18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrir mér er þetta ekkert hitamál og ég get nú ekki skilið hvaða kapp flm. hleypur í kinn við það að verða þess varir, að fólkið, sem er tengt þessum byggðum, leggst á móti málinu. Ég hef ekkert um það að segja, hvað hinir og þessir hafa skrifað í blöð. En því mótmæli ég alveg, að í þeim inngangsorðum, sem stjórn Átthagafélags Sléttuhrepps lét fylgja mótmælaskjölunum til Alþ., hafi verið neinar hótanir á nokkurn hátt varðandi málið. Þar var eingöngu á hófsamlegan hátt skýrt frá viðhorfum þessa fólks til málsins og persónulegan skæting í minn garð læt ég alveg afskiptalausan. Það kemur ekkert þessu máli við. Þeir mega svala lund sinni eins og þeir vilja um það. En hitt er annað mál, að ég hef það beint frá fyrri flm., að hann flytji frv. fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir, að braskarar komist yfir jarðir á þessu svæði. En það hefur komið fram í opinberum blaðagreinum, að einmitt fyrri hv. flm. málsins hafi falazt eftir jörðinni Höfn í Hornvík og ekki fengið, og það er kannske til að fyrirbyggja, að sú saga endurtaki sig, að frv. er flutt.