09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gengislækkunin í fyrra jók mjög framfærslukostnað íslenzkra námsmanna erlendis. Hann jókst meira en svaraði hinni almennu hækkun á söluverði gjaldeyris, þar eð námsmenn höfðu fengið gjaldeyri keyptan með aðeins 30% álagi, þótt almenna yfirfærslugjaldið væri 55%. Alþ. gerði í fyrra mjög myndarlegar ráðstafanir til þess að draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar á námskostnað Íslendinga erlendis. Framlög á fjárlögum til námslána og styrkja voru hækkuð sem því svaraði, að allir íslenzkir námsmenn gætu áfram fengið sömu upphæð í lán og styrki og þeir höfðu áður fengið, reiknað í erlendum gjaldeyri, þrátt fyrir gengisbreytinguna. Fjárhæð sú, sem veitt var til námslána og styrkja handa námsmönnum erlendis, var hækkuð úr 2 millj. i 5.2 millj. kr. Þegar höfð er hliðsjón af því, að á árinu 1959 hafði fjárveiting til námslána og styrkja til handa íslenzkum námsmönnum erlendis verið hækkuð úr 1275 þús. í 2 millj. og þannig fjórfölduð á tveim árum, verður ekki annað sagt en Alþ. hafi gert sér ljósa nauðsyn þess að greiða fyrir íslenzkum námsmönnum erlendis. Fjárveiting til lánasjóðs stúdenta við Háskóla Íslands hafði og á árinu 1959 verið aukin úr 650 þús. í 1 millj. Hún var í fyrra aukin aftur upp í 1.4 millj. kr.

Hinar auknu fjárveitingar til íslenzkra námsmanna erlendis í fyrra voru þó ekki nægjanlegar til þess að draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar á framfærslukostnaðinn í þeim mæli, sem æskilegt hefði verið. Þess vegna hefur ríkisstj. síðan athugað möguleika á því að bæta aðstöðu námsmannanna frá því, sem var á síðasta ári. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að skynsamlegasta leiðin að því marki sé að veita íslenzkum námsmönnum erlendis kost á ríflegum námslánum með mjög hagstæðum kjörum.

Til ársins 1953 voru veittir nokkrir námsstyrkir við háskólann hér, svonefndir náms- og húsaleigustyrkir. Stúdentarnir sjálfir beittu sér þá hins vegar fyrir því, að slíkar styrkveitingar voru felldar niður, en í staðinn stofnaður lánasjóður, sem veita skyldi stúdentum hagkvæm lán. Voru það tillögur þeirra, að lánin skyldu vera með 31/2% vöxtum, endurgreiðsla hefjast þremur árum eftir, að námi lyki, og þau þá endurgreiðast á 10 árum. Alþ. féllst á þessa till. stúdentanna og setti lög um lánasjóð stúdenta við háskólann hér,og hefur hann starfað siðan 1953. Á því ári veitti Alþ. 300 þús. kr. til sjóðsins. Framlagið var hækkað í 500 þús. kr. 1954, í 650 þús. kr. 1956, í 1 millj. 1959 og í 1.4 millj. á síðasta ári.

Menntamálaráð Íslands, sem úthlutar fjárveitingum Alþingis til íslenzkra námsmanna erlendis, hefur og mörg undanfarin ár varið nokkrum hluta fjárveitinganna til námslána og þá með sömu kjörum og gilt hafa við háskólann hér. Á árunum 1953–58 varði menntamálaráð þó aðeins um 1/3 hluta fjárveitingarinnar til námslána, en 2/3 hlutum til styrkja. Þegar fjárveitingin var aukin 1959 úr 1.3 millj. í 2 millj., breytti menntamálaráð hins vegar um stefnu, minnkaði styrkupphæðina úr 875 þús. í 600 þús., en jók námslánaupphæðina úr 400 þús. í 1400 þús. Í fyrra, þegar fjárveitingin var aukin, til þess að námslán og styrkir gætu haldizt óbreytt f erlendum gjaldeyri, voru lánin og styrkirnir aukin hlutfallslega, en jafnframt voru þá sett lög um lánasjóð námsmanna erlendis, í öllum meginatriðum hliðstæð lögunum um lánasjóð stúdentanna hér, þar eð eðlilegt þótti, að jafnmiklar námslánaveitingar og þá var orðið um að ræða, eða 3.2 millj. kr., færu fram samkvæmt lögum.

Stefnan undanfarin ár hefur því verið sú að færa stuðning ríkisvaldsins við námsmenn æ meir yfir í það horf, að þeim sé veittur kostur á hagkvæmum lánum í stað beinna styrkja. Það voru stúdentarnir við háskólann hér, sem áttu sjálfir upptökin að þessari stefnubreytingu, og menntamálaráð hefur síðan horfið meir og meir að henni. Á s.l. ári varði menntamálaráð 4.6 millj. kr. til námslána, en 1.3 millj. kr. til styrkja, annarra en stóru styrkjanna svonefndu, sem ég mun víkja nánar að síðar.

Ríkisstj. telur, að skynsamlegasta leiðin til að auka stuðning við íslenzka námsmenn sé sú að hækka verulega þær fjárhæðir, sem þeir geti fengið að láni með hagkvæmum kjörum, og lengja endurgreiðslutímann frá því, sem verið hefur. Það er höfuðmarkmiðið með þessu frv. að koma því til leiðar, að framvegis eigi íslenzkir námsmenn heima og erlendis kost á láni að meðaltali 25 þús. kr. á ári í allt að fimm skipti með 31/2 % vöxtum til 15 ára, en endurgreiðsla hefjist 3 árum eftir að námi lýkur. Þeir, sem stunduðu nám erlendis, fengu á síðasta ári í lán og styrk upphæð, sem nam að meðaltali 15 þús. kr. á hvern námsmann, þeirra sem á annað borð hlutu lán eða styrk. Þeir, sem stunduðu nám við háskólann hér og fengu lán, fengu hins vegar aðeins rúmar 10 þús. kr. í lán að meðaltali.

Sökum þess að langmestum hluta þess fjár, sem Alþ. nú veitir til stuðnings íslenzkum námsmönnum, er varið til námslána, mun eigið fé þeirra tveggja lánasjóða, sem nú starfa, aukast allört á næstu árum. Athuganir hafa leitt í ljós, að eftir 7–8 ár gætu sjóðirnir sameiginlega af eigin rammleik aukið meðallánsupphæð sína til hvers námsmanns upp í 25 þús. kr. En til þess að unnt sé að hækka meðallánsupphæð nú þegar á þessu ári upp í þessa fjárhæð, þurfa sjóðirnir hins vegar verulegt lánsfé á næstu árum. Skömmu eftir áramótin ræddi ég það við stjórnendur lánsstofnana hér í Reykjavík, hvort þær væru fáanlegar til þess að kaupa á næstu árum skuldabréf að nýjum lánasjóði, sem myndaður yrði við sameiningu þeirra tveggja, sem nú starfa, þannig að honum yrði kleift að hækka meðallánsupphæð nú þegar á þessu ári upp í 25 þús. kr. Þessi málaleitan fékk mjög góðar undirtektir, og hafa lánsstofnanir nú veitt vilyrði um slík skuldabréfakaup, sem geri kleift að hækka meðallánsupphæð í 25 þús. kr. Það er gert ráð fyrir því, að veitingu beinna námsstyrkja, að frátöldum stóru styrkjunum svonefndu, verði hætt, samtímis því að námslánin verði aukin. Hafa útreikningar sýnt, að sjóðurinn þarf að selja skuldabréf fyrir 4–5 millj. kr. næstu 6 árin, en síðan fer lánsfjárþörfin smáminnkandi, og árið 1970 geti sjóðurinn byrjað að endurgreiða lánin og árið 1980 yrðu þau að fullu greidd. Lánsfjárþörfin yrði hæst árið 1971 45 millj. kr. En 1985 mundi eigið fé sjóðsins vera orðið svo mikið, að hann gæti staðið undir lánveitingum sínum af eigin rammleik, þannig að ríkisframlag til hans gæti fallið niður.

Frv. þetta er flutt til þess að gera kleift að hagnýta þá lánsmöguleika, sem völ er á og nauðsynlegir eru, til þess að hægt sé að auka nú þegar námslánin upp í 25 þús. kr. að meðaltali, skapa skilyrði til þess, að unnt sé að veita lán fimm sinnum í stað fjórum sinnum, eins og gert hefur verið undanfarið, og lengja endurgreiðslutímann úr 10 árum í 15 ár. Í þessu sambandi er eðlilegt að sameina þá tvo lánasjóði, sem fyrir eru, í einn og setja honum sérstaka stjórn. Er í frv. gert ráð fyrir því, að hún sé skipuð fimm mönnum, tilnefndum af háskólaráði, menntamálaráði, stúdentaráði og Bandalagi háskólamanna, þangað til íslenzkir námsmenn erlendis hafa komið á fót samtökum sín á milli, en þá er gert ráð fyrir, að þau tilnefni mann í stjórnina. Formann er hins vegar gert ráð fyrir að menntmrh. skipi. Hlutverk stjórnarinnar á að vera að annast fjárreiður sjóðsins, en þó er heimilað að fela bankastofnun útborgun lána, bókhald, innheimtu og eftirlit með greiðslum. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að stjórnin skipti fé því, sem Alþ. veitir hverju sinni til stuðnings námsmönnum, milli stúdenta við háskólann hér og íslenzkra námsmanna erlendis, og er þess vegna gert ráð fyrir því, að sjóðurinn starfi í tveimur deildum, lánadeild stúdenta við Háskóla Íslands og lánadeild námsmanna erlendis. Ekki er heppilegt að binda það í fjárlögum, hversu mikið fé skuli renna til hvors hópsins fyrir sig, því að tala námsmanna heima og erlendis kann að breytast frá ári til árs og ýmsar aðstæður aðrar, sem gera það nauðsynlegt, að hlutfallsskiptingin sé endurskoðuð árlega. Eðlilegt er og, að stuðningur hins opinbera við námsmenn heima og erlendis sé sem hliðstæðastur, og þarf að fara fram gaumgæfileg athugun á því, hvernig hann megi verða það. Ætti skiptingin þá að sjálfsögðu að miðast við niðurstöður slíkrar athugunar, en hún er í verkahring stjórnar sjóðsins. Frv. gerir á hinn bóginn ráð fyrir því, að sömu aðilar annist úthlutun sjálfra námslánanna og nú, þ.e. menntamálaráð úthluti námslánum til íslenzkra námsmanna erlendis og nefnd skipuð með sama hætti og stjórn lánasjóðs stúdenta við háskólann hér nú úthluti námslánum til háskólastúdenta. En í þeirri stjórn eiga sæti tveir fulltrúar frá háskólaráði, tveir frá stúdentaráði og hinn fimmti frá menntmrn.

Í 7. gr. er ákvæði um, að ríkissjóður leggi sjóðnum árlega til framlag í fjárlögum, sem sé eigi lægra en framlagið í núgildandi fjárlögum, en það er 6 millj. og 25 þús. kr.

Í 8. gr. er síðan ákvæði, er heimilar sjóðsstjórninni að taka innanlands allt að 45 millj. kr. lán á árunum 1961–80 gegn tryggingu í verðbréfaeign sjóðsins, en eins og ég gat um áðan, er slík lántaka nauðsynleg, til þess að unnt sé að auka námslánin og hafa kjör á þeim eins og ég hef lýst.

Í ákvæðum til bráðabirgða er menntamálaráði heimilað að gera þeim námsmönnum erlendis, sem fengið hefðu styrk á þessu ári og því næsta samkvæmt þeim reglum, sem gilt hafa, kost á að fá áfram þann styrk, sem þeir hefðu fengið, í stað lána samkvæmt þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir að tekin verði upp. Starfsreglur menntamálaráðs hafa að undanförnu verið þær, að námsmenn hafa fengið námslán fyrstu tvö ár námsins, en síðan námsstyrki í tvö ár í viðbót. Má því segja, að þeir, sem búnir eru að fá námslán í tvö ár hjá menntamálaráði, hafi getað gert sér réttmæta von um námsstyrk í ár og næsta ár. Hefur því þótt rétt að heimila menntamálaráði að veita þessum námsmönnum kost á því að fá áfram þann stuðning, sem þeir hefðu fengið að öllu óbreyttu, þ.e. styrk með ef til vill viðbættu láni, samtals að upphæð 15 þús. kr. hvort árið, eða fá hin nýju námslán í allt að þrjú skipti, að meðaltali 25 þús. kr. í hvert skipti. Að þessu frátöldu er gert ráð fyrir því, að beinar styrkveitingar falli niður, nema hvað haldið verði þeim styrkjum, sem árið 1959 var tekið, að veita afburða námsmönnum í eins konar verðlaunaskyni fyrir námsafrek við stúdentspróf. Árið 1959 voru styrkir þessir 5 að tölu og veittir til 5 ára, 20 þús. kr. á ári. Í fyrra var þeim fjölgað í 7 og upphæð þeirra jafnframt hækkuð í 30 þús. kr. vegna gengisbreytingarinnar. Eru þessir styrkir veittir án tillits til þess, hvort stúdentinn hyggst stunda nám sitt heima eða erlendis. Þessum styrkjum er talið rétt að halda, þótt stuðningnum við námsmenn að öðru leyti sé breytt í námslán..

Þá má geta þess, að í 6. gr. frv. er það nýmæli, að stúdentum frá hinum Norðurlöndunum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda nám við Háskóla Íslands, er veittur réttur til námslána með sama hætti og íslenzkum námsmönnum.

Að síðustu skal þess getið, að við undirbúning þessa frv. hafa verið höfð samráð við menntamálaráð, háskólaráð og stjórn lánasjóðs stúdenta. Þá hafa og að sjálfsögðu verið höfð náin samráð við stjórnendur þeirra lánastofnana, sem veitt hafa vilyrði fyrir því að kaupa skuldabréf af sjóðnum, en þeim er ríkisstj. sérstaklega þakklát fyrir fyrirgreiðslu við málefni, sem hún telur mjög nytsamlegt. Á því er enginn vafi, að það er ekki aðeins mjög gagnlegt að greiða fyrir því unga. fólki, sem, býr sig undir ævistarf í þágu þjóðar sinnar, með löngu námi.

Það má jafnvel segja, að vafasamt sé, hvort nokkur fjárfesting sé líkleg til þess að skila meiri arði en einmitt sú, sem varið er til þess að auka og bæta þekkingu þjóðarinnar.

Ég leyfi mér að óska þess, herra forseti, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn., og ég leyfi mér að beina því til hv. nefndar, að hún hraði afgreiðslu málsins eftir föngum, þar eð ég tel brýna nauðsyn bera til, að skipan sú, sem frv. gerir ráð fyrir, komi sem fyrst til framkvæmda.