19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3612 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

285. mál, sáttastörf í vinnudeilum

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Tilgangur þessa frv. er að stuðla að friðsamlegri lausn á vinnudeilum með auknu sáttastarfi. Árið 1925 voru sett lög um sáttatilraunir í vinnudeilum. 1938 voru þau lög felld inn í lög um stéttarfélög og vinnudellur með nokkrum breytingum. Það mun hafa verið árið 1926 sem sáttasemjari ríkisins var fyrst skipaður. Það var dr. Björn Þórðarson, síðar forsrh., og hann gegndi því starfi frá 1926–1942. Jónatan Hallvarðsson, síðar hæstaréttardómari, gegndi starfinu frá 1942–1945 og Torfi Hjartarson tollstjóri frá 1945 og gegnir því starfi enn. Allir þessir sáttasemjarar hafa notið óskoraðs trausts, jafnt launamanna sem vinnuveitenda, fyrir samviskusemi, þrautseigju og réttsýni.

Núv. sáttasemjari ríkisins, sem þannig hefur gegnt því starfi í meira en þrjá áratugi, hefur sinnt því með sérstökum sóma og við allra traust. En sáttasemjarastarfið hefur alla tíð verið aukastarf við hliðina á annasömu embætti. Það er nú vissulega orðið tímabært að gera starf ríkissáttasemjara að fullu starfi. Kjaramálin eru svo umfangsmikill og mikilvægur þáttur í þjóðlífinu, að æskilegt er að ríkissáttasemjari geti helgað sig þeim alfarið. Starf ríkissáttasemjara þarf því að gera að föstu starfi, aðalstarfi. Það er nauðsynlegt að sáttasemjari sé sjálfstæður og óháður embættismaður og hafi aðstöðu til að haga störfum sínum svo, að hann njóti fulls trúnaðar hjá báðum aðilum vinnumarkaðsins. Það þarf að búa svo að starfinu, að þessum tilgangi verði náð.

Sáttasemjari þarf að vera að verki árið um kring, fylgjast að staðaldri með ástandi atvinnumála og þróun í launamálum. Aðilar eiga að geta leitað aðstoðar hans og fyrirgreiðslu á hvaða stigi mála sem er, þótt ekki hafi enn slitnað upp úr samningaumleitunum eða vinnustöðvun verði boðuð. Eins er æskilegt að sáttasemjari geti boðið fram aðstoð sína og milligöngu hvenær sem er, þótt ekki sé í hnút komið.

Meginefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er því þetta, að starf sáttasemjara verði aðalstarf, að á hann verði lögð ríkari skylda en nú er til að hefjast handa um sáttastörf og enn fremur að honum verði fengið starfslið.

Þetta frv. mundi koma í staðinn fyrir III kafla vinnulöggjafarinnar frá 1938, og eins og skýrt er í grg., bæði almennum aths. og sérstaklega aths. við hverja einstaka grein þá eru flest ákvæði þess efnislega óbreytt frá því sem er í núgildandi lögum.

Þetta frv. snertir ekki nein þau réttindi, sem núgildandi lög veita stéttarfélögunum. Gert er ráð fyrir því, að ríkissáttasemjari verði skipaður til fjögurra ára í senn. Hann skal vera íslenskur ríkisborgari fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þess skal gætt, að afstaða hans sé slík, að telja megi hann óvilhallan í málum launþega og vinnuveitenda, eins og segir í 1. gr. frv.

Þá er einnig gert ráð fyrir að skipa varasáttasemjara til fjögurra ára í senn. Hann skal fullnægja sömu skilyrðum, en starf hans verður að sjálfsögðu aukastarf. Hann fer aðeins með störf ríkissáttasemjara, þegar hann er forfallaður, og verður honum einnig til aðstoðar þegar þörf krefur. Þá er gert ráð fyrir að ríkissáttasemjari geti skipað aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu. Það er borgaraleg skylda að taka að sér slík störf.

Það hefur oft komið fram á undanförnum árum, að bæði fulltrúar verkalýðssamtakanna og fulltrúar atvinnurekenda hafa lýst áhuga sínum, á því, að slík breyting yrði gerð sem þetta frv. felur í sér. Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir og takist að afgreiða það með fullu samkomulagi, enda um það fullt samstarf við aðila vinnumarkaðarins.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.