14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér þykir ákaflega leitt að heyra, ef ég hef skilið það rétt, að hv. n., sem hefur haft mál þetta til meðferðar, hafi ekki fengið umbeðnar upplýsingar. Ég tel sjálfsagt að hún fái allar upplýsingar um þetta mál sem hún óskar eftir, bæði um ráðstöfun hins fyrri gengismunarsjóðs, sem á auðvitað að vera auðvelt að veita upplýsingar um, svo og væntanlega ráðstöfun á þeim gengismunarsjóði sem myndast hefur og er að myndast vegna síðustu gengisfellingar. Hæstv. sjútvrh. er ekki hér viðstaddur, en ég dreg ekki í efa að hann mundi taka undir þessi orð sem ég segi hér, að það er sjálfsagt að þm. fái allar upplýsingar um þetta efni. Ég vil taka það fram, þar sem það var ég sem lagði þetta mál fram á sínum tíma, að ekki hefur verið óskað eftir því við mig, að ég hlutaðist til um að upplýsingar væru fram lagðar, en ég lýsi því yfir, að ég skal beita mér fyrir því þegar málið kemur til meðferðar hjá hv. Nd., að sú n., sem fær málið þar til meðferðar, fái allar upplýsingar um þetta mál. Yfir þessu á ekki að hvíla nein leynd.