23.10.1978
Sameinað þing: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð fyrst að gera örstutta aths. við fundarsköp. Ef tími Sþ. hefur verið naumur núna, þá átti hæstv. forseti að gá að því fyrr að leyfa ekki þessar umr. Og rétt að segja finnst mér hæstv. forseti skapa hér varhugavert fordæmi, þar sem hann gefur orðið laust utan dagskrár þegar einn þm. fer fram á það að fá leiðréttingu við frétt í blaði. Þetta fordæmi gæti ég t.a.m. notfært mér með þeim hætti að biðja um orðið utan dagskrár til þess að leiðrétta fjölmargar villur og rangfærslur Þjóðviljans þegar hæstv. forseti hefði aukafundi í Sþ. Ef þetta er nægilegt tilefni til þess að hefja umr. utan dagskrár, þá vil ég meina að það sé allhættulegt fordæmi, ef við eigum að reyna að vinna hér skaplega að framgangi mála. Þar við bætist að tími er síðar skorinn niður með svo harkalegum hætti sem dæmið sannar nú í þessum umr.

Erindi hv. 3. landsk. þm. hingað upp var að fá það staðfest hjá hæstv. fjmrh., að Morgunblaðið hefði sagt rangt frá því sem fram fór á fundi samráðsfulltrúa við ríkisstj. nú nýverið. Ég verð að fá svar og ég hlýt að fara eindregið fram á það við hæstv. forseta, að hæstv. fjmrh. gefist tími til þess að svara því beint: Hvað er rangt í þeirri frétt um þennan fund sem er að finna á baksíðu Morgunblaðsins laugardaginn 21. okt.? Mér skildist að aðalrangfærslan væri í því fólgin, að þeir hefðu ekki fengið að sjá fjárlagafrv. og talið það hina mestu óhæfu. Hæstv. fjmrh. staðfesti að þeir hefðu ekki fengið að sjá það. Ég skil þessa bók, Morgunblaðið, eftir í ræðustólnum fyrir hæstv. fjmrh. að glöggva sig á rangfærslunum sem hér kunna að vera. En ég verð að fá svar við því, þar sem hv. 3. landsk. þm. hefur þegar þakkað hæstv. fjmrh. fyrir að hafa borið þær rangfærslur til baka sem hér kann að vera að finna. Ég verð og á kröfu á að fá að vita hverjar eru þær.