14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Afstaða mín til þessa máls hefur komið fram í þessum umr. og ég get verið stuttorður. Hún hefur orðið nokkrum hv, þm. umræðuefni. Ég get ekki varist því að endurtaka það, að ég hef ekki breytt um skoðun á málinu, þó að ég taki mér nú litla hvíld frá því að ræða það við hv. flm. Ég held að heppilegra sé að kappar eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson taki á móti honum í þetta skiptið heldur en ég sé að streða í því, enda höfum við hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson nóg tækifæri til þess að tala saman.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vill vera nýtur þm. fyrir Norðurl. v. En ég fæ ekki varist þeirri hugsun, að hann gæti stundum varið kröftum sínum, fjöri og áhuga betur en hann gerir. Ég hef ekki breytt neitt um þá skoðun mína, að samvinnufélögin eru lífakkeri þeirra byggða sem við erum fulltrúar fyrir, og mér leiðist satt að segja og það tekur mig mjög sárt að heyra þennan ágæta vin minn hafa uppi stór orð og ill um þennan félagsskap. Ég var hálfhissa á honum, af því að ég veit að maðurinn er bæði greindur og gætinn, að hann skyldi staðhæfa hér úr ræðustól, ekki einu sinni, heldur hefur hann gert það reyndar áður, að athæfi bankanna við afgreiðslu afurðalána sé ólöglegt. Ég fæ ekki varist því að vekja athygli á þessu, mér finnst þetta óviðeigandi tal.

Hv. þm. hrósaði sér af því að vera nú búinn með töngum, eða líklega glóandi töngum, að toga fram stofnlán út á sláturhús Slátursamlags Skagfirðinga. Mér þykir nú farið aftan að siðunum þá, ef það hefur fengið stofnlán yfirleitt, vegna þess að undirbúningsvinnu að byggingunni var ekki háttað samkv. reglum. Þar með þykir mér óeðlilegt að það fái stofnlán.

Hv. 1. þm. Reykv. hneykslaðist á þeim mönnum sem teldu sig vera talsmenn bænda hér á þingi. Ég verð nú að viðurkenna það, að ég hef aldrei litið á mig sem neinn sérstakan talsmann bænda. Ég hef litið á mig sem talsmann fólksins í Norðurl. v. Það getur vel verið að bændur kjósi heldur að hafa menn eins og hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1 flm, þess arna fyrir talsmenn sína en mig og mína líka, og þá þeir um það, en kjörum bænda var ekki betur háttað meðan kaupmannavaldið í landinu hafði á þeim kverkatak en eftir að þeir komu sér upp samvinnufélögum.

Hvað varðar þetta hreinsunartal og út af fsp. stjórnmálafræðingsins hér áðan, þá efast ég um að það sé til neitt sem hægt sé að kalla hreinsunardeild í Alþfl. Ég á ekki von á því, að þeir hreinsi neins staðar til. Hins vegar gæti vel verið að þar væri hægt að finna eitthvað sem kalla mætti órólegu deildina.

En að lokum þetta: Ef þessi þáltill. verður samþ., þá held ég að unnið sé illt verk, og ég tek fram, að það er ekki á ábyrgð mína. Það er á ábyrgð flokka flm. till., Sjálfstfl., Alþb. og Alþfl., ef svo fer að þetta verður samþykkt.