23.10.1978
Efri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

8. mál, niðurfærsla vöruverðs

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., er flutt til staðfestingar á brbl. um niðurfærslu vöruverðs og verðbótavísitölu í sept. 1978 sem út voru gefin 1. sept. s.l. Frv. er samhljóða brbl. sem lögð eru fram sem fskj. með frv.

Þessi brbl. voru gefin út á fyrsta starfsdegi ríkisstj. í þeim tilgangi að skapa ríkisstj. svigrúm til að undirbúa ráðstafanir um kjaramál og önnur efnahagsmál. Í lögunum er kveðið á um tilhögun verðbótagreiðslna á laun í septembermánuði bæði fyrir og eftir gildistöku þeirra laga um kjaramál sem þá voru í undirbúningi og sett voru 8. sept. s.l., en í þeim lögum var endanlega ákveðið um tilhögun verðbóta í septembermánuði.

Um tilefni þessara brbl. er óþarft að fara mörgum orðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að á þessum tíma ríkti mikil óvissa um tilhögun verðbótagreiðslna á laun og því var nauðsynlegt að ákveða skipan þessara mála með lögum. Í formála brbl. eða aðfaraorðum þeirra segir m.a., að ákveðnar hafi verið ráðstafanir til niðurfærslu vöruverðs sem komi til framkvæmda einhvern næstu daga til þess að hamla gegn verðhækkunum. Eðlilegt og sanngjarnt þyki að tillit verði tekið til þessa við greiðslu verðbóta á laun frá sama tíma, og því beri brýna nauðsyn til að ákveða þessa skipan mála með lögum. Þetta er kjarni málsins.

Lagasetning af þessu tagi er ekki nýmæli. Á síðustu árum hefur nokkrum sinnum verið ákveðið með lögum að meta niðurgreiðsluaukningu til lækkunar á verðbótavísitölu, þótt niðurgreiðsluaukningin verði ekki fyrr en í þann mund að laun eiga að taka verðbætur. Þetta er í alla staði eðlilegt. Þetta mun fyrst hafa átt sér stað, að ég best veit, 1970, að þessu hafi verið hagað á þessa lund. En þó voru þau lög, sem þá voru sett, nokkuð önnur en þessi og undir öðrum kringumstæðum.

Þessi brbl. hafa í raun og veru þegar náð tilgangi sínum, en eru lögð fyrir Alþ. samkv. stjórnarskrárboði. Ég leyfi mér, herra forseti, að mælast til þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.