14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm, meiri hl. (Karl Steinar Guðnason):

Ég tók það fram áðan, að ég teldi eðlilegt að Suðurnesin yrðu sérstaklega tekin fyrir þegar athugaður yrði rekstur frystihúsa. Ég vil jafnframt bæta við, og þá í tilefni af þeim umr. sem hér hafa orðið, að mér þætti ekki mikið þó allt það fé sem í gengismunarsjóði er eða kemur, færi til Suðurnesja og Vestmannaeyja, því útgerðin á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum hefur verið að koðna niður nú undanfarin ár og goldið þess, hvernig valdhafar hafa stýrt málum. Það má segja, að bátaflotinn á Suðurnesjum sé nokkurs konar elliheimili bátaflotans á landinu og skuttogarar eru þar allt of fáir. Reyndar er ástandið þannig og hefur verið um nokkra hríð, að atvinnulífið hefur átt í mjög miklum erfiðleikum, sem aftur hefur framkallað verulegt atvinnuleysi. Nú er svo að segja stöðugt atvinnuleysi á Suðurnesjum, það er alltaf einhver atvinnulaus, og um þessar mundir eða um áramótin má reikna með að um 200 manns verði atvinnulausir á Suðurnesjum vegna þess að húsin eru hvert á fætur öðru að segja upp starfsfólki vegna þess að frystihúsin eiga erfitt uppdráttar. Það er ekki aðeins vegna þess að frystihúsin eru illa stödd fjárhagslega, heldur vegna þess líka að hráefni skortir mjög tilfinnanlega.

Þegar við ræðum um þetta væri fróðlegt að hafa það fyrir sér, hvernig Framkvæmdastofnun t.d. hefur úthlutað fé um landið. Fróðlegt væri að sjá samanburð milli Suðurnesja og annarra landshluta. Staðreyndin er sú, að til Suðurnesja hefur svo til ekkert fé komið. Að vísu fékkst ein lánveiting sem má telja að hafi verið sæmilega stór og var til þess að kaupa togara til Sandgerðis. Það fé, sem í þau kaup fékkst, fór til skipasmíðastöðvar á Akureyri. Togarinn var í nokkra mánuði á Suðurnesjum, en vegna fjárhagserfiðleika varð að selja hann nokkru seinna. Þannig má segja að féð hafi lítið stöðvast á Suðurnesjum.

Svona er þetta á fleiri sviðum. Suðurnesin hafa verið afskipt hvað fjármagnsfyrirgreiðslu snertir og reyndar lítið á þau sem ljóta barnið af Framkvæmdastofnun ríkisins.

Það voru merkilegar upplýsingar, sem hv. 4. þm. Reykn. gaf áðan um hraðfrystihúsaáætlunina, að hún hefði strandað er kom til Suðurnesja. Ég trúi því fyllilega að svo hafi verið, enda sjást þess merki á Suðurnesjum.

Ég vil leggja á það áherslu, að mikil þörf er á því, að vandamál þessa landshluta séu tekin föstum tökum, vegna þess að fram undan er mikið atvinnuleysi og fyrirtækin stöðvast nú hvert af öðru.