10.10.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna alþingismanna

Aldursforseti (Sigurvin Einarsson):

Frá því er við alþm. skildumst hér að loknu þingi í maímánuði s.l., höfum við orðið að sjá á bak tveim úr okkar hópi. Við söknum og minnumst Péturs Benediktssonar alþm. og landsbankastjóra og Skúla Guðmundssonar alþm., fyrrv. ráðh. og kaupfélagsstjóra. Pétur Benediktsson veiktist snögglega og andaðist í Borgarsjúkrahúsinu hér i Reykjavík 29. júní s. l., 62 ára að aldri. Skúli Guðmundsson lézt að heimili sínu, Laugarbakka, Miðfirði, s. l. sunnudag 5. október, tæpra 69 ára að aldri.

Pétur Benediktsson var fæddur i Reykjavík 8. desember 1906. Foreldrar hans voru Benedikt alþm. Sveinsson Víkings gestgjafa á Húsavík Magnússonar og kona hans, Guðrún Pétursdóttir bónda í Engey Kristinssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavik vorið 1925 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1930. 1. júlí það ár varð hann ritari i utanrrn. Dana og starfaði síðan í utanríkisþjónustu þeirra um 10 ára skeið, lengst af í Kaupmannahöfn, en vann við sendiráð Dana á Spáni á árinu 1936 og við sendiráð Dana í Bretlandi 1939-1940. Hann var fulltrúi íslenzku viðskiptanefndarinnar í London í febrúar 1940, var skipaður sendifulltrúi fyrir Ísland í Bretlandi í apríl það ár og síðar á því ári sendifulltrúi hjá norsku ríkisstj. i London. Í desember 1941 var hann skipaður sendiherra i Bretlandi og skömmu siðar sendiherra hjá norsku ríkisstj. i London. Af þeim störfum lét hann í ársbyrjun 1944. Hann var síðan sendiherra í Sovétríkjunum 1944-1951, í Póllandi og Tékkóslóvakíu 19461951, í Frakklandi og Belgíu 1946-1956, á Ítalíu 1947-1956, í Sviss, á Spáni og i Portúgal 1949-1956 og á Írlandi 1951-1956. Hann var fulltrúi Íslands i Efnahagsstofnun Evrópu frá upphafi hennar 1948 til 1956 og fulltrúi á ráðherrafundum NATO og ýmsum fundum Evrópuráðs. Í nóv. 1955 var hann ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands. Tók hann við því starfi i maímánuði 1956 og gegndi því til dauðadags. Hann átti sæti i bankaráði Alþjóðabankans í Washington frá 1956. Hann sat í stjórn Hins íslenzka fornritafélags frá 1959 og var formaður þess síðustu árin. Hann var formaður Samtaka um vestræna samvinnu frá stofnun þeirra 1958 til 1965, formaður Stúdentafélags Reykjavikur 1959-1960, var í fiskmatsráði frá stofnun þess 1960, í fríverzlunarnefnd 1961-1963, í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda frá 1962 og í stjórn Hjartaverndar frá stofnun þeirra samtaka 1944. Hann varð alþm. í Reykjaneskjördæmi sumarið 1967 og átti sæti á tveimur síðustu þingum.

Pétur Benediktsson átti ættir að rekja til þjóðkunnra gáfu- og dugnaðarmanna. Í foreldrahúsum kynntist hann vel mörgu því, sem efst var á baugi á þeim árum í stjórnmálum og sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Hann var þingskrifari á Alþ. jafnframt háskólanámi 19261928. Að námi loknu starfaði hann alllengi við utanríkisþjónustu Dana. Hann var því vel búinn undir það starf, er hann gegndi í utanríkisþjónustu Íslendinga um langt árabil, og þar vann hann fyrir þjóð sína að mörgum mikilvægum samningum um viðskipti og samstarf við aðrar þjóðir. Hann kaus að hverfa heim til Íslands um fimmtugsaldur eftir farsælt starf erlendis og langdvöl i Kaupmannahöfn, London, Moskvu og París. Upp frá því gegndi hann bankastjórastarfi af glöggri þekkingu og góðum skilningi á vandamátum þeirra, sem til hans þurftu að leita. Á Alþ. tók hann sæti um sextugsaldur, var m.a. formaður sjútvn. Ed. og gerði sér sérstakt far um samstarf við alla þm. og samstöðu um lausn á málefnum sjávarútvegsins.

Pétri Benediktssyni var vel lagið að umgangast unga menn. Hann var glaðvær og félagslyndur, og íslenzkir námsmenn erlendis hafa rómað hjálpsemi hans í þeirra garð. Hann var fróður og kunni vel að segja frá. Hann hlaut náin kynni af öðrum þjóðum, en saga Íslendinga var honum mjög hugleikin, og hann vandaði jafnan íslenzkt málfar sitt. Hann var djarfur og kappsfullur og ódeigur i baráttu fyrir skoðunum sínum og fór ekki ætíð troðnar slóðir. Við fráfall hans er til moldar genginn sérstæður hæfileikamaður.

Skúli Guðmundsson var fæddur á Svertingsstöðum í Miðfirði 10. október árið 1900. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi þar Sigurðsson bónda þar Jónassonar og kona hans, Magdalena Guðrún Einarsdóttir bónda, og gullsmiðs á Tannstaðabakka í Hrútafirði Skúlasonar. Hann var verzlunarmaður hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga 1915-1922, að undanskildum vetrunum 1916-1917 og 1917-1918, er hann stundaði nám í Verzlunarskólanum í Reykjavík. Kaupmaður á Hvammstanga var hann 1924-1927 og rak jafnframt landbúnað. Hann var starfsmaður hjá Akurgerði í Hafnarfirði 1927-1930 og hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga i Reykjavík 1930-1933. Í ársbyrjun 1934 varð hann kaupfélagsstjóri á Hvammstanga og gegndi því starfi til 1947, en var síðan i stjórn kaupfélagsins. Hann var alþm. Vestur-Húnvetninga 1937-1959, en síðan þm. Norðurlandskjördæmis vestra. Sat hann á 38 þingum alls. Hann var atvmrh. um eins árs skeið, 1938-1939, og fjmrh. í forföllum 5 mánuði sumarið 1954.

Skúli Guðmundsson gegndi mörgum trúnaðarstörfum öðrum en þeim, sem hér hafa verið rakin, og skulu nokkur þeirra talin hér. Hann var formaður skólanefndar Héraðsskólans að Reykjum 1934-1944 og formaður innflutnings- og gjaldeyrisnefndar 1935-1937. Hann var kosinn 1937 i mþn. um arðskiptifyrirkomulag i atvinnurekstri, 1938 i mþn. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar og 1942 f mþn. í raforkumálum. Hann átti sæti í landsbankanefnd 1942-1957, í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga frá 1949 og i raforkuráði 1954-1957. Í n. til rannsóknar á okri var hann kosinn 1955 og i n. til rannsóknar á milliliðagróða 1956. Hann var kosinn i yfirmatsnefnd um skatt á stóreignir 1957. Í bankaráði Landsbanka Íslands átti hann sæti frá 1966.

Skúli Guðmundsson aflaði sér ungur menntunar til verzlunarstarfa og vann lengi aðalstörf sin á því sviði. Hann leysti þau störf af hendi sem önnur af þeirri vandvirkni, reglusemi, óeigingirni og hagsýni, sem honum var í blóð borin. Hann var samvinnumaður, og átti samvinnuhreyfingin góðan liðsmann og málsvara, þar sem hann var. Hann var talnaglöggur og aflaði sér viðtækrar þekkingar á margvíslegum fjárhagsmálum og nutu þeir kostir hans sin vel i þeim nefndarstörfum, sem honum voru falin. Á Alþ. átti hann alla tíð sæti f fjhn. Nd., að undanskildu því þingi, er hann sat í ráðherrastóli, og var hann oft formaður nefndarinnar. Hann var tengi skrifari í sameinuðu Alþ. og rækti það starf með miklum ágætum. Hann var hógvær og laus við fordild, stefnufastur, en þó sanngjarn. Góður ræðumaður var hann og rökfastur, flutti mál sitt rólega og skorinort, svo að eftir var tekið, og kryddaði það gamansemi, ef við átti. Hann var skáldmæltur vel, svo sem alkunna er, og er okkur alþm. hugstætt, er hann lét okkur njóta þeirra hæfileika sinna á góðum stundum. Hann átti við sjúkdóm að stríða allmörg síðustu ár ævinnar, en var glaður og reifur og rækti jafnan störf sin af fyllstu samvizkusemi og ósérhlífni.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast þeirra Péturs Benediktssonar og Skúla Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]