10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. ásamt 7. þm. Reykv. um þjóðgarð á Vestfjörðum, en eins og segir í 1. gr. þessa frv., gerir það ráð fyrir, að þjóðgarður skuli vera á Vestfjörðum, er takmarkast að sunnan af línu, sem dregin er úr botni Hrafnsfjarðar í botn Furufjarðar, og þjóðgarður þessi er friðlýst svæði allra Íslendinga. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að þó að okkar land sé strjálbýlt, þá eru að verða sífellt minni og minni svæði, þar sem fólk getur verið og haft leyfi til þess að vera, og það eru alltaf að verða fleiri og fleiri Íslendingar, sérstaklega kyrrsetufólk, sem vill sækja í leyfum sínum upp í óbyggðir í kyrrð náttúrunnar. En við teljum, að óvíða hér á landi sé jafn tilkomumikið svæði og þetta, sem er mannlaust svo að segja, að öðru leyti en því, að það er einn bústaður á öllu þessu landsvæði, vitavarðarbústaðurinn í Látravík, og við teljum, að það sé mjög mikils virði að friðlýsa þetta land og að þjóðfélagið eignist þessar eyðijarðir með tíð og tíma, eins og frv. gerir ráð fyrir, og það sé gert í því að friða þetta land og hafa þar eftirlit með, að gengið sé sómasamlega um þetta svæði, en á því hefur verið mikill misbrestur á undanförnum árum.

Á þessu svæði hefur Slysavarnafélag Íslands eða deildir þess víða komið upp mjög myndarlegum skipbrotsmannaskýlum. Það hefur komið þrásinnis fyrir, að það hefur verið gengið illa um þessi skýli, það hafa verið teknir úr þeim nauðsynlegir hlutir, en slíkt skýli á auðvitað að vera friðhelgur staður og griðastaður, sem menn geta leitað til í neyð, og enginn maður á að leyfa sér að hrófla þarna við neinu. Sama er að segja um veiðiskap. Þarna eru víða árósar, þar sem er mikið af silungi. Það kemur fyrir og það oft, að menn fara og draga fyrir í þessum ám og ósum og spilla mjög veiði. Þarna þarf eitthvað að gera til að friða þessi svæði, banna með öllu netaveiði á öllu þessu svæði, en leyfa aftur stangaveiði fyrir hóflegt gjald, sem allir hafa efni á að greiða. Jarðir á öllu svæðinu eru að verulegu leyti húsalausar með þó örfáum undantekningum, og það má segja, að eigendur þessara jarða sinni þeim lítið sem ekkert, að öðru leyti en því, að þar sem silung er að fá, er kannske farið einu sinni eða tvisvar yfir sumarið til veiða. Þó eru undantekningar til frá þessu og þó sérstaklega hvað snertir Átthagafélag Sléttuhreppsbúa, að ég held, að það heiti. Þar hafa gamlir Sléttuhreppsbúar og þó einkum Aðalvíkingar heimsótt þessar fornu byggðir sínar einu sinni á hverju sumri og sýnt í því mikla ræktarsemi og haft samband þar, gamlir vinir og kunningjar og börn þeirra, til þess að viðhalda gömlum átthagatengslum. En þetta frv. kemur á engan hátt í veg fyrir, að slíkir samfundir geti átt sér stað og átthagafélög geti átt griðland á þessu svæði og það yrði þessu svæði til góðs eins, að slík starfsemi héldi áfram eins og hún hefur verið í fjölmörg undanfarin ár.

Við leggjum til með þessu frv., að þetta friðlýsta svæði sé undir vernd Alþingis og Alþingi kjósi í Sþ. þriggja manna þjóðgarðsstjórn, sem hafi síðan leyfi til þess að ráða sér starfsfólk, en við leggjum á það höfuðáherzlu, að það verði sem fyrst byrjað á því að eignast þetta svæði. Við gerum ekki ráð fyrir því í frv., að það verði gert á annan hátt en þann, að það verði eftir því, sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni. Ég tel það ekki vera höfuðatriði þessa máls að kaupa upp þessar jarðir á einu eða tveimur árum, ef þetta frv. verður að lögum, heldur kaupa þær á lengri tíma og stefna að því að eignast þetta land, en ekki láta þessar jarðir fara í brask eins og það er kallað, því að við eigum ekki að hugsa um líðandi stund eða næstu ár, heldur um framtíðina, og það eru ekki líkur fyrir því, að þarna verði búið. Þess vegna er nauðsynlegt að nota jafn-gullvægt tækifæri og þetta og friðlýsa slíkt svæði, gera það að sameign íslenzku þjóðarinnar fyrir framtíðina, þegar fólk þráir enn meira heldur en nú er orðið að njóta kyrrðar og hvíldar í ósnortinni náttúru og það á landsvæði, sem býr yfir mjög tilkomumikilli náttúrufegurð og fjölbreytileik. Við gerum einnig ráð fyrir því í þessu frv., að heimilað verði þjóðgarðsstjórn að auka fjölbreytni dýralífs á hinu friðlýsta svæði innan þeirra marka, sem gildandi lög leyfa.

Það er mjög sérkennilegt, þetta landsvæði, og það er ódýrt að afmarka það eins og hv. alþm. geta séð á korti því, sem fylgir frv. Hér er talað um að friðlýsa 582 km2 lands, og það er hægt að afmarka þetta svæði með girðingu, sem er í beinni línu úr Hrafnsfirði í Furufjörð, aðeins um 6 km. Við teljum mikils virði, ef þetta frv. verður að lögum og þegar þjóðgarðsstjórn hefur einnig verið kjörin, að hún beiti sér fyrir því, að tilraun verði gerð með tilflutning hreindýra til þess að fá úr því skorið, hvort þau geta lifað á þessu svæði. Sömuleiðis nefnum við hér í grg., að það væri eðlilegt og sjálfsagt að gera nú á ný tilraun með að flytja inn sauðnaut til landsins, og ég hygg, að óhætt sé að segja, að veðrátta á þessu svæði sé ólíkt skyldari þeirri veðráttu, sem sauðnautin búa við, heldur en t. d. hér sunnanlands á svæðum, sem sauðnaut á sínum tíma voru flutt til, og þá fáist frekar úr því skorið, hvort það er möguleiki til þess, að þessi dýr geti lifað í okkar landi. Við leggjum líka mikla áherzlu á að friða þetta svæði fyrir skotum. Á þessu svæði er sennilega eitt mesta fuglalíf á landinu og á því er Hornbjarg, sem er ógleymanlegur staður hverjum þeim, sem þangað kemur, ég tala nú ekki um, ef veður er gott, því að hvergi hef ég séð meira fuglalíf heldur en í Hornbjargi og þetta finnst mér, að við þurfum eitthvað að gera fyrir, eitthvað til þess að vernda.

Eins og sagði áðan, eru víða ár og ósar og vötn á þessu svæði, þar sem mikið er um silung. Margar þessar víkur eru mjög grasgefnar og fagrar, sumarfagrar, og tilkomumikil björg, þó að Hornbjarg beri þar hæst, og í Jökulfjörðum eða frá Hrafnsfirði að Hesteyrarfirði eru einhver beztu berjalönd, sem finnast í okkar landi. Ég tel, að þetta landsvæði — sakir þess, að hér er engin byggð — sé mjög ákjósanlegur staður fyrir alla, sem vilja leita hvíldar og kyrrðar í náttúrunni, til að eiga þar griðland í framtíðinni. Því vona ég, að þm. þessarar hv. d. taki vel undir þetta frv. og skilji þýðingu þess fyrir framtíðina, að fólk geti notið hvíldar og mjög fjölbreyttrar náttúrufegurðar, notið lífsins, snúið frá vélknúnum ökutækjum sínum og notið ósnortinnar náttúru á leyfisdögum sínum yfir sumartímann.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn., þar sem hún fjallar. um náttúruvernd.