14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera þessa stuttu aths. Hún er vegna orða hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um það samband sem ætti að vera á milli þessarar till. og frv. til l. um Framleiðsluráð. Það kann vel að vera, — ég hef reyndar ekki hugleitt þá hlið málsins, en það getur vel verið að þetta sé ekki verra ráð en hvað annað, fyrirkomulagið sem þessi till. gerir ráð fyrir, til þess að draga úr framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi, og það getur vel verið að rétt sé að skoða það í þeirri n. sem það fær til umr.

Hér hefur orðið ofurlítil umr. um innviði Alþfl. að gefnu tilefni. Ég vissi nú ekki að það væri svona flókið stjórnkerfi fyrir Alþfl.-apparatinu, en það kann að vera að það sé eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur lýst, að þarna þurfi þúsundir að ráða og grípa um taumana. Það er að sjálfsögðu nokkuð seinvirk aðferð, en það getur vel verið að hún sé góð. Raunar segir í máltækinu, að því verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri komi saman.

Um þessa félagslegu byltingu vil ég segja það, að þarna eru að sjálfsögðu komnir nýir menn til stjórnar, og þetta eru margir ágætir menn og ég óska þeim hins mesta velfarnaðar og þeir verði nýtir alþm. og landsfeður. En að þetta sé einhver félagsleg bylting, — hún er þá í því fólgin, að þó að þessir menn séu flestir komnir af Krötum hugsa sumir þeirra því miður eins og Heimdellingar.