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 1935, hefir allt vörugjaldið, sem lagt hefir verið á til hafnarinnar. numið 130 þús. kr. Ef bæjarstjórnin hefir heimild til að innheimta þessi gjöld með 50% álagi, þá gæti þetta komizt upp í 63 þús. kr. Það nær vitanlega engri átt, ef með óbeinum tollum eða sköttum er ætlunin að taka 1/2 eða 1/3 af öllum bæjargjöldunum á þennan hátt. Útsvörin myndu þá með tímanum geta fallið alveg niður. Setjum svo, að vörugjald væri hækkað eftir gjaldskrá, sem ráðuneytið samþ., og væri komið upp í 200 þús. kr. Þá hefði bæjarstjórnin heimild til að leggja á það toll, 100 þús. kr. í bæjarsjóð. Þá færi það þannig, að úfsvörin legðust alveg niður. En með því að heimila 15%, þá myndu þó ekki nást nema 19 þús. kr. Og með tilliti til þess, að jöfnunarsjóður er farinn að gefa í bæjarsjóðínn í Vestmannaeyjum 15–20 þús. kr. á ári, þá er ástæðan fyrir þessari tekjuöflun að falla burtu.

Mér þykir leift, hvað fáir eru hér í hv. d., en ég vona, að hv. þm. geti fallizt á að ganga inn á þessa brtt. og létta þannig að nokkru leyti þessum skatti af Vestmannaeyjum. Mér þætti vænt um, áður en gengið er til atkv., að form., allshn., en hún hafði þetta mál til meðferðar. lýsi afstöðu sinni til brtt. á þskj. 360.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Viðvíkjandi því, sem hv. 5. landsk. sagði, að hætta væri á því, að það verði tekið meira en þörf er á með því að setja hærri prósenttölu en þörf er fyrir, og þess vegna beri að lækka heimildina, þá er rétt, að ég segi frá því, að ég hefi aflað mér upplýsinga um það, að síðan þetta vörugjald var heimilað, þá hefir aldrei verið innheimt nema 25%, þó heimildin í l. væri 50%, og það er vegna þess, að það er á valdi atvmrh., hversu háa heimild hann samþykkir. Það stendur í frv., að þetta sé ákveðið í reglugerð, sem bæjarstjórnin samþ. og atvmrh. staðfestir. Ég hefi líka fengið upplýsingar um það, að þetta er jafnan framkvæmt þannig í Vestmannaeyjum, að ekki er tekið nema sem svarar 25%, þótt heimildin sé á þennan hátt í l. Ég tel litlar líkur til þess, að þetta verði framkvæmt á annan hátt eftirleiðis, og þar sem ég treysti fullkomlega þeim ráðh., sem hér á að veita sitt samþykki, að hann fari sanngjarnlega og hóflega í sakirnar, þá sé ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að samþ. brtt.

*Ísleifur Högnason: Ég álít það nú ekki nein rök fyrir því, að leyfa þessi 50%, að hv. þm. treysti núverandi atvmrh. til þess að leyfa ekki meira álag en verið hefir. Það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar frá ráðh. um þetta atriði, og til 1940 getur málum skipazt þannig, að þá verði kominn annar atvmrh., sem ef til vill sé tilleiðanlegur að samþ. þá reglug. bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum, sem noti heimildina til fulls. Ég álit það með öllu óþarft, þótt ekki hafi verið tekið nema 25%, að fara svo langt með heimildina, að hætta sé á, að 1/2–1/3 af útsvörunum í Vestmannaeyjum sé tekið með þessum tolli. Ef frsm.n. vildi ganga inn á 25%, þá væri það trygging fyrir því, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Vestmannaeyjum notaði ekki heimildina meira en nú er gert, og það virðist vera tilgangur n., að ekki sé gengið lengra. Ég mundi fylgja þeirri till. frá n., ef hún vildi bera fram skrifl. till. um, að álagningin væri miðuð við 25%, ef mín brtt. væri felld. En með því virðist mér, að gengið sé eins langt og hægt er í því, að heimila Vestmannaeyjum að leggja á þetta vörugjald.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Að það sé ekki nægileg trygging, þótt atvmrh. eigi að samþ., hversu há prósenttala sé tekin með vörugjaldi þar sem það geti viljað svo til, að fyrir þann tíma verði kominn annar atvmrh. heldur en nú er, þá er því til að svara frá minni hendi, að ef það væri kominn annar atvmrh., sem vildi breyta þessu, þá myndi líka vera komin sú skipan á hér á Alþ., að sá ráðh. myndi geta breytt l., ef hann óskaði þess. Ég sé því ekki, að það breyti röksemdafærslunni í þessu efni. Og þar sem það liggur fyrir, að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum hefir aldrei farið fram á samþykki fyrir meiru en þessu, og aldrei hefir verið innheimt nema sem svaraði 25%, þá sé ég ekki ástæðu til að lækka það niður, eins og farið er fram á með brtt. hv. 5. landsk., og þegar það er líka upplýst, að í Vestmannaeyjum er útsvarsstiginn hærri en í hér um bil öllum öðrum kaupstöðum. Það er líka eftirtektarvert, að einmitt á hæstu tekjunum er útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum langtum hærri heldur en bæði í Hafnarfjarðarkaupstað og í Rvík. Svo að ég taki nokkur dæmi, þá er t. d. á 6000 kr. nettótekjur lagt í Rvík 710 kr., í Hafnarfirði 470 kr., en í Vestmannaeyjum 880 kr. Og ef farið er upp í 14000 kr., þá er í Rvík lagt á þær 3180 kr., í Hafnarfirði 2110 kr., en í Vestmannaeyjum 4220 kr., eða helmingi hærra en í Hafnarfirði. Það er því síður en svo, eins og hv. 5. landsk. var að tala um við 1. umr., að þeir, sem hefðu mestar tekjur í Vestmannaeyjum, væru með þessu að létta af sér gjöldum, þar sem það liggur fyrir, að hvergi er gengið lengra í því að leggja útsvör á háar tekjur en einmitt í Vestmannaeyjum. Þess vegna tel ég, að það sé ekki ástæða til annars en láta þessa heimild enn af hendi undir sömu kringumstæðum og verið hefir, því að það er vitað, að kaupstöðunum, eins og þeirra fjárhag er komið, bæði Vestmannaeyja og annara, veitir ekki af að hafa þær tekjur, sem þeir hafa haft, því að það er alltaf verið að bera fram á Alþ. miklar kröfur um nýja og nýja tekjustofna fyrir bæjarfélögin.

*Ísleifur Högnason: Viðvíkjandi þessum síðustu upplýsingum, sem ég er hissa á hv. frsm. að taka til greina, þá vil ég segja það, að þótt Vestmannaeyjar hefðu þrisvar sinnum hærri útsvarsstiga en Rvík, þá er það vitað, að hin endanlega niðurstaða útsvaranna fer ekki eftir þeim útreikningi. Það hefir komið fyrir, að 20% hafa verið dregin frá í Vestmannaeyjum, en kannske bætt við 100–150% í Rvík, og það verður hin endanlega útkoma. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum er 1/3 hærri á tekjum heldur en í Rvík og 50% hærri á eignum, en annars er gerólíkur skattstigi í Vestmannaeyjum því, sem er í Rvík, þegar miðað er við eignir. Ég vil benda hv. þm. á það, að þessir stigar, sem verið er að stilla upp í Vestmannaeyjum, eru ekkert annað en blekkingar, ef á að nota þá til að fá menn til að vera fylgjandi því, að lagt sé á sérstakt vörugjald í Vestmannaeyjum. Eins og ég sagði áðan, þá er dregið frá, af því að niðurjöfnunin er hærri en í fjárhagsáætluninni, kannske 10–30%, en í Rvík hefir upphæðin oft ekki náðst, og þá er bætt við vissri prósenttölu til þess að ná heildarútsvarsupphæðinni. Svo er þess líka að gæta, að innbyrðis hlutföll þessara útsvarsstiga eru mismunandi fyrir þessa bæi. En ég hefi ekki fengið upplýsingar um það, hvað útsvarsálagningin í Vestmannaeyjum er há, samanborið við Hafnarfjörð og Ísafjörð og Akureyri. Mig minnir, að á hvern íbúa sé minna jafnað niður í Vestmannaeyjum heldur en á báðum þessum síðarnefndu stöðum. Það er alalatriðið, hvort útsvarsniðurjöfnunin er hærri, miðuð við íbúafjölda í Vestmannaeyjum, en í öðrum kaupstöðum. Ef það væri, þá gætu það verið rök með því, að ná tekjum öðruvísi, en á meðan ekki er sýnt fram á það, þá álit ég að þessi röksemdafærsla hv. þm. sé ekki hans málstað til stuðnings.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Hv. 5. landsk. segir, að það sé ekki takandi mark á útsvarsstigunum, því að það sé ýmist bætt við þá eða dregið frá þeim. En það skiptir ekki máli í þessu tilfelli; þótt dregið sé frá Vestmannaeyjastiganum 20%, eins og ef til vill hefir komið fyrir, þá breytir það ekki hlutfallinu milli greiðslnanna. Vestmannaeyjastiginn ber það með sér, að hann er mjög hár á hátekjumönnunum, og hærri en annarsstaðar. Þess vegna skiptir það ekki máli, þótt stiganum sé breytt prósentvis, því að með þessu er ekki verið að skattleggja frekar þá, sem lægst eru launaðir, eins og hv. 5 landsk. vildi halda fram við 1. umr. Hinsvegar nær það engri átt, að bætt sé við útsvarstigann í Rvík 100–150%. Það má ekki l. samkvæmt hækka útsvörin frá ári til árs um meira en 20%. Það mun hafa komið fyrir, að þau hafi verið hækkuð prósentvís. Það skiptir máli í þessu sambandi, hvort hann er til að þyngja á almenningi og létta á þeim, sem mestar tekjur hafa, eða öfugt. Og Vestmannaeyjastiginn ber það greinilega með sér, að það verður aldrei hægt að nota þennan tekjuauka hér til að létta af þeim, sem mestar hafa tekjurnar. — Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram um þetta atriði.

*Ísleifur Högnason: Það er aðeins það, sem ég vildi segja, að ég held, að það kenni nokkurs misskilnings hjá hv. síðasta ræðumanni, að því er snertir þetta atriði. Ef hann gæti sýnt það með tölum, að af 10 þús. kr. tekjum yrði að borga endanlega hærri upphæð í Vestmannaeyjum en í Rvík, þá gæti ég fallizt á, að það væru nokkur rök, en með því að hann fer aðeins eftir skattstiganum, sem lagður er til grundvallar, áður en dregið er frá eða aukið við, þá eru það engin frambærileg rök fyrir hans máli. Ef hann getur sýnt fram á, að hin endanlegu útsvör, eftir að búið er að draga frá eða bæta við, séu hærri í Vestmannaeyjum en í Rvík, Hafnarfirði eða Ísafirði, þá myndi ég taka það til greina. Ég staðhæfi, að útsvörin í Vestmannaeyjum séu ekki hærri, miðuð við tekjur og eignir, en í hinum kaupstöðunum.

Frsm. (Sveinbjörn Högnason): Það liggur fyrir, þegar gefnir eru upp stigarnir, eins og jafnan hefir verið siður, frá ríkisskattanefnd á síðasta ári, að það eru hinir raunverulegu stigar, sem farið er eftir, og það myndi fylgja, ef breytt væri til með prósenttölu, og þá, hvernig það væri gert. Nú liggur það fyrir, að á 10 þús. kr. tekjur er lagt í Rvík 1780 kr., en í Vestmannaeyjum 2360 kr. Þetta eru hinir raunverulegu stigar, sem notaðir hafa verið á síðasta ári. Það liggur því fyrir, að það er 700 kr. hærri álagning á þessar tekjur í Vestmannaeyjum en í Rvík.

ATKVGR.

Brtt. 360 (aðaltill.) felld með 19:5 atkv.

— 360 (varatill.) felld með 16:5 atkv.

Frv. samþ. með 20:5 atkv. og afgr. sem lög frá Alþingi (A. 390.

*Flm. (Jakob Möller): Þetta frv. er flutt af þm. Reykjavíkur eftir ósk bæjarráðsins. Það miðar að því að gera auðveldari innheimtu skatta og útsvara af útlendingum, sem hafa stutta viðdvöl í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fara nánar út í efni frv., en vil mælast til þess, að það fái að ganga til 2. umr. og n., og mun þá n. að sjálfsögðu athuga málið nákvæmlega og gera breyt. á því, ef þurfa þykir.

A TKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 19 shlj. atkv. og til allshn. með 17 shlj. atkv.

Forseti tók málið af dagskrá.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson): Herra forseti! Þetta frv. er fram borið af fjórum þm. Reykv. vegna nauðsynjar á að setja sérstaka löggjöf um innheimtu útsvara og skatta hjá erlendum mönnum, sem dvelja hér um stundarsakir, um tiltekinn eða ótiltekinn tíma. Það hefir þótt brenna við, að ýmsir slíkir menn, sem hafa hér atvinnu það lengi, að þeir verða útsvarsskyldir, komast héðan burt án þess að greiða lögmæta skatta, og má kenna það fyrirkomulagi innheimtunnar. Eins og vitað er, fer útsvarsálagning fram í Rvík í maí ár hvert, en fyrsti gjalddagi er 1. júlí þar á eftir. Ýmsir menn, sem hér hafa verið útsvarsskyldir, hafa verið farnir af landi burt, þegar hægt hefir verið að krefja þá um skattinn, en þessu frv. er ætlað að bæta úr þessu. Það er ekki einungis heimild, heldur skylda, að halda eftir ákveðnum hluta af kaupi þeirra, og undir vissum kringumstæðum bera vinnuveitendur þeirra persónulega ábyrgð á greiðslunni. Það nær engri átt, að menn njóti hér atvinnu um svo og svo langan tíma og komist svo hjá að greiða opinber gjöld. Og þó að þetta frv. sé kannske ekki sem fullkomnast, verður ráðin nokkur bót á því ástandi, sem ég hefi lýst, ef það verður samþ.

Það, sem einkum er erfitt við að eiga í þessu sambandi, er að ákveða, hve viðtæk á að vera ábyrgð þeirra manna, sem atvinnu veita. Mennirnir geta líka unnið hjá fleirum en einum vinnuveitanda, og þá þarf að skipta með þeim ábyrgðinni. Þess vegna er fram komin brtt. við 2. gr. Annars þarf ég ekki að tala sérstaklega um brtt., nema hvað ég vil drepa á brtt. við 4. gr. Það þótti rétt að veita ekki aðeins vinnuþiggjanda, heldur og vinnuveitanda möguleika til að fá um það úrskurð skattayfirvaldanna, hve miklu af kaupi skattgreiðanda skyldi haldið eftir.

Þrátt fyrir þær brtt., sem nú eru fram komnar, hygg ég, að þessi löggjöf, sem er að vissu leyti nýmæli, muni þurfa breyt. við síðar. Það er eðlilegt, að hún mótist og myndist eftir því, sem reynslan segir til um.

Þá vil ég aðeins geta þess, að allshn. hefði átt að athuga eitt atriði nánar, nefnilega þá hlið á þessu máli, sem að Dönum snýr. Í 1. gr. stendur: „Gagnvart útlendingum, sem landvistar- og atvinnuleyfi hafa“ o. s. frv., en Danir munu ekki þurfa slíkt landvistarleyfi. Það mætti því skilja 1. gr. svo, að frv. næði ekki til Dana, en svo er þó eigi, enda er þorrinn af þeim mönnum, sem hér koma til greina, danskir. Ég mun fyrir 3. umr. hafa talað um þetta nánar við allshn. Ég vil svo mælast til, að frv. verði samþ. með brtt. allshn. á þskj. 191.

ATKVGR.

Brtt. 191,1 samþ. án atkvgr.

1. gr., svo breytt, samþ. með 18 shlj. atkv.

Brtt. 191,2 samþ. með 18 shlj. atkv.

2. gr., svo breytt, samþ. með 19 shlj. atkv.

Brtt. 191,3 samþ. með 19 shlj. atkv.

3. gr., svo breytt, samþ. með 19 shlj. atkv.

Brtt. 191,4 (ný 4. gr.) samþ. með 17 shlj. atkv.

5.–6. gr. samþ. með 20 shlj. atkv.

Brtt. 191,5 (7. gr. falli burt) samþ. með 19 shlj. atkv.

8.–9. gr. (verða 7.–+8. gr.) samþ. með 17 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 18 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 24 shlj. atkv. og afgr. til Ed. Á 47. fundi í Ed., s. d., skýrði forseti frá, að sér hefði borizt frv. frá Nd., eftir 3. umr. þar.

Á 49. fundi í Ed., 19. apríl, var frv. tekið til 1. umr.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 9 shlj. atkv. og til allshn. með 9 shlj. atkv.

Of skammt var liðið frá útbýtingu nál. — Afbrigði leyfð og samþ. með 10 shlj. atkv.

*Frsm. (Árni Jónsson): Mál þetta er borið fram af þm. Reykv., sem sæti eiga í Nd., og er það til þess fram komið að koma í veg fyrir, að útlendingar, sem stunda hér atvinnu oft æðilangan tíma, komist hjá því að greiða hér útsvar. Sú regla gildir sem sé hér í Reykjavík, að útsvör eru lögð á í byrjun maí, en innheimta þeirra útsvara byrjar ekki fyrr en í júlí. Við skulum hugsa okkur, að útlendur maður komi hingað fyrri hluta júlímánaðar og fái hér atvinnu strax, þá getur hann dvalið fram undir næstu. útsvarsálagningu, eða um 10 mánuði, án þess að greiða nokkurt útsvar eins og sakir standa nú. Til þess að koma í veg fyrir það, að menn, sem eru oft prýðilega launaðir, séu betur settir í þessu efni heldur en landsmenn sjálfir, þá er þetta frv. komið fram.

Aðalákvæði frv. er það, að atvinnurekandi geti haldið eftir af launum slíkra manna, sem hér hafa fengið landvistarleyfi, 20%, ef um einhleypa menn er að ræða, en 15%, et um fjölskyldumenn er að ræða. Til þess að þetta geti heppnazt vel, þá þurfa að liggja fyrir allar upplýsingar um þessa menn, og þá er nauðsynlegt, að mjög náin samvinna sé milli skattayfirvaldanna annarsvegar og svo lögreglustjóra hinsvegar, sem á að hafa eftirlit með útlendingum.

Það hefir ekki verið neinn ágreiningur um þetta hér í allshn., en allshn. Nd. gerði á frv. lítilsháttar breyt., og hygg ég, að þær séu allar til bóta.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta sé ágreiningsefni að neinu leyti, því ég býst við, að allir séu sammála um, að úr þessu þurfi að bæta, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það.

ATKVGR.

1. gr. samþ. með 9 shlj. atkv.

2.–8. gr. samþ. með 10 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 11 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 9 shlj. atkv. og afgr. sem lög frá Alþingi (A. 406).

Frv. of seint fram komið. — Deildin leyfði með 17 shlj. atkv., að það yrði tekið til meðferðar.

*Flm. (Ásgeir Ásgeirsson): Það eru orðin ein 30 ár síðan prestakallalögin voru sett. En öll þessi ár hafa l. ekki komið til framkvæmda gagnvart Ísafjarðarsýslu. Sr. Sigtryggur Guðlaugsson hefir verið prestur í Dýrafjarðarbingum allan þann tíma. Nú má hinsvegar búast við, að hann fari að hætta. Honum hefir verið mjög illa við, að prestakallið félli niður, og ef til vill haldið lengur áfram en honum var hollt heilsunnar vegna. Nú eru allir aðiljar einhuga um að óska eftir, að þetta prestakall verði endurreist. Auk annara röksemda, sem renna undir það, að svo verði gert, er sú, að þarna hefir, eins og kunnugt er, risið upp héraðsskóli að Núpi, þar sem munu verða í framtíðinni milli 40–50 unglingar. Ég vil nú vænta þess, að hv. þm. verði við þessari ósk, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 17 shlj. atkv. og til allshn. með 17:2 atkv.

Of skammt var liðið frá útbýtingu nál. - Afbrigði leyfð og samþ. með 20 shlj. atkv.

*Frsm. (Thor Thors): Þetta frv. miðar að því að endurreisa Dýrafjarðarþing í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem sjálfstætt prestakall.

Með l. frá 1907 var ákveðið, að þetta prestakall skyldi lagt niður, en það hefir aldrei komið til framkvæmda, því að sá prestur, sem starfaði þarna um þær mundir, hefir haldið áfram starfsemi sinni til þessa dags. Með tilliti til þess, að þarna er fjölmennur héraðsskóli, sem lengi hefir notið góðs af starfsemi prestsins, telur allshn. rétt að leggja til, að þetta frv. verði samþ.

ATKVGR.

1. gr. samþ. með 18:2 atkv.

2.–3. gr. samþ. með 19 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 16:3 atkv.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 15:3 atkv. og afgr. til Ed.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. vísað til 2. umr. með 10 shlj. atkv. og til allshn. með 10 shlj. atkv.

Of skammt var liðið frá útbýtingu nál. — Afbrigði leyfð og samþ. með 11 shlj. atkv.

*Frsm. (Magnús Jónsson): Þetta frv. var afgr. ágreiningslaust í Nd., og allshn. þessarar d. leggur óskipt til, að það verði samþ. Með prestakallalögunum frá 1907 voru Dýrafjarðarþing lögð niður. Prestakallið átti að sameinast Sandaprestakalli, þegar næstu prestaskipti yrðu. Síðan hefir sú breyt. orðið, að vestur að Núpi í Dýrafirði hefir risið upp mjög fjölmennur skóli, og má segja að þar hafi myndazt miðdepill þess héraðs í sambandi við þennan skóla. Séra Sigtryggur Guðlaugsson mun nú verða að fara að láta af embætti fyrir aldurs sakir, og þá hefði þessi breyt. átt að komast á, en það verður að teljast mjög óeðlilegt, síðan þungamiðja héraðsins færðist að Núpi. Við þann fjölmenna og blómlega skóla hefir séra Sigtryggur starfað í fjölda ára, og nú er aðstoðarprestur hans kennari þar, og það mun vera ósk manna þar vestra, að þetta prestakall fái að haldast óbreytt. Ein ástæðan til þess, sem ekki vegur litið, er sú, að það þykir mikilsvert að hafa prest að Núpi, til þess að geta notið starfskrafta hans við skólann. Það mun vera óhætt að segja, að héraðsskólinn hafi blómgazt vel undir stjórn hins aldna prests að Núpi, og sama er reynslan með binn unga prest, að hann muni vera góður og nýtur starfsmaður við þann skóla, enda þekki ég hann vel og veit, að það myndi vera mikill skaði fyrir skólann, ef hann missti hans starf.

N. leggur til, að þetta frv. verði samþ. hér óbreytt eins og það var afgr. frá Nd.

ATKVGR.

1. gr. samþ. með 10 shlj. atkv.

2.–3. gr. samþ. með 10 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 10 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 9 shlj. atkv. og afgr. sem lög frá Alþingi (A. 407).

Forseti (JörB): Sakir fráfalls hv. 9. landsk., forseta Sþ., munu störf þessarar deildar falla niður í dag, og er því dagskrármálið hér með tekið af dagskrá. En næsti fundur er ákveðinn á morgun, og verður þá sama mál tekið á dagskrá aftur.

Á 28. fundi í Nd., 18. marz, var frv. aftur tekið til I. umr.

*Flm. (Gísli Guðmundsson): Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 95, frá okkur hv. þm. V.-Húnv., er flutt hér í hv. d. samkvæmt ákvörðun Framsfl. og er um skipun n. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar og gera till. þar að lútandi. Í þessu frv. er svo ákveðið, að í Sþ. skuli kosin með hlutbundinni kosningu 5 manna n. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, og sú n. skuli, eins og það er orðað í 1. gr. frv., sérstaklega taka til athugunar, hvort hægt muni að gera rekstur togaranna hagkvæmari og ódýrari en nú er, og á hvern hátt unnt sé að koma á öruggan grundvöll útgerð þeirra skipa, sem rekin hafa verið með tapi undanfarin ár. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi n. skili niðurstöðum rannsóknar sinnar og þeim till., sem hún, að niðurstöðunum fengnum, vill gera í þessu máli, til ríkisstj., og ef ríkisstj. þykir ástæða til, að þeim tillögum fengnum, að láta rannsaka einstök atriði nánar en gert hefir verið, þá getur hún falið n. þær framkvæmdir. — Til þess að greiða fyrir störfum n. er henni í frv. gefin heimild til að heimta skýrslur af þeim, sem helzt hafa yfir upplýsingum að ráða í þessu máli, og henni er heimill aðgangur að bókum og skjölum þeirra útgerðarfyrirtækja, sem þetta mál snertir, og lögð á þau skylda til að veita n. slíkar upplýsingar sem þurfa þykir. Þessi heimild er veitt með þeim fyrirvara, að n. sé bundin almennri þagnarskyldu um þau atriði, sem mega teljast einkamál fyrirtækjanna, en hafa ekki almenna þýðingu fyrir árangur þessarar rannsóknar og fyrir þær till., sem eru tilgangurinn með þessu.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið, eru að nokkru raktar í grg. frv., og skal ég ekki tala um það efni langt mál. Eins og kunnugt er, hafa frá útgerðarmönnum, og þá einkum togaraútgerðarmönnum, verið uppi óskir um það, að af hálfu ríkisins yrðu gerðar einhverjar ráðstafanir til fjárhagslegrar íhlutunar þess um þessa atvinnugrein. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hvílíka þýðingu togaraútgerðin hefir haft fyrir þetta land, hve stór þáttur hún hefir verið í atvinnulífi landsmanna og hve hún hefir skapað mikið verðmæti fyrir landið undanfarinn áratug, og hvílíka möguleika hún hefir á ýmsan hátt skapað fyrir landið. Þegar því frá þessari útgerð berast ákveðnar óskir til ríkisvaldsins um að koma henni til aðstoðar fjárhagslega á einhvern hátt, verður ekki hjá því komizt, að taka þær óskir til athugunar, en ekki er það gerlegt fyrir ríkisstjórnina að verða við þeim óskum af handahófi, heldur verður að álítast sjálfsagður undanfari, áður en um slíkt sé að ræða, að ríkið láti fram fara rannsókn á hag útgerðarinnar, sem þing og stjórn getur á allan hátt byggt á, hvað það er, sem sérstaklega veldur því, að togaraútgerðin virðist eiga svo erfitt uppdráttar við þau skilyrði, sem hún nú hefir, og hvaða leiðir eru vænlegastar til að bæta úr þessu ástandi. Þegar ríkið á í hlut, er sjálfsagt að gera. sér samvizkusamlega grein fyrir því, hvort ekki kynnu að vera einhverjar aðrar leiðir, sem fara mætti að einhverju leyti, til að bæta aðstöðuna, önnur en sú, að veita opinberan stuðning. Í þeim tilgangi, að slík vitneskja geti legið fyrir á þann hátt sem eðlilegt er, er frv. þetta flutt.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég hefi rakið efni frv. og ástæðurnar fyrir því í aðalatriðum, og málið að öðru leyti það einfalt, að ég tel ekki þörf á ýtarlegri framsögu fyrir því. Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. og er þá að sjálfsögðu tækifæri til að ræða einstök atriði þess nánar við 2. umr., þegar hv. n. hefir haft það til meðferðar og gert sínar athugasemdir við það.

*Ólafur Thors: Það er kunnara mál en svo, að þörf sé að fara um það mörgum orðum hér í hv. d., að hagur útgerðarinnar almennt hér á landi stendur höllum fótum og hefir gert það hin síðustu ár. Þar sem þetta frv. fjallar sérstaklega um rannsókn á hag togaraútgerðarinnar, þykir mér ástæða til að vekja athygli á því, að fyrir hv. ríkisstjórn og ýmsum öðrum hafa legið skýrslur frá útvegsmönnum, sem bera með sér, hvernig rekstur togara hefir gengið hin síðustu ár. Sést þar, að tap meðal togara árið 1936 hefir numið um 70 þús. kr. og 1937 um 50 þús. kr. Slík afkoma, ofan á slæman efnahag, sem fyrir var orðinn, leiðir ekki til neins annars en gjaldþrots og almenns hruns. Af þeim ástæðum hafa útvegsmenn beint þeim óskum til löggjafarvaldsins, að löggjafinn slakaði eitthvað til á þeim þungu gjöldum, sem hann hefir lagt á útveginn og stöðugt þyngjast ár frá ári nú síðari ár. Vil ég í því sambandi, út af orðalagi grg. þessa frv., þar sem segir, að málaleitanir útvegsmanna hafi sérstaklega verið rökstuddar með því, að togaraútgerðin geti ekki horið sig af eigin rammleik, geta þess og leggja áherzlu á, að það er almenn skoðun togaraútgerðarmanna og annara útvegsmanna, að það sé mjög hægur leikur að láta útveginn bera sig, ef ríkisvaldið tæki hann ekki þeim tökum, sem það hefir gert undanfarin ár. Það er eitt fyrir sig, að allur gjaldeyrir er tekinn af útveginum og útveginum skammtað verð fyrir hann, sem ákveðið er af öðru en framboði og eftirspurn. Hv. flm. munu vita, eins vel og ég, að það er skoðun útvegsmanna, að ef þeir fengju að selja sinn gjaldeyri á frjálsum markaði, þá myndu þeir bera nóg úr býtum til, að togararnir væru fjárhagslega arðbærir. Væri lögleitt, að útvegurinn fengi að ráðstafa sjálfur sínum gjaldeyri, þá mundi hann fær um að standa undir sjálfum sér af eigin rammleik, þrátt fyrir auknar álögur. Að þetta hefir ekki verið gert, þrátt fyrir þótt þörfin hafi verið viðurkennd, er af því, að menn veigra sér við að ganga inn á þá braut af ýmsum ástæðum, sem of langt yrði hér upp að telja. Það hefir ekki verið reynt að rannsaka, hve brýn þörf útvegsmanna væri til að fá sinn gjaldeyri greiddan fullu verði, eða hve mikið það myndi hjálpa þeim til að rísa undir rekstrinum af eigin rammleik. Nú er þó, að því er hv. frsm. og flm. telur, ástæða til að athuga, hvers vegna útvegsmenn hafa ekki getað staðið undir rekstri útgerðarinnar. Ekki einungis togaraútgerðin, heldur og vélbátaútgerðin verður nú að fá aðstoð Alþ. Sumsstaðar mun vélbátaútgerðin ekki standa sig betur en togaraútgerðin. Það, sem við löggjafarnir þurfum að horfast í augu við, er það, að útvegsmenn hafa lagt fram skýrslu um, að, að óbreyttum kringumstæðum og núverandi verðgildi gjaldmiðilsins, muni þeir ekki geta staðizt reksturinn lengur, verði áframhaldandi sama hlutfall milli tilkostnaðar og afraksturs. Við verðum að horfast í augu við það, að svo má þetta ekki til ganga til langframa.

Um þær málaleitanir, sem útvegsmenn hafa borið fram til Alþ., er það að segja, að Alþ. og ríkisstj. hafa synjað um að gera nokkrar ráðstafanir til þess að verða við þessum beiðnum. Enda þótt létt hafi verið af tollum á salti, kolum og olíu, þá koma hara nýir skattar í staðinn. Það er því tekið með annari hendinni, sem gefið er með hinni. Það er þess vegna svo, að útgerðarmenn hafa enn á ný borið fram kvartanir sínar viðvíkjandi skattþunganum og beiðni um, að löggjafinn vilji verða við þeirri augljósu nauðsyn útgerðarinnar, að verða ekki eins þunghentur eins og verið hefir á útgerðinni. Nú má segja, að fyrir þessu liggi nokkuð óyggjandi sannanir, meðal annars í bréfi til stjórnar S. Í. F. til ríkisstjórnarinnar, sem oft hefir verið minnzt á. Þar lýsir stjórn S. Í. F. þeirri skoðun sinni, að ekkert blasi við útflutningnum annað en fyrirsjáanlegt hrun, nema veruleg gangskör sé gerð að því að leiðrétta hlutfallið milli tilkostnaðar og afraksturs. Ég tel því þetta mál liggja skýrt fyrir. Hitt er annað mál, að það er a. m. k. mjög eðlilegt, að þeir hv. þm., sem telja sig ekki geta tekið jafnmikið mark á skýrslu útgerðarmanna eins og ég, vilji, að framkvæmd verði rannsókn á hag útgerðarinnar af þeim mönnum, sem þeir treysta, áður en þeir taka þá ákvörðun að veita útgerðinni þennan skattlétti. Mér finnst þetta eðlileg afstaða, þó að ég ekki telji mig þurfa neinar nýjar sannanir í málinu, áður en ég tek ákvörðun. Ég segi þess vegna, að ég mun fylgja þessu máli. Og ég get upplýst það, sem mönnum mun ekki þykja óeðlilegt, að ég hefi leitað álits útgerðarmanna um málið, og ég held, að ég megi fullyrða, að álit þeirra sé á sama veg. Sannast að segja virðist mér sú skoðun koma fram hjá útvegsmönnum í sambandi við umr. mínar við þá, sem við höfum tjáð bæði sáttasemjara ríkisins,sáttanefndinni, stjórnarvöldunum og bæjarstjórn Reykjavíkur, að við getum ekki haldið áfram nema við fáum ívilnanir frá bæ og ríki. Og við höfum ákveðið að hreyfa ekki skipin, enda þótt við næðum kaupsamningum, nema þessir aðiljar geri einhverjar tilslakanir. Því að gegn okkar lánardrottnum höfum við enga heimild til að misnota þeirra traust og halda áfram út í voða með útgerðina. Þannig var það okkar skylda að segja betur til, hvar skórinn kreppti. Nú hefir Alþ. kveðið upp með nýjum f. úrskurð um það, að löggjafarvaldið telji svo mikla nauðsyn á því, að útgerðin geti haldið áfram, að nauðsyn beri til að brjóta reglu, sem það að öðru leyti telur sig aðhyllast. nú skilst mér, að útgerðarmenn vilji taka afleiðingunum af þessu. Ég hefi ekki umboð til að segja, að þetta sé félagssamþykkt, en ég hefi talað við marga útgerðarmenn, og þeir hafa látið í ljós þessa skoðun. Þeir telja, að við verðum að virða þennan þingvilja um leið og við játum okkar getuleysi til að halda áfram rekstrinum, ef ríki og bær taka jafnþungum tökum á okkur. En með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, þykjast útgerðarmenn sjá hilla undir það, að löggjafinn ætli sér að ívilna þeim. Með þessari rannsókn getur ekki verið önnur meining en sú, að ef rannsóknin leiði það í ljós að útgerðin standi sig, eins og af er látið, þá ætli löggjafinn að verða við beiðni útgerðarmanna að einhverju eða öllu leyti. Mér sýnist þess vegna afstaða útvegsmanna eðlileg. Þeir segja sem svo: Við fögnum framkomu þessa frv., af því að með flutningi þess sjáum við hilla undir uppfylling þarfa okkar.

Ég vil svo aðeins að lokum benda á tvö atriði í sambandi við þetta mál. Það er annarsvegar það, hvort ekki þætti rétt að láta fara fram rannsókn á annari útgerð en togaraútgerðinni, þ. e. a. s., ég er að bera fram ósk um, að einnig yrði tekið til athugunar, hvort önnur útgerð þyrfti ekki ívilnana víð. Það er ekki rétt með farið, að þessar óskir og kveinstafir, sem Alþ. hafa borizt, séu eingöngu frá stærri útgerðinni. Þar eru einnig bornar fram ýmsar umkvartanir fyrir smáútveginn. — Hitt atriðið er það, að mér skilst, að samkv. frv. sé ekki ætlazt til, að rannsókn fari fram hjá öðrum fyrirtækjum en þeim, sem einstaklingar eða félög reka. Með þessu mundi falla undan rannsókn á bæjarútgerðunum. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé af vangá, og vildi mælast til, að flm. sjálfir hlutuðust til um, að þetta yrði leiðrétt. Ég get vel hugsað mér, að heppilegasta lausn þessa máls væri sú, að það færi til n., en fengi þar tafarlausa afgreiðslu, og gæti svo fengið svo hraða afgreiðslu í þinginu sem l. mæla fyrir.

*Finnur Jónsson: Ég vil segja nokkur orð um þetta frv. fyrir hönd Alþfl.

Það er nú svo um togaraútgerðina, að í raun og veru þarf ekki sérstaka rannsókn um það, hvort útgerðin beri sig. Það hefir farið fram rannsókn á þessu, sem gerð var fyrir milligöngu mþn. í sjávarútvegsmálum. Sú rannsókn sýndi bágborinn hag útgerðarinnar, og síðan hefir hann ekki batnað. Af þessum ástæðum þarf þess vegna ekki rannsóknar við. Það er. vitanlega allt annað mál, hvort útgerðin gæti borið sig með einhverju öðru rekstarfyrirkomulagi en nú er. Ég veit þess vegna, að Alþfl. mundi greiða atkv. með þessu frv. með það fyrir augum, að það yrði einkum rannsóknarefni fyrir n., en ekki hitt, að hún rannsaki það, sem við vitum allir um. Ég get í þessu sambandi bent á frv., sem 2 alþýðuflokksþingmenn, Jón Baldvinsson og Sigurjón Á. Ólafsson, fluttu á þinginu 1937, þar sem gert var ráð fyrir, að ríkissjóður legði fram fé til að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll. Nú má vel vera, að einhverjar fleiri leiðir séu til í þessu efni heldur en sú leið, sem þar er bent á, en ég er ekki í neinum vafa um, að til þess að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll, þá þarf að sameina hana miklu meira en gert hefir verið. Það þarf að hafa sameiginleg innkaup og sennilega sameiginlegan rekstur. Hvort það þyrfti að gera í því formi, að það yrði ríkiseign, það skal ég ekki um segja. En það er öllum vitanlegt, að það er ekki hægt að spara það fé, sem þarf, með því að lækka launin. Það er ekki hægt að láta sjómenn bera þann halla, sem er á rekstrinum. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt, og hefst heldur aldrei í gegn. Það er líka vitanlegt, að hallinn á útgerðinni er það mikill, að hann fæst ekki upp borinn með því að lækka launin. Það, sem þarf að leggja sérstaka áherzlu á í þessari rannsókn, er að athuga, hvernig eldri skuldir útgerðarinnar hafa myndazt. T. d. þurfa menn að vita, hvað mikið hefir myndazt af skuldum af ástæðum, sem útgerðinni eru óviðkomandi. Við þurfum að vita, hvað mikið hefir myndazt af skuldunum fyrir „fiskspekulationir“ og ýmislegt annað útgerðinni óviðkomandi. Það er vitað mál, að mikið af skuldum útgerðarinnar hefir myndazt fyrir vitlausar „spekulationir“. Það er t. d. ekki annað sýnilegt en að h.f. Kveldúlfur tapi nú í ár milli 7–800 þús. kr. á því að hafa ekki selt síldarlýsið á réttum tíma. En eins og menn vita, er lýsið nú alltaf að falla. Það mun nú vera komið niður í 12-0-0 stp. eða jafnvel lægra. En meðalverð á lýsi síldarverksmiðja ríkisins var 18-13-6 sterlp. Kveldúlfur seldi aðeins 1/4 af sínu lýsi fyrir verð, sem kallast má sæmilegt. Hitt hefir hann legið með og beðið eftir, að eitthvað kynni að rætast úr með verðið. Allar aðrar verksmiðjur hafa selt sitt lýsi fyrir sæmilegt verð. Þetta eina skuldugasta fyrirtæki landsins hefir talið sér sæmandi að geyma lýsið í þeirri von, að eitthvert óvænt happ kæmi fyrir. Og happið, sem stjórnendur fyrirtækisins virðast hafa vonazt eftir, hefir ekki verið neitt smáræði, því að það hefði ekkert annað getað frelsað Kveldúlf en Evrópustyrjöld.

Ég skal nú ekki fjölyrða mikið meira um þetta, en ég vil aðeins segja það, að ef þessi rannsókn ætti að leiða til þeirra úrræða, sem hv. þm. G.-K. var að minnast á, sem sé þeirra, að útgerðarmenn fengju gjaldeyrinn í sínar hendur og gætu selt hann á opinberu uppboði til hinnar gjaldeyrisvantandi þjóðar, þá teldi ég, að rannsókn væri Letur ógerð. Og ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. ríkisstj., eða þann hluta hennar, sem hér er viðstaddur, hvort um það væru nokkrir samningar milli Framsfl. og Sjálfstfl., að útgerðarmenn ættu að fá gjaldeyrinn í sínar hendur að fokinni þessari rannsókn. Ég spyr að þessu að gefnu tilefni frá hv. þm. G.-K., af því að hann sagði nokkurn veginn í sama mund, að togaraeigendur, en þar á hann víst við sjálfan sig, sem rekur útgerðina á kostnað þjóðarinnar, sæju með flutningi þessa frv. hilla undir uppfylling þarfa sinna og óska. Þetta gefur mér sérstakt tilefni til að koma fram með þessa fyrirspurn.

Hvað snertir vélbátaútveginn, þá er það rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði um hann, a. m. k. að nokkru leyti. Það eru vissar veiðiaðferðir vélbátaútvegsins, sem ekki bera sig og hafa ekki gert í undanfarin 3–4 ár. Á ég þar við þorskveiðarnar með línu. Og það er sannarlega ekki úr vegi, að n. athugi það nokkuð jafnframt, á hvern hátt væri hægt að bæta úr fyrir smáútgerðinni, til þess að vélbátaútvegurinn þurfi ekki að leggjast niður.

Eins og ég áðan sagði, þá mun Alþfl. að sjálfsögðu greiða atkv. með þessu frv., en sennilega flytja við það nokkrar brtt. Það er áreiðanlegt, að alþýðu manna í landinu væri nokkru meiri trygging í því, að verksvið þessarar nefndar væri ákveðið dálítið nánar í frumvarpinu heldur en gert er.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson): Eins og hv. þm. N.-Þ. tók fram, þá er þetta frv. flutt að tilhlutan Framsfl. og samkv. flokksamþ. hans. En út af ræðu hv. þm. Ísaf. vildi ég bara segja það, að ég var farinn að verða hræddur um, vegna þess, að hv. þm. G.-K. tók sæmilega í málið, þá ætlaði Alþfl. að verða á móti því, þó að það hafi í raun og veru verið hans áhugamál. En svo heyrði ég, að hv. þm. Ísaf. tók vel í málið, og allir þeir, sem talað hafa, hafa talið sig því fylgjandi. Ég skal taka það skýrt fram, að um þetta mál var hvorki samið við Sjálfstfl. né neina aðra flokka, og hefir ekkert verið um það rætt, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar að lokinni rannsókn þessarar nefndar, svo að hv. þm. Ísaf. getur sofið rólega fyrir þeim hlutum.

Það er öllum vitanlegt, að ástand togaraútgerðarinnar er það mesta vandamál, sem nú er uppi með þjóðinni, og þarf ekki langt að vitna til afleiðinganna af því, því að fyrir tveim dögum var hér á Alþ. mál til meðferðar, sem stafaði af því öngþveiti. Annarsvegar standa sjómenn, sem telja sig hafa of lítinn hlut frá útgerðinni og heimta meira, og hinsvegar standa útgerðarmenn, sem halda því fram, að þeir geti ekki einusinni greitt sama kaupgjald og undanfarið, hvað þá heldur meira, og báðir aðiljar kalla beint eða óbeint á aðgerðir Alþ. í þessu máli, og sjá allir, að hér er mikið vandræðamál að skapast, sem þarf nánari athugunar við, áður en hafizt verður handa, því að það gæti verið verr farið en heima setið, að gera ráðstafanir, sem ekki verða að því gagni, sem menn hafa gert sér vonir um. — Það dregur að sjálfsögðu enginn í efa, að togararnir hafi verið reknir með tapi undanfarin ár, en enda þótt sú staðreynd liggi fyrir, þá er það engin sönnun fyrir því, að útgerðin gæti ekki borið sig undir venjulegum kringumstæðum, því að undanfarin ár hafa verið óvenjulegar kringumstæður, þar sem hvorttveggja hefir skeð í senn, að aflaleysi hefir verið og verðiag mjög lágt á afurðum sjávarútvegsins, og ekkert hækkað á þeim, þó að verðlag hafi yfirleitt farið hækkandi og þannig raskazt hlutfallið milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Þess vegna álít ég, að þótt þetta liggi fyrir sem staðreynd, þá sé það eitt af hlutverkum nefndarinnar að gera sér grein fyrir því, hvort hin íslenzka togaraútgerð sé líkleg til þess að geta borið sig undir venjulegum skilyrðum, þ. e. a. s. með meðalafla og venjulegu hlutfalli milli verðiags sjávarafurðanna og verðlagsins á þeim vörum, sem hún þarf að kaupa til framleiðslunnar. Þetta álít ég, að ekki liggi fyrir, enda þótt fyrir liggi rekstrarniðurstaða áranna 1936–1937. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður telji, að t. d. búrekstur geti borið sig hjá bónda, sem ekki hefir lamb undan nema annari hvorri á, sem má heita hliðstætt dæmi við aflabrögð undanfarinna ára.

Þá er annað atriði, sem þarf athugunar við af þessari nefnd, og það eru einstakir kostnaðarIiðir útgerðarinnar. Nú eru gerðar kröfur til Alþ. um ívilnanir handa útgerðinni, og hefir sumpart verið orðið við þeim og sumpart ekki. Þegar svo er, þá er ekki nema eðlilegt, eins og hv. frsm. tók fram, að Alþ. eigi þess kost að kynna sér nákvæmlega einstaka kostnaðarliði útgerðarinnar, og hvort þar sé gætt þeirrar ráðdeildar, sem krefjast verður sem skilyrði fyrir því, að útgerðinni séu veitt hlunnindi, frá því sem verið hefir. Það eru náttúrlega margir kostnaðarliðir, sem til greina kæmu, þar á meðal kaupgjaldið, sérstaklega þeirra manna, sem hærra eru launaðir, og hvort ekki gætu komið þar til athugunar önnur ráðningarkjör heldur en verið hefir.

Undanfarin ár hefir verulegur hluti togaranna gengið undir hamarinn, og hefir rekstur þeirra skipa gengið með ýmsu móti. Sum hafa gengið til bæjarfélaga og eru rekin af þeim. Sum hafa lent á hendur sjómanna um tíma og verið rekin af þeim með samvinnusniði. Önnur hafa lent á hendur einstakra manna, og með öllu móti hefir þetta gengið. Mikill hluti af togaraflotanum, sem ekki hefir gengið undir hamarinn, er sennilega þannig stæður, að að því hlýtur að draga, að hann fari þessa sömu leið, og þá er það atriði, sem nefndin verður að athuga, hvaða skipulag muni vera heppilegast á rekstri togaranna í framtíðinni. Ég er þess vegna sammála hv. þm. Ísaf. um, að það er ekki einungis það atriði, sem nefndin þarf að taka til athugunar, hvort tap hafi verið undanfarið á rekstri togaranna, heldur einnig einstakir kostnaðarliðir, og hvort möguleikar séu á rekstri án taps framvegis, miðað við venjulegar kringumstæður, og í þriðja lagi, hvort annað skipulag en það, sem verið hefir, henti betur, og hvaða ráðstafanir eigi að gera til þess að koma útgerðinni í það skipulag, sem nefndin kynni að verða sammála um.

Ég vildi aðeins láta þetta sjást í Þingtíðindunum sem minn skilning á hlutverki nefndarinnar, í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram. En ég sé ekki ástæðu til að fara nánar inn á málið við þessa umr., nema þá að sérstakt tilefni gefist til.

*Héðinn Valdimarsson: Til viðbótar við það, sem hv. þm. Ísaf. hefir nú sagt um þetta mál, vildi ég bæta við nokkrum orðum frá mér og fyrir hönd kjósenda Alþfl.

Það er nú svo, að Alþfl. hefir á undanförnum árum komið með margvíslegar till. viðvíkjandi sjávarútveginum, þar á meðal með till. um rannsókn á sjávarútveginum, áður en fór að halla svo fyrir honum eins og nú er raun á orðin, og hefði verið betra að sú rannsókn hefði þá verið tekin upp. Í frv. því, sem síðastl. vor var flutt í Ed., var gert ráð fyrir rannsókn á togaraútgerðinni og stuðningi við hana. Með því frv. var gefið nokkuð víðtækara vald heldur en er samkvæmt þessu frv., og einnig var gert ráð fyrir sérstakri breyt. á fyrirkomulagi togaraútgerðarinnar, sem að vísu ekki þurfti að binda sig við, heldur frekar sett þar til þess að setja fram ákveðna ósk, sem síðar væri hægt að ræða og athuga nánar. — Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn tóku þessum málum þannig, að þeim var ekki sinnt þá. Og ég hefi lýst því áður í sambandi við annað mál, að mitt álit er, að til þeirrar togaradeilu, er nú stendur yfir, hefði ekki komið, ef farið hefði verið að ráðum alþfl., því að þá væri kominn sá grundvöllur undir togaraútgerðina, sem hún hefði getað byggzt á áfram, en við vitum, að ein af aðalorsökunum til þess, að deilan hefir haldið áfram á þann hátt, sem verið hefir, er sú, að útgerðarmenn togaranna hafa heimtað miklar breyt. viðvíkjandi togaraútgerðinni.

Nú er þetta frv. um rannsókn á togaraútgerðinni komið fram af hálfu Framsfl., og að sjálfsögðu get ég sagt, að sú skoðun, sem bak við það liggur, er rétt. En það verð ég að segja, að mér finnst þetta ekki í samræmi við það, sem Framsfl. hefir áður haldið fram í þessum málum, því að það hefir verið hans skoðun, að í raun og veru ætti Alþ. ekki að láta sig þetta neinu skipta, heldur ættu bankarnir að gera þessi mál upp. Formaður Framsfl. er einmitt í bankaráði, og hefir látið setja sig í það til þess að geta haft afskipti af þessum málum. Hv. þm. V.- Húnv. á nú að vera einhver sérfróðasti maður í rannsókn togaraútgerðar, þar sem hann er eftirlitsmaður bankanna við Kveldúlf, og ég efast ekki um, að hvað snertir það útgerðarfélag, sem náttúrlega er stór liður í togaraútgerð landsins, geti hann gefið á stuttum tíma skjóta og góða skýrslu. Mér finnst, eins og úr þessum málum leysti á vorþinginu og við kosningarnar 1937, að sú eðlilegasta leið fyrir þetta mál hefði verið sú, að bankarnir hefðu gert sínar ákveðnu tillögur um það, sem síðar hefðu komið til Alþ., ef afskipta þess hefði þurft. Að vísu er hægt að fara þessa leið, að byrja frá Alþ. hálfu, en það finnst mér horfa inn á aðra leið en þá, sem þingmeirihlutinn hefir áður aðhyllzt.

Það, sem ég fyrir mitt leyti finn að þessu frv., er, að ekki er gert ráð fyrir neinu nema rannsókninni sjálfri, ekki neinu áframhaldi, en það finnst mér bundið við það, að þessi nefnd, sem skipuð yrði, skili mjög fljótt áliti, helzt á þessu þingi, þannig að það geti gert frekari ráðstafanir. En ef mþn. starfaði í þessu máli, og við skulum segja, að ekki verði neinar nýjar kosningar eða þing næsta haust, þá væri ekki hægt að aðhafast neitt fyrr en eftir heilt ár, en það fyndist mér nokkur seinagangur. — Þá er ekkert sagt um það í frv., hvernig matið skuli fram fara, en auðvitað er hægt að framkvæma það á svipaðan hátt og var í frv. Alþfl. áður, að miða það við viðskiptaverð.

Ég legg áherzlu á það, að nefnd þessi verði ekki notuð til þess að snúa vopnunum aðallega á hendur sjómanna og verkalýðsins, sem við skipin vinna, því að sú stefna virðist nokkuð ofarlega hér á Alþ., að það sem eigi að borga atvinnureksturinn, séu lækkuð laun verkalýðsins, og það er að sjálfsögðu hægt að nota þessa nefnd eins og hvert annað tæki til þess.

Ég geri svo kannske ráð fyrir að koma fram með brtt. við þetta frv., en mun að öðru leyti fylgja því til 2. umr. og n.

Að endingu vil ég svo nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. 2. flm., þm. V.-Húnv., hvort það hafi verið með hans ráðum gert sem eftirlitsmanns við h.f. Kveldúlf, að lýsið hefir ekki verið selt á þeim tíma, sem hægt var að fá sæmilegt verð fyrir það.

Þingmenn 53. þings