09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

Minning látinna manna

forseti (JPálm):

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins fyrrv. alþingismanns og skólastjóra, Karls Finnbogasonar, sem andaðist að heimili sínu í Kópavogshreppi hinn 5. þ. m., 76 ára að aldri.

Karl Finnbogason fæddist að Arnstapa í Ljósavatnshreppi 29. des. 1875, sonur Finnboga bónda þar Finnbogasonar, bónda á Skáney í Reykholtsdal Guðmundssonar, og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur bónda á Belgsá í Fnjóskadal Jónssonar. Hann gekk í gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og brautskráðist þaðan 1895. Á næstu 6 árum stundaði hann barnakennslu í Bárðardal og Eyjafirði, en 1901 fór hann utan til framhaldsnáms og lauk kennaraprófi í Blaagaards Semínarium í Kaupmannahöfn 1904, hvarf síðan heim og stundaði kennslu á Akureyri 1904–1907, fór þá aftur til Danmerkur og settist í kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og lauk þar prófi 1908. Næstu 3 ár, til 1911, var hann kennari við gagnfræðaskólann á Akureyri, en þá varð hann skólastjóri barnaskólans á Seyðisfirði og gegndi því starfi nærfellt hálfan fjórða áratug, eða þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir fáum árum og fluttist hingað suður. Á árunum 1917–1930 rak hann jafnframt aðalstarfi sínu bú, fyrst á Klyppsstað í Loðmundarfirði og síðan á Sörlastöðum í Seyðisfirði. Á Seyðisfirði lét hann atvinnu- og félagsmál mjög til sín taka, var m. a. stofnandi Kaupfélags Austfjarða og Síldarbræðslunnar h/f og gegndi þar eystra ýmsum trúnaðarstörfum, var m. a. í yfirskattanefnd Norður-Múlasýslu og Seyðisfjarðarkaupstaðar um langt skeið. Seyðfirðingar kusu hann í bæjarstjórn 1913, og átti hann þar sæti alla tíð meðan hann átti heima í kaupstaðnum. Hann var þingmaður

Seyðfirðinga 1914–1916 og sat á tveim þingum. Karl Finnbogason var vinsæll maður og vel metinn. Kennarastarfið var aðalævistarf hans, og fór orð af því, að hann væri ágætur kennari og hefði góða stjórn á skóla sínum. Prúðmenni var hann í framgöngu, einlægur og hjartahlýr. Hann var víðlesinn og menntaður og ritaði talsvert, samdi m. a. kennslubók í landafræði handa börnum og unglingum. Var sú bók notuð hér sem kennslubók í skólum um langt árabil og hefur komið út í mörgum útgáfum.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að heiðra minningu þessa mæta manns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]