19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd., þar sem það var samþ. við 3. umr. í gær.

Víðtækar umr. hafa farið fram um málið í hv. Nd., svo að ég sé ekki ástæðu til að ræða málið mjög ýtarlega hér, þegar það er lagt fyrir hv. Ed. Þó er hér um svo mikilvægt mál að ræða, að ég tel ástæðu til þess að gera í nokkrum orðum grein fyrir meginefni frv. og meginrökunum, sem til þess liggja, að frv, er flutt af ríkisstj., einkum og sér í lagi þar sem langt er liðið á þingtímann, en þess er óskað af hálfu ríkisstj., að hv. Alþ. afgreiði þetta frv., áður en því lýkur.

Í þessu frv. felst mikilvægt nýmæli í íslenzkri löggjöf um efnahagsmálefni. Meginefni frv. er, að Seðlabanka Íslands er heimilað samkv. sérstökum reglum, sem settar eru í frv., að leyfa bönkum og fjárfestingarsjóðum að verðtryggja sparifé og það fé, sem þessar stofnanir fá til umráða, og jafnframt að verðtryggja útlán úr peningastofnunum eða fjárfestingarlánasjóðum.

Almennar reglur eru þó settar um það, hvaða almenn skilyrði Seðlabankinn skuli setja fyrir heimild til slíkra verðtrygginga. Helztu skilyrðin eru þessi: Að verðtryggingin skal yfir. leitt miðuð við vísitölu framfærslukostnaðar, eins og hún er reiknuð á hverjum tíma, en þó er Seðlabankanum heimilt að leyfa, að verðtrygging sé miðuð við aðra vísitölu eða við breytingar tiltekins vöruverðs, enda sé þá talið, að sú viðmiðun sé betri mælikvarði á greiðslugetu þess aðila, sem tekst á hendur verðtryggða skuldbindingu, en vísitala framfærslukostnaðar.

Þá er það önnur meginreglan, sem Seðlabankinn skal gæta í sambandi við leyfisveitingar til verðtryggingar, að verðtryggingin skal fyrst og fremst heimiluð í fjárskuldbindingum, sem eru tengdar öflun fasteigna eða annarra fjármuna, sem ætla má að hækki í verði með almennum verðlagsbreytingum, og er gert ráð fyrir því, að verðtryggð lán séu ávallt tryggð með veði í slíkum eignum eða öðrum verðtryggðum kröfum.

Þá er það þriðja meginreglan, sem sett er í frv. varðandi verðtrygginguna, að fjárskuldbindingin sé eigi gerð til skemmri tíma en þriggja ára, og er þá miðað við greiðslu í einu lagi eftir á. Ef svo er um samið, að greiðslur hefjist, áður en 3 ár eru liðin, þá skal fjárskuldbindingin vera gerð til lengri tíma, sem því nemur, að hún standi eigi skemur en þrjú ár að meðaltali.

Þá er og slegið föstu í frv. þeirri meginreglu, að ekki megi reka peningaviðskipti með þeim hætti að endurlána með verðtryggingu fé, sem fengið er með öðrum kjörum, þ.e. án verðtryggingar, og ef um endurlán á verðtryggðu fé er að ræða, þá á það að vera meginregla, að verðtryggingarákvæðin standist á í báðum samböndunum.

Í síðasta lagi er rétt að benda á þá meginreglu, sem frv. kveður á um, að verðtryggðar kröfur og skuldbindingar skuli ávallt skráðar á nafn.

Seðlabankanum er fengið það vald og sú skylda að heimila bönkum og öðrum innlánsstofnunum að taka á móti innstæðum gegn verðtryggingu og lána út samsvarandi fé auk jafnvirðis eigin fjár. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir því, að opinberar fjárfestingarlánastofnanir, sem stofnaðar eru með lögum, skuli hafa heimild til þess að veita verðtryggð lán af eigin fé sinu og endurlána verðtryggt fé, en lánskjörin skuli þó ákveðin af stjórn stofnunarinnar að fengnu samþykki þess ráðherra, sem fer með málefni stofnunarinnar og Seðlabankans.

Viðurkenndum lífeyrissjóðum er einnig í frv. heimilað að ávaxta sjóði sína í verðtryggðum lánum, tryggðum með veði í íbúðarhúsum og með sömu kjörum og íbúðalán Húsnæðismálastofnunar ríkisins við veðdeild Landsbanka Íslands eru á hverjum tíma.

Það er m.ö.o. um sjálfstæða heimild í frv. að ræða til opinberra fjárfestingarlánastofnana og viðurkenndra lífeyrissjóða, en þó þarf hlutaðeigandi ráðh. og Seðlabankinn að samþykkja kjörin, sem um er að ræða. Hins vegar á Seðlabankinn að veita bönkum og öðrum lánastofnunum þær heimildir, sem lögin á annað borð gera ráð fyrir, að veittar séu.

Í Nd. var bætt inn í frv. ákvæði um það, að allar heimildir sínar samkv. frv., ef að lögum verður, skuli Seðlabankinn nota í samráði við viðskiptabankana, þ.e. í samráði við nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar allra viðskiptabankanna, og skuli framkvæmdaákvarðanir allar, þ.e. ákvarðanir um notkun heimilda, ætið vera teknar af Seðlabankanum í samráði við þessa nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar viðskiptabankanna. Var þetta ákvæði sett inn í Nd., til þess að það mætti vera öldungis ljóst, að í því vandasama máli, sem hér er um að ræða, eru engin spor stigin án rækilegrar yfirvegunar og án fullkomins samráðs við þá aðila í þjóðfélaginu, sem fara með stjórn á peningamálum þjóðarinnar, og þá að sjálfsögðu í fullu samráði við ríkisstjórn landsins.

Þessi eru meginákvæði frv. Ég skal nú í nokkrum orðum reyna að gera grein fyrir helztu rökunum, sem fyrir því eru, að ríkisstj. hefur talið rétt að beita sér fyrir lagasetningu um þetta efni.

Um það er ekki ágreiningur og getur ekki verið ágreiningur, að verðbólga hefur verið of mikil á Íslandi allar götur síðan á styrjaldarárunum. Það mun láta nærri, að síðan hafi meðaltal verðbólguvaxtar á ári verið því sem næst 10%. Á síðasta aldarfjórðungi hefur verðlag og kaupgjald hækkað á víxl um því sem næst 10% á hverju einasta ári. Allir skynsamir og ábyrgir menn munu gera sér grein fyrir því, að þetta hefur margvísleg óheilbrigð áhrif. Allar ríkisstjórnir, sem setið hafa að völdum, hverjir svo sem í þeim hafa setið, siðan stríðinu lauk, hafa talið það eitt sitt höfuðverkefni að vinna gegn þessum verðbólguvexti, a.m.k. að draga úr vexti verðbólgunnar, en þeim hefur orðið, því miður, mjög misjafnlega ágengt. Stundum hefur orðið nokkuð ágengt í baráttunni gegn verðbólgunni, stundum aftur á móti, því miður, mun minna. Það er því óhætt að segja, að milli stjórnmálaflokkanna sé í reynd enginn ágreiningur um það, að gegn svo mikilli verðbólgu þurfi að vinna. Það hefur komið fram í því, að á þessu tímabili hafa allir þingflokkar átt sæti í ríkisstjórnum og allar ríkisstjórnir, þ.e.a.s. allir þingflokkar, hafa verið á einu máli um það, þegar þeir hafa verið við völd, að beita öllum tiltækum ráðum til þess að draga úr þessum verðbólguvexti.

Milli atvinnurekenda og launþega eða samtaka þeirra mun ekki heldur vera neinn ágreiningur um það, að æskilegt væri, að verðbólgan hefði verið mun minni og verði í framtíðinni mun minni en hún hefur verið s.l. aldarfjórðung. Það má því segja, að almennt samkomulag sé um það, að æskilegt væri að vinna gegn verðbólgunni. Þegar hins vegar kemur að því, hvaða ráð séu til þess tiltækust, þá hefst ágreiningurinn, eins og ekki er óeðlilegt, þegar um mál er að ræða, sem er jafnsamofið efnahagsstarfsemi og hreinum stjórnmálaþáttum og verðbólguvandamálið og baráttan gegn verðbólgunni er og raunar hlýtur að vera.

Segja má í fáeinum orðum, hverjir séu meginókostir jafnmikillar verðbólguþróunar og hér hefur átt sér stað um áratuga skeið.

Fyrsti meginágalli verðbólguþróunarinnar er sá, að hún dregur úr sparnaði þjóðarinnar, hún dregur úr sparifjármyndun. En sparifjármyndunin hlýtur, þegar yfir lengri tíma er litið, að vera undirstaða nauðsynlegrar fjárfestingar, heilbrigðrar fjárfestingar. Þegar yfir nokkurt tímabil er lítið, hlýtur raunveruleg fjárfesting að takmarkast við raunverulegan sparnað. Þeim mun minni sem sparnaðurinn verður, þeim mun minni verður raunveruleg fjárfesting. Og um það geta ekki verið skiptar skoðanir, að verðbólga hlýtur að draga úr viðleitni manna til sparnaðar, vegna þess að verðbólgan rýrir spariféð, eftir því sem hún vex.

Annar meginókostur jafnmikillar verðbólgu og hér hefur átt sér stað er sá, að hún beinir fjárfestingunni inn á óhagkvæmar og jafnvel rangar brautir frá þjóðfélagslegu sjónarmiði séð. Þegar um verðbólgu er að ræða, getur ýmiss konar fjárfesting verið arðvænleg frá sjónarmiði þess, sem bindur fé sitt, þó að þessi fjárfesting sé í raun og veru gagnslítil og jafnvel beinlínis skaðleg frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Á verðbólgutímum er þess vegna hætt við, að sparifé þjóðarinnar, fjármagn þjóðarinnar, festist i allt öðrum eignum, í allt öðrum atvinnufyrirtækjum, a.m.k. að verulegu leyti í öðrum eignum og öðrum atvinnutækjum en eiga mundi sér stað, ef um nokkurn veginn stöðugt verðlag væri að ræða, og það má fullyrða, að það frávik frá þeirri fjárfestingu, sem mundi eiga sér stað, ef um stöðugt verðlag væri að ræða, í þeirri fjárfestingu, sem á sér stað vegna áhrifa verðbólguþróunar, það sé þjóðhagslega séð óheilbrigt. Það má ekki blanda því saman við það, að það geti verið arðvænlegt frá sjónarmiði fjárfestandans, það sem hann gerir, en það er óheilbrigt frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar og jafnvel einstaklinganna, ef yfir langan tíma er litið.

Þriðja meginafleiðing verðbólgu, sem telja verður óheppilega, er sú, að í kjölfar hennar siglir mjög mikið og mjög alvarlegt þjóðfélagslegt ranglæti. Þetta þjóðfélagslega ranglæti kemur fram á tvennan hátt. Annars vegar kemur það þannig fram, að sparendurnir í þjóðfélaginu fá ekki þá umbun verknaðar síns, sem þeir eiga skilið. Verðbólgan rænir sparendurna, ef hún er mikil, ekki aðeins öllum raunverulegum vöxtum af sínu sparifé, allri raunverulegri þóknun, sem þeir eiga skilið fyrir sparnað sinn, heldur getur jafnvel svo farið, að hún beinlínis rýri höfuðstól þeirra. Ef verðbólgan er mikil, er ekki aðeins, að hún svipti sparendurna öllum vöxtum, allri greiðslu fyrir þá þjóðfélagslegu þjónustu, sem í sparnaðinum er fólgin, heldur jafnvel geri meira, jafnvel beinlínis rýri það fé, sem sparendurnir neita sér um að eyða á líðandi stund, heldur geyma til komandi tíma. Hér er auðvitað um að ræða mjög alvarlegt þjóðfélagslegt misrétti.

Annað félagslegt misrétti, sem af verðbólgunni leiðir, er fólgið í því, að þeir, sem fá umráð yfir sparifé landsmanna, þeir aðilar, lánastofnanir og aðrir þeir, sem yfir sparifé hafa að ráða, þeir, sem fá umráð yfir þessu fé, hagnast á því að fá umráð yfir sparifé eða lánsfé þjóðarinnar. Þeir hagnast á því á þann hátt, að eignirnar, sem þeir hafa fest féð í, hækka í verði, en krónutala skuldanna helzt óbreytt. M.ö.o.: verðbólgan hefur það í för með sér, að skuldurum, þeim sem fengið hafa umráð yfir sparifé þjóðarinnar, þeim sem skulda lánsstofnunum og peningastofnunum, þeim er ívilnað stórlega á kostnað þeirra, sem féð hafa sparað. M.ö.o.: þeir, sem græða það, sem sparendurnir tapa, eru skuldararnir, það eru þeir, sem bankakerfið hefur trúað fyrir sparifé þjóðarinnar. Þessi gróði er auðvitað illa fenginn, hann er rangfenginn. Þessi verðbólgugróði, sem leiðir af því að hafa fengið umráð yfir lánsfé, er til kominn án nokkurs tilverknaðar, án nokkurs þjóðfélagslegs eða efnahagslegs tilverknaðar eigendanna, hann á eingöngu rót sína að rekja til þess, að þeim hefur verið fengin viss réttarstaða í þjóðfélaginu, þeir hafa notið vissra forréttinda, og í skjóli þess hlotnast þeim hagnaður. Hér er auðvitað um mikið félagslegt ranglæti að ræða.

Það er enginn vafi á því, að allra þessara ókosta verðbólguþróunar hefur gætt hér á Íslandi undanfarinn aldarfjórðung. Hinn mikli verðbólguvöxtur, sem hér hefur orðið, 10% á ári að meðaltali, hefur dregið úr sparnaði þjóðarinnar, og má raunar furðu gegna, að hann skuli ekki hafa dregið enn meir úr sparnaði þjóðarinnar en raun ber vitni um. En á því, að það hafa ekki enn meiri slys orðið en raun ber vitni, eru ýmsar aðrar skýringar, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í hér. Ég tel sem sagt, að áhrif af þessum þrennu óheilbrigðu afleiðingum verðbólgunnar séu þó skaðsamleg áhrif á sparifjármyndunina hvað minnst, þó að þau hafi án efa því miður orðið nokkur, líklega talsverð. Hins vegar er enginn efi á því, að verðbólguþróunin hefur orðið til þess í stórum stíl að beina fjárfestingu þjóðarinnar inn á þjóðhagslega séð óhagkvæmar brautir. Hér hefur verið lagt í margs konar fjárfestingu, sem hæpinn efnahagslegur grundvöllur er undir, og þó öllu frekar ýmsar fjárfestingarfyrirætlanir hafa verið teknar fram yfir aðrar, sem þjóðhagslega séð hefðu verið hagkvæmari, vegna verðbólguþróunarinnar.

En alvarlegasta afleiðing verðbólguþróunarinnar undanfarin 25 ár er þó án efa það gífurlega félagslega ranglæti, sem af verðbólguþróuninni hefur hlotizt. Sú byrði, sem lögð hefur verið á sparifjáreigendur undanfarin 25 ár vegna þess arna, þ.e.a.s. sú kjararýrnun, sem sparifjáreigendur hafa orðið fyrir vegna verðbólguþróunarinnar, er mjög tilfinnanleg og mjög ranglát. Í alveg sama mæli er sá verðbólgugróði, sem skuldarar, sem lántakendur hafa hlotið á undanförnum áratugum, líka með öllu óverjandi.

Segja má, að meginástæðurnar til þess, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir setningu þessara laga, séu tvær. Annars vegar er ástæðan sú, að ríkisstj. hefur trú á því, að nokkru almennari verðtrygging í fjárskuldbindingum, bæði á innlánum og útlánum, en nú þegar á sér stað, — en þegar hafa verið stigin ýmis spor í þessa átt, eins og ég mun koma að á eftir, — ríkisstj. hefur trú á því, að nokkru víðtækari verðtrygging í fjárskuldbindingum en þegar á sér stað mundi geta stuðlað að því að vinna gegn verðbólgunni, mundi vinna gegn verðbólgunni. Rökin fyrir því, að ríkisstj. telur, að svo mundi verða, eru þau, að gera má ráð fyrir annars vegar auknum sparnaði, aukinni sparnaðarviðleitni, ef verðtrygging er aukin frá því, sem nú er, og hins vegar má gera ráð fyrir því, að verðtryggingarákvæðin stuðli að því, að menn verði ekki jafnáfjáðir í að leggja í hvers konar fjárfestingu, sem eingöngu er ætlað að skila verðbólgugróða. M.ö.o.: það er von ríkisstj., að af auknum verðtryggingarákvæðum muni annars vegar leiða tilhneigingu til aukins sparnaðar og hins vegar minnkandi ásókn í þess konar lán, sem ætlað er að verja til verðbólgufjárfestingar, sem skili eigendunum fyrst og fremst verðbólgugróða. En enginn vafi er á því, að ef þetta hvort tveggja tækist, að auka framboð á sparifé annars vegar og hins vegar minnka eftirspurn eftir verðbólgulánum, minnka tilhneigingu til verðbólgufjárfestingar, þá mundi verða dregið úr verðbólguvextinum.

Hinn megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er sá að gera alvarlega tilraun til þess að draga úr því geysilega félagslega misrétti, sem verðbólguþróun hefur í för með sér. Ef frv. verður að lögum, mundi verða dregið úr þessu félagslega misrétti á þann hátt, að sparifjáreigendur ættu kost á því að fá sparifé sitt verðtryggt, ef þeir vildu, — þeim er ekki skylt að verðtryggja sparifé sitt, en þeir ættu kost á því að hafa það verðtryggt, ef þeir vildu, — og hins vegar, að gerð verði alvarleg tilraun til þess að koma í veg fyrir verðbólgugróðann, sem nú safnast á hendur þeirra manna, sem fá að skulda, ef verðbólgan heldur áfram að vaxa, vegna þess að gert er ráð fyrir því, að tiltekin lán, þ, e. lán, sem standa lengur en ákveðinn tíma, lengur en 3 ár, almennt séð, þau skuli yfirleitt vera verðtryggð samkv. nánari reglum, sem settar yrðu og ég minntist á í upphafi máls míns áðan. Þetta er sem sagt megintilgangurinn með flutningi þessa frv. Annars vegar að vinna gegn verðbólgunni og hins vegar að bæta úr því félagslega ranglæti, sem verðbólguþróun án verðtryggingar í fjárskuldbindingum hlýtur að hafa í för með sér.

Ég vil þó taka skýrt fram, að ríkisstj. dettur ekki í hug, að setning laga um verðtryggingu í fjárskuldbindingum ein út af fyrir sig sé nægileg til þess að vinna bug á verðbólgunni, sé nægileg til þess að kveða hana í kútinn. Ríkisstj. gerir sér algerlega ljóst, að verðbólgan verður aldrei kveðin í kútinn, hvorki hér á landi né annars staðar, sízt hér á landi, nema því aðeins að heils hugar samstaða takist milli launþegasamtaka, samtaka atvinnurekenda og ríkisvaldsins um þess konar heildarstefnu í efnahagsmálum, sem tryggi stöðugt verðlag, sem tryggi hagvöxt án verðbólgu, án víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. En ríkisstj. telur, að einn þátturinn í slíkri heildarstefnu í efnahagsmálum eigi að vera, að verðtrygging í fjárskuldbindingum sé miklu víðtækari, taki til fleiri sviða en nú á sér stað, og þess vegna hefur ríkisstj. beitt sér fyrir flutningi þessa frv.

Ég sagði áðan, að þær ráðstafanir, sem gert var ráð fyrir í þessu frv., væru engan veginn fyrstu ráðstafanirnar til verðtryggingar í fjárskuldbindingum, sem gripið hefði verið til hér á landi. Ýmsar ráðstafanir hafa þegar verið gerðar í þessa átt. Lánsfjár hefur verið aflað til ákveðinna framkvæmda með útgáfu spariskírteina, sem ríkissjóður gaf út á árunum 1964 og 1965 með verðtryggingu, og hins vegar hafa verið gerðar ráðstafanir til verðtryggingar sparifjár, þar sem er skyldusparnaðurinn og svo sparifjársöfnun skólabarna. Síðast, en ekki sízt, er þess að geta, að á sviði útlána hefur verðtrygging verið tekin upp á vissum lánum húsnæðismálastjórnar allt frá 1955, og síðan á árinu 1964, síðan júnísamkomulagið var gert á árinu 1964, er verðtrygging á öllum lánum þeirrar stofnunar, og var þessi ráðstöfun einn þáttur í samkomulagi milli ríkisstj. og verkalýðssamtaka við lausn kjaradeilna í júní 1964. Ég er hins vegar mjög eindregið þeirrar skoðunar, að hvorki sé framkvæmanlegt né heldur rétt að binda ákvæði um verðtryggingu í fjárskuldbindingum við þau svið, þar sem þessi ákvæði gilda núna, og sérstaklega tel ég óeðlilegt, að á útlánasviðinu gildi verðtryggingarákvæði eingöngu um lán húsnæðismálastjórnarinnar. Ég tel nauðsynlegt og eðlilegt, enda hefur það alltaf verið tilætlunin, að setja víðtækari og almennari reglur um verðtryggingu í fjárskuldbindingum en nú þegar á sér stað. Það, sem hingað til hefur verið gert, hafa verið einangruð spor stigin á tilteknum sviðum. En við svo búið má ekki standa. Hér verður að setja upp almenna reglu, þannig að verðtryggingarákvæðin taki til allra hliðstæðra útlána. Það er af þeim sökum, sem ég sagði í hv. Nd. í tilefni af frv., sem liggur fyrir þeirri hv. d. um afnám verðtryggingarákvæðanna á húsnæðismálalánunum, að ef þetta frv. næði ekki fram að ganga, ef það reyndist vera vilji Alþ. að gera þessar reglur ekki almennar eða mun almennari en þær eru núna, þá teldi ég eiga að afnema lagaákvæði um verðtryggingu á húsnæðismálalánunum, sem nú gildir.

Í hv. Nd. var þeirri fsp. beint til mín, hvernig Seðlabankinn mundi nota þessar heimildir, ef þetta frv. yrði að lögum, þ.e.a.s. hvernig framkvæmd þessa frv. mundi verða í meginatriðum, og ég tel rétt að segja þessari hv. d. í aðalatriðum þau svör, sem ég veitti við þessum fsp.

Ef þetta frv. verður að lögum, geri ég ráð fyrir því, að Seðlabankinn í samráði við viðskiptabankana muni heimila bönkum og innlánsstofnunum að taka við sparifé til t.d. þriggja ára a.m.k. gegn vöxtum, sem væru mun lægri en vextir, sem nú gilda um óbundið sparifé, sem eru 8—9%, t.d. að Seðlabankinn heimilaði bönkum og innlánsstofnunum að taka við sparifé, sem bundið væri til þriggja ára, gegn t.d. 4—5% vöxtum. Sparifjáreigendur yrðu þá alveg frjálsir að því, hvort þeir vildu heldur nota sér núgildandi kerfi og ráðstafa sparifé sínu inn á sparifjárreikninga með 7—9% vöxtum eða fá verðtryggingu á sparifé gegn því, að vextirnir yrðu um helmingur þess, sem þeir eru nú, sem næst 4—5%. Jafnhliða þessu mundi svo Seðlabankinn í samráði við viðskiptabankana væntanlega heimila bönkum og lánsfjárstofnunum og öðrum peningastofnunum að taka upp nýja tegund útlána, t.d. 3—5 ára lán með verðtryggingu, sem tryggð væru í samræmi við þau ákvæði þessa frv., sem ég lýsti í upphafi máls míns.

Hér er auðvitað fyrst og fremst um að ræða, eins og ég sagði áðan, þess konar lán, sem notuð væru til þess að festa í eignum, sem hækkuðu í verði samhliða vexti verðlagsins. En þegar á það var bent í hv. Nd., að með þessu móti hlyti svo að fara, að ýmis lán, sem nú væru veitt sem rekstrarlán, yrðu verðtryggð, þá svaraði ég því þar til, tel rétt, að það komi fram strax hér til þess að auðvelda mönnum umr. á eftir, að það er kunnara en frá þurfi að segja, að talsverður hluti þeirra lána, sem bankar og lánsstofnanir nú veita í formi rekstrarlána, er raunverulega lán til fjárfestingar, er bundinn í fjárfestingu, er raunveruleg stofnlán, tryggð með veði í fasteignum, sem hækka í verði, svo að það, sem bankarnir fyrst og fremst mundu gera, er að greina frá hinum almennu rekstrarlánum þann hluta þeirra, sem í raun og veru er stofnlán, sem hefur reynzt stofnlán á undanförnum árum og áratugum, og láta verðtryggingarákvæðin gilda um þessi lán. Þó mundi þetta auðvitað algerlega fara eftir því, hversu almenningur reyndist fús til þess að trúa bönkum og peningastofnunum fyrir sparifé sínu með verðtryggingarákvæðum, því að auðvitað munu bankarnir og peningastofnanirnar ekki lána út með verðtryggingu annað fé en það, sem þeim er trúað fyrir með verðtryggingu, og svo sitt eigið fé, að svo miklu leyti sem þeir kjósa að gera slíkt. — Þetta hef ég að segja um það í aðalatriðum, hvernig gera má ráð fyrir, að Seðlabankinn í samráði við viðskiptabankana muni heimila bönkum og sparisjóðum að framkvæma þessi ákvæði.

Það hefur komið fram í hinum miklu umr., sem fram hafa farið um málið í hv. Nd., að menn virðast almennt vera þeirrar skoðunar, að það sé mjög æskilegt, að sparifé sé verðtryggt, og þau ákvæði þessa frv., sem lúta að verðtryggingu sparifjárins, hafa yfirleitt fengið mjög jákvæðar undirtektir, enda væri það satt að segja undarlegt, ef svo væri ekki. Það ranglæti, sem sparifjáreigendur hafa orðið fyrir og halda á fram að verða fyrir, ef ekkert er að gert, er svo augljóst, að það er ekki verjandi annað en a.m.k. að lýsa fylgi sínu við það, að þeirra hlutur sé eitthvað réttur við frá því sem verið hefur. En ef menn eru á þeirri skoðun, að nauðsynlegt sé og réttmætt, að sparifjáreigendur fái verðbætur á sparifé sitt vegna þjóðfélagslegrar þjónustu sinnar, verður auðvitað að svara spurningunni um það, hverjir greiða eigi verðbæturnar. Peningar til þess að greiða sparifjáreigendum verðbætur verða auðvitað ekki teknir úr lausu lofti. Þeir verða einhvers staðar að koma frá. Ég held, að menn hljóti að verða alveg sammála um, að ekkert réttlæti væri í því að taka almannafé til þess að greiða sparifjáreigendum þær verðbætur, sem allir eru sammála um, að þeir eigi að fá. Það getur ekki átt að afla tekna til þess að standa undir sparifjárbótum af skattgreiðendum almennt eða notendum neyzluvara og fjárfestingarvara í landinu almennt. Þar með væru sparifjáreigendurnir sjálfir að hluta látnir greiða þær bætur, sem þeim eru taldar nauðsynlegar og taldar eru réttlátar. Það verður auðvitað að leita uppi þann aðila, sem hefur hagnazt á kostnað sparifjáreigendanna, þegar verið er að virða fyrir sér, hver eigi að greiða bætur sparifjáreigendanna, og sá aðili er síður en svo torfundinn. Hann er auðvitað sá aðili, sem hefur fengið fé sparifjáreigendanna til umráða. Það, að sparifjáreigendurnir tapa, á sér einfaldlega þá skýringu, að verðlagið hækkar og rýrir spariféð, og tapið, sem þeir verða fyrir, er nákvæmlega sama upphæðin, upp á eyri, sem þeir græða, sem spariféð fá til umráða, vegna þess að verðlagið hefur hækkað. Ef menn því eru á þeirri skoðun, að sparifjáreigendur eigi rétt á verðbótum vegna verðrýrnunar sparifjárins, liggja til þess einfaldari rök en svo, að í raun og veru eigi að þurfa um það að deila, hverjir greiða eigi verðbæturnar, að það eru þeir menn, sem hljóta hagnað við að fá lánin vegna verðlagshækkunarinnar. Sök sér væri að segja, að verðlagshækkunin ætti alls engin áhrif að hafa á neinar fjárskuldbindingar. Sök sér væri að hafa þá afstöðu, að það sé hlutverk ríkisvaldsins að sjá um það, að verðlagið hækki ekki og að eignarhlutföllin í þjóðfélaginu raskist ekki og þá eigi þjóðfélagið almennt, en ef það gerist þrátt fyrir það, eigi þjóðfélagið að taka afleiðingunum af því og gera almennar ráðstafanir í því sambandi.

En ef menn stíga annað sporið og viðurkenna, eins og hv. stjórnarandstæðingar hafa gert í öllum umr. málsins í hv. Nd., að sparifjáreigendur eigi rétt á sérstökum bótum, verða þeir, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir og hugsa eins og skynsamir menn og nokkurn veginn rökrétt, að játa, að bæturnar til sparifjáreigendanna geta ekki komið og mega ekki koma frá neinum öðrum aðila en þeim, sem hefur grætt það, sem sparifjáreigendurnir hafa tapað. Bæturnar mega ekki og geta ekki komið frá neinum öðrum aðila en þeim, sem verðbólgan hefur fært þann gróða, sem verðbólgan tók af sparifjáreigendunum. Og það er einmitt grundvallarhugsunin í öllu þessu kerfi, sem gert er ráð fyrir, að verði tekið upp, að sparifjáreigendurnir fái bætur frá þeim, sem nota spariféð í þjóðfélaginu.

Það hefur mikið borið á því í umr. um þetta mál eða mikið verið til þess vitnað, að verðbætur á útlán muni verða þeim, sem lánin taka, óbærileg byrði. Sérstaklega hefur verið til þess vitnað, að verðbætur á íbúðalán muni verða íbúðabyggjendum óbærileg byrði, og hefur jafnvel verið kveðið svo sterkt að orði, að með slíkum ákvæðum væri verið að gera ungu fólki ógerlegt að koma upp yfir sig íbúð. Hér er auðvitað um mikinn misskilning að ræða. Það er aðalregla frv., að verðbæturnar eigi að miðast við vísitölu framfærslukostnaðar. Verðbæturnar verða því aldrei meiri en sem nemur hækkun vísitölu framfærslukostnaðar. En síðan 1964, í sömu samningunum og kveðið var á um verðtryggingu á húsnæðislánin, var samið svo um við launþegahreyfinguna, að allt kaupgjald skyldi vísitölubundið. Allt kaupgjald á því að hækka í réttu hlutfalli við hækkun framfærslukostnaðarvísitölunnar eða nánar tiltekið kaupgjaldsvísitölunnar, sem húsnæðislánin eru nú bundin við síðan fyrir ári. Byrðin vegna verðtryggingarákvæðanna getur því aldrei orðið hlutfallslega meiri en kauphækkunin, sem á sér stað. Og þegar þess er gætt, að útgjöld fyrir húsnæðið og þá alveg sérstaklega útgjöld til afborgana og vaxta af húsnæðislánum geta hjá venjulegri fjölskyldu yfirleitt ekki orðið meiri en 10—20—30% af heildartekjunum, þ.e. sá hluti útgjalda í fjölskyldunnar, sem verðtryggingarákvæðin koma á, sá hluti útgjaldanna, sem hækkar vegna verðtryggingarákvæðanna, hann er þó aldrei meiri en 10—20—30% af heildarútgjöldunum, sem hækka algerlega í samræmi við hækkun kaupgjaldsvísitölunnar, þá er fullkomin rökleysa, að verðtryggingarákvæðin jafnvel á húsnæðislánum geti nokkurn tíma orðið til þess að íþyngja launþeganum eða húsbyggjandanum með óeðlilegum hætti. Það mundi jafnvel ekki eiga sér stað, þó að allar tekjur launþegans færu til þess að greiða kostnað vegna húsnæðislána, því að allar tekjurnar hækka í nákvæmlega sama hlutfalli og húsnæðislánin geta hækkað mest. En hér er auðvitað um fjarstæðukennt dæmi að ræða. Aðeins nokkur hluti þess, 1/4, 1/3, gengur til þess að greiða þessa húsnæðisþjónustu, sem hækkar í sama hlutfalli og öll útgjöld þess aðila, sem hér á hlut að máli.

Auðvitað má segja, að kaupgjaldið hækki því aðeins, að hækkun verði á útgjaldaliðum launþegans almennt, því að kaupgjaldið hækkar í hlutfalli við útgjöld samkv. vísitölugrundvellinum, en það raskar ekki því, sem ég sagði, að þessi ákveðni hluti vísitölugrundvallarins getur samkvæmt verðtryggingarákvæðunum aldrei hækkað meira en kaupgjaldið hækkar. Við þetta bætist svo, að allir vita, að kaupgjald launþeganna yfirleitt hefur á undanförnum árum hækkað mun meira, og kemur vonandi á komandi árum til með að hækka mun meira en nemur hækkun vísitölu framfærslukostnaðar. Reynslan hefur verið sú undanfarið, að launþegar hafa fengið mun meiri kauphækkanir ár frá ári en svarar til hækkunar á framfærslukostnaðinum, og bætir það auðvitað aðstöðu launþeganna til þess að standa undir verðtryggingarákvæðunum umfram það, sem verðtryggingin á launin sjálf gefur tilefni til.

Þetta verður alveg augljóst, ef tekið er einfalt dæmi um þær breytingar, sem hafa orðið á t.d. lægsta taxta Dagsbrúnar, sem mönnum er mjög gjarnt að vitna til. Þótt hann sé engan veginn gott dæmi um þróunina í launamálum almennt, þá skýrist þetta, ef dæmi er tekið af honum, mjög einfaldlega með einföldu dæmi. Þessi ákvæði um verðtryggingu húsnæðislána hafa gilt síðan í júli 1964. Frá 1. júlí 1964 til 1. apríl s.l. hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 13.5% M.ö.o.: byrðin af húsnæðislánunum hefur síðan hækkað um 13.5%, en tímakaup –lægsti taxti Dagsbrúnarmanna — hefur síðan 1. júlí 1964 hækkað úr kr. 36.52 til 1. marz 1966 í kr. 45.08, þ.e.a.s. vísitala tímakaups samkv. lægsta taxta Dagsbrúnarmanna hefur hækkað um 23.4%a á þessum sama tíma. Byrðin af húsnæðislánunum hefur því hækkað um 13.5% síðan 1. júlí 1964, en lægsti taxti Dagsbrúnar hefur hækkað um 23.4% síðan 1. júli 1964. Það er því alveg augljóst mál, að jafnvel Dagsbrúnarmaður, sem vinnur eftir lægsta taxta Dagsbrúnar, eins og hann er núna í dag, stendur mun betur að vígi til þess að greiða vexti og afborganir af sínu húsnæðisláni en hann stóð 1. júlí 1964. Hlutfallið er 92 á móti 100 á milli hækkunar vísitölu tímakaupsins og vísitölu framfærslukostnaðar. Þegar það svo auk þessa er haft í huga, sem ég benti á áðan, að tekjur, ekki aðeins Dagsbrúnarmanna, heldur tekjur launþega yfirleitt, hafa á þessu tæplega tveggja ára tímabili hækkað mun meira hlutfallslega en lægsti taxti Dagsbrúnar, þá styður það enn frekar þá skoðun, að launþegarnir eru mun betur færir um það núna að greiða vexti og afborganir af húsnæðislánum, þótt með vísitölutryggingunni sé, heldur en þeir stóðu fyrir tveimur árum. Bókstaflega allt, sem um þetta hefur verið sagt, — var sagt í hv. Nd. og hefur verið sagt í blöðum og umr. manna á milli um þetta efni, — er því algerlega úr lausu lofti gripið, hver einasta staðhæfing, sem um það hefur verið sögð, að launþegar standi verr að vigi eða að það sé raunveruleg byrði á launþega að þurfa að greiða vísitöluuppbætur af annars konar lánum, sem til íbúðarhúsakaupa eða fjárfestingar fara, er algerlega úr lausu lofti gripin með hliðsjón af þeim tölum um þetta efni, sem ég nú hef leyft mér að nefna.

Ekki getur það verið meining manna, sem beitt hafa sér gegn þessu, að atvinnurekendur, sem fá ekki aðeins tugi milljóna, heldur hundruð milljóna, þúsundir milljóna til ráðstöfunar af sparifé þjóðarinnar og að verulegu leyti festa það í eignum, sem hækka í verði, — ekki getur það verið meining þeirra manna, sem ákvæðin gagnrýna, að þeir eigi óáreittir að fá að sitja að þeim verðbólgugróða, sem þeir hafa haft á undanförnum áratugum og munu hafa áfram, ef ekkert verður að gert. Því hefur ekki heldur verið haldið fram almennt í ræðum manna á milli. En því verða menn að gera sér grein fyrir, að eitt verður yfir alla að ganga. Ef menn a.m.k. vilja samþykkja það þegjandi, — það hefur a.m.k. ekki verið gagnrýnt, — að réttmætt sé að láta atvinnurekendur greiða verðbætur af því sparifé, sem þeir fá umráð yfir, ef þeir festa það í hækkandi fasteignum, þá verður það auðvitað líka að gilda um þá launþega, sem fá umráð yfir sparifé og festa það í íbúðum. Þar er engan greinarmun hægt að gera á milli atvinnurekenda annars vegar og íbúðarbyggjenda hins vegar. Og sízt er ástæða til þess að gera það, eftir að ég hef leitt alveg ótvíræð og skýlaus rök að því, að íbúðabyggjendunum er ekki íþyngt með ákvæðum eins og þessum.

Þá skal ég að síðustu fara örfáum orðum um það atriði, sem mjög mikið var rætt í hv. Nd., hvers vegna ákvæði þessa frv. eru höfð í heimildarformi, en hvers vegna ekki eru sett alveg ótvíræð ákvæði um það, hvernig verðtryggingunni skuli hagað, hvers vegna ekki er talið rétt, að Alþ. setji ófrávíkjanleg ákvæði um þetta, heldur gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn skuli hafa heimild til þess að heimila slíkar verðtryggingar bæði á inn- og útlánum, auk þess sem fjárfestingarlánastofnunum og viðurkenndum lífeyrissjóðum er heimilað þetta í lögunum, en þær ekki skyldaðar til að gera þetta. Þetta á einfaldlega þá skýringu, að ríkisstj. og Seðlabankinn gera sér algerlega ljóst, og það skal sízt standa á mér að draga nokkra fjöður yfir það, að hér er um mjög vandasamt og mjög flókið mál að ræða, sem nauðsynlegt er að framkvæma með fyllstu gát og reyna að læra af reynslunni við hvert smáspor, sem stigið er. Það hefur ekki fengizt mikil reynsla í þessum efnum annars staðar. Aðeins tvö lönd hafa gripið til víðtækra lagaákvæða um verðtryggingu á sparifé, þ.e.a.s. Finnland og Ísrael, bæði af því að þar hefur verið verðbólga mun meiri en tíðkast almennt hér með vestrænum þjóðum. Ísland er þriðja landið á Vesturlöndum, sem verðbólga hefur hrjáð áratugum saman, og þess vegna er ekkert eðlilegra en það, að Ísland verði þriðja landið, sem gerir tilraun til þess að stemma stigu við verðbólgunni m.a. á þennan hátt og draga á þennan hátt úr því félagslega ranglæti, sem verðbólga ella hlýtur að hafa í för með sér.

Við gerum okkur algerlega ljóst, að það er ekki einhlítt að ætla sér að læra af reynslu Finna og Ísraelsmanna í þessum efnum. Aðstæður hér á landi eru að mörgu leyti svo ólíkar því, sem á sér stað í Finnlandi og Ísrael, að reynsla þeirra, að svo miklu leyti sem hún er jákvæð og að svo miklu leyti sem hún er neikvæð, þarf ekki að gilda um okkur hér. Og þegar hafa verið stigin nokkur spor á undanförnum árum í þessa átt, og ég held, að það sé ekki hægt að segja annað en að reynslan af því, svo langt sem hún nær, sé góð og hvetji til áframhaldandi aðgerða í málinu. En hitt gerum við okkur algerlega ljóst, að það á ekki að hrapa að neinu og þessar ráðstafanir eiga smám saman að koma til framkvæmda á einu sviðinu á fætur öðru og með einni ráðstöfuninni á fætur annarri, þannig að hægt sé að læra af reynslunni smám saman. Þess vegna höfum við talið rétt, að í stað þess að ákveða að setja strangar reglur um, hvernig öllu þessu skuli hagað, þá sé heilbrigðara, að Seðlabankinn hafi heimild til þess að framkvæma þessar ráðstafanir á grundvelli almennra regina, sem settar eru í frv., eins og það liggur hér fyrir og eins og því var breytt í Nd. í almennu samkomulagi við viðskiptabankana yfirleitt. Ég hika ekkert við að undirstrika það, að ríkisstj. og Seðlabankinn og bankarnir yfirleitt gera sér algerlega ljóst, að hér er mikill vandi á ferðum og nauðsynlegt er að fara að öllu með fyllstu gát. En hins vegar teljum við svo mikla hagsmuni hér vera um að ræða, að nauðsynlegt sé, að fyrstu sporin verði stigin, og þess vegna teljum við nauðsynlegt, að þessi heimildarlög, því að það eru þau, verði samþ., og ég get fullvissað hv. Ed. eins og ég fullvissaði hv. Nd. um það, að þessar viðurhlutamiklu ráðstafanir munu verða framkvæmdar með fyllstu gát og að mjög vandlega athuguðu máli, þannig að unnt verði að læra af reynslunni við hvert nýtt spor, sem stigið er.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.