14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. En ég vil að það komi fram, að sú prósentutala, sem hann minntist hér á, 1.67% í umboðslaun, er ekki óeðlilega lág prósenta þegar um stórar upphæðir er að ræða í inn- eða útflutningi. Ég sé þó enga ástæðu til þess að breyta því fyrirkomulagi sem nú er á þann hátt að prósentutala umboðslauna til útflytjenda á landbúnaðarafurðum verði hækkuð og nemi sömu upphæð og hún nemur nú þegar umboðslaun eru lögð á kostnaðarverðið eða heildsöluverð eins og það er til bænda. Það er leikaraskapur einn. Ég held að það hafi komið nægjanlega skýrt fram, að hér á sér stað óeðlileg greiðsla á umboðslaunaþóknun.

Ég tek undir það með hv. 7. þm. Reykv., að hér þarf að ráða bót á og lagfæra, og ítreka, að nauðsynlegt er að vita hvað hér er um stórar upphæðir að ræða, hvað þetta hefur gengið í langan tíma. Ég tek að öðru leyti undir tal hans, þó að ég ætli ekki að sækja um inngöngu í þá hreinsunardeild sem Alþfl. hefur teflt fram. En ég vil gjarnan hafa samstarf við hann og alla aðra þm. sem vilja skoða þetta mál niður í kjölinn.