14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er stutt aths. vegna orða hv. 5. þm. Vesturl. Hann taldi algera nauðsyn og sjálfsagt að þessu fé yrði úthlutað um allt landið, en ekki bundið við sérstök landssvæði. Það er einmitt þetta atriði sem við höfum átt við að stríða upp á síðkastið. Það er engin vitleysa, sem ég var að segja, að hraðfrystihúsaáætlunin hafi ekki verið framkvæmd á Suðurnesjum. Það er ein meginástæðan fyrir því, að þar er nú meiri þörf aðstoðar en annars staðar.

Það er hins vegar ekki alveg rétt, að af þessum 700 millj., sem úthlutað var á sínum tíma, hafi 300 millj. farið til Suðurnesja. Við héldum það jafnvel lengi, við þm. hérna, en það er algjör misskilningur. (Gripið fram í.) Eða 350. (Gripið fram í.) En það er bara ekki átt við Suðurnesin. Það er allt annað landssvæði sem þá er átt við.

En sem sagt, reynslan er þessi: Fjármagnið hefur farið annað. Þess vegna er ástandið svona slæmt. Á sama tíma hefur svo skeð það sem ég sagði áðan að samsetning aflans hefur breyst frystihúsunum gífurlega í óhag þannig að þau verða e.t.v. að skipta fimm sinnum um stillingar á vélum o.þ.h. á hverjum degi. Þetta allt veldur því, að þau eru í sérstökum erfiðleikum, sem þarf að bæta úr með sérstökum hætti, en ekki með einhverjum þeim hætti sem gildir fyrir allt landið — líka þar sem búið er að koma lagi á hlutina. Verði það ekki gert, þá endurtekur sig sama sagan og áður, að hagræðingarféð fer í skuldagreiðslur og þeir sitja uppi með hin ófullkomnu hús. Eftir því sem ég veit best hefur Byggðasjóður núna tvo menn að störfum og er búinn að vera kannske í eitt ár að undirbúa að taka hraðfrystihúsaáætlunina upp á Suðurnesjum, en ef ég þekki rétt mun það taka allmörg ár að framkvæma áætlun þessa þar.