14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Fjh.- og viðskn., sem hafði þetta mál til umfjöllunar, kannaði það mjög ítarlega, eins og kom fram í ræðum frsm. svo og í ræðu hv. 3. landsk. þm. Það eru einungis tvö til þrjú atriði sem ég vildi benda á.

Annað er út af ummælum hv. 2. þm. Norðurl. e., Jóns G. Sólness, varðandi saltfiskframleiðendur og skreiðarframleiðendur, hvað þeir ættu að fá. Í áliti minni hl. segir með leyfi hæstv. forseta: „kæmi því að okkar dómi mjög til álita, að hluti framleiðslu þeirra verði greiddur útflytjendum á hinu nýja gengi.“ Það er einmitt það sem er gert ráð fyrir í reglugerðinni. Í sambandi við saltfiskinn verður tekinn hluti af því sem átti að fara í gengismunarsjóðinn og greiddur beint til útflytjenda vegna óvanalega langs geymslutíma. Var upplýst í n. að þessi upphæð mundi nema u.þ.b. 240 millj. Hvað varðar skreiðina reiknar Þjóðhagsstofnun það út, að vegna geymslu á þorskskreið væri ekki ástæða til að veita sérstakar ívilnanir, hins vegar væri um að ræða halla vegna geymslu á ufsaskreið. Er gert ráð fyrir því í reglugerðinni, að um 120 millj. fari til skreiðarframleiðenda. Það er einnig beint til að standa undir óeðlilegum geymslukostnaði sem varð bæði hjá saltfisksframleiðendum út af ástandinu í Portúgal og hjá skreiðarframleiðendum út af Nígeríumálinu.

Varðandi ummæli hv. 3. landsk. þm. er óhætt að ítreka það, eins og hann drap reyndar á, að könnunin, sem þessi starfshópur vinnur að, hefur aldrei verið eins ítarleg né slíkt verið eins vel unnið og nú er gert og ber að fagna því. Þessi könnun liggur ekki strax fyrir, þar sem eftir er að taka út aðra landshluta. Það er einungis búið að taka út Suðurnesin og þó sennilega á þessari stundu Suðurland, því það ætti að vera búið. Síðan var hugsunin að farið yrði hringinn í kringum landið og þá yrði heildarskýrslan birt. Þessi skýrsla kemur til með að hafa áhrif á úthlutunina, þar sem hún verður lögð fram í Fiskveiðasjóði, en það er stjórn Fiskveiðasjóðs sem úthlutar þessum lánum. Ég held að það sé — og það var ekki í n. umdeilanlegt rétti vettvangurinn, þó menn, þ. á m. ég, efuðust margir um að þar yrði staðið að málunum þannig að tekið yrði nógu mikið tillit til þessarar könnunar.

Varðandi Suðurnesjaáætlunina, sem hefur aðallega verið einblínt á í sambandi við þessa könnun, var eðlilegt að byrja þar, þar sem vandræðin eru mest þar. En það má hins vegar líka benda á að þessa könnun, eins og hún virðist vera byggð upp, er hægt að túlka sem lið í ákveðinni Suðurnesjaáætlun eða lið í endurreisn fiskiðnaðar á Suðurnesjum, þar sem gert er ráð fyrir að einungis þau hús, sem talin eru lífvænleg, og fyrst og fremst var hugsað um atvinnusjónarmið, fái fyrirgreiðslur úr þessum sjóði, og mundi þetta vafalaust verða til þess að eitthvað betra skipulag kæmi á. Einnig má nefna fleiri till. n. sem hefur verið skýrt frá í blöðum, eins og sameiginlega móttöku, þó þar sé meira um að ræða skrifborðshugmynd úr Framkvæmdastofnun og mjög erfiða í framkvæmd.

Hins vegar má það ekki gleymast, að þessi upphæð, sem um er talað, er 1200 millj., sem er sáralítið fé í íslenskum sjávarútvegi, fyrir utan það að sjávarútvegurinn á nú þennan milljarð. Það er verið að færa þarna á milli peninga, eins og kom fram í máli hv. 3. landsk. þm. Ef peningunum er vel varið mun ekki gæta neinnar gremju hjá þeim sem peningarnir eru teknir af. Það er einungis ósk, held ég, allra nm., að þessir peningar fari í það sem til er ætlast, að þeir fari í hagræðingu. Þeir eiga ekki að fara til að standa undir rekstri húsa sem væru e.t.v. betur komin að vera ekki í rekstri.

Það er von mín, að framkvæmd þessarar úthlutunar verði í anda þess sem ég hef verið að skýra hér. Það hefur oft verið úthlutað áður úr svona sjóðum. Það er reglubundið að mynda svona sjóði við gengisfellingu, og yfirleitt hafa mönnum verið mislagðar hendur varðandi úthlutun og þar hefur áhrifavald bankanna og bankastjóra, sem sitja allir í stjórn Fiskveiðasjóðs, gætt meira en góðu hófi gegnir. Það er von mín, eins og er staðið að þessu máli í byrjun með þessari ítarlegu könnun, að þarna sé kominn heilbrigðari grundvöllur en hefur verið við fyrri úthlutanir af þessu tagi.