14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég bið hv. 1. þm. Reykv. afsökunar. Ég ættaði nú að svara þessu og var með það í höndunum, en láðist að koma að því.

Hv. þm. spurði hvernig sölulaun væru reiknuð af útflutningi. Sölulaun af útflutningi hafa í u.þ.b. 15 ár verið reiknuð sem 2% af heildsöluverðinu innanlands. Heildsöluverð, sem lagt hefur verið til grundvallar, hefur verið það verð sem ákveðið er að hausti, þannig að t.d. á s.l. ári urðu þetta 1.67% af meðalverði s.l. árs. (ÁG: Til bænda?) Heildsöluverðið innanlands er það sem lagt er til grundvallar við meðferð bæði í heildsölu til útflutnings og í heildsölu til sölu hér innanlands. Þessi ákvörðun var, eins og ég sagði, tekin af landbrh. fyrir æðimörgum árum, skömmu eftir að útflutningsbætur voru ákveðnar. Hún mun hafa verið byggð á því, að að sjálfsögðu selja sumar sölustofnanir úr landi og aðrar ekki og óeðlilegt þótti að reikna annan hundraðshluta hjá þeim, sem selja úr landi, heldur en hinum, sem selja innanlands, því að bændasamtökin, Framleiðsluráð, hefur lagt á það mikla áherslu að kostnaði sé jafnað milli bænda, þeir sem flytja framleiðslu sína úr landi þurfi ekki að bera skarðari hlut frá borði miðað við hina sem selja innanlands. Því var ákveðið að hafa þetta sömu sölulaun hvort sem umværi að ræða.

Ég skil hv. þm. mætavel, þegar hann gagnrýnir að þarna eru inni útflutningsbætur, og mér sýnist vel koma til greina, og hef reyndar hafið viðæður við söluaðila um að breyta þessu þannig að eingöngu verði tekin prósenta eða umboðslaun af markaðsverðinu erlendis. Þessu fylgir hins vegar, vil ég leyfa mér að fullyrða, töluvert hærri hundraðshluti en hér er um að ræða. Ég hef kynnt mér lauslega afkomu í þessu sambandi, og ég leyfi mér að fullyrða að síður en svo sé um óeðlilega krónutölu að ræða. Verulegur kostnaður fylgir að sjálfsögðu meðferð þessara afurða, bæði kostnaður hér heima, eins og stimpilkostnaður og fleira af lánum, sem eru tekin, og sömuleiðis kostnaður við að koma þessu á markað. Hefur verið lögð töluverð vinna í að finna nýja markaði fyrir þessar afurðir. Hins vegar er ég sammála því, að eðlilegra kann að vera að taka eingöngu sölulaun af viðkomandi markaðsverði, þótt það þýði flóknara kerfi um tilfærslu á milli aðila sem selja úr landi annars vegar og selja innanlands hins vegar, eins og ég nefndi áðan.

Menn geta að sjálfsögðu lengi haft skiptar skoðanir á þessum sölulaunum. Ég vil t.d. geta þess til fróðleiks, að sjávarafurðir eru fluttar úr landi með 2% söluþóknun. Ég veit ekki hver ákvað það, en ég spurðist fyrir um það og það mun vera svo. Aðalreglan er að reikna 2% af söluverðmæti. Sölustofnun lagmetisiðnaðarins reiknar sölulaun 3%, en getur við sérstaklega stóra samninga farið niður í 2%. Ég kynnti mér þetta, því að mér þótti ástæða til að athuga hvort þarna væri um óeðlilega prósentu að ræða, sem er 1.67%. Ég get ekki séð að um það sé að ræða út af fyrir sig, en hins vegar kemur vel til greina, eins og ég sagði áðan, að breyta þeirri reglu sem gilt hefur öll þessi ár.